Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1349  —  87. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum um Landsvirkjun, lögum um samvinnufélög og lögum um sameignarfélög (stjórnarformaður, kynjahlutfall í stjórn).

(Eftir 2. umr., 2. maí.)



I. KAFLI

Breyting á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis
um Orkuveitu Reykjavík, nr. 139/2001.

1. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig. Tryggt skal að í stjórn fyrirtækisins séu kynjahlutföll jöfn.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggt skal að í stjórn fyrirtækisins sé hlutfall hvors kyns ekki lægra en 40%.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig.

III. KAFLI
Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í stjórnum samvinnufélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007.
4. gr.

    Við 1. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í stjórnum sameignarfélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.

5. gr.

    Við 1. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig.

6. gr.

    Ákvæði 1. gr., 2. gr., b-liðar 3. gr. og 5. gr. öðlast gildi 1. janúar 2012.
    Ákvæði a-liðar 3. gr. og 4. gr. öðlast gildi 1. september 2013.