Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 77. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1356  —  77. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin tók málið til frekari umfjöllunar eftir 2. umræðu. Nefndin hefur fengið á sinn fund Guðjón Bragason og Karl Björnsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kristján Skarphéðinsson og Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneytinu.
    Nefndinni barst viðbótarumsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem ítrekuð er fyrri athugasemd er varðar 7. gr. frumvarpsins um að verndar- og nýtingaráætlun sé bindandi við gerð skipulagsáætlana og að sveitarstjórnum verði gert skylt að samræma skipulagsáætlanir sínar við rammaáætlun innan tiltekins árafjölda. Sérstaklega andmælir sambandið því að sveitarstjórnum verði gert skylt að setja virkjunarkosti í nýtingarflokki inn á aðalskipulag sveitarfélagsins þótt ekkert liggi fyrir um að ráðist verði í viðkomandi virkjunarkost í fyrirsjáanlegri framtíð. Að því leyti telur sambandið að frumvarpið brjóti gegn sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga. Í umsögninni gerir sambandið einnig athugasemdir við bindandi áhrif þess að virkjunarkostur er flokkaður í verndarflokk en þau áhrif eru þó ekki talin vera nærri jafn íþyngjandi fyrir sveitarfélögin.
    Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til þær breytingar á frumvarpinu að sveitarstjórn geti óskað eftir heimild Skipulagsstofnunar til að fresta ákvörðun um landnotkun að hámarki til þriggja ára í viðbót, séu fyrir því gildar ástæður. Nefndin telur að þessi breyting hafi að öðru leyti ekki víðtækari áhrif gagnvart öðrum ákvæðum frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Við 7. gr.
     a.      Við síðari málslið 1. mgr. bætist: sbr. þó 2. mgr.
     b.      Við 2. mgr. bætist þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Sveitarstjórn getur þó óskað eftir heimild Skipulagsstofnunar til þess að fresta að hámarki til þriggja ára í viðbót ákvörðun um landnotkun enda séu fyrir því gildar ástæður. Áður en Skipulagsstofnun tekur afstöðu til erindis sveitarstjórnar skal hún óska umsagnar verkefnisstjórnar skv. 8. gr. um erindið. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um frestun er ekki kæranleg til umhverfisráðherra.
    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2011.Kristján L. Möller,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.Gunnar Bragi Sveinsson,


með fyrirvara.


Magnús Orri Schram.


Margrét Tryggvadóttir.Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Þráinn Bertelsson.