Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 782. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1381  —  782. mál.




Álit fjárlaganefndar



á skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjálfseignarstofnanir og sjóði sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá fyrir rekstrarárið 2008.



    Fjárlaganefnd Alþingis hefur fjallað um skýrsluna og fengið til fundar við sig Svein Arason ríkisendurskoðanda, Lárus Ögmundsson yfirlögfræðing og Pétur Vilhjálmsson sérfræðing.
    Í árslok 2009 voru 708 virkir sjóðir og stofnanir sem skila eiga ársreikningum til Ríkisendurskoðunar. Á árinu voru staðfestar 19 nýjar skipulagsskrár og unnið var að því að leggja niður samtals níu sjóði og stofnanir sem talin eru óstarfhæf. Ársreikningi fyrir rekstrarárið 2008 höfðu 486 sjóðir eða stofnanir, sem lög nr. 19/1988 ná til, skilað í lok apríl 2010. Niðurstöðutölur rekstrar-, efnahags- og eiginfjárreikninga þeirra samtals eru sem hér segir í milljónum króna:

Eignir Skuldir Eigið fé Tekjur Gjöld Fjármt/Gjöld
41.030 15.168 25.862 10.667 11.720 102

    Af þessum 486 sjóðum og stofnunum höfðu 104 yfir 5 millj. kr. í tekjur á árinu. 100 þeirra áttu eigið fé yfir 30 millj. kr. Um miðjan mars 2010 sendi Ríkisendurskoðun áskorun til vörslumanna 220 sjóða og stofnana sem ekki höfðu skilað reikningum fyrir fleiri en eitt ár og í lok apríl 2010 hafði 121 af þeim skilað. Sex sjóðir sem staðfestir voru á árunum 2006 og 2007 hafa aldrei skilað ársreikningi. Bent er á að óvirkir sjóðir eru margir og ekki á valdi Ríkisendurskoðunar að leggja þá niður.
    Sjálfseignarstofnanir eru iðulega stofnaðar um tiltekna fjármuni í því skyni að ávaxta þá og úthluta þeim í samræmi við ákveðinn tilgang. Tilgangur sjálfseignarstofnana getur verið hvort heldur fjárhagslegur eða ekki. Í lögum er þó gerður skýr greinarmunur á sjálfseignarstofnunum sem stunda atvinnu og þeim sem gera það ekki. Það er algerlega komið undir stofnendum eða stjórn viðkomandi sjálfseignarstofnunar, sem ekki stundar atvinnustarfsemi, hvort leitað er eftir staðfestingu hjá sýslumanni. Staðfestingin felur það fyrst og fremst í sér að stofnendur tryggja opinbert eftirlit með starfsemi þeirra. Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnu lúta nokkuð svipuðum eftirlitsreglum og hlutafélög. Efnahags- og viðskiptaráðherra fer með mál er varða sjálfseignarstofnanir samkvæmt lögum nr. 33/1999, önnur en þau sem varða skráningu stofnananna, en með þau mál fer fjármálaráðherra. Um þær sjálfseignarstofnanir, sem ekki stunda atvinnu, gilda lög nr. 19/1988 ef skipulagsskrár þeirra hafa verið staðfestar af stjórnvöldum. Samkvæmt lögunum er það sýslumaðurinn á Sauðárkróki sem staðfestir skipulagsskrár, sé eftir því leitað, og hefur einnig eftirlit með starfsemi stofnananna. Ríkisendurskoðun ber einnig að sinna eftirliti með staðfestum sjálfseignarstofnunum en það felst einkum í því að kalla árlega eftir ársreikningum þeirra og birta helstu stærðir úr þeim opinberlega. Þá ber Ríkisendurskoðun að gera sýslumanni grein fyrir því ef stofnanirnar sinna ekki þessari skyldu þrátt fyrir að gengið sé eftir því. Sýslumaður getur af því tilefni m.a. falið lögreglunni að rannsaka málið. Í lögum er á hinn bóginn hvergi mælt fyrir um skyldu til að afla staðfestingar stjórnvalda á skipulagsskrá sjálfseignarstofnunar. Óstaðfestar sjálfseignarstofnanir lúta aðeins eftirliti félaga, fulltrúaráða, stofnenda og stjórna eftir atvikum í hverju tilviki, svipað og er með eftirlit með frjálsum félagasamtökum.
    Nákvæma skilgreiningu á sjálfseignarstofnun er hvorki að finna í lögum nr. 19/1988 né lögum nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þá kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að skil ársreikninga eru slök og algengt er að senda þurfi út ítrekunarbréf um að þeim beri að skila. Því kæmi til greina að efla þau úrræði sem til staðar eru til að ársreikningar skili sér fyrr. Var í því sambandi mælt með því að heimilað yrði að beita dagsektum.
    Að mati fjárlaganefndar eru skil á ársreikningum til Ríkisendurskoðunar ekki viðunandi og því nauðsynlegt að bæta þau úrræði sem til staðar eru til að krefjast reikningsskilanna verði ekki úrbætur hér á. Um væri þá að ræða að efla úrræði sýslumanns og Ríkisendurskoðunar. Það er hlutverk sýslumanns að óska eftir við lögreglustjóra að hann taki í sínar vörslur skjöl og eignir sjóðs eða stofnunar ef reikningum og skýrslum er ekki skilað til Ríkisendurskoðunar á tilskildum tíma. Þá telur fjárlaganefnd að nauðsynlegt sé að skilgreina sjálfseignarstofnun með skýrum hætti í lögum. Þar sem ekki er skylda að óska staðfestingar þegar sjálfseignarstofnun er sett á laggirnar má gera ráð fyrir að hér á landi séu starfandi sjóðir og sjálfseignarstofnanir sem settar hafa verið á laggirnar í fjárhagslegum tilgangi en lúta ekki opinberu eftirliti. Fjárlaganefnd mun óska eftir tillögum frá innanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Ríkisendurskoðun og ríkisskattstjóra um með hvaða hætti sé eðlilegast að haga eftirliti með slíkum sjóðum og fækka óvirkum sjóðum.

Alþingi, 9. maí 2011.



Oddný G. Harðardóttir,


form.


Ásbjörn Óttarsson.


Björgvin G. Sigurðsson.



Björn Valur Gíslason.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Þuríður Backman.