Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 783. máls.

Þskj. 1382  —  783. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki,
með síðari breytingum (slit, eftirlit og innleiðing).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 99. gr. laganna:
     a.      D-liður orðast svo: Heimild til endurskipulagningar fjárhags fjármálafyrirtækis hefur ekki áhrif á eignarrétt, þar á meðal veðrétt, lánardrottna eða annarra yfir eignum sem staðsettar eru í öðru aðildarríki. Hið sama gildir um réttinn til að ráðstafa veðsettri eign, hvort heldur með framsali eða öðrum hætti, og réttinn til að taka við arði af eigninni. Skal litið svo á að réttindi sem skráð eru í opinbera skrá og njóta réttarverndar gagnvart þriðja manni teljist til eignarréttar í skilningi ákvæðisins.
     b.      Við n-lið bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Löggerningur verður þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir.

2. gr.

    Við 4. mgr. 101. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir menn sem eiga sæti í slitastjórn skulu einnig uppfylla hæfisskilyrði 2. mgr., 4. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 52. gr.

3. gr.

    Á eftir 101. gr. laganna kemur ný grein, 101. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Sérstakt eftirlit Fjármálaeftirlitsins.


    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækis sem er stýrt af slitastjórn, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi eða hvort starfsleyfi þess hefur verið afturkallað. Eftirlitið skal einnig ná til dótturfélaga slíks fjármálafyrirtækis. Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur meðal annars í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.
    Viðskipti fjármálafyrirtækis sem stýrt er af slitastjórn eða viðskipti slitastjórnar við einstaka aðila sem sitja í slitastjórn, eða aðila í nánum tengslum við slíkan aðila, skulu fara að reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Fjármálaeftirlitið skal, að eigin frumkvæði eða á grundvelli ábendinga kröfuhafa, hafa eftirlit með slíkum viðskiptum.
    Neitun á kröfu Fjármálaeftirlitsins um afhendingu gagna getur varðað brottrekstri úr slitastjórn. Hið sama á við fullnægi maður sem sæti á í slitastjórn ekki almennum hæfisskilyrðum sem um hann gilda. Fjármálaeftirlitið skal bera slíka kröfu undir héraðsdóm sem skal taka málið til úrskurðar svo fljótt sem unnt er. Fjármálaeftirlitið getur vikið viðkomandi slitastjórnarmanni tímabundið frá störfum þar til héraðsdómur hefur kveðið upp úrskurð um kröfuna.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að kveðið verði á um að ábyrgð á rekstri fjármálafyrirtækis sem er í fjárhagslegri endurskipulagningu eða í slitum skuli flutt til slitastjórnar annars fjármálafyrirtækis í þeim tilvikum þegar viðkomandi slitastjórn telst ekki hafa unnið störf sín í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar eða eftir atvikum samkvæmt öðrum lagaákvæðum.
    Ákvæði greinar þessarar eiga við um rekstur fjármálafyrirtækis sem er stýrt af bráðabirgðastjórn eða skilanefnd eftir því sem við á.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 102. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Við slit fjármálafyrirtækis gilda reglur 74. gr. laga um gjaldþrotaskipti, meðal annars um að sá sem hvorki vissi né mátti vita um slitin getur unnið rétt á hendur fjármálafyrirtækinu vegna ráðstafana fram til þess að tilkynning er birt um slitin. Skal þá litið svo á að þeim sem í hlut á hafi ekki verið kunnugt um að slit hafi verið hafin, ef slík tilkynning hefur ekki farið fram, nema sýnt sé fram á annað. Skal jafnframt litið svo á að þeim sem í hlut á hafi verið kunnugt um að slit hafi verið hafin, hafi slík tilkynning farið fram, nema sýnt sé fram á annað.
     b.      Í stað lokamálsliðar 6. mgr. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar endanleg niðurstaða hefur fengist um ágreininginn skal hlutdeild þeirrar kröfu í innstæðu geymslureikningsins ásamt hlutdeild í áföllnum vöxtum greidd kröfuhafanum að því leyti sem krafan hefur verið viðurkennd, en fé sem eftir kann að standa skal renna aftur til fjármálafyrirtækisins. Fari hlutagreiðslur fram í fleiri en einum gjaldmiðli má stofna sérstakan geymslureikning fyrir hvern gjaldmiðil. Við hverja hlutagreiðslu sem fram fer með innborgun inn á sérstaka geymslureikninga skal senda kröfuhafa sem greiðslu fær tilkynningu, en með innborgun inn á slíkan reikning telst hlutagreiðsla til viðkomandi kröfuhafa hafa farið fram. Með sérstökum geymslureikningi í skilningi ákvæðisins er átt við fjárvörsluinnlánsreikning á nafni fjármálafyrirtækisins sem stofnaður er því skyni að leggja hlutagreiðslur inn á.

5. gr.

    Við 3. mgr. 103. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Slitastjórn er jafnframt skylt að kynna kröfuhöfum um allar umtalsverðar ráðstafanir sem varða sölu eða ráðstöfun eigna eða annarra réttinda fjármálafyrirtækis á fundum sem slitastjórn boðar til með almennum hætti.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. a laganna:
     a.      3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Eftir því sem átt getur við fara nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. sömu laga, þó með því fráviki að frestur skv. 1. mgr. 51. gr. sömu laga skal vera átta vikur, en slitastjórn gegnir þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og heldur kröfuhafafundi við þessar umleitanir.
     b.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis telst samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf af samningskröfum á að nema samkvæmt frumvarpinu, þó að lágmarki 60 hundraðshluta þeirra atkvæða. Jafnframt er áskilið samþykki 70 hundraðshluta atkvæða þeirra atkvæðismanna sem greiða atkvæði um nauðasamninginn.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki:
     a.      Í stað 2. málsl. 3. tölul. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé eða verði sæti í skilanefnd laust eftir gildistöku laga þessara skal, ef þörf þykir á með tilliti til þeirra verkefna sem nefndin á enn ólokið, beina beiðni þar að lútandi til héraðsdóms, í því umdæmi þar sem fjármálafyrirtæki yrði sótt í einkamáli á heimilisvarnarþingi sínu, um að héraðsdómari skipi nýjan mann til að taka við því. Að því leyti sem ekki er mælt fyrir um á annan veg í lögum þessum gilda reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti um skilanefnd, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni. Þeir menn sem eiga sæti í skilanefnd skulu einnig uppfylla hæfisskilyrði 2. mgr., 4. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 52. gr. laganna.
     b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins skv. 101. gr. a laganna nær einnig til starfa skilanefndar sem starfar samkvæmt ákvæði þessu og þeirra manna sem í henni eigi sæti.

8. gr.

    Á eftir orðunum „2000/28 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB er varðar skilgreiningu á lánastofnun og 2000/46 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja“ í 117. gr. laganna kemur: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, en kaflinn fjallar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki. Reglur XII. kafla laganna eru að stofni til frá árinu 2002 þegar lög um fjármálafyrirtæki tóku gildi, en frá þeim tíma hefur þeim verið breytt, einkum vegna þess að við framkvæmd slita hinna stóru fjármálafyrirtækja, Kaupþings, Glitnis og Landsbanka Íslands, hefur þurft að aðlaga reglurnar þeim aðstæðum sem upp hafa komið og ófyrirséðar voru við samþykkt laganna á árinu 2002.
    Tilskipun 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 130/2004, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Þar voru leidd í lög ýmis ákvæði um samstarf yfirvalda í málum sem lúta að endurskipulagningu og slitum fjármálafyrirtækja, samræmdar reglur um tilkynningar til eftirlitsaðila og þekktra kröfuhafa sem og reglur um birtingu ákvarðana um slíkar ráðstafanir og réttaráhrif þeirra á samningssvæðinu. Auk þess voru settar sérreglur um þau lög sem beitt skal við endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja og útibúa þeirra í öðru EES-ríki. Vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við innleiðingu fyrrgreindrar tilskipunar er í frumvarpi þessu lagt til að gerðar verði frekari breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í þeim tilgangi að innleiða tilskipunina að fullu í íslenskan rétt. Er hér um að ræða reglur sem fjalla um réttaráhrif þess að slit hefjast á fjármálafyrirtæki, m.a. um lagaval, og svo frekari undantekningar frá þeirri meginreglu að við slit og fjárhagslega endurskipulagningu fjármálafyrirtækis skuli lög heimaaðildarríkis gilda við tilteknar aðstæður.
    Fjármálafyrirtæki í slitum sem hafa enn þá starfsleyfi hafa til þessa fallið undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins með sama hætti og önnur fjármálafyrirtæki með starfsleyfi. Hins vegar hafa þau fjármálafyrirtæki sem eru í slitum en hafa takmarkað starfsleyfi eða hafa misst starfsleyfi sitt ekki sætt sérstöku eftirliti. Æskilegt þykir að sambærilegar reglur gildi um eftirlit með störfum slitastjórna fjármálafyrirtækja í slitum, óháð því hvort þau hafi enn starfsleyfi. Sama gildir um dótturfélög fjármálafyrirtækja í slitum. Telja verður að þörf sé fyrir virkt eftirlit með störfum slitastjórna, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem viðkomandi fjármálafyrirtæki er enn þá t.d. með virk eignasöfn (útlán). Í öllum markaðsviðskiptum byggist jafnræði aðila á þeirri einföldu staðreynd að báðir eiga langtímahagsmuni af viðskiptasambandi. Ef annar aðili samningssambandsins er slitastjórn kunna langtímahagsmunir að víkja fyrir öðrum hagsmunum slitabúsins sem þó geta verið málefnalegir, t.d. hagsmunum kröfuhafa af heimtum, og freistandi getur verið að nýta öll tækifæri til að þvinga viðskiptamenn til að greiða kröfur að fullu, jafnvel þótt efnisleg rök séu fyrir aðlögun kröfu að greiðslugetu í samræmi við ákvæði laga nr. 107/2009 og samninga sem byggðir hafa verið á þeim lögum, jafnt í tilviki einstaklinga sem fyrirtækja. Eins geta skapast aðstæður sem gera slitastjórnum kleift að tefja framgang mála viðskiptamönnum til tjóns. Meðal þeirra ákvarðana sem Fjármálaeftirlitinu ber að taka til athugunar, verði frumvarpið að lögum, eru ákvarðanir slitastjórna um innheimtu lána og umbreytingu lána. Er enda gert ráð fyrir því í frumvarpinu að fjármálafyrirtæki í slitum starfi í samræmi við góða viðskiptahætti, sbr. 19. gr. laganna. Með þessu móti er leitast við að koma því til leiðar að viðskiptamenn fjármálafyrirtækis sem tekið hefur verið til slitameðferðar njóti ekki lakari stöðu við úrlausn sinna mála en gildir um viðskiptamenn annarra fjármálafyrirtækja.
    Samhliða framangreindum breytingum er einnig lagt til að gerð verði ríkari krafa til upplýsingagjafar slitastjórnar fjármálafyrirtækis sem verði þá að boða til fundar með kröfuhöfum áður en mikils háttar ákvarðanir verða teknar um sölu eða ráðstöfun réttinda eða eigna þess. Þess ber að geta að fljótlega eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf. í október 2008 voru settar upp óformlegar kröfuhafanefndir í öllum bönkunum þremur sem hafa fundað reglulega með skilanefndum og fulltrúum slitastjórna bankanna. Ekki er ráðgert að hrófla við störfum þeirra nefnda og gert er ráð fyrir að þær starfi áfram. Um störf og hlutverk kröfuhafanefnda eru engin ákvæði í XII. kafla laganna eða í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Hafa ákveðnir hópar kröfuhafa lagt til að settar verði reglur um störf slíkra kröfuhafanefnda og þeim fengið formlegt hlutverk við slit bankanna, þannig að þær geti haft eftirlit með störfum skilanefnda og slitastjórna, og jafnframt verði aukið samráð haft við þær við slit fjármálafyrirtækja. Við mat á því hvort rétt sé að setja á fót slíkar kröfuhafanefndir með formlegri hætti en nú er verður að taka tillit til þess að formleg slit viðskiptabankanna þriggja, Glitnis banka, Landsbanka Íslands og Kaupþings banka, hófust árið 2009. Hefur hagsmunum fyrrgreindra fjármálafyrirtækja nú þegar að einhverju leyti verið ráðstafað. Er það afstaða efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að ákvörðun um að setja slíkar nefndir á fót með lögformlegum hætti og fela þeim tiltekin verkefni á þessu stigi í slitunum verði ekki tekin nema með ítarlegri skoðun sem ekki reyndist unnt að ljúka áður en frumvarp þetta var lagt fram. Sú skoðun mun þó fara fram í ráðuneytinu. Þess í stað er því farin sú leið í frumvarpinu að kveða á um skýra lagaskyldu slitastjórna til að kynna allar umtalsverðar ákvarðanir á kröfuhafafundi. Að öðru leyti hafa kröfuhafar enn sem fyrr alla möguleika á að bera mál undir úrskurð dómstóla eða koma ábendingum á framfæri við Fjármálaeftirlitið telji þeir að ráðstöfun hafi strítt gegn lögum eða ef þeir hafa aðrar veigamiklar athugasemdir við framgang slitameðferðarinnar, þ.m.t. ákvarðanir og/eða ráðstafanir slitastjórna eða skilanefnda.
    Ef fjármálafyrirtæki er tekið til slita gilda reglur laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Í 2. mgr. 102. gr. laganna kemur fram sú regla að við slit skuli slitastjórn gefa út innköllun og fá hana birta í Lögbirtingablaði og gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um efni innköllunarinnar og kröfulýsingafresti, sem og um rétthæð krafna á hendur fjármálafyrirtæki. Þá kemur fram í 4. mgr. 102. gr. laganna að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þeirra, þar á meðal áhrif á kröfu ef henni er ekki lýst (svokölluð vanlýsingaráhrif). Í þessu felst að við slit geti kröfuhafi farið á mis við fullnustu kröfu sinnar lýsi hann henni ekki við slitin.
    Í 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki er fjallað um lok slita. Nægi eignir búsins ekki til fullrar greiðslu getur slitum lokið með tvennum hætti, annaðhvort með samþykki kröfuhafa á frumvarpi til nauðasamnings eða með töku búsins til gjaldþrotaskipta. Hyggist slitastjórn leggja fyrir kröfuhafa að slitum verði lokið með nauðasamningi með kröfuhöfum gerir slitastjórn frumvarp að nauðasamningi eftir reglum 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og boðar til kröfuhafafundar til að bera það undir atkvæði. Er mælt fyrir um það í 3. mgr. 103. gr. a að eftir því sem átt getur við fari nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en slitastjórn gegni þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og haldi kröfuhafafundi við þessar umleitanir.
    Til þess að greiða fyrir að slitum verði lokið með nauðasamningi er lagt til að reglur um nauðasamninga við lok slita verði breytt á þann veg að sá frestur sem áskilinn er milli fundar um atkvæðagreiðslu við nauðasamningsumleitanir fram til framhaldsfundar verði lengdur, úr tveimur vikum í átta vikur. Er það gert til að greiða fyrir því að unnt sé að ljúka slitum með nauðasamningi, í stað þess að slitastjórn óski eftir gjaldþrotaskiptum á búi fjármálafyrirtækis. Þá er til viðbótar lagt til að reglum um atkvæðagreiðslu við nauðasamning fjármálafyrirtækis verði breytt á þá lund að samþykki atkvæðismanna sem talið er eftir höfðatölu miðist við þá sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni, en ekki þá sem lýst hafa kröfu við slit fjármálafyrirtækis. Þó er vikið frá gildandi reglum að því leyti að áskilið er aukið samþykki þeirra, þ.e. samþykki 70% þeirra atkvæðismanna sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni, talið eftir höfðatölu. Með fyrirhugaðri lengingu frests við nauðasamningsumleitanir við slit fjármálafyrirtækis og breytingu á reglum um atkvæðagreiðslu við nauðasamningsumleitanir, samhliða því að slitastjórn hefur möguleika á að breyta frumvarpi sínu til nauðasamnings eftir ákvæðum 47. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., er því komið til móts við hagsmuni kröfuhafa og slitastjórnar við að ljúka slitum með nauðasamningi, án þess að vikið sé frá almennum reglum um jafnræði kröfuhafa við slitin.
    Með vísan til framangreinds er ljóst að lagaskilyrði eru ekki til þess að slitastjórnir geti haldið búi fjármálafyrirtækis í rekstri, án þess að taka ákvörðun um hvort leita skuli eftir nauðasamningi með kröfuhöfum eða fara fram á að bú þess verði tekið til gjaldþrotaskipta þegar lögmæltar forsendur slíkrar ákvörðunar eru á annað borð fyrir hendi, eftir atvikum að teknu tilliti til ýmissa reglna sem einkenna slitameðferð og markmið hennar, sbr. t.d. 2. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki eins og ákvæðinu var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009. Ekki er að óbreyttum lögum að finna heimildir til að þrotabú fjármálafyrirtækja geti starfað árum saman án þess að nauðasamninga sé leitað eða bú þeirra tekin til gjaldþrotaskipta.
    Skilanefndum og slitastjórnum fjármálafyrirtækja í slitum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við efni frumvarpsins áður en það var lagt fyrir ríkisstjórn. Þrátt fyrir skamman tímafrest notfærðu flestar þeirra sér það og sendu inn athugasemdir og var við lokafrágang frumvarpsins reynt að taka tillit til þeirra eftir atvikum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæði 99. gr. laganna sem fjallar um fjárhagslega endurskipulagningu fjármálafyrirtækis sem hefur höfuðstöðvar á Íslandi og starfrækir útibú í öðru EES-ríki, þ.e. á þeim reglum sem gilda um hvaða lögum skuli beitt við endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækis. Þar gildir sú meginregla að lög heimaríkis fjármálafyrirtækis skuli gilda um endurskipulagningu fjárhags stofnunarinnar og útibúa hennar, þ.e. lög þess ríkis þar sem aðalstöðvar lánastofnunar eru og starfsleyfi hennar er gefið út. Í a–i-lið eru gerðar undantekningar frá þessari meginreglu, og eru í ákvæðinu lagðar til tvenns konar breytingar á þeim undantekningum sem um það gilda.
    Annars vegar er lagt til að fest verði betur í sessi regla 21. gr. tilskipunar 2001/24/EB um að samþykkt endurskipulagningar fjármálafyrirtækis, eða upphaf slitameðferðar, skuli ekki hafa áhrif á eignarrétt lánardrottna, þ.m.t. veðrétt, hvort heldur sem um er að ræða efnislegar eða óefnislegar eignir (fasteignir eða lausafé) sem tilheyra fjármálastofnun á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.
    Hins vegar er lagt til að skýrt verði að ákvæði 1. mgr. 30. tilskipunar 2001/24/EB verði innleitt með fullnægjandi hætti. Þar kemur fram að ákvæði 10. gr., um að lög heimaaðildarríkis gildi við slit fjármálafyrirtækis skuli ekki gilda þegar metið er hvort ógilda megi samninga sem falla undir lög annars aðildarríkis og að þau lög hafi ekki að geyma ógildingarreglu sem taki til þess tilviks sem um ræðir.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að um þá menn sem sitja í slitastjórnum gildi auk almennra reglna 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, tilteknar hæfisreglur 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Er talið rétt að gera auknar kröfur til þeirra manna sem starfa við slit fjármálafyrirtækja vegna þeirra ríku og flóknu hagsmuna sem í húfi eru.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að eftirlit með störfum slitastjórna verði aukið með því að fela Fjármálaeftirlitinu eftirlit með slitum fjármálafyrirtækja og dótturfélaga þeirra, óháð því hvort þau hafi enn þá starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi eða hvort þau hafi misst starfsleyfi sitt. Gert er ráð fyrir því að kostnaður vegna eftirlitsins verði greiddur af þeim hluta eftirlitsgjalds sem fjármálafyrirtæki, sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn, skulu standa skil á til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 9. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999. Að öðru leyti en mælt er sérstaklega fyrir um í lögum þessum skulu ákvæði laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, gilda um eftirlitið.
    Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði veittar víðtækar heimildir til þess að kalla eftir upplýsingum um einstakar ráðstafanir slitastjórna varðandi framkvæmd slita og að hafa almennt eftirlit með framgöngu þeirra við slit fjármálafyrirtækja og því hvort við störf þeirra sé vikið frá meginreglunni um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og það sem almennt tíðkast í viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja við starfandi fjármálafyrirtæki. Eftirlitið er fyrst og fremst frumkvæðiseftirlit, en jafnframt er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti tekið við ábendingum frá kröfuhöfum um hvaðeina sem þeir telja athugavert, svo sem athugasemdir um framkvæmd slita, kostnað við slitin eða tilteknar ákvarðanir um ráðstöfun eigna. Þá er gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti sent ábendingu til Fjármálaeftirlitsins, en hlutverk hans er m.a. að taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds, sbr. e-lið 1. gr. laga um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010.
    Fjármálaeftirlitið metur sjálft hvort þær athugasemdir og ábendingar sem því berast gefa tilefni til þess að bregðast við þeim, með þeim úrræðum sem það hefur yfir að ráða.
    Þegar metið er hvort störf slitastjórna teljist aðfinnsluverð skal Fjármálaeftirlitið m.a. líta til þess hvort farið hafi verið að reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur auk þess sem litið skal til þess sem almennt tíðkast í viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja við starfandi fjármálafyrirtæki þegar um er að ræða viðskipti við einstaklinga og lögaðila. Einnig ber að líta til þess hvort slitastjórn hafi fylgt þeim reglum sem um störf hennar gilda, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, eftir því sem við á. Þau atriði sem Fjármálaeftirlitið getur gert athugasemdir við geta lotið að ákvörðunum um sölu eða ráðstöfun eigna eða réttinda fjármálafyrirtækis í slitum, umsýslu eigna, kostnaði við slit eða hvort menn sem sæti eiga í slitastjórn uppfylli almenn hæfisskilyrði 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, eða almenn hæfisskilyrði 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Telji Fjármálaeftirlitið ljóst að maður sem á sæti í slitastjórn fullnægi ekki almennum hæfisskilyrðum sem um hann gilda, eða ef viðkomandi aðili neitar að afhenda Fjármálaeftirlitinu gögn, getur Fjármálaeftirlitið beitt því úrræði að beina kröfu til héraðsdóms um að viðkomandi aðila verði vikið úr slitastjórn, sbr. einnig reglu 76. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Fjármálaeftirlitið hefur heimild, þegar sérstaklega stendur á, til að víkja viðkomandi aðila tímabundið úr slitastjórn, og gildir sú ákvörðun þar til endanlegur úrskurður dóms liggur fyrir um kröfuna. Í ljósi brýnna hagsmuna sem í húfi eru skal áréttað að ætlast er til þess að ef Fjármálaeftirlitið telur óhjákvæmilegt að nýta heimild sína til að víkja manni tímabundið úr slitastjórn skuli það leggja þegar í stað fyrir dómara kröfu um frávikninguna. Það er því ávallt á valdi héraðsdóms að taka endanlega ákvörðun um brottvikningu manna úr slitastjórn. Er með þessu tryggt virkara eftirlit dómstóla með slitum fjármálafyrirtækja og um leið gætt að hagsmunum kröfuhafa og annarra þeirra sem eiga lögmætra hagsmuna að gæta við slitin.
    Loks er Fjármálaeftirlitinu, í þeim tilvikum þar sem slitastjórn er ekki talin hafa unnið störf sín í samræmi við 1. og 2. mgr. eða eftir atvikum samkvæmt öðrum lagaákvæðum, veitt heimild til að beina kröfu til héraðsdóms um að kveðið verði á um að ábyrgð á rekstri fjármálafyrirtækis sem er í fjárhagslegri endurskipulagningu eða í slitum skuli flutt til slitastjórnar annars fjármálafyrirtækis.

Um 4. gr.


     Um a-lið.
    Hér er lagt til að innleidd verði regla 15. gr. tilskipunar 2001/24/EB þar sem fjallað er um efndir skuldbindinga þegar um grandlausa viðsemjendur er að ræða. Við gjaldþrotaskipti gilda almenn ákvæði 3. mgr. 74. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, um þá sem gera löggerning við þrotamann eða fyrirsvarsmann þrotamanns og sem ekki hafa vitneskju um úrskurð um gjaldþrotaskipti. Þykir rétt að taka af öll tvímæli um að regla 74. gr. gildi einnig við slit fjármálafyrirtækis.
    Þá er í þriðja og síðasta málslið ákvæðisins að finna reglu um það hverjir beri sönnunarbyrði um vitneskju um gjaldþrotaskiptin við þessar aðstæður. Skal þá litið svo á að þeim sem í hlut á hafi ekki verið kunnugt um að slit fjármálafyrirtækis hafi verið hafin, ef tilkynning um slíkt hefur ekki farið fram, nema sýnt sé fram á annað. Auk þess kemur fram í ákvæðinu að hafi slík tilkynning verið birt megi gera ráð fyrir því að viðsemjanda fjármálastofnunar hafi verið um hana kunnugt, nema sýnt sé fram á annað.
     Um b-lið.
    Með 50. gr. laga nr. 75/2010 voru nýir málsliðir innleiddir í 6. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem kveðið var á um skyldu slitastjórna sem neyttu heimildar til að greiða viðurkennda kröfu að hluta eða öllu til að leggja inn á sérstakan geymslureikning fjárhæð vegna umþrættrar kröfu sem nyti sömu eða rétthærri stöðu í skuldaröð. Slitastjórnir hafa bent á að ef ákvæðið heldur óbreytt gildi eins og það er nú orðað kunni það að fela í sér þá skyldu að stofna geymslureikning, í skilningi laga um geymslufé, nr. 9/1978, fyrir hvern kröfuhafa sem fær hlutagreiðslu upp í umþrætta kröfu. Fram hefur komið að það sé mjög örðugt eða nánast ómögulegt að framkvæma slíkar hlutagreiðslur í þeim tilvikum þar sem kröfuhafar eru margir og hlutagreiðslur fara fram í fleiri en einum gjaldmiðli. Á þetta ekki síst við þegar fjármálafyrirtæki geymir reiðufé í erlendum gjaldmiðlum á innlánsreikningum í bönkum utan Íslands. Vegna þessara aðstæðna þykir rétt að leggja það til að unnt sé að greiða hlutagreiðslur upp í umþrættar kröfur með því að fjármálafyrirtæki stofni sérstaka innlánsreikninga í eigin nafni þar sem hlutagreiðslur vegna umþrættra krafna yrðu lagðar inn. Færu hlutagreiðslur fram í fleiri en einum gjaldmiðli væri mögulegt að stofna fjárvörslureikning fyrir hvern gjaldmiðil. Færu hlutagreiðslur fram í fleiri en eitt skipti yrði greitt inn á þessa fjárvörslureikninga meðan ekki hefði verið endanlega leyst úr ágreiningi um viðkomandi kröfur. Til þess að halda utan um hlutdeild hverrar kröfu á geymslureikningum yrðu hlutagreiðslur hvers kröfuhafa skráðar með sérgreindum og sundurliðuðum hætti í bókhaldi fjármálafyrirtækisins. Rétt þykir að kveða skýrt á um að tilkynna beri kröfuhafa um hlutagreiðslu sem fer fram með innborgun inn á sérstaka geymslureikninga og að slíkar innborganir teljist hlutagreiðsla í skilningi ákvæðisins.

Um 5. gr.


    Í almennum athugasemdum hér að framan kemur fram að við slit Kaupþings, Landsbanka Íslands og Glitnis hafa kröfuhafar komið á fót óformlegum kröfuhafanefndum sem hafa fundað reglulega með skilanefndum og slitastjórnum fjármálafyrirtækja. Nokkuð mismunandi er hvernig þessar nefndir hafa verið samsettar og hverjir eiga þar fulltrúa, en þar hefur skapast vettvangur fyrir skilanefndir og slitastjórnir til að kynna ákvarðanir og ráðagerðir sínar fyrir kröfuhöfum.
    Með þeirri breytingu sem lögð er til í ákvæðinu er kveðið nánar á um framkvæmd varðandi upplýsingagjöf til kröfuhafa og nefnda á þeirra vegum. Rétt er að geta þess að við slit fjármálafyrirtækis gildir eftir sem áður almenn regla 2. mgr. 80. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Samkvæmt henni getur sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabús til skoðunar og fengið eftirrit af þeim á eigin kostnað, svo sem nánar er mælt fyrir um í ákvæðinu. Hér er til viðbótar lagt til að sú framkvæmd sem mótast hefur við slit bankanna þriggja um upplýsingagjöf til kröfuhafa verði enn frekar fest í sessi, þannig að slitastjórn kynni kröfuhöfum um allar umtalsverðar ráðstafanir sem varða sölu eða ráðstöfun eigna eða annarra réttinda fjármálafyrirtækis í slitum, á fundum sem slitastjórn boðar til með birtingu fundarboðs með almennum hætti. Er hér einkum átt við ráðstafanir slitastjórnar á eignum fjármálafyrirtækis, sölu þeirra eða aðrar ákvarðanir sem slitastjórn kann að taka og hefur áhrif á eignir fjármálafyrirtækis sem er í slitum. Hér er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að slitastjórn þurfi að tilkynna kröfuhöfum um ákvörðun um afstöðu til krafna sem borist hafa við innköllun, eða eftir atvikum höfðun riftunarmála, en um slíkar ákvarðanir gilda almennar reglur laganna og laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
    Ekki þarf að boða til þessa fundar með birtingu í Lögbirtingablaði, heldur er nægjanlegt að tilkynna kröfuhöfum um hann með almennri tilkynningu. Markmiðið með kynningu samkvæmt framansögðu er að upplýsa kröfuhafa um væntanlegar ráðstafanir og að gefa þeim færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, eftir atvikum athugasemdum eða ábendingum, um ráðstöfunina. Ef slitastjórn sinnir ekki þeirri upplýsingaskyldu sem mælt er fyrir um í ákvæðinu hefur það ekki áhrif á þær ráðstafanir sem kunna að vera gerðar varðandi eignir fjármálafyrirtækis í slitum. Þetta kann þó að vera atriði sem kröfuhafi getur komið á framfæri til Fjármálaeftirlitsins.

Um 6. gr.


    Slitum fjármálafyrirtækja verður ekki lokið með úthlutun til kröfuhafa eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Í 4. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, er mælt fyrir um að ef fyrir liggur að eignir fjármálafyrirtækis nægi ekki til þess að standa að fullu við skuldbindingar þess og slitastjórn telur sýnt að ekki verði forsendur til að leita nauðasamnings eftir ákvæðum 3. mgr. 103. gr. a, eða frumvarp að honum hefur ekki fengist samþykkt eða hafnað hefur verið kröfu um staðfestingu hans, er slitastjórn skylt að krefjast þess að bú fjármálafyrirtækisins verði tekið til gjaldþrotaskipta.
    Það er mikilvægt samkvæmt framansögðu að slitastjórn hafi nægt svigrúm til þess að kanna til þrautar hvort hún geti náð nauðasamningi við kröfuhafa samkvæmt fyrrgreindum reglum. Kröfur á hendur stóru bönkunum þremur hafa gengið kaupum og sölum. Er því ekki alltaf ljóst hver fer með atkvæðisrétt vegna lýstra krafna og kann það raunar að breytast frá degi til dags. Þá hefur almennu ferli nauðasamningsumleitana nú nýverið verið breytt með lögum nr. 95/2010 sem fólu m.a. í sér breytingar á ákvæði 47. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Hér eftir getur skuldari því gert breytingar á frumvarpi sínu að nauðasamningi, allt þar til atkvæðagreiðslu er endanlega lokið um frumvarpið. Samkvæmt því hefur slitastjórn rúmar heimildir til þess að breyta frumvarpi sínu til nauðasamnings meðan á nauðasamningsumleitunum stendur. Með lögum nr. 95/2010 voru jafnframt gerðar þær breytingar á ákvæði 49. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, að til samþykkis nauðasamnings er einungis áskilið samþykki 60 hundraðshluta atkvæðismanna, talið eftir höfðatölu, án tillits til þeirrar eftirgjafar sem veita á með nauðasamningi.
    Við mat á því hvort og hvernig einfalda megi nauðasamningsumleitanir við lok slita, að teknu tilliti til reglunnar um jafnræði kröfuhafa, verður að líta til þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja við slit fjármálafyrirtækja. Má hér nefna að við slit Kaupþings bárust ríflega 28.000 kröfur, en mikill hluti samningskrafna mun vera tiltölulega lágar kröfur einstaklinga um vaxtamun af innlánsreikningum. Samkvæmt reglum 49. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er áskilið samþykki 60 hundraðshluta þessara kröfuhafa, en slík krafa um þátttöku þeirra við slit fjármálafyrirtækja getur verið þungbær. Þrátt fyrir það er ekki lagt til að breytt verði reglum um áskilið samþykki eftir fjárhæðum krafna. Þannig er áfram krafist þess að lágmarki að atkvæði vegna 60 hundraðshluta allra samningskrafna falli til samþykkis nauðasamningi. Hins vegar er lagt til að við talningu atkvæða eftir höfðatölu verði hlutfallið einungis miðað við þá sem sannanlega greiða atkvæði við nauðasamningsumleitanir, en þó þannig að að lágmarki falli atkvæði 70 hundraðshluta þeirra atkvæðismanna sem þátt taka í atkvæðagreiðslu til samþykkis nauðasamningsfrumvarpi. Það skal áréttað að auð atkvæði teljast ekki með við talningu atkvæða. Það er þó algert skilyrði að öllum þekktum kröfuhöfum sem kunna að fara með atkvæðisrétt verði send tilkynning með sannanlegum hætti eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, um fyrirhugaðan fund til atkvæðagreiðslu og afleiðingar þess ef fundarsókn fellur niður af þeirra hálfu. Sambærilegt ákvæði er að finna í dönskum gjaldþrotaskiptalögum, sem íslensk gjaldþrotaskiptalög eru að hluta til byggð á, en þó er lagt til að áskilið sé hærra hlutfall þeirra atkvæðismanna sem mæti á fund þar sem greidd eru atkvæði um frumvarp að nauðasamningi en gert er í dönsku gjaldþrotaskiptalögunum, þ.e. 70 hundraðshlutar þeirra í stað 60.
    Auk þess, og í ljósi þess fjölda krafna sem borist hafa á nauðasamningstímabili stóru bankanna þriggja, verður jafnframt að ætla slitastjórn rýmri frest en endranær til þess að boða til fundar um frumvarp að nauðasamningi þegar svo stendur á að frumvarp hefur hvorki fengist samþykkt né fellt á fundi vegna ónógrar þátttöku í atkvæðagreiðslu. Er því lagt til að í stað tveggja vikna frests sem fram kemur í 1. mgr. 51. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hafi slitastjórn allt að átta vikna frest til þess að halda atkvæðagreiðslu áfram á framhaldsfundi. Á þeim tíma getur slitastjórn gert hvorutveggja, breytt frumvarpi að nauðasamningi skv. 47. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, auk þess sem hún hefur þá aukið ráðrúm til þess að fá fram afstöðu þeirra kröfuhafa sem ekki hafa gefið sig fram við atkvæðagreiðsluna á fyrri fundi til frumvarps að nauðasamningi.

Um 7. gr.


     Um a-lið.
    Skilanefndir fjármálafyrirtækja, sem Fjármálaeftirlitið skipaði á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, starfa enn á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V. Er skilanefnd ætlað sama hlutverk og slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.–3. mgr. 103. gr. laganna. Til annarra verka en fram koma í fyrrgreindum ákvæðum hefur við slit fjármálafyrirtækja verið skipuð stjórn eftir fyrirmælum 1. og 3. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 (slitastjórn).
    Á grundvelli framangreindra ákvæða starfa því nú skilanefndir og slitastjórnir við slit Kaupþings, Landsbanka Íslands og Glitnis. Er þeim ætlað í sameiningu að fara með þau störf sem slitastjórnum er almennt ætlað eftir reglum XII. kafla. Þó fer Fjármálaeftirlitið með skipunarvald þegar um er að ræða skilanefndir, en héraðsdómur með skipunarvald þegar um er að ræða slitastjórnir. Með þeirri breytingu sem lögð er til á ákvæðinu er lagt til að sömu reglur gildi framvegis um skipun manna í skilanefndir eða slitastjórnir sem falla undir ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009, þannig að héraðsdómur skipi einstaka menn í skilanefndir, sé þess þörf. Er lagt til að beiðni þess efnis verði beint til héraðsdóms, en ekki er tekið fram í ákvæðinu hver geti komið fram með slíka beiðni. Er ráð fyrir því gert að slík beiðni komi frá skilanefnd sem þá rökstyðji í beiðni sinni hvort efnisleg skilyrði séu til staðar fyrir skipun nýs manns í skilanefnd samkvæmt ákvæðinu. Framangreind breyting hefur ekki áhrif á skipun þeirra manna sem nú sitja í skilanefndum, en gert er ráð fyrir því að héraðsdómur geti hér eftir vikið þeim úr skilanefnd komi fram krafa um slíkt eftir reglum 76. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, eða eftir atvikum Fjármálaeftirlitið skv. 3. gr. frumvarpsins.
    Þá er einnig lagt til að sömu reglur skuli gilda um störf skilanefnda og um slitastjórnir, en skv. 3. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna gilda reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti um slitastjórn og þá menn sem í henni eiga sæti, að svo miklu leyti sem ekki mælt fyrir um þá á annan veg í lögunum. Í þessu felst að ótvírætt er að sömu reglur gilda um skilanefndir og þá menn sem sitja í slitastjórnum samkvæmt framansögðu, auk þess sem þeir sem í skilanefndum sitja þurfa að uppfylla almenn hæfisskilyrði 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og reglur 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
    Breytingunni er því ætlað að færa dómstólum það hlutverk að taka ákvörðun um að skipa menn í skilanefndir líkt og á við um slitastjórnir.
     Um b-lið.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að Fjármálaeftirlitið fari með eftirlit við slit fjármálafyrirtækis samkvæmt ákvæðum XII. kafla B laganna, óháð því hvort það hafi starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi eða hvort starfsleyfi þess hafi verið afturkallað. Rétt þykir að Fjármálaeftirlitið hafi einnig eftirlit með störfum skilanefnda sem starfa á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009. Eru hér tekin af öll tvímæli um að skilanefndir sem starfa á grundvelli ákvæðisins falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Getur Fjármálaeftirlitið krafist gagna og skýringa hjá skilanefndum líkt og gildir um slitastjórnir, auk þess sem Fjármálaeftirlitið getur beint kröfu til héraðsdóms um að skilanefndarmanni verði vikið frá telji það störf hans vera aðfinnsluverð eða neiti hann að afhenda gögn.

Um 8. gr.


    Tilgangurinn með frumvarpi þessu er m.a. að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Tilskipunin var innleidd með lögum nr. 130/2004, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, en henni var ekki bætt við upptalningu 112. gr. laganna, um innleiðingu. Með ákvæðinu er ætlunin að bæta úr þessu og gera lögin skýrari með því að færa númer tilskipunarinnar inn í upptalningu innleiðingargreinar laganna sjálfra (nú 117. gr.) í stað breytingalagagreinarinnar.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002,
um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að hafa eftirlit með slitum fjármálafyrirtækja sem er stýrt af slitastjórnum, óháð því hvort viðkomandi fjármálafyrirtæki hafi starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þeirra hefur verið afturkallað. Í gildandi lögum hafa fjármálafyrirtæki í slitum sem hafa enn þá starfsleyfi fallið undir eftirlit með sama hætti og önnur fjármálafyrirtæki með starfsleyfi. Hins vegar hafa þau fjármálafyrirtæki sem eru í slitum en hafa takmarkað starfsleyfi eða hafa misst starfsleyfi sitt ekki sætt sérstöku eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Einnig er lagt til að gerð verði ríkari krafa til upplýsingagjafar slitastjórnar fjármálafyrirtækis sem verði gert að boða til fundar með kröfuhöfum áður en mikils háttar ákvarðanir eru teknar um sölu eða ráðstöfun réttinda eða eigna búsins. Jafnframt er lagt til að reglum um nauðasamninga við lok slita verði breytt á þann veg að frestur sem áskilinn er milli fundar um atkvæðagreiðslu við nauðasamningsumleitanir fram til framhaldsfundar verði lengdur úr tveimur vikum í átta vikur. Er það gert til að greiða fyrir því að unnt verði að ljúka slitum með nauðasamningi í stað þess að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Auk þess er lagt til að reglum um atkvæðagreiðslu við nauðasamning fjármálafyrirtækis verði breytt á þá lund að samþykki atkvæðismanna sem talið er eftir höfðatölu miðist við þá sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni en ekki þá sem lýst hafa kröfu.
    Frumvarpi þessu er jafnframt ætlað að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna innleiðingar tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 130/2004. Því er lagt til að gerðar verði smávægilegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í þeim tilgangi að innleiða tilskipunina að fullu. Er hér um að ræða reglur sem fjalla um réttaráhrif þess að slit hefjast á fjármálafyrirtæki, meðal annars um lagaval og svo frekari undantekningar frá þeirri meginreglu að við slit og fjárhagslega endurskipulagningu fjármálafyrirtækis skuli lög heimaaðildarríkis gilda við tilteknar aðstæður.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er ekki fyrirséð að til aukinna útgjalda muni koma hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem um er að ræða viðbót við þær eftirlitsheimildir sem verið hafa til staðar gagnvart slitastjórnum, en slitastjórnir föllnu bankanna þriggja hafa hingað til fallið undir eftirlitsskyldur Fjármálaeftirlitsins. Þannig er ekki gert ráð fyrir auknum mannafla hjá stofnuninni en talið að núverandi eftirlitsgjald muni nægja til að standa undir viðbótarkostnaði verði hann einhver. Ekki er því ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkisins.