Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 330. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1400  —  330. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Róberts Marshall um úthlutun byggðakvóta til Reykjanesbæjar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur ráðherra kannað möguleika þess að úthluta sérstökum byggðakvóta til Reykjanesbæjar í ljósi sérlega bágs atvinnuástands í bænum?

    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur úthlutað byggðakvóta til allra byggðarlaga sem skv. 10. gr. laga nr. 116/2006, ásamt síðari breytingum, gilda um úthlutun hans. Þá hefur ráðherra gefið út reglugerð nr. 1000 frá 17. desember 2010 um nánari útfærslu á framkvæmd og útreikningi byggðakvótans. Ráðherra hefur ekki heimild í lögum til þess að beita sértækum aðgerðum við úthlutun byggðakvótans.
    Hinn 10. janúar 2011 hélt ráðherra samráðsfund með sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum þar sem farið var yfir þau lög og reglur sem um úthlutun byggðakvótans gilda. Starfsmaður ráðuneytisins mætti á fundinn og fór yfir helstu þætti sem gilda samkvæmt lögum og reglugerð þar um.
    Á fundinum voru rakin þau laga- og reglugerðarákvæði sem gilda um a- og b-lið 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Þar ber fyrst að nefna að í lögunum segir: „Ráðherra setur „í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. Þar skal kveðið á um skilgreiningu á byggðarlagi, viðmiðunar- og útreikningsreglur og aðrar reglur um úthlutun til byggðarlaga.“
    Í 1. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um heildaraflaheimildir sem ráðherra úthlutar af botnfiski til stuðnings byggðarlögum.
    2. gr. reglugerðarinnar kveður á um skiptingu botnfisktegunda, sbr. 1. gr.
    3. gr. reglugerðarinnar kveður á um skiptingu aflaheimilda milli a- og b-liðar 1. gr.
    4. gr. reglugerðarinnar kveður á um þær forsendur sem útreikningur byggist á, þ.e. hve mikið kemur í hlut hvers byggðarlags, sbr. a- og b-lið 1. gr.
    5. gr. reglugerðarinnar kveður á um að ráðuneytið skuli tilkynna sveitarstjórnum hversu miklar aflaheimildir koma í hlut hvers byggðarlags sem undir þær falla.
    Við útskýringar á þessum reglum var ljóst að samkvæmt endanlegri úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2010/2011 komu aðeins 37 þorskígildistonn í hlut Sveitarfélagsins Voga, sem var eina byggðarlagið á Suðurnesjum sem fékk úthlutað byggðakvóta.
    Á samráðsfundinn mætti einnig Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, forstöðumaður upplýsingasviðs Fiskistofu, og flutti fyrirlestur um veiðar og vinnslu afla á Suðurnesjum, Snæfellsnesi og Vestfjörðum.
    Á glærum Helgu kemur fram að meiri afli er unninn á Suðurnesjum en landað er þar. Fylgni er milli þess sem landað er af Suðurnesjaskipum í heild og þess afla sem unninn er á svæðinu, þó virðist mega draga þá ályktun að vinnslurnar á Suðurnesjum séu að kaupa hráefni til vinnslu á markaði, eða beint frá skipum, frá öðrum landshlutum.