Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1408  —  43. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið sem er endurflutt og hefur verið til umræðu í nefndinni á fyrri þingum. Umsagnir bárust frá Borgarahreyfingunni og Samfylkingunni.
    Með frumvarpinu er lagt til að á meðan þingmaður gegni ráðherraembætti geti hann ákveðið að sitja á Alþingi einungis samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra, sbr. 51. gr. stjórnarskrár, og að varamaður hans taki þá sæti á Alþingi.
    Samkvæmt 51. gr. stjórnarskrár eiga ráðherrar samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins að þeir séu jafnframt alþingismenn. Verði frumvarpið að lögum felur það í sér að ráðherrar sem nýta sér heimildina geta tekið þátt í umræðum og flutt mál en eiga ekki atkvæðisrétt. Varaþingmaður sem tæki sæti hans á Alþingi færi með atkvæðisrétt, hefði öll réttindi alþingismanns og sömu skyldur. Í frumvarpinu er lagt til að varaþingmaður ráðherra hverfi af þingi þegar kjörtímabilið rennur út, þing er rofið eða þegar ráðherra hefur verið veitt lausn frá embætti.
    Málið tengist umræðu um þrískiptingu ríkisvaldsins, þ.e. í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, sbr. 2. gr. stjórnarskrár, en umræða hefur verið um þörf á skýrari aðskilnaði milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ýmis sjónarmið hafa komið fram um að þessi tilhögun feli í sér skýrari aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og að þetta muni styðja við vandaðri vinnubrögð við löggjafarstörfin eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Einnig hafa komið fram sjónarmið um að þetta muni styrkja stjórnarmeirihlutann sem fái fleiri talsmenn innan þings og því sé nauðsynlegt að styrkja stjórnarandstöðuna með einhverjum hætti til að vega upp á móti því.
    Meiri hlutinn leggur til að verði frumvarpið samþykkt geri þingskapanefnd sú er nú starfar tillögur um með hvaða hætti unnt er að mæta þessu sjónarmiði.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Álfheiður Ingadóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 9. maí 2011.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir,


með fyrirvara.


Valgerður Bjarnadóttir.



Árni Þór Sigurðsson.


Mörður Árnason.


Þór Saari.