Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 721. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1409  —  721. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 106/1999, um Byggðastofnun.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneytinu.
    Þá bárust umsagnir frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Byggðastofnun, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.
    Með frumvarpinu er lagt til að stjórnarmönnum í Byggðastofnun verði fækkað úr sjö í fimm. Megintilgangur þessarar ráðstöfunar er að ná fram aukinni skilvirkni í störfum stofnunarinnar, sem og að lækka kostnað við rekstur stjórnar hennar. Iðnaðarráðherra mun skipa í stjórn en með hliðsjón af breyttu fjármálaumhverfi og tilkomu Bankasýslu ríkisins kemur til greina að fela valnefnd Bankasýslunnar að tilnefna tvo stjórnarmenn. Nefndin vill í þessu sambandi árétta í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu á fundum nefndarinnar að þessi tilnefning valnefndar Bankasýslu ríkisins er ekki raunhæf eins og sakir standa.
    Í máli umsagnaraðila kom fram nokkur gagnrýni á frumvarpið. Það er hins vegar mat meiri hlutans að þegar litið er til umfangs starfsemi Byggðastofnunar sé ljóst að með þessari breytingu er hægt að ná fram þónokkurri hagræðingu án þess þó að það bitni á starfsemi stofnunarinnar.
    Meiri hlutinn vill einnig benda á að Byggðastofnun hefur starfsleyfi sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og er stofnunin eftirlitsskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í þessu felst að þau hæfisskilyrði sem rakin eru í 52. gr. laganna gilda um stjórn og framkvæmdastjóra Byggðastofnunar. Þær hæfisreglur eru ítarlegar auk þess sem gerðar voru verulega auknar kröfur til hæfis með 39. gr. laga nr. 75/2010, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Meiri hlutinn vill að lokum ítreka þá staðreynd að fulltrúar í stjórn Byggðastofnunar þurfa að minnsta kosti að hafa grunnþekkingu á málefnum atvinnulífs á landsbyggðinni og telur nefndin þá þekkingu afar mikilvæga í ljósi þess lögbundna hlutverks stofnunarinnar að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    2. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Þráinn Bertelsson og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. maí 2011.



Kristján L. Möller,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Magnús Orri Schram.



Margrét Tryggvadóttir.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.