Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 824. máls.

Þskj. 1465  —  824. mál.Frumvarp til laga

um ráðstafanir í ríkisfjármálum (í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir 2. málsl. 8. tölul 3. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um vexti vegna lánasamninga sem gerðir eru við ótengda aðila.

2. gr.

    Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætist: sbr. 5. mgr. 66. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Í stað „10%“ í 6. málsl. 9. tölul. kemur 5%.
     b.      7. málsl. 9. tölul. fellur brott.
     c.      3. mgr. 9. tölul. a orðast svo:
                      Skilyrði fyrir frádrætti samkvæmt þessum tölulið er að seljandi hlutabréfanna hafi átt a.m.k. 5% hlut í viðkomandi lögaðila á söludegi.

4. gr.

    4. mgr. 58. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við getur átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, þó ekki ef um er að ræða starf á vegum lögaðila sem skráður er á opinberum verðbréfamarkaði. Maður telst hafa ráðandi stöðu í þessu sambandi ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila enda eigi hver um sig a.m.k. 2% hlut í þeim lögaðila. Ákvæði 1. og 2. málsl. skulu einnig gilda um starfandi hluthafa sem ekki eru tengdir fjölskylduböndum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Á eftir „1.–3. tölul.“ í 6. og 7. tölul. 1. mgr. kemur: og 5. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Tekjuskattshlutfall á þann hluta úthlutaðs arðs sem telst vera laun skv. 3. málsl. 1. mgr. 11. gr. skal vera skv. 1. tölul. 1. mgr. þessarar greinar.

6. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. A-liðar 67. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Persónuafsláttur skal í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils.

7. gr.

    3. mgr. 101. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni að leiðrétta álagningu á skattaðila ef yfirskattanefnd eða dómstólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun skattstjóra eða ríkisskattstjóra var byggð á. Sama á við sé beinlínis kveðið svo á um í lögum að fallið sé frá fyrri skattframkvæmd. Breyting af þessu tilefni getur tekið til skattstofns eða skatts frá og með því tekjuári sem um var fjallað í máli því sem hliðstætt er talið, þó lengst sex ár aftur í tímann, talið frá því ári þegar úrskurður eða dómur var kveðinn upp. Sama viðmiðun gildir frá og með gildistöku viðkomandi lagaákvæðis. Beiðni um endurupptöku skal borin fram innan eins árs frá því að skattaðila var eða mátti vera kunnugt um tilefni hennar. Skattaðila er heimilt að kæra breytingar til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á b-lið ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögunum:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það er talið fram í skattframtali félagsins skv. 1. mgr. þessa stafliðar“ í 2. mgr. kemur: stofnverð hlutabréfanna.

9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við álagningu opinberra gjalda árið 2011 skulu aðilar sem falla undir 6. tölul. 4. gr. greiða sérstakan skatt sem nemur 0,0972% af hreinni eign til greiðslu lífeyris, sbr. 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Um álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á. Gjalddagi er 1. nóvember 2011.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó skal aðili með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis sem selur rafrænt afhenta þjónustu skv. d-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. til aðila sem er ekki skráður skv. 5. gr. og er heimilisfastur eða með fasta starfsstöð hér á landi innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri þjónustu hér á landi. Þjónusta þessi telst ávallt nýtt þar sem kaupandi þjónustunnar hefur búsetu eða starfsstöð. Seljandi skal ótilkvaddur tilkynna starfsemi sína rafrænt á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Aðilar sem selja rafrænt afhenta þjónustu fyrir 1.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili skulu undanþegnir skattskyldu.
     b.      Í stað orðsins ,,Kaupandi“ í 3. mgr. kemur: Aðili.

11. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 163/2010, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana), frestast framkvæmd ákvæðis d-liðar 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna, að því er varðar aðra rafrænt afhenta þjónustu en tölvuþjónustu, sem og framkvæmd ákvæða 42. gr. A laganna, til 1. október 2011.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.
12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „léttvíni“ í a-lið 5. tölul. kemur: og 6 lítra af öli.
     b.      Á eftir orðinu „léttvíni“ í b-lið 5. tölul. kemur: og 9 lítra af öli.
     c.      Í stað tölunnar „6“ í c-lið 5. tölul. kemur: 9.
     d.      Á eftir orðinu „öli“ í c-lið 5. tölul. kemur: eða.
     e.      Á eftir c-lið 5. tölul. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 12 lítra af öli.
     f.      Á eftir orðinu „léttvíni“ í a-lið 1. mgr. 7. tölul. kemur: og 6 lítra af öli.
     g.      Á eftir orðinu „áfengi“ í b-lið 1. mgr. 7. tölul. kemur: og 9 lítra af öli.
     h.      Í stað tölunnar „6“ í b-lið 1. mgr. 7. tölul. kemur: 9.
     i.      Á eftir orðinu „léttvíni“ í a-lið 2. mgr. 7. tölul. kemur: og 3 lítra af öli.
     j.      Á eftir orðinu „áfengi“ í b-lið 2. mgr. 7. tölul. kemur: og 6 lítra af öli.
     k.      Í stað tölunnar „3“ í b-lið 2. mgr. 7. tölul. kemur: 6.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, með síðari breytingum.
13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „neðangreind hlutföll“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: af styrkhæfum kostnaði.
     b.      1.–3. tölul. 2. mgr. orðast svo:
                  1.      Þegar um lítil fyrirtæki er að ræða getur samanlagður styrkur orðið hæstur 70% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar vegna rannsóknarverkefnis eða 80% í tilviki samstarfsverkefnis. Samanlagður styrkur vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 45% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar eða 60% í tilviki samstarfsverkefnis.
                  2.      Þegar um meðalstór fyrirtæki er að ræða getur samanlagður styrkur orðið hæstur 60% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar vegna rannsóknarverkefnis eða 75% í tilviki samstarfsverkefnis. Samanlagður styrkur vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 35% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar eða 50% í tilviki samstarfsverkefnis.
                  3.      Þegar um stór fyrirtæki er að ræða getur samanlagður styrkur orðið hæstur 50% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar vegna rannsóknarverkefnis eða 65% í tilviki samstarfsverkefnis enda sé um að ræða samstarfsverkefni milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu eða með a.m.k. einu litlu eða meðalstóru fyrirtæki. Samanlagður styrkur vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 25% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar eða 40% í tilviki samstarfsverkefnis enda sé um að ræða samstarfsverkefni milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu eða með a.m.k. einu litlu eða meðalstóru fyrirtæki.

14. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lögin falla úr gildi 31. desember 2014. Stuðningur sem samþykktur hefur verið fyrir það tímamark heldur þó gildi sínu.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.
15. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við álagningu opinberra gjalda árið 2011 skal til viðbótar við sérstakan skatt samkvæmt lögunum greiða 0,0795% af skattstofni eins og hann er ákvarðaður í 3. gr. Gjalddagi viðbótarskattsins er 1. nóvember 2011.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.
16. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. skulu lífeyrissjóðir, þar með taldir lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum og staðfestri reglugerð, sbr. 54. gr., greiða 0,13% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. til starfsendurhæfingar sjóðfélaga til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs sem starfar á vegum aðila vinnumarkaðarins. Fyrsta greiðsla er reiknuð af iðgjaldsstofni janúarmánaðar 2012. Gjalddagi skal vera tíundi dagur næsta mánaðar eftir að launagreiðandi hefur staðið skil á lífeyrisiðgjaldi skv. 2. mgr. 7. gr. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og gjaldið fellur í gjalddaga.
    Iðgjald launagreiðanda, þ.m.t. þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs skal vera 0,13% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. og skal reiknast í fyrsta sinn eigi síðar en 1. september 2011. Iðgjaldið veitir réttindi til þjónustu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Launagreiðanda skv. 1. málsl. er skylt að standa skil á iðgjaldinu til viðkomandi lífeyrissjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald, sbr. 2. mgr. 7. gr. Lífeyrissjóðir ráðstafa iðgjaldinu til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og skal fara eftir þeim ákvæðum sem almennt gilda í þeim innheimtusamningum sem gerðir hafa verið milli aðila.
    Ráðherra velferðarmála og ráðherra lífeyrismála skulu skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011 þar sem miðað verði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Þá skal nefndin fyrir sama tímamark leggja fram tillögur að skýrum lagaramma eða umgjörð Starfsendurhæfingarsjóðs, m.a. varðandi greiðsluskyldu, ábyrgð og eftirlit. Samráð skal haft við Landssamband lífeyrissjóða og skattyfirvöld við útfærsluna.

VII. KAFLI
Gildistaka.
17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 1., 2., 4. og 5. gr. koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 2010.
    Ákvæði 3., 6. og 8. gr. öðlast gildi 1. janúar 2012.
    Ákvæði 10. gr. öðlast gildi 1. október 2011.
    Ákvæði 16. gr. öðlast þegar gildi og gildir til 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um virðisaukaskatt og fleiri lögum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var í tengslum við undirritun kjarasamninga 5. maí sl. Í yfirlýsingunni segir m.a. að stjórnvöld séu reiðubúin til að stuðla að því að áform þau sem nánar er fjallað um í yfirlýsingunni nái fram að ganga með framlagningu frumvarpa á yfirstandandi þingi. Auk þeirra atriða sem beinlínis er að finna í yfirlýsingunni inniheldur frumvarpið nokkrar lagabreytingartillögur sem brýnt er að samþykktar verði á vorþingi.
    Frumvarpið var samið í fjármálaráðuneytinu að höfðu samráði við embætti ríkisskattstjóra. Við vinnslu þess hluta frumvarpsins er varðar skatta á fyrirtæki og fjallað er um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var einnig haft samráð við Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands.

I. Yfirlýsing stjórnvalda tengd kjarasamningum 5. maí 2011.
    Þær tillögur frumvarpsins sem tengjast yfirlýsingu stjórnvalda beint varða þrjá meginþætti, þ.e. persónuafslátt einstaklinga, skattlagningu fyrirtækja og tekjuöflun Starfsendurhæfingarsjóðs. Nánar er fjallað um hvern þátt fyrir sig hér á eftir.

Persónuafsláttur.
    Kafli II í yfirlýsingunni tekur til bóta almannatrygginga og persónuafsláttar, en frumvarp fjármálaráðherra inniheldur einungis persónuafsláttinn sem er óaðskiljanlegur hluti af tekjuskattlagningu einstaklinga. Þar er lagt til í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda að persónuafsláttur taki breytingum ár hvert í samræmi við verðlagsbreytingar á undangengnum 12 mánuðum frá desember árið áður, fyrst í ársbyrjun 2012.
    Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 3% á viðmiðunartímabilinu sem þýðir að öðru óbreyttu að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga lækka um nálægt 3 milljarða króna vegna hærri persónuafsláttar.

Skattar á fyrirtæki.
    Umfjöllun um skatta á fyrirtæki er í kafla III í yfirlýsingunni undir yfirskriftinni Starfsskilyrði atvinnulífsins. Þar er líka fjallað um væntanlegar breytingar á tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi, en frumvarp þess efnis verður ekki lagt fram fyrr en á haustþingi. Einnig kemur fram að síðustu misseri hafi fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands átt í samstarfi um mögulegar breytingar á skattalögum. Afrakstur þessa samstarfs sé m.a. sá að fjármálaráðherra muni leggja fyrir Alþingi nú á vorþingi tillögur að lagabreytingum sem varða eftirtalin atriði:

(i)     Skattlagning einstaklinga starfandi í eigin félögum.
    Um er að ræða tvenns konar breytingar frá gildandi ákvæði sem kom til framkvæmda við staðgreiðslu í ársbyrjun 2010. Ákvæðið kveður á um þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til að úthlutaður arður teljist til launa hjá móttakanda arðsins. Fyrri breytingin felur í sér nánari skilgreiningu á því hvað felst í hugtakinu „ráðandi aðili“ þegar ákvörðuð eru laun við eigin atvinnurekstur. Tillagan er sú að maður teljist hafa ráðandi stöðu (vera ráðandi aðili) ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum á samtals 50% eða meira í viðkomandi lögaðila. Sama regla eigi einnig við um starfandi hluthafa sem ekki eru tengdir fjölskylduböndum. Reglan nær þó einungis til þeirra sem eiga a.m.k. 2% hver um sig í viðkomandi lögaðila. Seinni breytingin er sú að sá hluti úthlutaðs arðs sem telst vera laun skv. 3. málsl. 1. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga verði eingöngu skattlagður í neðsta þrepi tekjuskattsins, þ.e. 24,1% miðað við árið 2010, auk útsvars, sem er að hámarki 13,28% árið 2010 en ekki í þremur þrepum eins og nú gildir. Gert er ráð fyrir að þessi breyting verði afturvirk frá ársbyrjun 2010 og gildi fyrir rekstrarárin 2010 og 2012. Rétt er þó að taka fram að fjármálaráðherra áformar að fela starfshópi um endurskoðun á skattkerfinu að skoða þetta fyrirkomulag nánar með hliðsjón af tillögum sérfræðinga AGS og reglum nágrannaríkjanna.

(ii)     Skilyrði fyrir frádráttarbærni arðgreiðslna og söluhagnaðar.
    Lögð er til sú breyting að frádráttarbærni arðs og söluhagnaðar verði takmörkuð við 5% eignarhald en ekki 10% eins og nú gildir. Jafnframt er lagt til að það skilyrði að yfirfæranlegt tap verði nýtt áður en til frádráttar kemur verði fellt brott.

(iii)     Afdráttur skatta á vaxtagreiðslur til erlendra aðila.
    
Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að ákvæði 8. tölul. 3. gr. tekjuskattslaga um afdráttarskatt á vaxtagreiðslur til erlendra aðila taki ekki til vaxta vegna lánasamninga sem gerðir eru við ótengda aðila. Í flestum tilvikum hafa móttakendur vaxtanna getað nýtt sér ákvæði tvísköttunarsamninga til lægri skatts, undanþágu eða endurgreiðslu skattsins, en einhver dæmi eru hins vegar um að lántakendur hafi sjálfir þurft að bera afdráttarskattinn vegna ákvæða í lánasamningum. Þá er talin ákveðin hætta á að standi ákvæðið óbreytt þrengi það að lánamöguleikum íslenskra fyrirtækja á erlendum lánamörkuðum þar sem svigrúm er þegar mjög þröngt.

(iv)     Mat hlutabréfa við skilgreiningu á gjaldstofni auðlegðarskatts.
    Samkvæmt gildandi lögum leggst hluti af hinum tímabundna auðlegðarskatti á markaðsvirði hlutabréfa í eigu einstaklinga, eða skattalegt bókfært eigið fé. Þessi skattlagning fer fram eftir á þegar nánari upplýsingar liggja fyrir úr reikningum fyrirtækja. Álagning auðlegðarskatts á einstaklinga hefur því farið fram í tvennu lagi og dreifst á tvö skattár hjá viðkomandi, þar sem skattlagning hlutafjár kemur fram á seinna árinu. Ýmis vandkvæði hafa verið uppi varðandi þetta mat og sömuleiðis framangreinda tvískiptingu og er því lagt til að í stað mats á hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé verði tekið mið af stofnverði. Við þessa breytingu fellur seinni hluti skattlagningarinnar niður frá og með árinu 2012.

    Erfitt er að meta af einhverri nákvæmni hvaða áhrif framangreindir fimm þættir muni hafa á tekjur ríkissjóðs. Ljóst er að afnám afdráttarskatts á vaxtagreiðslum af erlendum lánasamningum munu hafa umtalsverð bein áhrif til lækkunar en aðrir mun minni og eru heildaráhrifin metin um 2 milljarðar króna á ári. Dreifing á gjalddaga felur t.d. einungis í sér tilfærslu á tekjum metnum á greiðslugrunni.

Starfsendurhæfingarsjóður.
    Kafli VI í yfirlýsingunni fjallar um lífeyrismál, starfsendurhæfingu og húsnæðismál og er því í frumvarpinu að finna breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Þessar breytingar taka að hluta til mið af þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð stöðugleikasáttmálans 25. júní 2009 varðandi Starfsendurhæfingarsjóð. Þau fyrirheit voru þríþætt: Í fyrsta lagi að lögfesta skyldu launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs, samhliða skyldu launþega til að tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar frá 16 til 70 ára aldurs. Í öðru lagi að lögfest verði framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs frá lífeyrissjóðunum er nemi 0,13% af iðgjaldsstofni frá og með 1. júlí 2010. Í þriðja lagi er lögfesting á 0,13% framlagi ríkissjóðs til Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. júlí 2013. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí sl. var síðan ítrekað að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að lögfest yrði skylda allra launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs. Enn fremur kæmi til jafnhátt iðgjald frá lífeyrissjóðunum. Þá var þar kveðið á um að skipuð yrði samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011 þar sem miðað yrði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Útfæra þyrfti aðkomu ríkisvaldsins varðandi faglegar útfærslur og samspil starfsendurhæfingar sem tengist vinnumarkaði og þjónustu heilbrigðiskerfisins. Í bráðabirgðaákvæði því sem lagt er til að öðlist gildi þegar í stað og falli úr gildi 1. janúar 2012 er við það miðað að ráðherra velferðarmála og ráðherra lífeyrismála skuli skipa framangreinda samráðsnefnd og hlutverk nefndarinnar verði, auk þess sem að framan greinir, að leggja fram tillögur að skýrum lagaramma eða umgjörð VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, m.a. varðandi greiðsluskyldu, ábyrgð og eftirlit, fyrir sama tímamark, þ.e. 1. nóvember 2011. Við þá vinnu skuli haft samráð við Landssamband lífeyrissjóða og skattyfirvöld.
    Í væntanlegu frumvarpi verða lagðar til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, í samræmi við gerð stöðugleikasáttmálans frá 25. júní 2009 um Starfsendurhæfingarsjóð, en fyrirmæli um sjóðinn eru aftur ítrekuð í yfirlýsingu ríkistjórnarinnar frá 5. maí sl. Í frumvarpi fjármálaráðherra verður Starfsendurhæfingarsjóði, sem veita á viðtöku iðgjaldi til greiðslu kostnaðar við ráðgjöf, þjónustu og bein úrræði vegna starfsendurhæfingar, veitt lagastoð en stór hluti launagreiðenda greiðir þegar 0,13% iðgjald til sjóðsins á grundvelli kjarasamninga. Með lögunum verður kveðið á um skylduframlag lífeyrissjóða til sjóðsins. Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um greiðsluskyldu launagreiðenda í lögum nr. 55/1980.

II. Áhrif kjarasamninga á afkomu ríkissjóðs.
    Þó svo að bein áhrif af þeim tillögum sem er að finna í þessu frumvarpi og tengjast yfirlýsingu stjórnvalda við undirskrift kjarasamninga 5. maí sl. séu neikvæð fyrir tekjuhlið ríkissjóðs um allt að 5 milljarða króna er ljóst að til lengri tíma litið verða heildaráhrif nýgerðra kjarasamninga á afkomu ríkisins jákvæð gangi forsendur þeirra eftir. Hækkun persónuafsláttar eykur ráðstöfunartekjur heimila og þar með neyslu í einhverjum mæli sem aftur leiðir til aukinna tekna ríkissjóðs af neyslusköttum. Léttari skattbyrði fyrirtækja eykur svigrúm þeirra til fjárfestinga og aukinna umsvifa þjóðarbúsins sem m.a. ætti að endurspeglast í minna atvinnuleysi og þar með auknum launagreiðslum.

III. Aðrar breytingar.
    Sem fyrr segir inniheldur frumvarpið ýmsar lagabreytingar sem ekki tengjast yfirlýsingu stjórnvalda með beinum hætti. Þessar eru helstar:

Lagfæringar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.
    
Í frumvarpinu er lagt til að lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði tímabundin en samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á styrkjakerfum er bundið því skilyrði. Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á lögunum heldur einungis lagt til að kerfið verði látið gilda til ársloka 2014, eða í fimm ár.

Breytingar á lögum um virðisaukaskatt.
    Hér er um tvíþættar breytingar að ræða. Fyrri breytingin lýtur að breytingu á 35. gr laganna en sú tillaga er tilkomin vegna breytingar sem gerð var á d-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna með lögum nr. 163/2010 (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana). Sú breyting tók gildi 1. janúar 2011 en kom til framkvæmda 1. maí 2011. Ákvæðið í d-lið er nú þannig að rafrænt afhent þjónusta telst ávallt nýtt þar sem kaupandi þjónustunnar hefur búsetu eða starfsstöð og ber sala á þeirri þjónustu því ekki virðisaukaskatt sé hún seld til aðila sem eru búsettir eða hafa starfsstöð erlendis. Samkvæmt núgildandi ákvæði 35. gr. ber aðila sem kaupir rafrænt afhenta þjónustu að innheimta og skila virðisaukaskatti vegna kaupanna nema hann hafi heimild til að telja virðisaukaskattinn til innskatts. Erfitt er að hafa eftirlit með virðisaukaskattsskilum vegna kaupa á rafrænni þjónustu erlendis frá þar sem viðskiptin, bæði greiðsla og þjónusta, fara fram með rafænum hætti og því má ætla að ríkissjóður hafi orðið fyrir tapi af þessum sökum. Í frumvarpi þessu er því lagt til að gerð verði sú breyting varðandi rafrænt afhenta þjónustu að þegar aðili sem er með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis selur þjónustu til aðila sem ekki er skráður skv. 5. gr. og með heimilisfesti eða fasta starfsstöð á Íslandi skuli seljandi skila virðisaukaskattinum í ríkissjóð.
    Síðari breytingin varðar gildistöku d-liðar 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. og 42. gr. A laganna sem komu til framkvæmda 1. maí 2011. Þau tilmæli hafa borist frá ESA að láta ákvæðið ekki koma til framkvæmda fyrr en að lokinni athugun af þeirra hálfu hvort ákvæðin feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð samkvæmt EES-samningnum. Því er lagt til að framkvæmd ákvæðanna verði frestað til 1. október 2011.

Breytingar á lögum um gjald á áfengi og tóbak.
    Í frumvarpinu er lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum um leyfilegt magn á innfluttu áfengi á lægri gjöldum við komu til landsins. Heimildir ferðamanna til innflutnings á bjór eru auknar og sömuleiðis heimildir flugáhafna. Ljóst er að tekjur Fríhafnar (Isavia) munu aukast eitthvað vegna þessara auknu heimilda en á móti vegur að gera má ráð fyrir að sala ÁTVR á áfengi muni dragast eitthvað saman í kjölfarið og þar með skatttekjur ríkissjóðs í formi vörugjalda af þessum vöruflokkum. Nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs gætu þannig orðið lítillega neikvæð, eða nálægt 100–200 millj. kr. á ársgrundvelli.

Fjármögnun sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.
    Í lok árs 2010 var samþykkt bráðabirgðaákvæði um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var hluti stjórnvalda í víðtækum aðgerðum vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Þessar greiðslur eru ígildi viðbótarvaxtabóta sem greiddar skulu tvisvar á ári, 1. maí og 1. ágúst, á þessu ári og á árinu 2012. Fyrsta greiðsla hefur þegar farið fram og nam réttum 3 milljörðum króna sem er í takt við áætlun um 6 milljarða króna heildarkostnað á ári.
    Í því samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við hagsmunaaðila í tengslum við þessar aðgerðir segir að aðilar muni í samstarfi leita leiða til að þeir síðarnefndu, þ.e. fjármálafyrirtæki (viðskiptabankar) og lífeyrissjóðir, fjármagni þessi útgjöld. Nú liggur fyrir samkomulag þess efnis að heildargreiðslur þessara aðila í formi tímabundinnar skattlagningar verði 3,5 milljarðar króna á þessu ári sem skiptist jafnt milli þeirra, þ.e. 1.750 millj. kr. á viðskiptabanka og 1.750 millj. kr. á lífeyrissjóði. Skattstofn viðskiptabankana verður sá sami og er að finna í lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, og verður hlutfall þessa tímabundna skatts 0,0795%. Ákvæði um tímabundinn skatt á lífeyrissjóði verður í bráðabirgðaákvæði við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, og verður skattstofninn hreinar eignir samtryggingadeilda til greiðslu lífeyris sem námu nálægt 1.800 milljörðum króna í lok árs 2010. Samkvæmt því er áætlað skatthlutfall 0,0972%.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með lögum nr. 70/2009 var samþykkt breyting á 3. gr. tekjuskattslaga er fjallar um takmarkaða skattskyldu. Með breytingunni var innleitt nýtt ákvæði þess efnis að erlendir aðilar skyldu sæta skattlagningu á vöxtum sem þeir fá greidda frá íslenskum aðilum af bankareikningum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum og öðrum kröfum og fjármálagerningum hér á landi. Að baki breytingunni lágu margvísleg rök. Helst má nefna að vaxtatekjur íslenskra skattaðila, einstaklinga sem fyrirtækja, eru skattskyldar og ójafnræði felst í því að undanskilja vaxtatekjur erlendra aðila skattlagningu. Vaxtatekjur sem greiddar voru erlendum aðilum töldust um árabil ekki til skattskyldra tekna í hendi þeirra aðila enda bæru þeir takmarkaða skattskyldu hér á landi. Á sama tíma voru aðrar tegundir tekna erlendra aðila, sem aflað var hér á landi, svo sem laun, þóknanir, rekstrarhagnaður, arður, leigutekjur og söluhagnaður, skattskyldar hér og með skattlagningu vaxta er skapað samræmi í þessum efnum. Vextir ásamt framangreindum tekjum eru farvegur út úr landinu fyrir hluta af þeim virðisauka sem verður til við starfsemi hér á landi og eðlilegt var talið að tryggja einhverja hlutdeild ríkissjóðs í þeim tekjum eins og öllum öðrum tekjum sem eiga uppruna sinn hérlendis. Ein meginástæða lagabreytingarinnar var að skattleysi vaxta úr landi opnar leiðir til að skjóta tekjum undan skatti hér á landi. Í frumvarpi því er varð að lögunum þótti rétt að árétta að ekki væri verið að leggja skatt á þá sem inna vaxtagreiðslurnar af hendi heldur þá sem eru móttakendur vaxtanna.
    Að fenginni reynslu hefur komið í ljós að skatturinn getur þrengt að lánamöguleikum fyrirtækja. Í almennum skilmálum skuldabréfa og lánasamninga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum milli ótengdra aðila er iðulega brugðist við afdráttarskatti af vöxtum með svokölluðu „gross-up“ ákvæði. Það felur í sér að ef til afdráttarskatts á vexti kemur er vaxtagreiðslan einfaldlega hækkuð þannig að nettógreiðslan til lánveitanda breytist ekki. Hin nýja skattlagning getur þannig fallið á lántakandann. Því er hér lögð til sú breyting að ákvæði 8. tölul. 3. gr. tekjuskattslaga taki ekki til vaxta vegna lánasamninga sem gerðir eru við ótengda aðila sem ella mundu bera hér takmarkaða skattskyldu af slíkum vaxtatekjum.

Um 2., 4. og 5. gr.

    Með lögum nr. 128/2009 var gerð sú breyting á 11. gr. tekjuskattslaga sem fjallar um skattskyldan arð, að fari heimil arðsúthlutun samtals yfir 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags telst það sem umfram er til helminga laun og arður, þegar móttakanda hans ber stöðu sinnar vegna að reikna sér endurgjald í samræmi við 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., sbr. 58. gr. laganna. Breyting þessi hefur verið gagnrýnd og m.a. hafa fyrirtækin kallað eftir nánari skýringum á ákvæðinu. Hér er því lagt til að hugtakið ráðandi aðili verði skýrt nánar. Maður telst hafa ráðandi stöðu ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum á samtals 50% eða meira í lögaðila enda eigi hver um sig a.m.k. 2% hlut í þeim lögaðila. Þá er lagt til að sama gildi um hluthafa sem starfa í þágu lögaðilans en eru ekki tengdir fjölskylduböndum. Ekki er gert ráð fyrir að reglan taki til almennra launþega sem starfa hjá og eiga í félagi sem skráð er á opinberum verðbréfamarkaði enda hafa þeir almennt ekki ráðandi stöðu sem meðeigendur og eru þar með ekki í aðstöðu til að taka ákvarðanir um daglegan rekstur og stjórn félags. Þá er lagt til að sá hluti úthlutaðs arðs sem telst vera laun skv. 3. málsl. 1. mgr. 11. gr. verði eingöngu skattlagður með því skatthlutfalli sem gildir fyrir lægsta skattþrep auk útsvars. Við álagningu árið 2011 yrði tekjuskattshlutfallið þannig 24,1% að viðbættu útsvari. Um er að ræða laun skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sem mynda stofn til tryggingagjalds í samræmi við ákvæði laga um tryggingagjald. Sama gildir um greiðslu lífeyrisiðgjalds og önnur launatengd gjöld. Halda ber eftir staðgreiðslu af launum í samræmi við lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 3. gr.

    Í lok árs 2009 var skattlagningu arðgreiðslna og söluhagnaðar milli fyrirtækja breytt á þann veg að í stað þess að arður og söluhagnaður væri að fullu frádráttarbær var frádráttarbærni takmörkuð við a.m.k. 10% eignarhald. Jafnframt var fyrirtækjum gert skylt að nýta yfirfæranlegt tap áður en til frádráttar kemur. Lögð er til sú breyting að frádráttarbærni arðs og söluhagnaðar verði takmörkuð við a.m.k. 5% eignarhald og jafnframt að skilyrðið um nýtingu á yfirfæranlegu tapi verði fellt brott. Komið hefur í ljós að skilyrðið um 10% eignarhald gæti haft áhrif á uppbyggingu skipulagðs verðbréfamarkaðar hérlendis enda er eignarhald á skráðum félögum að öllu jöfnu töluvert dreift. Jafnframt munu fyrirtæki sem rekin hafa verið með tapi að óbreyttu ekki getað nýtt sér frádráttarheimild vegna arðs og söluhagnaðar og af þeim sökum er lagt til að skilyrðið um jöfnun rekstrartaps ársins og yfirfæranlegs taps frá fyrri árum verði fellt niður.

Um 6. gr.

    Verði frumvarpið að lögum mun persónuafsláttur taka breytingum árlega, í fyrsta sinn frá 1. janúar 2012, og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs næstliðinna tólf mánaða miðað við gildandi vísitölu við upphaf og lok viðmiðunartímabilsins, þ.e. frá desember til desember.

Um 7. gr.

    Lagt er til að í 3. mgr. 101. gr. tekjuskattslaga verði kveðið skýrt á um heimild ríkisskattstjóra til að leiðrétta álagningu á skattaðila í því tilfelli þar sem beinlínis er kveðið svo á um í lögum að fallið sé frá fyrri skattframkvæmd. Sem dæmi um þetta má nefna nýsamþykkt lög nr. 37/2011, um skattfrelsi vátryggingarbóta vegna sjúkdómatrygginga.

Um 8. gr.

    Hluti af hinum tímabundna auðlegðarskatti leggst á raunvirði hlutabréfa í eigu einstaklinga. Þessi hluti skattlagningarinnar fer fram eftir á þegar nánari upplýsingar liggja fyrir úr reikningum fyrirtækja. Í vissum tilvikum hafa verið vandkvæði á því að meta raunvirði bréfanna. Samkvæmt núgildandi ákvæði er lögaðilum skylt að gera grein fyrir virði eignarhluta síns í öðrum félögum. Ljóst er að alla jafna liggja þessar upplýsingar ekki fyrir í reikningsskilum lögaðila og getur í einhverjum tilvikum verið vandkvæðum bundið að nálgast þær. Er því lagt til að í stað hlutdeildar í skattalegu bókfærðu eigin fé verði tekið mið af stofnverði, þ.e. kostnaðarverði hlutabréfa við kaup þeirra eða stofnun félags við ákvörðun á auðlegðarskattsstofni.

Um 9. gr.

    Lagt er til að við álagningu opinberra gjalda á árinu 2011 skuli þeir sjóðir sem falla undir 6. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga greiða sérstakan eignarskatt. Skattstofninn skal vera hrein eign til greiðslu lífeyris, sbr. ákvæði 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Gjaldhlutfallið skal vera 0,0972%. Um framkvæmd álagningarinnar fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þó þannig að einungis er um einn gjalddaga að ræða sem er 1. nóvember 2011.

Um 10. gr.

    Í a-lið er lagt til að aðili sem er með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis skuli innheimta og skila virðisaukaskatti hér á landi þegar hann selur rafrænt afhenta þjónustu skv. d-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. til aðila sem ekki er skráður skv. 5. gr. og með heimilisfesti eða fasta starfsstöð hér á landi. Seljandinn ber þannig ábyrgð á því að skila virðisaukaskattinum. Þessi tillaga er í samræmi við reglur um rafrænt afhenta þjónustu sem gilda í nágrannaríkjum Íslands, m.a. Noregi og aðildarríkjum Evrópusambandsins þar sem seljandi ber ábyrgð á virðisaukaskattsskilum í þeim tilvikum þegar þjónustan er afhent rafrænt til óskattskyldra aðila erlendis. Í ákvæðinu er einnig lagt til að þeir aðilar verði undanþegnir skattskyldu sem selja þjónustu fyrir 1.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili. Lagt er til að sama viðmið verði notað í þessu ákvæði og er vegna undanþágu á skattskyldu skv. 3. tölul. 4. gr. laganna.
    Með þessari breytingu á ákvæðinu er því gerður greinarmunur á því við innheimtu og skil á virðisaukaskatti hvort það er óskattskyldur eða skattskyldur aðili sem kaupir rafrænt afhenta þjónustu, þ.e. þegar kaupandi er ekki skráður á virðisaukaskattsskrá skv. 5. gr. hvílir skylda til innheimtu og skila á virðisaukaskatti á seljanda þjónustunnar.
    Í b-lið er lagt til að í stað orðsins kaupandi í 3. mgr. 35. gr. komi orðið aðili. Er þetta gert með hliðsjón af breytingunni sem lögð er til í a-lið þar sem lagt er til að seljandi skuli innheimta og skila virðisaukaskatti í þeim tilvikum.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði d-liðar 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. er varðar aðra rafrænt afhenta þjónustu en tölvuþjónustu skuli frestað og komi fyrst til framkvæmda 1. október 2011. Jafnframt er lagt til að ákvæði 42. gr. A skuli frestað og komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. október 2011. Í kjölfar samþykktar laga nr. 163/2010, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana), var Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) send fortilkynning (e. pre-notification) og leitað eftir afstöðu stofnunarinnar á því hvort tiltekin ákvæði laganna er lutu að gagnaverum fælu í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. ESA hefur ekki svarað því með formlegum hætti hvort um ólögmæta ríkisaðstoð sé að ræða en hefur í samskiptum við fjármálaráðuneytið gefið til kynna að miklir möguleikar séu á að svo sé. ESA hefur því ráðlagt stjórnvöldum að láta lögin ekki koma til framkvæmda fyrr en niðurstaða liggur fyrir hvort um ólögmæta ríkisaðstoð sé að ræða. Í ljósi þessa er lagt til að framkvæmd ofangreindra ákvæða verði seinkað þar til ESA hefur gefið álit sitt á því hvort ákvæðin séu í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er annars vegar lagt til að hækka heimild ferðamanna til kaupa á gjaldfrjálsu áfengi í tollfrjálsum verslunum hér á landi. Í a- og b-lið er lagt til að bætt verði við sex og níu lítrum af öli við þá samsetningu sem heimilt er að versla gjaldfrjálst. Í c-lið er lagt til að hækka heimild til kaupa á gjaldfrjálsu öli úr sex lítrum í níu lítra eða um 67%. Þá er í e-lið lagt til að nýr valmöguleiki komi til þar sem heimilt verði að versla einungis öl, samtals tólf lítra.
    Hins vegar er lagt til að hækka heimild flugáhafna til kaupa á gjaldfrjálsu áfengi í tollfrjálsum verslunum hér á landi. Í f- og g-lið er lagt til að bætt verði við sex og níu lítrum af öli við þá samsetningu sem heimilt er að versla gjaldfrjálst. Í h-lið er lagt til að hækka heimild til kaupa á gjaldfrjálsu öli úr sex lítrum í níu lítra eða um 67%. I–k-liðir fjalla um breytingar á 2. mgr. 7. tölul. þar sem kveðið er á um heimild flugáhafna til gjaldfrjálsrar verslunar ef ferð varir skemur en 15 daga. Um er að ræða hlutfallslega sömu hækkun.

Um 13. gr.

    Með lögum nr. 165/2010 voru lagðar til verulegar breytingar á ákvæðum 15. gr. laga nr. 152/2009 sem fólu í sér að rakið var með ítarlegum hætti hvaða takmarkanir gilda um samanlagða opinbera styrki til einstakra verkefna samkvæmt lögunum. Þessar takmarkanir eiga rætur sínar að rekja til leiðbeinandi reglna ESA um styrki vegna rannsókna og þróunar og nýsköpunar (e. Aid for Research and Development and Innovation). Framsetning textans á íslensku í frumvarpinu misfórst á þann veg að þar sem standa átti „samanlagður styrkur“ stóð ranglega „samanlagður styrkhæfur kostnaður“. Þessi misritun hefur valdið fyrirtækjum vandræðum við að skilja hvaða takmarkanir gilda um samanlagða styrki hins opinbera enda er ákvæðið torskilið eins og það er. Tekið skal fram að eingöngu er um að ræða lagfæringu á texta en ekki efnisbreytingu.

Um 14. gr.

    Þann 23. mars 2011 barst stjórnvöldum ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem fallist var á stuðningskerfi við fyrirtæki sem stunda nýsköpun. Í ákvörðuninni er tekið fram að Ísland verði að uppfylla það skilyrði að tímabinda styrkjakerfið og er lagt til að skýrt verði kveðið á um það að kerfi þetta gildi til ársloka 2014, eða fimm ár eins og lagt er til í ákvörðuninni. Sé vilji fyrir því að lögin haldi áfram gildi sínu eftir það tímamark þarf að afla samþykkis ESA að nýju ásamt því að framlengja bráðabirgðaákvæðið.

Um 15. gr.

    Lagt er til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Í bráðabirgðaákvæðinu felst að við álagningu opinberra gjalda á árinu 2011 skuli þau fjármálafyrirtæki sem skattskyld eru samkvæmt lögunum greiða viðbótarskatt sem nemur 0,0795% af skattstofni eins og hann er ákvarðaður í lögunum. Um framkvæmd álagningarinnar fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þó þannig að einungis er um einn gjalddaga að ræða sem er 1. nóvember 2011.

Um 16. gr.

    Í 1. og 2. mgr. nýs ákvæðis til bráðabirgða er lagt til að iðgjald launagreiðanda, þ.m.t. þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skuli vera 0,13% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og skal það reiknast í fyrsta sinn eigi síðar en 1. september 2011. Launagreiðanda er skylt að standa skil á iðgjaldi til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald, sbr. 2. mgr. 7. gr., til viðkomandi lífeyrissjóðs. Þá er kveðið á um skyldu lífeyrissjóða til að greiða 0,13% af iðgjaldsstofni sínum til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, í fyrsta sinn af iðgjaldsstofni janúarmánaðar 2012. Jafnframt er lagt til að lífeyrissjóðirnir annist einnig skil á iðgjaldi launagreiðenda til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er síðan lagt til að ráðherra velferðarmála og ráðherra lífeyrismála skuli skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011 þar sem miðað verði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Þá skal nefndin fyrir sama tímamark leggja fram tillögur að skýrum lagaramma eða umgjörð VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, m.a. varðandi greiðsluskyldu, ábyrgð og eftirlit. Samráð skal haft við Landssamband lífeyrissjóða og skattyfirvöld við útfærsluna.
    Gert er ráð fyrir að ákvæðið falli úr gildi 1. janúar 2012 þar sem þá á nefndin sem skipa á að hafa skilað tillögum um framtíðarfyrirkomulag Starfsendurhæfingarsjóðs sem nú ber nafnið VIRK Starfsendurhæfingarsjóður.

Um 17. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga o.fl.).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á nokkrum lögum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hinn 5. maí sl. Því til viðbótar eru lagðar til nokkrar smærri breytingar til aðlögunar á ýmsum öðrum lögum. Í þessu frumvarpi eru það þrjú atriði sem lúta að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en það eru ákvæði um persónuafslátt, Starfsendurhæfingarsjóð og skatta á fyrirtæki. Í fyrsta lagi er lagt til að persónuafsláttur taki breytingum árlega til samræmis við verðbólgu, í fyrsta sinn 1. janúar 2012, og breytist fjárhæð hans þá í samræmi við breytingar á gildandi vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði. Gert er ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga lækki um 1 mia. kr. fyrir hvert prósentustig sem afslátturinn hækkar. Miðað við spá um að vísitala neysluverðs hækki um 3% á tímabilinu má því áætla að tekjur ríkissjóðs lækki um 3 mia. kr. á næsta ári vegna hærri persónuafsláttar í kjölfar lögfestingar á þessu ákvæði.
    Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Fyrst má nefna að lagt er til að tekjuskattur leggist ekki á vaxtagreiðslur vegna lánasamninga sem þeir aðilar sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu gera við ótengda aðila sem ella mundu bera hér takmarkaða skattskyldu. Þá er lögð til breyting á skattlagningu einstaklinga starfandi í eigin félögum. Annars vegar er um að ræða nánari skilgreiningu á því hvað felst í hugtakinu ráðandi aðili í tengslum við skattlagningu launa- og arðgreiðslna við eigin atvinnurekstur og hins vegar að sá hluti úthlutaðs arðs sem er umfram 20% af bókfærðu eigin fé og telst vera laun samkvæmt gildandi lögum, eða helmingurinn, verði skattlagður í 24,1% tekjuskatti að frátöldu útsvari en ekki í þremur þrepum eins og nú er. Því til viðbótar er lagt til að skilyrði fyrir frádráttarbærni arðgreiðslna og söluhagnaðar milli fyrirtækja verði takmörkuð við 5% eignarhald í stað 10%. Loks er í þessu sambandi lagt til að við mat hlutabréfa við skilgreiningu á gjaldstofni auðlegðarskatts verði tekið mið af stofnverði í stað mats á hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé eins og nú er, nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess. Erfitt er að meta hvaða áhrif þessar breytingar á skattalögum hafa á tekjur ríkissjóðs. Afnám afdráttarskatts á vaxtagreiðslur af erlendum lánasamningum mun hafa umtalsverð bein áhrif til lækkunar en aðrir liðir minna og er heildarlækkunin á tekjum ríkissjóðs metin á um 2 mia. kr. á ári.
    Í þriðja lagi eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Annars vegar er lagt til að lögfest verði skylda launagreiðenda frá og með 1. júlí nk. til greiðslu á 0,13% iðgjaldi til Starfsendurhæfingarsjóðs. Slíkar greiðslur eru þegar komnar til framkvæmda varðandi laun þeirra sem eru í stéttarfélögum, þ.m.t. af launum ríkisstarfsmanna, og mun lögfesting þessa frumvarps því ekki auka útgjöld ríkissjóðs sem launagreiðanda. Hins vegar er lagt til að lögfest verði framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs frá lífeyrissjóðunum er nemi 0,13% af iðgjaldsstofni frá og með 1. janúar 2012. Verði þetta ákvæði lögfest munu iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða því rýrna um 0,13% af iðgjaldsstofni. Sú rýrnun kynni að leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga til lengri tíma litið en á móti ætti að vega minni örorkubyrði vegna aukinnar starfsendurhæfingar. Hjá lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga þar sem réttindi eru tryggð samkvæmt sérlögum þyrfti að breyta lögum til að draga úr þeim, ella kann þessi skerðing á tekjum þeirra að leiða til aukinna skuldbindinga fyrir hið opinbera.
    Nokkrar aðrar breytingar eru gerðar sem ekki tengjast yfirlýsingu stjórnvalda með beinum hætti. Í fyrsta lagi er lagt til að sérstakar tímabundnar vaxtaniðurgreiðslur, sem eru hluti af víðtækum aðgerðum stjórnvalda vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna, verði fjármagnaðar af fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum í samræmi við samkomulag við þessa aðila. Heildarkostnaður vegna vaxtaniðurgreiðslna er áætlaður um 6 mia. kr. á hvoru árinu 2011 og 2012 og er í þessu frumvarpi lagt til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir greiði 3,5 mia. kr. af þeirri fjárhæð bæði árin með sérstakri tímabundinni skattlagningu. Gert er ráð fyrir því að fjárhæðin skiptist jafnt á milli aðila og komi 1.750 m.kr. frá fjármálafyrirtækjum og sama fjárhæð frá lífeyrissjóðum. Áfram verður leitað leiða í samráði við hagsmunaaðila um fjármögnun á þeim 2,5 mia. kr. sem vantar upp á 6 mia. kr. útgjöld ríkisins vegna vaxtaniðurgreiðslunnar.
    Í öðru lagi er lagt til að lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði tímabundin til ársloka 2014 en samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA á styrkjum er bundið því skilyrði.
    Í þriðja lagi eru lagðar til tvær breytingar á lögum um virðisaukaskatt vegna rafrænnar þjónustu. Sú fyrri lýtur að greiðsluskyldu aðila sem selur rafræna þjónustu hér á landi án þess að hafa heimilisfesti hér til óskattskylds aðila með heimilisfesti hér á landi. Sú síðari varðar meðferð á innfluttum búnaði óskattskylds aðila til staðsetningar í gagnaverum hér á landi.
    Í fjórða lagi er lagt til að heimild ferðamanna til kaupa á áfengi á lægri gjöldum hér á landi í fríhöfn verði aukin frá því sem verið hefur. Hér er um að ræða talsverða aukningu á heimild ferðamanna og flugáhafna til að kaupa bjór og bætt við nýjum valmöguleika fyrir ferðamenn þegar þeir kaupa eingöngu bjór en ekki annað áfengi í fríhöfn. Áætlanir gera ráð fyrir að tekjur Fríhafnarinnar muni aukast talsvert vegna þessara auknu heimilda. Á móti má gera ráð fyrir að sala ÁTVR muni dragast eitthvað saman í kjölfarið. Þannig er gert ráð fyrir að skatttekjur ríkissjóðs í formi vörugjalda af áfengi lækki og að heildaráhrifin á afkomu ríkissjóðs verði neikvæð um 100–150 m.kr. á ársgrundvelli.
    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að tekjulækkun ríkissjóðs í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga verði um 5 mia. kr. Þessu til viðbótar verði lækkun tekna vegna breytinga á heimild ferðamanna til kaupa á áfengi á lægri gjöldum um 100–150 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 3,5 mia. kr. vegna sérstakrar tímabundinnar skattlagningar á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði og að fjárhæðin gangi til fjármögnunar á sérstökum vaxtaniðurgreiðslum. Gengið er út frá því hér að fjármögnun á þeim 2,5 mia. kr. sem á vantar liggi fyrir þegar líður á árið og að forsendur fjárlaga muni þannig ekki raskast að því leyti.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir auknum útgjöldum fyrir ríkissjóð vegna breytinga í skattkerfinu þar sem þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á skattlagningu fyrirtækja eru í átt til einföldunar. Afkoma ríkissjóðs mun hins vegar verða lakari um 5 mia. kr. vegna lægri tekna ríkissjóðs frá því sem gert er ráð fyrir í gildandi fjárlögum.