Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 533. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1467  —  533. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Dóru Eyjólfsdóttur, Hrönn Pétursdóttur og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Daníel G. Gunnarsson og Málfríði Gunnarsdóttur frá Heyrnarhjálp, Valgerði Stefánsdóttur frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Ingibjörgu Halldórsdóttur og Eirík Rögnvaldsson frá Háskóla Íslands, Tryggva Þórhallsson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðrúnu Kvaran og Harald Bernharðsson frá Íslenskri málnefnd, Guðrúnu Nordal frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Kristin Halldór Einarsson frá Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, Huld Magnúsdóttur og Ingunni Hallgrímsdóttur frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Daða Hreinsson frá Félagi heyrnarlausra.
    Þá bárust umsagnir frá Blaðamannafélagi Íslands, Bláskógabyggð, Blindrafélaginu, Dalvíkurbyggð, Félagi heyrnarlausra, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Heyrnarhjálp, Íðorðafélaginu, Íslenskri málnefnd, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Staðlaráði Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Félagi bókasafns- og upplýsingafræða.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að setja í fyrsta sinn heildstæð lög um íslensku. Tilurð frumvarpsins má rekja til þingsályktunar um íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 12. mars 2009 en í kjölfar hennar skipaði menntamálaráðherra nefnd um lagalega stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Frumvarpið er byggt á tillögum nefndarinnar og styðst jafnframt við nýlega sænska löggjöf. Tilgangur frumvarpsins er að festa í lög stöðu íslenskrar tungu, mæla fyrir um varðveislu hennar, þróun og nothæfni. Jafnframt er íslensku táknmáli veitt aukið vægi sem fyrsta tungumáli þess hluta þjóðarinnar sem reiðir sig á það til tjáningar og samskipta.

Íslenskt mál.
    Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að tryggja lagalega stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls í íslensku samfélagi. Í 1. gr. frumvarpsins er almenn yfirlýsing um að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Nefndin tekur heilshugar undir þessa stefnuyfirlýsingu og telur hana mikilvæga í ljósi aukinna alþjóðlegra áhrifa á íslenskt samfélag.
    Í frumvarpinu segir í 2. gr. að stjórnvöld skuli tryggja að unnt verði að nota íslensku á öllum sviðum þjóðlífsins og í 10. gr. segir að stjórnvöld skuli tryggja að íslenskur fræðiorðaforði eflist jafnt og þétt, sé aðgengilegur og notaður sem víðast. Hjá umsagnaraðilum komu fram þær athugasemdir að ekki væri ljóst hvernig framfylgja ætti þessum markmiðum og tryggja þyrfti fjármagn til þess að hrinda þessum ákvæðum í framkvæmd. Nefndin vill benda á að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er hlutverk Íslenskrar málnefndar að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, m.a. um það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er unnið að ýmiss konar fræðilegum verkefnum sem snerta málrækt og íðorðafræði. Málræktarsjóður er sjálfstæður sjóður með skipulagsskrá en ekki hefur verið hægt að veita styrki úr sjóðnum undanfarin ár sökum ákvæða í skipulagsskrá. Nefndin vill árétta að Íslensk málnefnd, sem tilnefnir í fulltrúaráð Málræktarsjóðs, kannar nú möguleika á því að breyta skipulagsskránni svo hægt verði að hefja að nýju úthlutun úr sjóðnum.
    Ákvæði 2. gr. frumvarpsins um íslenska tungu tekur til íslenskra ríkisborgara, sbr. lög nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, og erlendra ríkisborgara sem búsettir eru hér á landi. Nefndin vill benda á að af þessu leiðir að þeim sem hér búa og hafa ekki náð fullnægjandi tökum á tungumálinu til þátttöku í íslensku samfélagi skal veitt aðstoð við þýðingar, eftir atvikum með aðstoð túlka. Frá umsagnaraðila kom athugasemd um hvort ekki ætti að fella ákvæðið frekar inn í heildarlöggjöf um málefni innflytjenda, sem nú er unnið að í velferðarráðuneyti. Nefndin áréttar að með ákvæðinu er ætlunin að sporna við samfélagslegri útilokun og mismunun þeirra sem skort hefur þekkingu til að nota íslenskt mál. Þessi réttindi eru ekki bundin við dvalarleyfi eða ríkisborgararétt heldur búsetu hér á landi samkvæmt þjóðskrá. Hið sama á við um 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Nefndin bendir á að með ákvæðinu er ekki kveðið á um rétt til endurgjaldslausrar þjónustu en á árinu 2010 er talið að opinber framlög hafi mætt um 50% kostnaðar við íslenskukennslu útlendinga.

Íslenskt táknmál.
    Fjallað er um íslenskt táknmál í 3. gr. frumvarpsins en þar er í 1. mgr. gert ráð fyrir að íslenskt táknmál hljóti opinbera viðurkenningu sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra sem og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram komu í máli umsagnaraðila að mikilvægt sé að tryggt verði að ekki aðeins þeir sem greinast heyrnarlausir, heyrnarskertir eða daufblindir eigi rétt á að læra táknmál heldur sé einnig afar mikilvægt að tryggja aðgengi nánustu aðstandenda þeirra. Nefndin leggur því til breytingar á 1. mgr. 3. gr. og bendir á að þar er fjallað um íslenskt táknmál sem fyrsta mál og er því hér vísað til heyrandi barna heyrnarlausra foreldra, en íslenskt táknmál er þeirra fyrsta tungumál, þótt þau hafi möguleika á máltöku í íslensku. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin einnig til breytingar á 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Með nánustu aðstandendum er hér átt við maka, foreldra, systkini og móður- og/eða föðurforeldra.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að lögfesting ákvæða um íslenskt táknmál hefði í för með sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélög og íslenska ríkið. Nefndin vill í þessu sambandi ítreka að áætlað er að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra mæti um 98% af þeirri túlkaþjónustu sem stofnunin fær beiðnir um. Áætlað er að um 300 einstaklingar noti táknmál sem fyrsta mál. Nefndin vill jafnframt benda á að verið er að leggja lokahönd á tillögur um úrbætur hvað varðar þjónustu við þennan markhóp sem í kjölfarið verða kostnaðarmetnar.

Réttindi blindra.
    Hjá umsagnaraðila komu fram þær athugasemdir að ekki væri hugað að réttindum blindra og stöðu íslensks punktaleturs. Nefndin tekur undir þessa athugasemd og telur það réttláta og eðlilega kröfu að lögfesta íslenskt punktaletur sem íslenskt ritmál þeirra sem það nota. Nefndin leggur til slíka breytingu og telur að með henni sé stigið mikilvægt skref í þá átt að tryggja réttindi blindra á Íslandi og stöðu íslenskrar tungu gagnvart öllum hópum samfélagsins.

Íslensk málnefnd.
    Fjallað er um Íslenska málnefnd í 5. gr. frumvarpsins. Íslensk málnefnd starfar innan Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skv. 9. gr. laga nr. 40/2006. Með frumvarpi þessu eru gerðar þær breytingar að ákvæði um málnefndina eru færð í lög um íslenska tungu og kveðið á um að hún starfi sjálfstætt. Nefndinni er heimilt að bjóða mönnum, einum eða tveimur setu í nefndinni telji hún það nefndarstarfinu til gagns. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að með nokkrum rétti megi halda því fram að sá hópur sem skipaður er í málnefndina sé nokkuð einsleitur. Nefndin getur að vissu leyti tekið undir þessi sjónarmið og hvetur til þess að málnefndin nýti þessa heimild, m.a. til að bjóða fulltrúum almennra málnotenda aðild að nefndinni eftir því sem við á. Nefndin beinir þeim tilmælum til málnefndarinnar að horfa til fulltrúa eldri borgara í þessu samhengi sökum þekkingar þeirra á íslenskri tungu.
    Nefndin leggur til að fulltrúar í Íslenskri málnefnd verði 16 talsins og fækki um tvo frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Nokkrar umræður urðu í nefndinni um hversu fjölskipuð nefndin er og hvort það kæmi niður á störfum hennar. Nefndin vekur sérstaka athygli á því að alls sitja í nefndinni sex fulltrúar háskóla í landinu, þar af þrír fulltrúar Háskóla Íslands, auk fulltrúa Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Þrír háskólar í landinu eiga hins vegar ekki fulltrúa í nefndinni. Nefndin bendir á að samstarfsnefnd háskólastigsins hefur starfað frá árinu 1990 og starfar nú skv. 26. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, en nefndina skipa rektorar háskóla sem fengið hafa viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Samstarfsnefnd háskólastigsins er þannig vettvangur samráðs og samstarfs háskólanna um sameiginleg málefni þeirra. Nefndinni þykir rétt út frá sjónarmiðum jafnræðis milli háskóla og í ljósi þess samstarfs sem þeir eiga sín á milli í samstarfsnefnd háskólastigsins að leggja til þá breytingu að fækka fulltrúum háskólastigsins úr sex í tvo, þar sem samstarfsnefndin tilnefni tvo fulltrúa í nefndina í stað fulltrúa tiltekinna háskóla.
    Nefndin leggur til þá breytingu að fulltrúi innflytjenda eigi sæti í nefndinni til samræmis við ákvæði 2. gr. frumvarpsins. Innflytjendur hafa ekki enn stofnað með sér hagsmunasamtök á landsvísu og leggur því nefndin til að velferðarráðherra skipi viðkomandi fulltrúa úr röðum innflytjenda.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tilnefni einn mann í málnefndina fyrir hönd orðanefnda. Nefndin vill benda á að 14. mars sl. stofnuðu orðanefndir með sér félag, Íðorðafélagið. Í ljósi þessa telur nefndin eðlilegt að Íðorðafélagið taki við áðurnefndu tilnefningarhlutverki og leggur til breytingar þar að lútandi. Nefndin telur einnig að þar sem hlutverk Íslenskrar málnefndar sé að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og stuðla að notkun táknmáls í íslensku þjóðlífi sé rétt að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi fulltrúa í nefndinni þar sem málefnasvið hennar snertir með margvíslegum hætti starfsemi sveitarfélaganna.

Túlkun og táknmálstúlkun.
    Fjallað er um túlkun og táknmálstúlkun hjá stjórnvöldum í 8. gr. frumvarpsins. Hér er kveðið á um rétt til að fá aðgengi að þjónustu samkvæmt lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram komu hjá umsagnaraðila að nauðsynlegt sé að hluti þessa hóps, sem notar íslensku en ekki táknmál, þarf einnig að fá réttindi sín tryggð og leggur til breytingar á ákvæðinu.

Ákvæði stjórnarskrár um tungumál.
    Nokkrar umræður sköpuðust í nefndinni um hvort nauðsynlegt sé að taka upp ákvæði um íslenska þjóðtungu í stjórnarskrá lýðveldisins en hvergi er vikið að íslenskri tungu eða stöðu hennar í stjórnarskránni. Sú sérstaða ríkir hér á landi í samanburði við flest ríki Evrópu að íslenskan hefur frá upphafi verið eina tungumál þjóðarinnar. Sökum þess hafa ekki skapast bein álitamál um þörf á yfirlýsingu í stjórnarskrá um að íslenska sé eða skuli vera þjóðtungan. Þó hafa á síðustu árum skapast umræður í ljósi breyttra þjóðfélagshátta, vaxandi fjölda innflytjenda og alþjóðlegs samstarfs, hvort rétt sé að treysta undirstöður íslenskrar þjóðtungu með því að taka upp ákvæði um hana í stjórnarskránni. Af Norðurlöndunum er Finnland eina ríkið sem sett hefur sérstakt ákvæði um þjóðtungu sína í stjórnarskrá en í Noregi og Svíþjóð hafa verið sett almenn lög um tungumál og réttindi minnihlutahópa í þeim efnum. Rannsókn á stjórnarskrám heims hefur leitt í ljós að í 158 ríkjum eru stjórnarskrár þar sem vikið er að réttindum sem tengjast tungumálum að einhverju leyti en í 26 stjórnarskrám er tungumáls ekki getið. Af þessu má sjá að Ísland er í minni hluta ríkja heims þar sem ekki er minnst á tungumál í stjórnarskrá. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem uppi hafa verið um að eðlilegt sé og í samræmi við stjórnarskrá annarra ríkja að mæla fyrir um það í stjórnarskránni að þjóðtungan sé íslenska. Telur nefndin að slíkt ákvæði myndi styrkja stöðu tungunnar og undirstrika mikilvægi hennar í menningu þjóðarinnar.

Kostnaðarmat.
    Við meðferð málsins komu fram athugasemdir um að lögfesting frumvarpsins hefði í för með sér umfangsmeiri og kostnaðarsamari framkvæmd opinberrar þjónustu. Sökum þessa væri nauðsynlegt að kostnaðarmeta og afla nánari upplýsinga um möguleg áhrif frumvarpsins fyrir ríki og sveitarfélög. Nefndin vill í þessu sambandi vísa til þess að í kostnaðarmati menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis er á það bent að hér sé um að ræða almenna heildarlöggjöf, heldur felur frumvarpið í sér almenn stefnuviðmið sem verði fylgt eftir í sérlögum á einstökum málasviðum, svo sem í lögum um skólamál og félagsþjónustu, stjórnsýslulögum, meðferð einkamála og sakamála. Nefndin leggur áherslu á að brýnt er að útfæra hið fyrsta þjónustustig umræddra réttinda í sérlögum með tilheyrandi mati á kostnaðarauka fyrir ríki og sveitarfélög.

Málfarsstefna hins opinbera.
    Nefndin styður heilshugar þá markmiðslýsingu um málfar á vegum hins opinbera sem fram kemur í 7. gr. þar sem segir að mál það sem notað er í starfsemi ríkis og sveitarfélaga skuli vera vandað, einfalt og skýrt. Nokkur misbrestur hefur verið á að frumvörp til laga og fréttatilkynningar frá hinu opinbera uppfylli þessi skilyrði og er mikilvægt að löggjafinn og einstök ráðuneyti sýni í verki metnað til að fylgja vandaðri málstefnu í þessa veru. Nefndin leggur til að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verði falið að fylgja eftir framkvæmd þessa ákvæðis, m.a. með því að veita starfsfólki ríkis og sveitarfélaga ráðgjöf um vandaða og skýra málnotkun innan stjórnsýslunnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 17. maí 2011.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Oddný G. Harðardóttir.



Eygló Harðardóttir,


með fyrirvara.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir.


Íris Róbertsdóttir.