Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 649. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1482  —  649. mál.
Frumvarp til lagaum skil menningarverðmæta til annarra landa.

(Eftir 2. umr., 19. maí.)1. gr.


Tilgangur.


    Tilgangur laga þessara er að tryggja skil á menningarverðmætum til annarra landa hafi þau
verið flutt til Íslands með ólögmætum hætti.

2. gr.

Skilgreiningar.


    Menningarverðmæti í skilningi laga þessara eru:
     a.      gripir sem teljast til þjóðarverðmæta í landinu sem þeir hafa verið fluttir frá, vegna listræns, menningarsögulegs eða fornleifafræðilegs gildis samkvæmt löggjöf eða reglugerðum viðkomandi ríkis, og falla undir einhvern þeirra flokka sem taldir eru í 5. gr.,
     b.      gripir sem falla ekki undir neinn þeirra flokka sem taldir eru í 5. gr. en eru hlutar opinberra minja- eða listasafna, bókasafna eða skjalasafna samkvæmt safnskrá,
     c.      gripir í eigu stofnana trúfélaga.
    Til opinberra safna samkvæmt þessari grein teljast söfn í eigu ríkis, sveitarfélaga eða sjálfseignarstofnana sem hafa fengið opinbera viðurkenningu í samræmi við löggjöf viðkomandi lands.

3. gr.

Framkvæmd.


    Minjastofnun Íslands annast framkvæmd laga þessara fyrir hönd íslenska ríkisins. Stofnunin leggur mat á verðgildi menningarminja og annast skil á menningarminjum til annarra ríkja. Við mat á verðgildi menningarminja og öðrum þáttum sem snerta minjagildi þeirra skal stofnunin hafa samráð við Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eða Þjóðskjalasafn Íslands eftir því sem við á. Ef þörf gerist skal og leitað álits sérfróðra manna er eigi starfa við stofnanir þær er hér um ræðir.
    Minjastofnun Íslands tekur við kröfum um skil menningarminja frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í öðrum ríkjum.
    Minjastofnun Íslands skal hafa náið samstarf og samráð við þau stjórnvöld í öðrum ríkjum er fjalla þar um leyfi til útflutnings menningarminja og um skil þeirra, svo og við fjölþjóðlegar stofnanir er láta sig þau mál varða. Þá skal stofnunin leitast við að upplýsa um vörslustaði menningarminja sem fluttar hafa verið til landsins með óheimilum hætti. Skulu lögregluyfirvöld aðstoða við þá leit ef þörf gerist.
    Tollyfirvöld skulu tafarlaust tilkynna Minjastofnun Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja ólöglega til landsins.

4. gr.

Reglur um flutning menningarminja.


    Óheimilt er að flytja til Íslands menningarminjar ef flutningurinn brýtur gegn:
     a.      reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um skil á menningarminjum sem fluttar hafa verið ólöglega frá ríki á svæðinu,
     b.      löggjöf þess ríkis sem menningarminjar eru fluttar frá.
    Ákvæði þessarar greinar taka einnig til þess ef menningarminjar eru fluttar tímabundið til landsins með lögmætum hætti en hefur ekki verið skilað á umsömdum tíma eða öðrum skilyrðum um tímabundinn flutning hefur ekki verið fullnægt.

5. gr.

Þjóðarverðmæti.


    Eftirtaldir flokkar menningarminja teljast til þjóðarverðmæta skv. 2. gr. og er skylt að skila berist krafa um það frá öðru ríki skv. 6. gr.:
     1.      Forngripir, eldri en 100 ára, sem fundist hafa í jörðu, vatni eða sjó við fornleifarannsóknir eða á annan hátt.
     2.      Hlutar úr listrænum, sögulegum eða trúarlegum minjum er losaðir hafa verið frá þeim og eru eldri en 100 ára.
     3.      a.    Málverk og handgerðar myndir, aðrar en þær sem getið er um í b-lið þessa töluliðar og 4. tölul., úr hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
        b.    Vatnslitamyndir, gvassmyndir og pastelmyndir, gerðar í höndum að öllu leyti á hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
     4.      Mósaíkverk úr hvaða efni sem er og að öllu leyti handunnin, sem ekki falla undir 1. eða 2. tölul., og teikningar úr hvaða efni sem er séu myndverkin að öllu leyti handunnin, eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
     5.      Frumeintök af stungum, þrykki, silkiprenti og steinprenti ásamt tilheyrandi plötum og frumgerð veggspjalda, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
     6.      Frumeintök höggmynda eða myndastyttna og eftirmyndir þeirra, sem eru gerðar með sömu aðferð og frumeintökin, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, enda falli þau ekki undir 1. tölul.
     7.      Ljósmyndir og kvikmyndir og filmur eða glerplötur af þeim, enda séu þær eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda myndanna.
     8.      Bækur, prentaðar fyrir 1500 (vögguprent), svo og handrit, þar með talin landabréf og raddskrár, stakar eða sem safn, sem eldri eru en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
     9.      Aðrar bækur, eldri en 100 ára, stakar eða sem safn.
     10.      Prentuð landabréf, eldri en 200 ára.
     11.      Skjalasöfn hvers konar og hlutar þeirra, úr hvaða efni sem er, eldri en 50 ára.
     12.      a.    Dýrafræðileg, grasafræðileg, bergfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök.
        b.    Söfn sem gildi hafa fyrir sagnfræði, steingervingafræði, mannfræði eða myntfræði.
     13.      Samgöngutæki, eldri en 75 ára.
     14.      Aðrar menningarminjar, eldri en 50 ára.
    Menningarminjar skv. 1. mgr. falla einungis undir þessi lög sé verðgildi þeirra í samræmi við eftirfarandi upptalningu:
     a.      menningarminjar er falla undir 1., 2., 8. og 11. tölul. 1. mgr. án tillits til verðgildis þeirra,
     b.      menningarminjar er falla undir 4., 5., 7. og 10. tölul. 1. mgr. sé verðgildi þeirra 1.100.000 kr. eða meira,
     c.      menningarminjar er falla undir 6., 9., 12., 13. og 14. tölul. 1. mgr. sé verðgildi þeirra 3.800.000 kr. eða meira,
     d.      menningarminjar er falla undir a-lið 3. tölul. 1. mgr. sé verðgildi þeirra 11.500.000 kr. eða meira og b-lið 3. tölul. 1. mgr. sé verðgildi þeirra 2.300.000 kr. eða meira.
    Upphæðir skv. 2. mgr. miðast við verðlag á þeim tíma er lög þessi öðlast gildi og taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Við verðgildismat skal miðað við ætlað markaðsverð hlutaðeigandi menningarminja á þeim degi er krafa annars ríkis um skil er borin fram.

6. gr.

Skil á menningarminjum.


    Menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins skal skilað í samræmi við reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um skil á menningarminjum sem fluttar hafa verið ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis.
    Minjastofnun Íslands skal leitast við að finna tilteknar menningarminjar og eiganda eða handhafa þeirra berist krafa um það frá öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Slíkri kröfu skulu fylgja allar nauðsynlegar upplýsingar sem kunna að auðvelda fund minjanna.
    Finnist menningarminjar hér á landi sem Minjastofnun Íslands telur að rökstuddur grunur leiki á að fluttar hafi verið til landsins með ólögmætum hætti skal stofnunin með sannanlegum hætti tilkynna hlutaðeigandi ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins um fundinn.
    Telji valdbær stjórnvöld einhvers ríkjanna að minjarnar hafi verið fluttar frá yfirráðasvæði þess með ólögmætum hætti skal krafa þeirra um skil hafa borist Minjastofnun Íslands innan tveggja mánaða frá því að stofnunin tilkynnti um fundinn. Berist krafa um skil ekki innan þess frests falla skyldur Minjastofnunar Íslands til varðveislu minjanna skv. 5. mgr. niður.
    Minjastofnun Íslands skal í samráði við stjórnvöld viðkomandi ríkis gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til varðveislu menningarminja sem sótt hefur verið um skil á. Stofnunin skal með viðeigandi ráðstöfunum sjá til þess að ekki sé reynt að hindra skilaferlið.
    Ákvæði þessarar greinar er varða skil menningarverðmæta til annarra ríkja gilda einvörðungu um kröfur um skil til hlutaðeigandi stjórnvalda í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Íslensk stjórnvöld skulu þó jafnframt leitast við eftir föngum að aðstoða við réttmæt skil menningarminja til ríkja sem ekki eiga aðild að nefndum samningi hafi minjarnar verið fluttar þaðan í andstöðu við þarlend lög. Skil á menningarminjum samkvæmt ákvæði þessu hafa farið fram þegar menningarminjar hafa verið afhentar stjórnvöldum þess ríkis sem leggur fram beiðni um skil.

7. gr.

Framkvæmd.


    Íslenskum stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að menningarminjum sem skilgreindar eru í 2. og 5. gr. og hafa verið fluttar til Íslands með ólögmætum hætti, án tillits til núverandi eignaraðildar eða vörslu á þeim, verði skilað til réttra eigenda eða umsjármanna þeirra erlendis, enda sé skilyrðum í 5. gr. um verðmæti þeirra fullnægt þar sem við á.
    Umsókn þar að lútandi skal borin upp formlega af valdbæru stjórnvaldi í hlutaðeigandi ríki og skal henni beint til Minjastofnunar Íslands sem gerir síðan viðeigandi ráðstafanir, eftir atvikum í samvinnu við hlutaðeigandi stjórnvöld hér á landi.
     Eftir kröfu Minjastofnunar Íslands er handhöfum tollgæsluvalds heimilt að leggja hald á menningarminjar skv. 1. mgr. uns niðurstaða fæst um skil á þeim í samræmi við 8. gr. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Um heimildir tollgæslu til valdbeitingar, handtöku, leitar, haldlagningar og innsiglunar gilda að öðru leyti ákvæði 151. gr. og 154.–164. gr. tollalaga.
    Við verðgildismat menningarminja skv. 5. gr. skal miða við þann dag er íslenskum stjórnvöldum berst krafa um skil á minjum frá valdbærum stjórnvöldum í öðru ríki. Við ákvörðun verðgildis skal haft mið af ætluðu markaðsverði.

8. gr.

Dómskröfur um skil á menningarminjum.


    Séu menningarminjar sem fjallað er um í 2. og 4. gr. í eigu eða vörslu manna hérlendis er eigi vilja láta þær af hendi þegar Minjastofnun Íslands krefst þess, skv. 3. og 6. gr., geta hlutaðeigandi stjórnvöld í öðru ríki, sem bera fram lögformlega kröfu um skil menningarminja, krafist þess fyrir dómi hér á landi, hvort heldur sem er í einkamáli eða opinberu dómsmáli, að eigendum eða vörslumönnum minjanna verði gert að láta þær af hendi og að mælt verði fyrir um að þeim skuli skilað með lögmæltum hætti til þess ríkis er skila krefst. Sé um einkamál að ræða skal það höfðað gegn eiganda minjanna, hvernig sem hann er að minjunum kominn, og jafnframt gegn vörslumanni þeirra sé hann annar en eigandinn. Dómur um skil menningarverðmæta er grundvöllur innsetningargerðar, ef á reynir, en dómi má síðan jafnframt framfylgja með aðstoð sýslumanna, lögreglu og annarra þar til bærra yfirvalda, eftir því sem þörf krefur, fyrir atbeina Minjastofnunar Íslands.
    Í kröfu um skil menningarminja sem hér um ræðir og borin er upp fyrir íslenskum stjórnvöldum og dómstóli, ef á reynir, skal minjunum m.a. lýst svo nákvæmlega sem frekast er kostur, svo og menningarlegu gildi þeirra og verðmæti. Þá skal fylgja kröfu skýr yfirlýsing frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í því ríki er skila krefst um að munirnir hafi verið fluttir úr því ríki með ólögmætum hætti.
    Krafa um skil menningarminja skv. 1. mgr. verður eigi höfð uppi fyrir dómi eftir að eitt ár er liðið frá því að hlutaðeigandi stjórnvöld í því ríki er skila krefst fengu vitneskju um hvar menningarminjarnar eru niður komnar og hver sé núverandi eigandi eða vörslumaður þeirra hér á landi. Kröfu um skil verður ekki heldur komið að fyrir dómi þegar liðin eru meira en 30 ár frá því að minjarnar voru fluttar ólöglega frá því ríki er skila krefst.
    Sé um að ræða minjar sem eru hluti af opinberum söfnum í því ríki er skila krefst eða þær heyra til trúarlegra minja þar, er lúta sérstökum verndarráðstöfunum samkvæmt lögum þess ríkis, skal þó kröfufresturinn miðast við 75 ár nema íslenska ríkið hafi skuldbundið sig til þess gagnvart hlutaðeigandi ríki að virða lengri frest.
    Það ríki er krafist hefur skila á menningarverðmætum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal bera kostnað sem stofnað er til við að framkvæma ákvörðun um að menningarminjum skuli skilað, þ.m.t. kostnað við málsmeðferð.
    Þeir er komist hafa yfir menningarminjar sem þessi grein tekur til, án þess að flutningur minjanna til Íslands hafi verið saknæmur af þeirra hálfu eða þeir hafi að öðru leyti öðlast þær með ólögmætum hætti, geta krafist hæfilegra bóta frá því ríki er skila krefst vegna þess að þeim er gert að skila minjunum. Verður kröfu um bætur af þessum sökum m.a. komið að í dómsmáli, sem höfðað er til skila minjanna, eða þar sem krafa um skil er borin upp með öðrum hætti en jafnframt getur grandlaus eigandi minja, sem skilakrafa beinist að, samið við hlutaðeigandi stjórnvöld í því ríki er skila krefst um bætur af þessum sökum. Minjastofnun Íslands hefur milligöngu um þá samningsgerð eftir því sem þörf gerist. Hafi bótakrafa sem hér um ræðir verið viðurkennd með dómi eða liggi fyrir formlegur samningur um bætur, þar á meðal dómsátt, getur Minjastofnun Íslands gert það að skilyrði fyrir afhendingu minjanna til hlutaðeigandi erlendra stjórnvalda að bætur verði greiddar.

9. gr.

Tímamörk.


    Hvað varðar kröfur um skil menningarminja frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í aðildarríkjum að samningi um Evrópska efnahagssvæðið gilda ákvæði laga þessara um skil á minjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá þeim ríkjum hingað til lands 1. janúar 1995 og síðar.

10. gr.

Ágreiningur.


    Ágreiningi um atriði er lúta að framkvæmd laga þessara má skjóta til mennta- og menningarmálaráðherra.

11. gr.

Skaðabætur.


    Hver sá sem verður fyrir fjártjóni vegna framkvæmda á ákvæðum laga þessara á rétt til skaðabóta úr ríkissjóði. Kröfum um skaðabætur skal beint til Minjastofnunar Íslands. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar eftir reglum laga um eignarnám.

12. gr.

Niðurfelling gjalda.


    Ekki ber að greiða stimpilgjöld eða þinglýsingargjöld af skjölum sem eru gefin út vegna framkvæmda á lögum þessum.

13. gr.

Viðurlög.


    Brot gegn ákvæðum 4. gr. varða sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við broti skv. 177. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

14. gr.

Reglugerðarheimild.


    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd laga þessara.

15. gr.

Innleiðing.


    Lög þessi eru sett til þess að viðhalda í innlendum rétti ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/7/EBE frá 15. mars 1993, um skil menningarminja sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis, sem upphaflega var leidd í lög með lögum nr. 60/1996.

16. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012. Um leið falla úr gildi lög um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 105/2001.