Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 797. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1484  —  797. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sturlaug Tómasson, Ágúst Þór Sigurðsson og Ólaf Kr. Valdimarsson frá velferðarráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild til handa ráðherra til að hækka með reglugerð bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. laga um almannatryggingar og fjárhæðir skv. 22. gr. laganna. Skilyrði hækkunar samkvæmt ákvæðinu er að verulegar breytingar verði á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga sem leiði til hækkunar.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem er tilkomið vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga aðila á vinnumarkaði frá 5. maí 2011. Í henni kemur m.a. fram vilji stjórnvalda til að endurskoða bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þannig að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur njóti hliðstæðra kjarabóta og um hefur verið samið í kjarasamningum. Nefndin telur málið mjög þarft og fagnar því að lífeyrisþegar fái hliðstæða hækkun og fólk á vinnumarkaði.
    Nefndin ræddi sérstaklega hvaða leið yrði farin við hækkun bóta, hver hækkunin yrði og hver áætluð útgjaldaaukning yrði fyrir ríkissjóð. Fékk nefndin kynningu frá ráðuneytinu á þeirri leið sem væri í skoðun og er þar gert ráð fyrir því að bætur almannatrygginga hækki um mest 12 þús. kr. á þessu ári en 11 þús. kr. á því næsta. Fyrirkomulag hækkunarinnar í ár verður þá með þeim hætti að bætur hækka um 4,25% en framfærsluuppbótin hækkar svo um það sem eftir stendur upp í 12 þús. kr. Það eru þeir sem hafa hvað minnst milli handanna sem fá framfærsluuppbót og með þessu yrði því mesta hækkunin hjá þeim sem verst standa. Þá er gert ráð fyrir því að allir lífeyrisþegar almannatrygginga fái eingreiðslu og álag á bæði orlofsuppbót og desemberuppbót.
    Nefndin kynnti sér áætlaða breytingu á útgjöldum almannatrygginga í kjölfar hækkunarinnar sem nemur rúmum 4,4 milljörðum kr. á yfirstandandi ári miðað við að hækkunin komi til framkvæmda í júní. Áætluð útgjaldaaukning á næsta ári nemur tæpum 6,2 milljörðum kr. Nefndin telur mikilvægt að kjarabætur á vinnumarkaði skili sér til lífeyrisþega svo að þeir dragist ekki aftur úr og staða þeirra verði ekki mun verri en annarra þjóðfélagsþegna. Brýnt er að hækkunin komi til framkvæmda strax um næstu mánaðamót.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. maí 2011.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Guðmundur Steingrímsson.


Ásmundur Einar Daðason.



Íris Róbertsdóttir,


með fyrirvara.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.