Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1511  —  237. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Frá 1. minni hluta viðskiptanefndar.


    Fyrsti minni hluti mótmælir harðlega þeirri ákvörðun meiri hluta nefndarinnar, þ.e. þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, að afgreiða málið á fundi nefndarinnar í gær til 3. umræðu í þinginu. Með ákvörðun sinni ákvað meiri hlutinn að afgreiða málið til lokaumræðu án þess að efnislegri umræðu væri lokið.
    Minni hlutinn óskaði eftir því á fundinum að fyrir nefndina yrðu kallaðir þeir fulltrúar stjórnvalda sem hafa tekið þátt í rýnivinnu vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu til að fjalla um það málefnasvið sem frumvarpið tekur til. Ástæða þessarar beiðni er sú að ein þeirra tilskipana sem frumvarpið byggist á, tilskipun 2009/14/EB, hefur ekki verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að ástæða þess að tilskipunin hafi ekki verið tekin upp í samninginn sé afstaða Norðmanna sem standi fast á sínum hagsmunum. Í þeirra innstæðutryggingakerfi er tryggingaverndin mun hærri en samkvæmt evrópurétti og virðast þeir því ekki sætta sig við hámarkstryggingavernd upp á 100.000 evrur. Fyrir liggur að frumvarp til nýrrar tilskipunar á sama sviði er nú til meðferðar á Evrópuþinginu. Vera kann að sú tilskipun verði samþykkt þar áður en tilskipun 2009/14/EB verður tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem gerir samþykkt frumvarpsins afar einkennilega.
    Beiðni um frekari umfjöllun byggðist einnig á því sjónarmiði að nauðsynlegt væri að fá upplýsingar um það frá þeim embættismönnum sem hafa komið fram fyrir Íslands hönd í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hvort sambandið hefur gert kröfu um eða sett þrýsting á íslensk stjórnvöld um að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt í tengslum við aðildarumsóknina. Að mati 1. minni hluta er mikilvægt að þær upplýsingar liggi fyrir áður en Alþingi tekur afstöðu til frumvarpsins þar sem tilskipunin sem það byggist á fer freklega gegn hagsmunum íslenska ríkisins auk þess sem efni hennar gengur ekki upp. Íslenska þjóðin hefur brennt sig illilega á því að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins um innstæðutryggingar athugasemdalaust eins og Icesave-málið er besta dæmið um.
    Því miður urðu fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í viðskiptanefnd ekki við málefnalegri beiðni minni hlutans um frekari umfjöllun og í þess stað var minni hlutanum bent á að hann gæti aflað sér upplýsinga um stöðu rýnivinnunnar í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á netinu og umbeðnir gestir því ekki kallaðir á fund nefndarinnar.
    Fyrsti minni hluti mótmælir þessum vinnubrögðum harðlega. Það hlýtur að vera einsdæmi að alþingismönnum sem óska eftir jafnmikilvægum upplýsingum frá íslenskum embættismönnum og þeim sem hér um ræðir sé boðið upp á þá málsmeðferð að leita fanga um umbeðnar upplýsingar á netinu í stað þess að fá tækifæri til þess að ræða milliliðalaust við þá sem í hlut eiga á fundum nefndarinnar. 1. minni hluti fordæmir vinnubrögð af þessu tagi. Þau lýsa ekki vilja meiri hlutans til opinna og gagnsærra vinnubragða á löggjafarþinginu. Jafnframt lýsir 1. minni hluti þeirri von sinni að þau vinnubrögð sem voru viðhöfð á fundi viðskiptanefndar séu ekki fordæmisgefandi um framtíðarvinnubrögð í fastanefndum Alþingis, ekki síst þegar um er að tefla jafnmikilvægt frumvarp og hér um ræðir. Sé þetta raunin er illa komið fyrir starfsháttum og vinnubrögðum á Alþingi.

Alþingi, 20. maí 2011.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Sigurður Kári Kristjánsson.