Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1512  —  237. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Frá 2. minni hluta viðskiptanefndar.


    Í frumvarpinu er lagt til að Tryggingasjóður sparisjóðanna verði lagður niður og eftir 2. umræðu var samþykkt breytingartillaga meiri hlutans um að bæta við frumvarpið ákvæði í lög um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið verði á um tilvist öryggissjóðs sparisjóðanna. Gert er ráð fyrir því að eignir tryggingasjóðsins renni inn í öryggissjóðinn og myndi stofnfé hans. Hlutverk öryggissjóðs sparisjóðanna er að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og fjárhagslegt öryggi sparisjóða. Það sjónarmið hefur komið fram að tilvist öryggissjóðsins geti haft áhrif á hið áhættutengda iðgjald ef sparisjóðirnir geti við ákveðnar aðstæður fengið lán frá sjóðnum.
    Annar minni hluti telur nauðsynlegt að grípa til mun umfangsmeiri breytinga á lögum en lagt er til með frumvarpinu til að tryggja öryggi innstæðueigenda og draga úr kerfisáhættu. Nauðsynlegt kann að vera að gera forgang innstæðna við gjaldþrot varanlegan líkt og bent var á í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Jafnframt þarf að skoða hvort setja beri hámark á það hversu hátt hlutfall innstæðna getur verið í einni innlánsstofnun og hvort aðskilja beri starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Bent hefur verið á að kerfisáhætta sé ekki bara í löndum með mjög stórt bankakerfi, sem sé mun stærra en landsframleiðsla í viðkomandi landi, heldur virðast stærri bankar einnig vera þeir sem eru hvað áhættusæknastir og sækja hart fram í að stækka út fyrir landsteinana. Smærri lönd gætu notað skattkerfið þannig að skatthlutfall hækki eftir stærð banka.
    Annar minni hluti lýsir yfir áhyggjum af þeirri gengisáhættu sem felst í því að tryggja innstæður að 100.000 evrum í íslenskum krónum. Sem aðili að EES-samningnum þurfum við að innleiða í íslenska löggjöf reglur um innstæðutryggingar sem eru ekki í íslenskum krónum heldur í evrum sem gerir það að verkum að gengisáhætta verður innbyggð í kerfið. Reikna má með að gengi íslensku krónunnar muni veikjast ef banki fellur, sérstaklega einn af hinum þremur stóru, og hámarkstryggingin er tilgreind í evrum þótt hana eigi að umreikna í íslenskar krónur. 2. minni hluti bendir einnig á að það er þekkt í nágrannalöndum okkar að starfandi fjármálafyrirtæki skulu greiða sérstök iðgjöld vegna áfalla sem innstæðutryggingakerfi verða fyrir vegna fallinna banka, t.d. Bandaríkin og Bretland. Því er einkennilegt að hér virðist stefnt að því að aðskilja eldri innstæðutryggingasjóð frá þeim nýja og láta skattgreiðendur greiða beint fyrir innstæðutryggingar í stað starfandi fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra. Nú liggur fyrir breytingartillaga frá meiri hlutanum þess efnis að greitt verði úr sjóðnum í íslenskum krónum og hefur því að hluta verið komið til móts við áhyggjur um gengisáhættu. 2. minni hluti telur mikilvægt að ákvæði þess efnis verði áfram í lögum svo fremi að íslenskan krónan sé gjaldmiðill hér á landi. Fram kom við umfjöllun um málið að í innstæðutryggingakerfi Noregs er aðeins greitt út í norskum krónum.
    Til að draga úr áhættusækni má velta því upp hvort unnt væri að setja hámark á það hversu mikið bankar geta skuldsett sig. Að undanförnu hefur nokkuð borið á umræðu um mikilvægi þess að geta sótt fjármuni út fyrir landsteinana. Spurning er hvort innstæða sé til fyrir slíku, þ.e. hvort við þyrftum ekki frekar á því að halda að nýta þá fjármuni sem við eigum til að borga niður skuldir.
    Annar minni hluti átelur vinnubrögð meiri hlutans við meðferð málsins. Það liggur fyrir að tilskipun 2009/14/EB, sem er ein þeirra tilskipana sem frumvarpið byggist á, hefur ekki verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þá kom fram að fyrir Evrópuþinginu sé til meðferðar ný tilskipun um innstæðutryggingar. Minni hlutinn óskaði eftir nánari upplýsingum um þá tilskipun sem og að farið yrði yfir það í nefndinni hvort Evrópusambandið hefði gert kröfu um eða sett þrýsting á íslensk stjórnvöld um að innleiða tilskipun 2009/14/EB inn í íslenskan rétt í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Telja verður mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir áður en frumvarp þetta verður gert að lögum þar sem tilskipunin sem að baki býr fer freklega gegn hagsmunum Íslands auk þess sem efni hennar gengur ekki upp í framkvæmd. Þjóðin hefur nú þegar brennt sig á tilskipunum Evrópusambandsins um innstæðutryggingar, eins og Icesave-málið er besta dæmið um. Meiri hlutinn varð ekki við beiðninni og var minni hlutanum bent á að afla sér upplýsinga um stöðu rýnivinnunar vegna aðildarumsóknarinnar á netinu. 2. minni hluti mótmælir því harðlega að um svo stórt mál sem hér um ræðir sé ekki unnt að ræða frekar milliliðalaust við íslenska embættismenn á nefndarfundi.
    Ekki á að samþykkja frumvörp sem lög frá Alþingi af skyldurækni eða til að geta lýst því yfir að lög um tiltekið efni hafi verið sett. Mikilvægt er að vanda vel til löggjafar um svo mikilvægt efni og tryggja þarf hagsmuni landsins.

Alþingi, 20. maí 2011.



Eygló Harðardóttir.