Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 710. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
2. uppprentun.

Þskj. 1529  —  710. mál.
Nýr töluliður.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda (viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir).

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Glóeyju Finnsdóttur frá umhverfisráðuneytinu, Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Svein Ólafsson og Margréti Helgu Stefánsdóttur frá Flugmálastjórn Íslands. Umsagnir bárust frá Flugmálastjórn Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum iðnaðarins.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleiddar verði í íslenskan rétt reglur um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, ETS-kerfið. Viðskiptakerfið hefur verið virkt innan ESB frá árinu 2005 og er þar meginstjórntæki á sviði loftslagsmála og í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Með kerfinu er stefnt að því að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda á sem hagkvæmastan hátt. EFTA-ríkin hafa verið þátttakendur í viðskiptakerfinu frá árinu 2008 en þar sem sú starfsemi á Íslandi sem fallið hefði undir kerfið var sérstaklega undanþegin hefur kerfið enn ekki komist í gang hérlendis.
    Frá 1. janúar 2012 fellur allt flug innan Evrópska efnahagssvæðisins, til þess og frá undir kerfið og frá 1. janúar 2013 nær kerfið til fleiri tegunda svonefnds staðbundins iðnaðar og gróðurhúsalofttegunda en nú. Þá myndast einn sameiginlegur pottur losunarheimilda fyrir allt svæðið og ákvarðanir um úthlutun byggjast á árangursviðmiðum sem verða þau sömu fyrir allt svæðið. Til þess að tryggja að íslensk fyrirtæki sitji við sama borð og fyrirtæki annars staðar á EES-svæðinu er mikilvægt að fylgja við þetta sömu tímafrestum og önnur ríki. Í þessu frumvarpi eru í 6. gr. ákvæði um losunarleyfi iðnfyrirtækja (í álframleiðslu, fiskimjölsvinnslu o.fl.), en að öðru leyti ekki um þau fjallað, og er á næsta þingi að vænta frumvarps um þátttöku iðnstarfsemi í viðskiptakerfinu á grundvelli tilskipunar 2009/29/EB sem er á leið inn í EES-samninginn.Tekur þetta frumvarp fyrst og fremst til flugstarfseminnar.
    Þegar flugstarfsemi verður felld undir kerfið þurfa flugrekendur að standa árlega skil á losunarheimildum sem samsvara því magni gróðurhúsalofttegunda sem viðkomandi starfsemi losaði í andrúmsloftið á næstliðnu almanaksári. Af því sem kemur til úthlutunar úr sameiginlega pottinum verður 85% úthlutað endurgjaldslaust en 15% heimildanna fara á uppboðsmarkað. Gildir það fyrirkomulag óbreytt til 2020. Þessi uppboðsmarkaður er sameiginlegur nema aðildarríki kjósi að reka eigin uppboðsmarkað en þau þurfa þá að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. um fjölda losunarheimilda og stærð uppboða. Þrjú þeirra, Pólland, Þýskaland og Bretland, hafa ákveðið að reka eigin markað en slíkur sérmarkaður kemur ekki til greina fyrir Íslandi frekar en Noreg og önnur smærri ríki. Hvert ríki fær sinn hluta teknanna af sölu á sameiginlega markaðnum, en hefur engin áhrif á afdrif „síns“ hluta heimildanna.
    Á uppboðsmarkaðnum getur hver sem er keypt heimildir, til eigin nota, til að selja aftur síðar eða jafnvel til að draga úr losun. Hægt verður að framselja heimildirnar og kaupa og selja að vild. Hver heimild er hins vegar einungis nýtt einu sinni og til að fá úthlutað heimild þarf að uppfylla ákveðin skilyrði.
    Við innleiðingu viðskiptakerfisins hér á landi þurfa allt að 170 flugrekendur að sækja um losunarleyfi hérlendis. Af þeim eru 135–140 tiltölulega smáir flugrekendur sem áður hafa verið í umsjón annarra ríkja, þar af um 45 sem flytjast hingað frá Bretlandi, 16 frá Frakklandi og 15 frá Ítalíu. Um 35 flugrekendur frá ríkjum utan EES-svæðisins koma í fyrsta sinn inn í kerfið, einkum frá Bandaríkjunum og Kanada. Stærsti nýi flugrekandinn verður Flugfélag Íslands. Aðrir flugrekendur hafa verið á lista hjá öðrum ríkjum vegna flugs innan ESB og skilað þangað eftirlitsáætlunum frá árinu 2009, t.d. Icelandair í Bretlandi.
    Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Samtök atvinnulífsins, flugrekendur og þá iðnrekendur sem efni frumvarpsins varðar. Þá kom fram í máli gesta nefndarinnar að forráðamenn fyrirtækjanna sem við sögu koma gera sér góða grein fyrir þeim breytingum sem í vændum eru og leggja áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga sem fyrst. Þeirri athugasemd var komið á framfæri að tímafrestir í frumvarpinu gætu verið nokkuð knappir. Til að bæta úr því leggur meiri hlutinn til breytingar á dagsetningum í ákvæðum sem á að bæta við lögin, ákvæði til bráðabirgða I og II, þannig að nægjanlegt svigrúm sé fyrir alla aðila að bregðast við nýjum lögum.
    Í umsögn Flugmálastjórnar Íslands er þeirri athugasemd komið á framfæri að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir reglubundinni aðkomu Flugmálastjórnar við yfirferð eftirlitsáætlana í samvinnu við Umhverfisstofnun. Huga þurfi að kostnaði vegna þess verkefnis. Hjá umhverfisráðuneytinu var upplýst að ekki er enn þá ljóst hvert umfang þessa verkefnis verður og kemur ekki í ljós fyrr en byrjað verður að vinna eftir væntanlegum lögum. Meiri hlutinn beinir því til forráðamanna Umhverfisstofnunar og Flugmálastjórnar að fylgjast grannt með þróun þessa samstarfs og benda ráðuneytum sínum á hugsanlegan kostnaðarauka.
    Meiri hlutinn leggur til smávægilegar orðalagsbreytingar á texta frumvarpsins auk lagatæknilegra breytinga og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. Í stað orðanna „á sem kostnaðarhagkvæmastan“ komi: á hagkvæman og skilvirkan.
     2.      Við 3. gr. Í stað orðsins „Flugrekstraraðili“ í 7. tölul. b-liðar og hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi í viðeigandi beygingarmynd: flugrekandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Við 6. gr. Orðin „skv. 14. gr. e“ í e-lið 3. mgr. falli brott.
     4.      Við 7. gr. Í stað dagsetningarinnar „1. júní 2011“ í 3. mgr. c-liðar (14. gr. c) komi: 15. júní 2011.
     5.      Við 9. gr. Í stað dagsetninganna „30. maí 2011“ í a-lið (I.) og „31. maí 2011“ í b-lið (II.) komi: 15. júní 2011.
     6.      Við 10. gr. Í stað orðanna „kerfi Bandalagsins“ í 3. og 4. tölul. b-liðar (II. viðauka) kemur: viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda.

Alþingi, 24. maí 2011.



Mörður Árnason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Birgir Ármannsson.



Álfheiður Ingadóttir.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


með fyrirvara.


Kristján Þór Júlíusson.



Skúli Helgason.


Birgitta Jónsdóttir,


með fyrirvara.