Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 572. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1531  —  572. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um Hagþjónustu landbúnaðarins, nr. 63/1989, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, ábúðarlögum, nr. 80/2004, og lögum um búfjárhald, nr. 103/2002 (niðurlagning Hagþjónustu landbúnaðarins).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Guðrúnu Jónsdóttur frá Hagstofu Íslands. Þá átti nefndin símafund með Ágústi Sigurðssyni frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Umsagnir bárust frá Samtökum atvinnulífsins, Háskólanum á Akureyri, Sambandi garðyrkjubænda, Hagstofu Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að Hagþjónusta landbúnaðarins verði lögð niður og verkefni hennar færð undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Er ætlunin samkvæmt frumvarpinu að ráðherra útvisti verkefni er varða hagþjónustu við landbúnað til hæfra aðila í gegnum þjónustusamninga. Í frumvarpinu er framangreind tillaga útfærð á þann hátt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er falin yfirstjórn með hagþjónustu við landbúnað í stað Hagþjónustu landbúnaðarins. Þá er gerð breyting á þeim verkefnum sem teljast munu til hagþjónustuverkefna og ráðherra heimilað að útvista þau til Landbúnaðarháskóla Íslands, Hagstofu Íslands, Háskóla Íslands eða annars hæfs aðila. Ákvæðum um gjaldtöku vegna veittrar þjónustu er breytt í því skyni að þeir sem fara með hagþjónustuverkefni geti innheimt tekjur fyrir veitta þjónustu og ráðherra heimilað að kveða nánar á um rekstur og tilhögun verkefnanna með reglugerð. Að lokum eru verkefni sem Hagþjónustan hefur haft samkvæmt öðrum lögum færð í hendur þeirra aðila sem fara munu með hagþjónustuverkefni.
    Samkvæmt frumvarpinu er talið að hægt sé að tryggja framgang verkefna Hagþjónustu landbúnaðarins með sveigjanlegri hætti en verið hefur. Því til stuðnings kemur m.a. fram í frumvarpinu að í minnisblaði vinnuhóps sem fór yfir starfsemi Hagþjónustu landbúnaðarins hafi verið settar fram tillögur að framtíðarfyrirkomulagi málefna hagþjónustu landbúnaðar. Segir einnig að tillögurnar séu settar fram annars vegar þar sem Hagþjónusta landbúnaðarins sé aðkreppt fjárhagslega og hins vegar þar sem samlegðaráhrif af sameiningu hennar við annað stjórnvald séu möguleg. Þá hafi það verið mat vinnuhópsins að óbreytt fyrirkomulag á rekstri stofnunarinnar væri vart fær kostur lengur þar sem blikur væru á lofti um auknar niðurfærslur fjárlagaheimilda á komandi árum og að óvissa væri um sértekjur stofnunarinnar. Þá benti vinnuhópurinn á að aðeins væri unnt að mæla með óbreyttu fyrirkomulagi varðandi hagþjónustu við landbúnað að framlög til stofnunarinnar yrðu stóraukin.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur m.a. fram að niðurlagning stofnunarinnar muni leiða til niðurfalls fjárveitingar ríkissjóðs frá og með fjárlögum 2012, annars vegar 27,9 millj. kr. útgjaldaheimildar og hins vegar sértekna að fjárhæð 3,1 millj. kr. Þá sé gert ráð fyrir 24,8 millj. kr. greiðslu úr ríkissjóði í gildandi fjárlögum. Einnig kemur fram að gera þurfi tillögur um nýjar fjárveitingar til hagþjónustuverkefna á grundvelli þjónustusamninga og bendir skrifstofan í því sambandi á að rúmar 3,3 millj.kr. séu nú greiddar í húsaleigu fyrir stofnunina og forstöðumann hennar á ári auk þess sem til falli afleiddur kostnaður í tengslum við rekstur stofnunarinnar. Því telur skrifstofan ljóst að eitthvert hagræði geti skapast við niðurlagningu stofnunarinnar en það hafi þó ekki verið metið sérstaklega.
    Í umsögnum umsagnaraðila er framlagningu frumvarpsins ýmist fagnað eða ekki gerðar athugasemdir við efni þess eða ákvæði. Kemur þar iðulega fram að frumvarpið sé jákvætt enda hafi það í för með sér aukna samþættingu hagþjónustuverkefna við starfsemi háskóla og stofnana sem sinna sambærilegri starfsemi. Telja umsagnaraðilar slíkt geta leitt annars vegar til hagræðingar í ríkisrekstri og hins vegar til aukinna tækifæra á sviði hagrannsókna og öflunar upplýsinga úr landbúnaði. Voru téð sjónarmið ítrekuð af gestum á fundi nefndarinnar.
    Aðeins ein athugasemd var gerð við ákvæði frumvarpsins. Háskólinn á Akureyri bendir á að ástæðulaust sé að nefna í 5. gr. frumvarpsins að Háskóli Íslands skuli koma til greina til að sinna hagþjónustuverkefnum. Er það álit háskólans að nær væri að benda sérstaklega á landsbyggðarháskóla eins og Háskólann á Hólum eða Háskólann á Akureyri sem eru í landbúnaðarhéruðum og hafi mjög látið sig varða rannsóknir er snerta landsbyggðina og atvinnuvegi hennar.
    Nefndin vekur athygli á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um útvistun verkefna til Bændasamtaka Íslands frá því í mars sl. kemur eftirfarandi ábending fram: „Að mati Ríkisendurskoðunar verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að tryggja óhlutdræga og vandaða hagskýrslugerð fyrir íslenskan landbúnað.[…]“ Viðbrögð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við ábendingunni voru eftirfarandi: „Ráðuneytið tekur undir að nauðsynlegt er að bæta hagsýslugerð í landbúnaði þannig að tryggja megi óhlutdræga og vandaða hagsýslusöfnun. Ráðuneytinu er kunnugt um að á vegum Hagstofu Íslands er nú unnið að þessu verkefni og hefur ráðuneytið átt fundi með Hagstofunni þar að lútandi. Þá er minnt á hlutverk Hagþjónustu landbúnaðarins, en hún starfar skv. lögum nr. 63/1989.“
    Á fundum sínum ræddi nefndin sérstaklega um þau störf sem hafa verið unnin á vegum Hagþjónustu landbúnaðarins. Var þar m.a. bent á að frumvarpið fæli mögulega í sér fækkun starfa í Borgarfirði. Þá kom fram það sjónarmið að slík starfafækkun væri þyngra högg fyrir landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið auk þess sem hún kynni að hafa í för með sér minnkandi fjölbreytni starfa. Er það álit nefndarinnar að verulega brýnt sé að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið taki tillit til slíkra sjónarmiða þegar það útvistar hagþjónustuverkefni á grundvelli frumvarpsins, verði það að lögum. Þá beinir nefndin því til þeirra stofnana sem taka munu við hagþjónustuverkefnum að þær hafi hið sama í huga við skipulag vinnslu slíkra verkefna.
    Nefndin ræddi sérstaklega athugasemd Háskólans á Akureyri við 5. gr. frumvarpsins. Var á það bent að mögulega gætu aðrir háskólar unnið að hagþjónustuverkefnum. Var t.d. nefnt að Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum kynnu mögulega að hafa áhuga og faglegan styrk til að takast á við slík verkefni. Álit nefndarinnar er að gæta verði faglegs jafnræðis og byggðahagsmuna við úthlutun verkefna til háskólastofnana. Þannig verði verkefnum helst úthlutað til þeirra háskóla sem hafa starfsfólk og nauðsynleg tæki sem þarf til að sinna verkefnum á hagkvæman, skilvirkan og faglegan hátt að teknu tilliti til þess að meginhluti landbúnaðarstarfs er á landsbyggðinni. Af þeim sökum gerir nefndin þá tillögu til breytingar að Háskóli Íslands verði ekki sérstaklega tilgreindur sem aðili sem ráðherra sé heimilt að gera samninga við um hagþjónustuverkefni heldur látið við það sitja að nefna Landbúnaðarháskóla Íslands eða aðra háskóla og Hagstofu Íslands eða aðra hæfa aðila.
    Í     ljósi alls framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

    

BREYTINGU:    Í stað orðanna „Hagstofu Íslands, Háskóla Íslands eða annan hæfan aðila“ í 5. gr. komi: eða aðra háskóla og Hagstofu Íslands eða aðra hæfa aðila.

Alþingi, 25. maí 2011.Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.Helgi Hjörvar.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Björn Valur Gíslason.Jón Gunnarsson.


Róbert Marshall.


Atli Gíslason.