Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 676. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1533  —  676. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 74/1996, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas Heiðar frá utanríkisráðuneyti og Ásu Ögmundsdóttur frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust umsagnir um málið frá Persónuvernd, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins.
    Með frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda bókun sem gerð var í París 27. maí 2010 um breytingu á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum milli aðildarríkja Evrópuráðsins og aðildarlanda Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem gerður var í Strassborg 25. janúar 1988. Samningurinn var fullgiltur með heimild í lögum nr. 74/1996 og öðlaðist gildi gagnvart Íslandi 1. nóvember 1996. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæðum bókunarinnar verði veitt lagagildi hér á landi þegar bókunin hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar.
    Í athugasemdum við frumvarpið segir að tilgangurinn með gerð bókunarinnar sé að færa samninginn að þeim alþjóðlega mælikvarða sem nú gildir um upplýsingaskipti og snúi einkum að aðgengi stjórnvalda að upplýsingum sem eru í vörslu banka og annarra fjármálafyrirtækja. Auk þess verður ríkjum sem hvorki eru aðilar að OECD né Evrópuráðinu gefinn kostur á að gerast aðilar að samningnum að undangengnu samþykki aðildarríkjanna. Samningurinn sem bókunin er gerð við kveður meðal annars á um skipti á upplýsingum, sameiginlegar skattrannsóknir, útvegun gagna og skjala og aðstoð við innheimtu skatta, en jafnframt er fullveldi ríkja og réttindi skattgreiðenda virt og vernd tryggð í því skyni að gæta trúnaðar vegna þeirra upplýsinga sem veittar eru á grundvelli samningsins. Bókunin um breytingu á samningnum kveður á um strangari skyldur aðildarríkja til að skiptast á upplýsingum frá því sem nú er.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem er fylgiskjal með frumvarpinu segir að breytingarnar sem í bókuninni felast muni auka möguleika íslenskra stjórnvalda á því að fá upplýsingar um tekjur og eignir aðila erlendis og geti þar með gert skattlagningu réttari og bætt innheimtu á opinberum gjöldum.
    Í fylgiskjali með frumvarpinu eru ákvæði bókunarinnar sett upp á íslensku og ensku á greinargóðan hátt. Nefndin hefur áður talið nægjanlegt og eðlilegt, með tilliti til íslenskra laga og meðferðar mála á Alþingi (sjá nefndarálit á þskj. 1024, 492. mál á 120. löggjafarþingi) að alþjóðasamningar séu lögfestir á íslensku. Hin enska gerð bókunarinnar við samninginn er birt í frumvarpinu og er eðlilegt skýringargagn en hún á að mati nefndarinnar ekki fremur erindi í Stjórnartíðindi og lagasafn heldur en texti samningsins á sínum tíma. Nefndin vekur enn athygli á að opinber tungumál samningsins eru enska og franska og enda þótt einungis íslenski textinn verði lögtekinn geta enski og franski textinn verið mikilvægir, m.a. til túlkunar á vafatilvikum um merkingu orða samningsins. Er því mikilvægt að sérfræðingar og allur almenningur eigi greiðan aðgang að samningnum á frummálum hans jafnt sem íslensku þótt einungis hin íslenska þýðing hans birtist í Stjórnartíðindum og lagasafni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. maí 2011.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Helgi Hjörvar.Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.