Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 580. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1546  —  580. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997 (gjaldtökuheimildir).

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til 3. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eirík Þorláksson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis.
    Nefndinni bárust ábendingar um að skýra þyrfti nánar þær grundvallarreglur sem gilda um þjónustugjöld og dagsektir almenningsbókasafna.
    Óheimilt er að taka gjald fyrir afgreiðslu eða úrlausn stjórnvalda, nema lagastoð sé fyrir hendi. Meginregla þessi byggist á þeirri grundvallarreglu að stjórnsýslan er lögbundin sem og að íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir verða almennt að byggjast á skýrri lagaheimild en slíkar heimildir verða ekki skýrðar rúmt. Gæta verður þess við töku þjónustugjalda fyrir þjónustustarfsemi að gjald sé ekki heimt fyrir aðra þjónustu en lagaheimildin kveður á um. Ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalda verður að byggjast á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Ef ekki er unnt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði er heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Einnig er mikilvægt að gjaldskrá byggist á því sjónarmiði að endurgoldinn sé kostnaður sem almennt stafar af þeirri þjónustu sem í té er látin. Óheimilt er að taka hærra gjald. Af þessu má sjá að það hefur grundvallarþýðingu að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verða undir þjónustugjaldið þegar meta á hversu hátt það á að vera. Með hliðsjón af þessu vill nefndin leggja til þær breytingar að afmarka nánar hvaða atriði falla undir þjónustugjöld almenningsbókasafna, þ.e. laun starfsfólks sem sinnir þjónustunni og sérstakan efniskostnað vegna hennar.
    Þessu nátengt leggur nefndin einnig til að afmarka nánar heimild almenningsbókasafna til að taka gjöld fyrir skemmdir eða eyðileggingu á gögnum, en þær skulu nema að hámarki innkaupsverði viðkomandi efnis.
    Í 1. gr. frumvarpsins er vikið að innheimtu dagsekta. Eins og segir í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6010/2010 geta dagsektir ekki talist til þjónustugjalda. Með greiðslu dagsekta er ekki verið að inna af hendi endurgjald fyrir sérgreinda þjónustu heldur er um viðurlög að ræða sökum þess að reglur hafa verið brotnar. Dagsektir eru óbein þvingunarúrræði þar sem mönnum er gert skylt að reiða af hendi fjárgreiðslu samkvæmt ákvörðun stjórnvalds þar sem þeir hafa látið undir höfuð leggjast að fullnægja ákveðinni skyldu sem á þeim hvílir. Ákvörðun um að beita þvingunarúrræðum verður ávallt að byggjast á skýrri lagaheimild og hefur meðalhófsreglan ávallt sérstaka þýðingu við beitingu þeirra. Í ljósi eðlis dagsekta sem þvingunarúrræðis leggur nefndin til þá breytingu að í 1. gr. frumvarpsins verði kveðið á um hámark dagsekta, þ.e. að samanlagðar dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest megi ekki vera hærri en 4.000 kr. fyrir hvern lánþega. Þá skuli ráðherra að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna gefa út gjaldskrá um dagsektir. Jafnframt vill nefndin í ljósi skýrleika lagaheimilda leggja til nýtt ákvæði sem feli í sér breytingu á 15. gr. laganna þess efnis að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um innheimtu dagsekta og bóta vegna safnefnis sem glatast eða skemmist í meðförum notenda.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      1. gr. orðist svo:
                   14. gr. laganna orðast svo:
                  Almenningsbókasöfnum er heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu sína, svo sem fyrir útgáfu útlánsskírteina, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti.
                  Hvert safn setur gjaldskrá skv. 1. mgr. að fengnu samþykki bókasafnsstjórnar og skal hún birt notendum á aðgengilegan hátt. Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður viðkomandi safns vegna þjónustunnar og er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:
              a.      launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
              b.      sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.
                  Almenningsbókasöfnum er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda samkvæmt þeim reglum sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur skv. 15. gr. og gjaldskrá sem ráðherra setur skv. 4. mgr.
                  Ráðherra skal gefa út gjaldskrá um dagsektir og bætur skv. 3. mgr. að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna. Samanlagðar dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest, sem ákveðnar eru með reglugerð, mega aldrei vera hærri en 4.000 kr. fyrir hvern lánþega. Bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda skulu að hámarki nema innkaupsverði viðkomandi efnis.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um innheimtu dagsekta fyrir afnot fram yfir skilafrest og bóta fyrir safnefni almenningsbókasafna sem glatast eða skemmist í meðförum notenda.

    Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. maí 2011.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Oddný G. Harðardóttir.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Íris Róbertsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.