Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1561  —  579. mál.
Breytingartillaga.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum (skrotóbak).

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björgu Fenger og Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Viðar Jensson frá embætti landlæknis, Ívar J. Arndal og Svein Víking Árnason frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og Atla Kristjánsson hjá Rolf Johansen & co.
    Þá bárust umsagnir frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Fræðslu og forvörnum, Krabbameinsfélagi Íslands, landlækni, Landspítala, Lýðheilsustöð, Læknafélagi Íslands, ríkislögreglustjóra, Rolf Johansen & co. ehf., tollstjóranum í Reykjavík og Viðskiptaráði Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að draga úr neyslu á reyklausu tóbaki og banna innflutning, framleiðslu og sölu á skrotóbaki, en það hefur ekki verið til sölu á Íslandi síðastliðin ár. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að neysla reyklauss tóbaks hefur aukist á meðal ungs fólks og þá sérstaklega notkun neftóbaks í munn í hópi ungra karlmanna.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að tóbaksframleiðendur leggja aukna áherslu á markaðssetningu á reyklausu tóbaki sem blandað er bragð- og lyktarefnum öðrum en þeim sem notuð eru í hefðbundna tóbaksframleiðslu. Í tóbaksplöntunni er nikótín sem er ávanabindandi fíkniefni og er í öllu tóbaki, hvort sem um er að ræða reyktóbak eða reyklaust tóbak og ávanabinding og nikótínfíkn er því óháð því hvernig inntakan fer fram. Reyklaust tóbak er heilsuspillandi eins og fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós og meðal annars fylgir notkuninni aukin hætta á krabbameini í munni. Stóraukin sala ÁTVR á grófkorna íslenska neftóbakinu styrkir niðurstöðu kannana sem benda til þess að ungir karlmenn noti í auknum mæli reyklaust tóbak og að þeir noti neftóbakið sem munntóbak. Bragð- og lyktarbætt grófkorna neftóbak hefur ekki verið fáanlegt hér á landi fram til þessa og eðlilegt að koma í veg fyrir markaðssetningu slíkra vörutegunda sem sérstaklega er beint að unglingum eða ungu fólki. Með bragð- og lyktarbæti er hér átt við efni sem draga úr tóbaksbragði, svo sem íblöndun ávaxtabragðs eða myntu. Jafnframt er mikilvægt að koma í veg fyrir vöruþróun þeirra vara sem nú þegar eru á markaði í þessa átt.
    Aðeins ein tegund af neftóbaki er seld hér á landi, íslenska neftóbakið sem ÁTVR framleiðir. Var á það bent í umsögnum að líta megi svo á að það neftóbak sem ÁTVR framleiðir sé í raun bragðbætt þar sem salti, ammoníaki og pottösku er blandað við tóbakslaufin, meðal annars til rotvarnar. Þar sem salt er skilgreint sem bragðefni upp að vissu marki er því ljóst að b-liður frumvarpsins bannar í raun framleiðslu og sölu þess en var það ekki ætlunin með frumvarpinu. Við umfjöllun nefndarinnar var því skoðað hvort hægt væri að koma í veg fyrir markaðssetningu bragð- og lyktarblandaðs neftóbaks með öðrum hætti og var það meðal annars athugað í samráði við ÁTVR og embætti landlæknis. Niðurstaðan var sú að eðlilegra væri að ÁTVR hefði heimild til að hafna vörum sem sérstaklega eru markaðssettar fyrir ungt fólk. Nú er til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd þingsins frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak (703. mál, þskj. 1222). Í því frumvarpi er kveðið á um heimild ÁTVR til að hafna áfengri vöru ef hún inniheldur til að mynda gildishlaðnar og ómálefnalegar upplýsingar, særir blygðunarkennd, gefur til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu eða brjóti á annan hátt í bága við almennt velsæmi. Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að slíkt heimildarákvæði nái einnig yfir vöruval á tóbaki og hvetur meiri hlutinn til að slíkri heimild verði bætt inn í frumvarpið. Ef það er gert er ljóst að ÁTVR mun hafa þá heimild sem nauðsynleg er til að hafna tóbaksvörum sem er sérstaklega beint að ungu fólki með tilliti til bragð- og lyktarefna, útlits, stærðar og lögunar umbúða, heiti vöru og markaðssetningu og framsetningu hennar að öðru leyti. Að mati meiri hlutans er eðlilegt að slíkt ákvæði verði í lögum um verslun með áfengi og tóbak en ekki í lögum um tóbaksvarnir. Til að hnykkja á mikilvægi þess að unnið sé gegn óæskilegri tóbaksnotkun ungs fólks leggur nefndin til breytingar á 1. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, þannig að markmið laganna verði einnig að vinna gegn tóbaksnotkun ungs fólks og takmarka framboð á tóbaksvörum sem sérstaklega er ætlað að höfða til þess.
    Á Íslandi hefur mikill árangur náðst af tóbaksvarnastarfi samkvæmt niðurstöðum kannana um tíðni reykinga. Í könnunum Rannsóknar og greiningar við Háskólann í Reykjavík kemur í ljós að hlutfall nemenda í 10. bekk grunnskóla sem reykja daglega var 7% árið 2010 samanborið við 12% árið 2004. Þessum árangri hefur verið náð með öflugu forvarnastarfi sem styðst við heildstæða löggjöf. Það er því miður að undanfarin ár hefur neysla munntóbaks aukist, einkum meðal ungra karlmanna. Í mælingum sem Lýðheilsustöð hefur látið gera kemur í ljós að stórt hlutfall ungra karlmanna notar tóbak í vörina. Um það bil fimmti hver piltur á aldrinum 16–23 ára segist nota tóbak í vörina og 15% gera það daglega. Samkvæmt sömu mælingum segjast um 80% þeirra sem nota tóbak í munn eingöngu nota íslenska neftóbakið.
    Enginn einn þáttur tóbaksvarna hefur eins mikil áhrif og verðlagning tóbaks skv. 1. tölul. 6. gr. Rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Með háu verði á tóbaksvörum er dregið úr reykingum og annarri tóbaksnotkun. Þetta á sérstaklega við um ungt fólk sem hefur oftast of litlar tekjur til að standa undir mikilli tóbaksnotkun.
    Að mati meiri hlutans þarf að beita öllum tiltækum ráðum sem byggjast á gagnreyndri þekkingu í baráttunni við að ungt fólk hefji tóbaksnotkun. Auk þess að hækka verð þarf að gera löggjöf skýrari, takmarka aðgengi ungs fólks að tóbaki, bæta viðvörunarmerkingar á tóbaksvörum og byggja ofan á öflugt fræðslu- og forvarnastarf á sviði tóbaksvarna. Fjölmörg verkefni hafa verið unnin á sviði tóbaksvarna sem miða sérstaklega að því að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji neyslu tóbaks. Nýleg dæmi um þetta eru verkefnin Tóbakslausir framhaldsskólar og Tóbakslausir grunnskólar. Sum verkefnanna hafa verið í gangi um árabil og gengið ágætlega. Má þar nefna Evrópuverkefnið Reyklaus bekkur en allt að 70% sjöundu og áttundu bekkja í grunnskólum landsins hafa tekið þátt í því síðustu 12 ár. Meiri hlutinn áréttar að það er nauðsynlegt að ráðast í frekari aðgerðir og hvetja alla til samvinnu um að sporna við þeirri óheillaþróun sem aukin neysla munntóbaks meðal ungra karlmanna er. Ungt fólk byrjar einkum að nota tóbak fyrir tilstuðlan hópþrýstings og fyrirmynda. Í sumar mun landlæknisembættið ásamt öðrum hagsmunaaðilum efna til vitundarvakningar í baráttunni gegn munntóbaksneyslu og er sjónum einkum beint að þeirri ábyrgð sem fyrirmyndir bera gagnvart börnum og unglingum.
    Ísland staðfesti „Rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir“ 14. júní 2004 en í 2. tölul. 4. gr. kemur fram að nauðsynlegt er að fyrir hendi sé öflug pólitísk samstaða um að þróa og styðja, á innlendum, svæðisbundnum og alþjóðlegum vettvangi, heildstæðar ráðstafanir sem taka til fjölmargra málaflokka og samræma viðbrögð, þar sem tekið er tillit til þess annars vegar að gera þurfi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að menn noti tóbak og hins vegar að vinna að því að menn hætti eða dragi úr neyslu tóbaks í hvaða formi sem er. Í 2. tölul. 5. gr. kemur jafnframt fram að aðilar samningsins skulu samþykkja og koma í framkvæmd skilvirkum lögum, reglum, stjórnsýsluákvæðum og/eða öðrum ráðstöfunum og vinna, í samvinnu við aðra aðila og eftir því sem við á, að undirbúningi viðeigandi stefnumála til að koma í veg fyrir og draga úr tóbaksneyslu, nikótínfíkn og óbeinum reykingum.
    Efni samningsins gefur tilefni til að skoða þurfi ný úrræði í lagasetningu til að vernda kynslóðir framtíðarinnar fyrir afleiðingum tóbaksnotkunar. Meiri hlutinn beinir því til efnahags- og skattanefndar að bæta inn í frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak heimild til handa ÁTVR til að takmarka vöruval á tóbaki sem sérstaklega er beint að ungu fólki.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Á eftir 2. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Vinna skal gegn tóbaksnotkun ungs fólks og takmarka framboð á tóbaksvörum sem sérstaklega er ætlað að höfða til þess.
     2.      Efnismálsgrein b-liðar 1. gr. orðist svo:
                  Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er heimilt að hafna neftóbaksvörum sem er sérstaklega beint að ungu fólki með tilliti til bragð- og lyktarefna, útlits, stærðar og lögunar umbúða, heitis vöru og markaðssetningar og framsetningar hennar að öðru leyti. Ráðherra getur sett reglugerð um vöruval, innkaup og framleiðslu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tóbaki.
     3.      2. gr. orðist svo:
              Lög þessi öðlast gildi 1. október 2011.

Alþingi, 26. maí 2011.



Þuríður Backman,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Oddný G. Harðardóttir.