Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 785. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1580  —  785. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (mansal).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni Hafstein og Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti. Umsagnir bárust frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og tollstjóranum í Reykjavík.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum um mansal. Annars vegar er lagt til að refsing fyrir mansal verði hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi og hins vegar að mansalsbrot tæmi ekki sök gagnvart öðrum mjög alvarlegum frelsissviptingarbrotum, líkt og nú er, enda varða slík brot þyngri refsingu en ef brotið er gegn mansalsákvæði hegningarlaganna.
    Nefndin fjallaði um hækkun refsirammans úr 8 ára fangelsi í 12 ár og telur þá breytingu eðlilega þegar litið er til alvarleika þessara brota og enn fremur að það sé í betra samræmi við refsiramma í sambærilegum brotum. Þá fellst nefndin einnig á að eðlilegt sé að mansalsbrot tæmi ekki sök gagnvart öðrum mjög alvarlegum frelsissviptingarbrotum þannig að unnt sé að dæma fyrir brot á þeim samhliða.
    Nefndin fjallaði á fundi sínum um þá afleiddu breytingu sem lenging refsirammans hefur í för með sér, þ.e. að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála verða uppfyllt. Í þeirri grein segir að úrskurða megi sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a–d-liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þá er einnig kveðið á um í 2. mgr. 98. gr. sömu laga að einangrun megi ekki standa lengur samfleytt en í fjórar vikur nema sá sem henni sætir sé sakaður um brot sem varðað getur að lögum 10 ára fangelsi. Breytingin felur því í sér að heimilt er að beita gæsluvarðhaldi og einangrun í gæsluvarðhaldi ef önnur skilyrði eru uppfyllt, þ.e. að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, eða telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna. Nefndin telur að þegar litið er til eðlis þeirra brota sem um er að ræða og þeirra hagsmuna sem í húfi eru sé eðlilegt að dómstólar hafi þessi heimild.
    Nefndin fjallaði einnig um vitnavernd en fyrir nefndinni kom fram að ráðuneytið hefur ásamt lögregluyfirvöldum verið í samvinnu við yfirvöld á Norðurlöndum m.a. um mótun löggjafar um vitnavernd. Nefndin telur mjög mikilvægt að slík samvinna fari fram til að bæta vitnavernd, sérstaklega þegar litið er til þess að mansalsmál tengjast gjarnan skipulagðri alþjóðlegri brotastarfsemi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Álfheiður Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. maí 2011.

Róbert Marshall,
form., frsm.
Birgir Ármannsson.
Vigdís Hauksdóttir.

Sigurður Kári Kristjánsson.
Mörður Árnason.
Þór Saari.