Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 703. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1583  —  703. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um verslun með áfengi og tóbak.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Jóhann Árnason frá fjármálaráðuneytinu, Almar Guðmundsson, Jón Erling Ragnarsson og Pál Rúnar Mikael Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Ívar J. Arndal, Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur og Svein Víking Árnason frá ÁTVR, Andrés Guðmundsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Gunnar Val Sveinsson og Ingólf Haraldsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði og Geir Gunnlaugsson, Lilju Sigrúnu Jónsdóttur og Önnu Björg Aradóttur frá embætti landlæknis. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi atvinnurekenda, landlækni, ríkissaksóknara, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands. Einnig hefur nefndinni borist umsögn frá meiri hluta heilbrigðisnefndar Alþingis.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um ný heildarlög um starfsemi áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) er leysi af hólmi lög nr. 6/2002. Frumvarpið felur ekki í sér veigamiklar efnisbreytingar á fyrirkomulagi áfengisverslunar og eiga mörg ákvæði þess sér því samsvörun í gildandi lögum um verslun með áfengi og tóbak en jafnframt lögum um tóbaksvarnir, áfengislögum og lögum um gjald á áfengi og tóbak. Meginhlutverk ÁTVR verður sem fyrr að annast smásölu áfengis og heildsölu tóbaks á grundvelli einkaleyfis og tekur gildissvið frumvarpsins mið af því.
    Nýmæli frumvarpsins eru fólgin í að ÁTVR er ætlað að starfa samkvæmt stefnu stjórnvalda í áfengis- og tóbaksmálum á hverjum tíma og í stað sérstakrar stjórnar mun verslunin heyra undir ráðherra. Grunnstefið í þeirri stefnu er að takmarka aðgengi og draga úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu. Versluninni er ætlað að starfa með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi um leið og miðað er við að reksturinn standi undir sér og skili ríkissjóði hæfilegum arði. Þá er í frumvarpinu skotið lagastoð undir vöruvalsreglur um áfengi.
    Efasemdir komu fram við umfjöllun nefndarinnar hversu vel færi á því að ÁTVR beitti sér gegn skaðsemi áfengis og tóbaks um leið og stofnunin hefði arðsaman verslunarrekstur með höndum. Gagnrýndar voru heimildir stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu til þess að hafna vörum sem innihéldu ákveðna eiginleika eða upplýsingar vegna einokunarstöðu verslunarinnar á markaði og reglna EES-samningsins um frjálst flæði vöru. Talsmenn atvinnulífsins áréttuðu fyrri sjónarmið um að lögleg sala áfengis hefði dregist saman vegna aukinnar skattheimtu.
    Í tilefni af athugasemdum tekur nefndin fram að stefna stjórnvalda sem liggur til grundvallar frumvarpinu hefur verið samþykkt í ríkisstjórn. Með hliðsjón af skaðlegum eiginleikum áfengis og tóbaks telur nefndin eðlilegt að starfsemin markist af samfélagslegri ábyrgð og tilliti til lýðheilsu. Vegna stöðu ÁTVR á markaði og lögbundnu hlutverki verslunarinnar er samt sem áður brýnt að hún gæti jafnræðis og meðalhófs gagnvart viðsemjendum sínum og birgjum.
    Þá er mikilvægt að forsendur útreikninga þeirra þjónustugjalda sem versluninni er heimilt að innheimta, sbr. 5. og 6. mgr. 9. gr. frumvarpsins, liggi fyrir áður en innheimta hefst.
    Innan nefndarinnar komu fram skiptar skoðanir varðandi það fyrirkomulag að ÁTVR mundi framvegis starfa án stjórnar og þess í stað heyra beint undir ráðherra. Efasemdir komu fram um hvort slíkt hentaði ríkisstofnun sem hefði með höndum verslunarrekstur. Á móti var bent á að fyrirkomulagið væri í anda stefnu sem mörkuð hefði verið í tíð fyrri ríkisstjórna að beiðni Ríkisendurskoðunar.
    Nefndin leggur til þær breytingar að í 4. gr. verði vísað til áfengislaga og tóbaksvarnalaga og að 1. mgr. 14. gr. falli brott. Síðari breytingin er gerð með hliðsjón af umsögn ríkissaksóknara og því mati fjármálaráðuneytisins að ekki sé þörf fyrir ákvæðið vegna viðurlagaákvæða í öðrum lögum á sviði áfengis- og tóbakslöggjafar og almennra hegningarlaga. Við meðferð málsins barst nefndinni umsögn meiri hluta heilbrigðisnefndar þar sem lagt var til að lögfestar yrðu vöruvalsreglur um tóbak hliðstæðar þeim sem fram koma í frumvarpinu um áfengi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      2. mgr. 4. gr. orðist svo:
                  ÁTVR skal haga starfsemi sinni í samræmi við áfengislög, tóbaksvarnalög og stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.
     2.      Við 14. gr.
              a.      1. mgr. falli brott.
              b.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Haldlagning áfengis.

Alþingi, 31. maí 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Birkir Jón Jónsson,


með fyrirvara.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,      með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Magnús Orri Schram.


Björn Valur Gíslason,


með fyrirvara.


Lilja Mósesdóttir.