Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 760. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1592  —  760. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eirík Þorláksson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Ingibjörgu Sverrisdóttur frá Landsbókasafni - Háskólabókasafni, Birgi Björnsson frá Landsaðgangi að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum, Áslaugu Agnarsdóttur frá starfsmönnum Landsbókasafns – Háskólabókasafns og Eirík Guðmundsson frá Þjóðskjalasafni Íslands. Þá bárust umsagnir frá Háskólanum á Akureyri, Landsaðgangi að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, landsbókaverði og stjórn, Safnaráði, starfsmönnum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Sögufélaginu, Upplýsingu – félagi bókasafns- og upplýsingafræða og Þjóðskjalasafni Íslands.
    Frumvarpið var upphaflega lagt fram á 136. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram að nýju með nokkrum breytingum. Í umsögnum, sem og í máli gesta á fundum nefndarinnar, komu fram ýmis sjónarmið sem nefndin tók til skoðunar og íhugaði við meðferð málsins. Að auki höfðu borist 22 umsagnir vegna málsins á 136. löggjafarþingi (139. máli) sem nefndin kynnti sér.
    Með frumvarpinu er lögð fram heildarendurskoðun á gildandi löggjöf um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Í samræmi við breytt hlutverk bókasafna á 21. öld, nauðsyn þess að endurskilgreina hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, örrar þróunar á sviði upplýsingatækni og þeirra breytinga sem orðið hafa á háskólasamfélaginu á síðustu árum þykir nauðsynlegt að þessi heildarendurskoðun fari fram.
    Lagt er til að staða safnsins sem rannsóknarbókasafns sé staðfest en það felur í sér að safnið varðveiti sérhæfð gögn sem notuð eru við rannsóknir, frumgögn og afleidd gögn. Safnið er einnig skilgreint sem þekkingarveita. Fram kom í máli umsagnaraðila að merking hugtaksins þekkingarveita væri óljós og það hafi ekki unnið sér sess í almennu íslensku máli. Orðið þekkingarveita er vissulega ekki að finna í íslenskri orðabók en það hefur hins vegar öðlast sess í almennu máli hin síðari ár og verið notað í rituðu máli innan Háskóla Íslands og í tengslum við ýmsa vísinda- og fræðslustarfsemi. Það er skilningur nefndarinnar að safnið veiti fyrst og fremst aðgang að þekkingu, þ.e. það starfar sem þekkingarveita með því að tryggja aðgengi að upplýsingum af öllu tagi með því að sinna virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu. Þetta er í samræmi við tvöfalt hlutverk safnsins, þ.e. íslenskt þjóðbókasafn og rannsóknarbókasafn.
    Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Hjá umsagnaraðila kom fram sú gagnrýni að valdastaða stjórnar væri takmörkuð við það að vera ráðgefandi, en ábyrgð stjórnar ætti frekar að vera bundin við rekstrarlega þætti starfseminnar. Nefndin bendir á að hlutverk stjórnar safnsins er í samræmi við almenna þróun á hlutverki stjórna í opinberum stofnunum hér á landi síðastliðinn áratug, þ.e. að forstöðumaður ber fulla ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hlutverk stjórnar safnsins verður þá, svo dæmi sé tekið, í samræmi við hlutverk stjórnar stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 40/2006. Nefndin vill jafnframt benda á að einn megintilgangur með setningu laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald, jafnframt því sem gerðar eru auknar kröfur til þeirra og ábyrgð þeirra aukin. Nefndin ítrekar að stjórnin er mikilvægur samráðsvettvangur sem og tengiliður við Háskóla Íslands og háskóla- og vísindasamfélagið almennt og landsbókaverði til ráðgjafar. Þessu tengt er lögð til breyting á 9. gr. frumvarpsins, þ.e. að reglur um grisjun verða settar í samráði við stjórn safnsins en ekki að fengnu samþykki stjórnar.
    Fjallað er um skipun og hlutverk landsbókavarðar í 3. gr. frumvarpsins. Lögð er til sú breyting að krafa er gerð um að landsbókavörður hafi háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins. Fram kom hjá umsagnaraðila sú krafa að staða landsbókavarðar væri bundin við prófessorshæfi viðkomandi og hann hefði einnig staðgóða rannsóknarreynslu. Einnig kom fram hjá umsagnaraðila að umsögn stjórnar safnsins um hæfi umsækjenda yrði rökstudd og ráðherra væri þá gert óheimilt að skipa umsækjanda sem stjórn hefði ekki talið hæfan. Nefndin bendir á að umrætt ákvæði er í samræmi við almennar kröfur sem gerðar eru í lögum til forstöðumanna menningarstofnana, sbr. 5. gr. laga nr. 35/2007, um Náttúruminjasafn Íslands, og ákvæði 3. og 6. gr. laga nr. 107/2001 um þjóðminjavörð og forstöðumann Fornleifaverndar ríkisins. Nefndin telur því eðlilegt að ákvæði um landsbókavörð séu sambærileg. Nefndin bendir einnig á að viðtekin venja er að kveða á um umsögn stjórna við ráðningu forstöðumanna, sbr. 5. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Það er jafnframt mat nefndarinnar að sú takmörkun sem hér er lögð til á valdi ráðherra til skipunar umsækjanda sé mjög óvenjuleg í löggjöf og telur ekki eðlilegt að leggja slíkt ákvæði til hér.
    Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um meginverkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Frá umsagnaraðilum komu ábendingar er lúta að c-lið 4. gr., annars vegar að orðalag málsliðarins væri of almennt og hins vegar væri nauðsynlegt að safnið hafi sér til ráðgjafar nefnd sem skipuð væri fulltrúum helstu greiðenda til að taka þátt í stefnumótun, vali á efni, gerð fjárhagsáætlana o.fl. Nefndin tekur undir þessar ábendingar og leggur til breytingar þessu að lútandi. Einnig komu fram ábendingar varðandi g-lið 4. gr. um að brýnt væri að leggja áherslu á það þróunarstarf sem unnið er í safninu til hagsbóta fyrir íslensk bókasöfn. Nefndin tekur einnig undir þessa ábendingu enda felur hún í sér hugsun um forustuhlutverk safnsins í málefnum bókasafna.
    Töluverðar breytingar hafa orðið á háskólasamfélaginu frá gildistöku núgildandi laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafns og lögð hefur verið aukin áhersla á samvinnu og samstarf háskólanna á milli. Telja verður því rökrétt að samstarf Háskóla Íslands við aðra skóla sé aukið. Í þessu sambandi telur nefndin eðlilegt að í frumvarpinu sé að finna heimild um að safninu sé heimilt að veita öðrum háskólum landsins þjónustu á grundvelli samninga, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Þessu tengt verður fulltrúi frá samstarfsnefnd háskólastigsins einnig í stjórn safnsins. Þessi tilnefning styður einnig aukið samstarf á milli háskólanna.
    Nefndin hefur verið með til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, um gjaldtökuheimildir almenningsbókasafna (580. mál). Við meðferð málsins bárust nefndinni ábendingar um að skýra þyrfti nánar þær grundvallarreglur sem gilda um þjónustugjöld og dagsektir almenningsbókasafna en frumvarpinu er ætlað að eyða lagalegri óvissu um gjaldtöku, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 6010/2010. Nefndin tók að fullu tillit til þessara athugasemda (þskj. 1546). Nefndin bendir á að þar sem hér er verið að ræða um sömu gjaldtökuheimildir þá sé eðlilegt að leggja til sams konar breytingar á 8. gr. frumvarpsins svo að gjaldtökuheimildir almenningsbókasafna og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns verði að fullu sambærilegar. Nefndin vill í þessu sambandi ítreka að það hefur grundvallarþýðingu þegar um er að ræða þjónustugjald að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verða undir gjaldið þegar meta á hversu hátt það á að vera. Einnig vill nefndin benda á að dagsektir eru óbein þvingunarúrræði sem verða ávallt að byggjast á skýrri lagaheimild með hliðsjón af meðalhófsreglunni. Nauðsynlegt er því að kveða á um hámark dagsekta.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 31. maí 2011.Skúli Helgason,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.Oddný G. Harðardóttir.


Eygló Harðardóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.Auður Lilja Erlingsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir.


Íris Róbertsdóttir.