Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 708. máls. Ferill 709. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1614  —  708. og 709. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á ýmsum l. vegna fullgildingar Árósasamningsins og frv. til l. um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur og Kristínu Rannveigu Snorradóttur frá umhverfisráðuneytinu, Kristínu Haraldsdóttur frá Auðlindaréttarstofnun Háskólans í Reykjavík, Hjalta Steinþórsson, forstöðumann úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Björgólf Thorsteinsson frá Landvernd, Pétur Reimarsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá Samtökum atvinnulífsins, Friðrik Friðriksson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Þorstein Víglundsson frá Samáli, Hörpu Þórunni Pétursdóttur og Guðna A. Jóhannesson frá Orkustofnun, Stefán Thors og Ernu Hrönn Geirsdóttur frá Skipulagsstofnun, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Svanfríði D. Karlsdóttur frá Umhverfisstofnun, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gústaf A. Skúlason frá Samorku, Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd og Bryndísi Skúladóttur og Jóhannes Gíslason frá samtökum íslenskra líftæknifyrirtækja. Þá átti nefndin símafund með Þresti Eysteinssyni hjá Skógrækt ríkisins.
    Umsagnir um málin bárust frá Félagi umhverfisfræðinga á Íslandi, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Landgræðslu ríkisins, Landmælingum Íslands, Landvernd, Mannvirkjastofnun, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Orkustofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Landvernd, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum verslunar og þjónustu, Samáli, Samtökum fiskvinnslustöðva, Landssamtökum fiskeldisstöðva, Samtökum íslenskra líftæknifyrirtækja, Skipulagsstofnun, Skógrækt ríkisins, Umhverfisstofnun, úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, Úrvinnslusjóði og Veðurstofu Íslands.

709. mál – úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (heildarlög).
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót ný og sjálfstæð úrskurðarnefnd sem fái heitið úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Er frumvarpið unnið samhliða frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins (708. mál, þskj. 1227). Í því frumvarpi er að finna ýmsar breytingar á lögum sem eiga að tryggja að íslensk löggjöf samræmist Árósasamningnum. Snerta lagabreytingarnar einkum 2., 4. og 5. mgr. 9. gr. Árósasamningsins en í þeim ákvæðum er gerð krafa um að almenningur sem málið varðar og á nægjanlegra hagsmuna að gæta eigi aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum aðila um ákvarðanir, aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda vegna framkvæmda sem tilgreindar eru í I. viðauka við samninginn eða kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið.
    Í frumvarpinu er lagt til að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taki við hlutverki úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem starfar samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010, og úrskurðarnefndar hollustuhátta og mengunarvarna sem starfar samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Báðar nefndirnar eru lagðar niður samkvæmt frumvarpinu.

Skipan og störf úrskurðarnefndarinnar.
    Nefndin fjallaði nokkuð um skipan nýju úrskurðarnefndarinnar. Var í umsögnum bent á það að starfssvið úrskurðarnefndarinnar yrði mjög vítt og fjölbreytt og því talið æskilegt að við skipan hennar yrði litið til sem flestra sviða. Meiri hlutinn leggur til að skipan úrskurðarnefndarinnar verði breytt á þann hátt að Hæstiréttur tilnefni alla aðra nefndarmenn en formann og varaformann, í stað þess að sérstakir trúnaðarmenn tveggja annarra ráðherra en umhverfisráðherra eigi þar sæti við hlið nefndarmanna sem Hæstiréttur tilnefnir og formanns sem ráðinn er eftir auglýsingu. Þar sem varaformaður gegnir einnig stöðu staðgengils forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar telur meiri hlutinn nauðsynlegt að hann hafi sömu stöðu og formaður, þ.e. að hann sé ráðherraskipaður. Að mati meiri hlutans styrkir það stöðu hans ef til þess kemur að hann leysi forstöðumann af sem formaður úrskurðarnefndarinnar. Einnig leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæðum um sérþekkingu nefndarmanna til að gera hana víðfeðmari. Leggur meiri hlutinn m.a. til að í stað kröfu um sérþekkingu eins úrskurðarnefndarmanna á sviði „fiskifræði og/eða veiðimála“, sem er nokkuð þröngt svið, komi sérþekking á „vistfræði og lífríki þurrlendis, ferskvatns og sjávar“. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að úrskurðarnefndin hefur samkvæmt frumvarpinu heimild til að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn við úrskurð einstakra mála. Er það skoðun meiri hlutans að með þessum breytingum sé stuðlað að því að úrskurðarnefndin verði sjálfstæð og skilvirk í störfum sínum.

Almenn málskotsaðild (actio popularis).
    Nefndin fjallaði mjög um kæruaðild og málsmeðferð. Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd gildir hér á landi ólögfest meginregla um að sá sem höfðar dómsmál verði sjálfur að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeim kröfum sem hann gerir þar, og hefur þetta einnig verið talið eiga við um stjórnsýslukærur (sjá m.a. Ólaf Jóhannesson: „Málskot til æðra stjórnvalds.“ Tímarit lögfræðinga 3. h., september 1953, 139–40). Í frumvarpinu er sú breyting gerð að felld er úr gildi krafa um lögvarða hagsmuni kæranda í ákveðnum málum. Kærandi þarf þannig ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni ef um er að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem eru matsskyldar skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum eða ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera. Tillögunni mætti raunar lýsa svo að í þessum tilteknu málum teljist almenningur hafa lögvarða umhverfishagsmuni í anda Árósasamningsins. Í nokkrum umsögnum komu fram efasemdir um ákvæði 4. gr. frumvarpsins um almenna kæruaðild. Var gagnrýnt að í þeim efnum væri gengið lengra í frumvarpinu en gert er ráð fyrir að lágmarki í Árósasamningnum, og meðal annars vísað til þess að þessi skipan, almenn málskotsaðild eða actio popularis á alþjóðamáli lögfræðinnar, væri aðeins við lýði í Portúgal en skemur gengið annars staðar í aðildarríkjum samningsins. Með lögfestingu þessarar reglu í hinum ákveðnu tilvikum skapaðist hætta á að kærum fjölgaði úr hófi fram, kærur yrðu erfiðari umfjöllunar þar sem hver einstaklingur gæti stílað kæru eftir sínu höfði og kærendur kynnu jafnvel að freista þess að „stífla“ úrskurðarnefndina með fjölda kærumála til að tefja framkvæmdir. Þá opnaði þessi skipan leið fyrir erlenda aðila til að kæra leyfisákvarðanir á Íslandi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
    Meiri hlutinn telur almenna kæruaðild í þessum tilvikum eðlilega skipan hérlendis. Veldur þar annars vegar að á Íslandi er samfélag fáliðans þar sem þau gildi standa djúpum rótum að virða beri viðhorf og sjónarmið hvers einstaklings, en hins vegar að ekki er um að ræða aðra sambærilega kosti sem styðjist við sérstaka hefð í réttarfari eða stjórnsýslu. Meiri hlutinn bendir á að helsti kostur annar en almenn kæruaðild er að binda aðild við umhverfis- og náttúruverndarfélög, sbr. lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Má þó vænta þess að í slíkri skipan gæti sá alla jafna kært sem það vildi, með því að fá slíkt kærumál samþykkt í samtökum sem ættu kæruaðild eða með því að safna liði og stofna sérstök samtök til að leggja fram kæru. Í þessu sambandi er athyglisvert að kærum í málum vegna mats á umhverfisáhrifum fækkaði ekki eftir að kæruaðild var þrengd í þetta far árið 2005 með breytingum á lögum nr. 106/2000, en áður hafði almenn kæruaðild verið við lýði. Þessi breyting var raunar umdeild. Telur meiri hlutinn eðlilegra og hreinlegra að skipa þessum málum með almennri kæruaðild en að fara samtakaleiðina.
    Erfitt er að spá um það hver þróun kærufjölda yrði samkvæmt einstökum færum leiðum í þessu efni. Bent skal á að sú spá í athugasemdum með frumvarpinu að fyrst í stað kynni kærum að fjölga um 30% miðast annars vegar við það að kæruaðild verði almennari en nú er en hins vegar að kærur sem nú er fjallað um í iðnaðarráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti færist til nýju úrskurðarnefndarinnar. Í frumvarpinu eru gerðar ráðstafanir til að bæta málsmeðferð frá því sem nú viðgengst í úrskurðarnefndunum tveimur sem lagðar yrðu niður, meðal annars með fjölgun nefndarmanna og þeirri heimild til handa úrskurðarnefndinni að alla jafna fjalli þrír nefndarmenn af sjö um hvert mál, fimm aðeins í viðamiklum eða fordæmisgefandi málum, en nefndin geti einnig falið formanni einum að úrskurða í einföldum málum þar sem ekki teljast miklir hagsmunir vera í húfi. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um sérstök eyðublöð sem ættu að auðvelda úrskurðarnefndinni leiðbeiningarhlutverk sitt og stuðla að samræmdri framsetningu kæranna. Meiri hlutinn minnir á reglugerðarheimildir 8. gr. um málsmeðferð og leggur til breytingartillögu við 4. gr. um að úrskurðarnefndin hafi skýra lagaheimild til að sameina samkynja kærur til að flýta umfjöllun mála og koma í veg fyrir „stíflu“. Í því sambandi má vísa til reynslu Skipulagsstofnunar af athugasemdum við umhverfismatsskýrslur þar sem kærufjöldi hefur ekki reynst tefja mál hafi þær verið efnislega skyldar. Ýmsir viðmælendur nefndarinnar töldu raunar að fjöldi kærenda skipti ekki mestu máli um hraðann við meðferð máls heldur sjálf kæruefnin. Viðmælendur töldu ekki heldur ástæðu til að óttast kærur frá erlendum aðilum sem gætu jafnvel auðgað umfjöllun máls, en í því sambandi minnir meiri hlutinn á að kæruskjal skal vera á íslensku eins og önnur gögn í stjórnsýslunni.
    Þegar hugað er að hugsanlegum töfum vegna kærumála verður að líta til ákvæða 5. gr. frumvarpsins, um stöðvun framkvæmda, þar sem segir að kæra til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sem kærð er. Fallist úrskurðarnefndin á kröfu kæranda um bráðabirgðastöðvun skuli málið hins vegar sæta flýtimeðferð. Framkvæmdartöf af völdum tilefnislítillar kæru eða sýndarmáls er því afar ósennileg.
    Nefndin ræddi nokkuð um skipan þessara mála í öðrum aðildarlöndum Árósasamningsins og kynnti sér meðal annars skýrslu sem skrifuð var fyrir framkvæmdastjóra Evrópusambandsins í umhverfismálum árið 2007 um aðgang almennings í ESB-ríkjum (þá 25) að réttlátri málsmeðferð og virkum úrræðum skv. 9. gr. Árósasamningsins (e. Inventory of EU Member States' measures on access to justice in environmental matters, sjá: ec.europa. eu/environment/aarhus/study_access.htm). Í skýrslunni kemur fram að skipan mála er ólík í aðildarríkjunum og ræðst mjög af hefðum í hverju ríki um sig (sjá kafla 2.1). Almenn málskotsheimild, actio popularis, um tiltekin mál í tengslum við Árósasamninginn er eins og áður segir við lýði í Portúgal. Að auki segja skýrsluhöfundar að í Stóra-Bretlandi, á Írlandi og í Lettlandi gildi í reynd actio popularis vegna afar almennrar túlkunar á hagsmunaaðild. Á Spáni, í Eistlandi og í Slóveníu sé almenn málskotsheimild eða almenn hagsmunatúlkun einnig í gildi á mikilvægum sviðum umhverfisréttar. Rúm túlkun hagsmuna sem „sameiginlegra“ eða „dreifðra“ jafngildi að verulegu leyti almennri málskotsheimild í Hollandi, í Litháen, á Ítalíu og í Grikklandi. Í hinum ríkjunum er málum svo skipað með öðrum hætti. Svíþjóð er ekki talin meðal þeirra ríkja þar sem skipan mála þykir jafnast á við actio popularis, en í Svíþjóðarkafla skýrslunnar segir þó að hagsmunir einstaklinga njóti víðtækrar skilgreiningar. Nokkuð þykir hins vegar þrengt þar að félagasamtökum. Í Danmörku hafa samtök góða möguleika á kæruaðild en skilgreining á hagsmunum einstaklinga virðist á hinn bóginn nokkuð þröng. Meiri hlutinn telur ljóst af lestri skýrslunnar að samanburður milli ríkja um þetta er óárennilegur nema í breiðu samhengi og með tilliti til lagaumhverfis og hefða í réttarkerfi og stjórnsýslu hvers ríkis. Meiri hlutinn bendir þó á að skýrsluhöfundar telja að actio popularis eða sambærileg skipan efli verulega almannarétt í umhverfismálum samkvæmt Árósasamningnum (sjá texta og töflu í lok 3. kafla).
    Við umfjöllun nefndarinnar var á það bent að í bréfi réttarfarsnefndar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 17. september 2001, um lagabreytingar vegna Árósasamningsins, kemur fram að hún vill fara varlega við að breyta út af hinni óstaðfestu réttarreglu hérlendis um að kærandi í einkamáli hafi lögvarða hagsmuni. Nefndin ákvað að kalla fulltrúa réttarfarsnefndar á fund til að fara yfir bréfið frá 2001 og athuga hvort þau sjónarmið sem þar koma fram ættu enn við. Á þeim fundi var farið yfir vinnu við málið undanfarinn áratug í tengslum við ábendingar réttarfarsnefndar. Fram kom að með frumvarpi til laga um úrskurðarnefndina séu lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem fullgilding Árósasamningsins kallar eftir. Að auki stæði nú til að fara stjórnsýsluleið að markmiðum 9. gr. Árósasamningsins en ekki dómstólaleið. Andinn í bréfi réttarfarsnefndar frá 2001 hafi því skilað sér ágætlega í þau frumvörp sem um ræðir. Ákvæðin í frumvarpinu um actio popularis séu skýr og gildissvið þeirra vel afmarkað. Ekki sé verið að breyta hinum almennu réttarfarsreglum og þær taki því við þar sem þessum frumvörpum sleppir.
    Meiri hlutinn bendir á að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 231/2002 staðfesti dómstóllinn að í skjóli meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar nýtur sá sem aðild hefur átt að máli fyrir stjórnvaldi almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn. Það er því ljóst að ef kærandi er ósáttur við úrskurð úrskurðarnefndarinnar getur hann borið undir dómstóla hvort formsreglum hafi verið fylgt í öllu við úrskurð úrskurðarnefndar og getur þá krafist ógildingar úrskurðarins ef hann telur að svo hafi ekki verið. Hann getur hins vegar ekki krafist þess að ákvörðun ráðherra um að veita tiltekið framkvæmdarleyfi verði felld úr gildi. Almenn kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni leiðir þannig ekki til aðildarréttar fyrir almennum dómstóli ef frá eru talin mál um formsreglur.
    Meiri hlutinn telur að þessu samanlögðu ekki ástæðu til að breyta ákvæðum frumvarpsins um almenna kæruaðild. Á sama hátt og val milli stjórnsýsluleiðar og dómstólaleiðar er val milli aðildarkostanna einfaldlega pólitísk ákvörðun sem hvert Árósaríki um sig tekur á eigin forsendum, fellir að laga- og stjórnsýsluskipan sinni og mótar í samræmi við þær áherslur sem ráðandi eru í stjórnmálum á hverjum tíma. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þannig sé búið að úrskurðarnefndinni að hún geti veitt almenningi og framkvæmdaraðilum úrskurð fljótt og vel. Meiri hlutinn vekur í þessu sambandi athygli á að hagkvæmast er fyrir alla aðila að útkljá álitaefni og deilumál sem fyrst við ákvörðunartöku sem snertir umhverfismál og framkvæmdir sem þau snerta og telur að sem allra opnust leið almennings til þátttöku í ákvörðunarferlinu stuðli að því.

Málarekstur í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.
    Í umsögnum og máli gesta komu fram áhyggjur af því hversu mikinn tíma málarekstur tekur í núverandi úrskurðarnefndum, einkum úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Var mjög spurt um það hvers mætti vænta í því efni af hinni nýju úrskurðarnefnd. Eins og áður er rakið telur meiri hlutinn að með ýmsum hætti sé stuðlað að því í frumvarpinu að nýja úrskurðarnefndin geti starfað hratt og vel, en leggur áherslu á að áður en hún tekur til starfa verði gerð gangskör að því að ljúka málsmeðferð í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og meðal annars hugað að sérstakri fjárveitingu í því skyni.
    
Erfðabreyttar lífverur.
    Fram kom í nokkrum umsögnum að almenn kæruaðild ætti ekki við í c-lið 3. mgr. 4. gr. um ákvarðanir um leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur. Engar sönnur hafi verið færðar á að slepping eða dreifing erfðabreyttra lífvera innan marka þeirra laga gæti valdið tjóni og væri íþyngjandi fyrir fyrirtæki á þessu sviði að búa við almenna kæruaðild umfram annan atvinnurekstur. Meiri hlutinn tekur ekki undir þessi sjónarmið og minnir á varúðarreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Slepping og dreifing erfðabreyttra lífvera í náttúrunni er afar umdeilt mál bæði hér og erlendis, einnig meðal vísindamanna. Þessi álitaefni tengjast ýmsum almennum hagsmunum sem ekki teljast lögvarðir í hefðbundnum skilningi, svo sem í tengslum við ímynd Íslands sem ferðamannalands og stöðu íslenskra matvælaframleiðenda á erlendum mörkuðum, en varða einnig rétt almennings til verndar umhverfi sínu sem Árósasamningnum er einkum ætlað að tryggja.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram athugasemdir um að í c-lið 3. mgr. 4. gr. væri sérstaklega tekið fram að ekki þurfi að sýna fram á lögvarða hagsmuni ef um er að ræða ákvörðun um markaðssetningu á erfðabreyttum lífverum eða vörum sem innihalda þær. Meiri hlutinn tekur undir þær athugasemdir og leggur því til að sá hluti ákvæðisins verði felldur brott.

Málskostnaður.

    Nefndin fjallaði um málskostnað og þá sérstaklega í tengslum við 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Meginreglan verður samkvæmt frumvarpinu sú að aðilar geta fengið leyst úr kærum fyrir nefndinni án þess að greiða sérstakan málskostnað. Í 5. mgr. 4. gr. er hins vegar kveðið á um að heimilt sé að úrskurða kæranda til að greiða málskostnað þegar kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framkvæmd. Meiri hlutinn telur slíkt ákvæði óþarft og í ósamræmi við meginreglu Árósasamningsins, en gerir tillögur til breytingar á frumvarpinu til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála, t.d. um lagaheimild til að sameina samkynja mál. Leggur meiri hlutinn því til að ákvæðið verði fellt brott enda slíkt ákvæði ekki að finna í öðrum lögum um úrskurðarnefndir á stjórnsýslustigi.

708. mál – fullgilding Árósasamningsins (breyting á ýmsum lögum).
    Í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins, 708. máli, eru helstu breytingarnar þær að allar stjórnvaldsákvarðanir um veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum sæta kæru til hinnar nýju úrskurðarnefndar sem stofna á samkvæmt frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, 709. máli, þskj. 1227.
    Lagt er til að ákvæðum laga sem fela ráðherra að taka áðurnefndar ákvarðanir verði breytt og leyfisveitingarvaldið fært til viðeigandi undirstofnana. Að auki eru lagðar til ákveðnar breytingar sem ekki tengjast ákvæðum Árósasamningsins með beinum hætti en rétt þykir að gera til að tryggja samræmi í stjórnsýslu þeirra málaflokka sem frumvarpið snertir.
    Í umsögnum um málið voru ekki gerðar miklar athugasemdir við frumvarpið. Þó gerði Orkustofnun athugasemd við það að í III. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir að ákvarðanir Orkustofnunar um veitingu, endurskoðun og afturköllun rannsóknar- eða nýtingarleyfa samkvæmt lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Meiri hlutinn tekur ekki undir þessa athugasemd þar sem viðkomandi framkvæmdir geta í ákveðnum tilvikum valdið ýmsum varanlegum umhverfisáhrifum.
    Í skipulagslögum, nr. 123/2010, er Skipulagsstofnun falið það hlutverk að staðfesta svæðis- og aðalskipulagstillögur í stað umhverfisráðherra. Stofnunin hefur þannig sama hlutverk og ráðherra varðandi yfirferð skipulagstillagna og staðfestingu þeirra. Meiri hlutinn telur því að ákvæði 22. gr. frumvarpsins eigi einnig að ná yfir ákvarðanir sem lúta að ákvörðunum um staðfestingu stofnunarinnar og leggur því til breytingar á ákvæðinu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvörpin verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan, auk málfars- og lagatæknilegra breytinga, og lagðar eru til í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 1. júní 2011.Mörður Árnason,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Álfheiður Ingadóttir.Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Skúli Helgason.


Birgitta Jónsdóttir.