Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 788. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1634  —  788. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um gjaldeyrismál sem Seðlabanki Íslands hefur sett á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Ríkisstjórnin hefur að tillögu Seðlabanka Íslands samþykkt áætlun um afnám gjaldeyrishafta og er í frumvarpinu lagt til, í samræmi við áætlunina, að höftum verði viðhaldið til 31. desember 2015 en þá er gert ráð fyrir að öllum gjaldeyrishöftum verði aflétt.
    Þegar lög nr. 134/2008 voru samþykkt 28. nóvember 2008 var Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að setja reglur til að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta vegna þeirra. Var það gert til að koma á og tryggja stöðugleika á gengi íslensku krónunnar en áætlað var að höftin yrðu tímabundin. Í athugasemdum við það frumvarp er skýrt tekið fram að stefnt sé að því að afnema gjaldeyrishöftin svo fljótt sem auðið er og í þingræðum um málið kemur fram sú skoðun þingmanna að grundvallarforsenda fyrir samþykki gjaldeyrishafta væri sú að þau yrðu eingöngu tímabundin. Staðan hefur breyst og að mati 2. minni hluta er nauðsynlegt að unnið verði að því að afnema gjaldeyrishöftin en ekki festa þau í sessi. Að auki bendir 2. minni hluti á að áætlunin sem frumvarpið byggist á er ekki tímasett að öðru leyti en fram kemur að höftum verði viðhaldið til 31. desember 2015. 2. minni hluti telur algjörlega nauðsynlegt að áætlun um afnám gjaldeyrishafta sé nánari tímasett með skýrum viðmiðum þannig að unnt sé að vinna að áætluninni skipulega og auka þannig trúverðugleika á peningastefnu ríkisstjórnarinnar. Með þessu frumvarpi eru hins vegar send röng skilaboð þar sem reglur Seðlabanka Íslands eru lögfestar. 2. minni hluti telur að aðrar leiðir og aðferðir séu heppilegri og ekki jafn íþyngjandi í áætlun um afnám gjaldeyrishafta.
    Það er skoðun 2. minni hluta að áætlun Seðlabanka Íslands um afnám gjaldeyrishafta og frumvarpið í heild hvíli á veikum stoðum. Áframhaldandi gjaldeyrishöft leggja miklar skorður við athafnafrelsi bæði einstaklinga og lögaðila. Ákvæði frumvarpsins koma þannig í veg fyrir að einstaklingar og lögaðilar geti framkvæmt aðgerðir sem nauðsynlegar eru í heilbrigðu efnahagslífi og mikilvægar til þess að fjármálamarkaðurinn verði virkur á ný eftir hrun bankakerfisins. Með áframhaldandi gjaldeyrishöftum er komið í veg fyrir erlenda fjárfestingu, hagvöxtur minnkar og atvinnuleysi eykst. 2. minni hluti harmar þá ákvörðun að festa í sessi reglur sem koma í veg fyrir endurreisn efnahagskerfisins, auka á atvinnuleysi, sem nú þegar er of mikið, og benda til þess að ríkisstjórnin hafi gefist upp í því verkefni að aflétta gjaldeyrishöftum. Þau gjaldeyrishöft sem nú þegar eru í gildi hafa í för með sér skort á erlendu fjármagni sem aftur leiðir til þess að geta til að fjárfesta í gjaldeyrisskapandi greinum, svo sem ferðamannaþjónustu, orkuvinnslu og iðnaði, er skert. 2. minni hluti bendir á að í þessum greinum er ekki að finna ónýtta afkastagetu. Frekari fjárfestinga sé þannig þörf svo að unnt sé að auka framleiðsluna. Enn fremur vill 2. minni hluti benda á að með því að lögfesta reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrishöft verður enn erfiðara en ella fyrir stjórnvöld að aflétta þeim höftum á sveigjanlegan og þægilegan hátt. Að sama skapi er það ávallt svo að menn finna einhverjar glufur í þeim reglum sem gilda og er iðulega brugðist við því með því að herða tökin og setja strangari reglur. Áframhaldandi gjaldeyrishöft kalla því á strangari gjaldeyrishöft og ekki er ljóst hvenær áætlað verður að fella þau úr gildi.
    Í 3. gr d eru talin upp þau skilyrði sem einstaklingur þarf að uppfylla til að geta tekið út erlendan gjaldeyri í reiðufé. Kemur þar m.a. fram að sá sem kaupir gjaldeyrinn þarf að sýna fram á fyrirhugaða ferð með framvísun farmiða eða kvittunar fyrir greiðslu á ferð sinni, hann þarf að vera eigandi þeirra fjármuna sem greiddir eru fyrir erlenda gjaldeyrinn og þar að auki þarf sá einstaklingur sem kaupir gjaldeyrinn að fara sjálfur með féð úr landi. 2. minni hluti bendir á hversu óraunhæfar þessar reglur geta verið í reynd. Oft er það svo að börnum eða barnabörnum er gefinn gjaldeyrir til að nota í utanlandsferð. Við þær aðstæður getur verið ómögulegt fyrir fullorðna einstaklinginn að kaupa gjaldeyri í gjöf fyrir barnið. Þar að auki hafa fjármálafyrirtæki enga burði til að hafa eftirlit með þessum skilyrðum og þá sérstaklega því sem fram kemur í 4. tölul. 2. mgr., þ.e. að einstaklingurinn sem kaupir gjaldeyrinn fari sjálfur með hann úr landi.
    Í umsögnum var á það bent að ákvæði 3. mgr. 3. gr. d (13. gr. d) væri óframkvæmanlegt. Fjármálafyrirtæki hafi engin tól til að fylgjast með því hvort einstaklingur nýti allan gjaldeyri í utanlandsferð eða ekki. Þar að auki bentu umsagnaraðilar á að fjármálafyrirtæki tækju ekki við klinki í erlendri mynt og því óhjákvæmilegt að ákvæðið verði brotið. Jafnframt var á það bent að í frumvarpinu sé ójafnræði á skilaskyldu einstaklinga annars vegar og fyrirtækja hins vegar. Einstaklingur hefur tvær vikur til að skila ónýttum gjaldeyri en fyrirtæki þrjár vikur. 2. minni hluti leggur áherslu á að óeðlilegt er að leggja ríkari skyldur á einstaklinga en fyrirtæki í atvinnurekstri. 2. minni hluti bendir á að í ákvæðinu er enn fremur ekki kveðið á um lágmarksupphæð ónýtts gjaldeyris. Það liggur því í orðanna hljóðan að heimilt verður að refsa einstaklingi með sektum eða fangelsi fyrir að gleyma að skila inn óverulegri fjárhæð og meðalhófs er því ekki gætt.
     Að mati 2. minni hluta er áætlun stjórnvalda um afléttingu gjaldeyrishafta, sem frumvarpið byggist á, algjörlega fráleit. Nauðsynlegt er að setja fram metnaðarfyllri áætlun og bendir 2. minni hluti á hugmyndir sem fram koma í umsögn Kauphallarinnar. Þar kemur fram sú skoðun að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin á fáeinum mánuðum og lögð er til áætlun í fimm skrefum. Í henni kemur fram að mikilvægt sé að segja niður ákveðnar dagsetningar sem varða leiðina, öllum krónueigendum verður að hleypa að borðinu, bjóða verður upp til kaups ákveðinn hluta gjaldeyrisforðans, álag á verð erlends gjaldeyris verður að öllu jöfnu að lækka í framhaldsútboðum og stefna ætti að afnámi hafta á 6–9 mánuðum. Að mati 2. minni hluta eru hugmyndir Kauphallarinnar vel framkvæmanlegar.
    Á 136. löggjafarþingi lagði Framsóknarflokkurinn fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs (491. mál, þskj. 712). Tillagan fólst í því að koma til framkvæmda ákveðnum aðgerðum til að bregðast við fjárhagsvandanum og skapa forsendur til endurreisnar efnahagslífsins. Meðal aðgerða var að samið yrði við erlenda eigendur krónueigna, settur yrði á fót uppboðsmarkaður með krónur, lífeyrissjóðum yrði veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta, peningamagn í umferð yrði aukið og veitt yrði heimild til skráningar hlutafjár í erlendri mynt. Tillagan náði því miður ekki fram að ganga. Er það skoðun 2. minni hluta að þær aðgerðir sem tillagan kvað á um séu algjörlega nauðsynlegar til að endurreisa íslenskan efnahag, auka hagvöxt og útrýma því mikla atvinnuleysi sem Íslendingar búa nú við.
    Afnám gjaldeyrishafta mun óhjákvæmilega hafa í för með sér aukinn hagvöxt, frjálst flæði erlends fjármagns til landsins og síðast en ekki síst mundu hjól atvinnulífsins fara að snúast með auknum krafti, en það er grundvallaratriði þess að hægt sé að byggja upp það velferðarsamfélag sem þjóðin vill sjá. 2. minni hluti leggst því alfarið gegn samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 3. júní 2011.



Birkir Jón Jónsson.