Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 19. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1690  —  19. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.    Verði frumvarpið samþykkt fá lífeyrissjóðir heimild til að eiga og reka íbúðarhúsnæði til útleigu.
    Eins og bent er á í áliti Samtaka atvinnulífsins gera núgildandi lög um lífeyrissjóði fyrst og fremst ráð fyrir fasteignum í eigu sjóðanna sem fullnustueignum sem þeir þurfa að losna við. Samtökin telja að bein eign lífeyrissjóða á íbúðum sé varla áhugaverður fjárfestingarkostur. Lögin leyfa lífeyrissjóðum nú þegar að fjárfesta í fasteignafélögum sem reka íbúðarhúsnæði jafnt sem atvinnuhúsnæði í atvinnuskyni eða á markaðsforsendum.
    Samkvæmt 36. gr. laga um lífeyrissjóði skulu sjóðirnir móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sitt með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.
    Fjárfesting í húsnæði til útleigu er talin örugg langtímafjárfesting en ávöxtun fjárfestingarinnar er m.a. háð framboði af leiguhúsnæði og þá sérstaklega ódýru félagslegu húsnæði. Fasteignir sem lífeyrissjóðirnir hafa leyst til sín vegna vangoldinna skulda lántakenda munu verða leigðar út á hæsta mögulega verði til að tryggja hámarksávöxtun á fé sjóðsfélaganna. Tekjulágir einstaklingar sem ekki hafa efni á að greiða markaðsleigu munu því ekki geta leigt fasteignir lífeyrissjóðanna nema leigubætur til þeirra hækki verulega. Með öðrum orðum framboð félagslegs húsnæðis mun ekki aukast verði lífeyrissjóðunum heimilað að eiga og reka íbúðarhúsnæði til útleigu nema ríkið sé tilbúið að niðurgreiða verulega leiguna.
    Allar líkur eru á að lífeyrissjóðirnir muni selja íbúðarhúsnæðið um leið og fullnægjandi verð fæst fyrir eignirnar, aðrir arðbærir fjárfestingarkostir verða í boði eða þegar sjóðirnir þurfa lausafé til greiðslu lífeyris. Það er auk þess erfitt að sjá hvernig heimild lífeyrissjóða til að eiga og reka íbúðarhúsnæði sem þeir hafa leyst til sín sem fullnustueign samrýmist markmiðinu um húsnæðisöryggi heimila á Íslandi. Ef tryggja á tekjulágu fólki húsnæðisöryggi þarf að endurskoða löggjöf um rekstrarumhverfi húsnæðisfélaga (skattar og afskriftir) og lánsfjármögnun þeirra hjá Íbúðalánasjóði sem og lög um húsnæðissamvinnufélög og húsaleigulög eins og bent er á í nýlegri skýrslu samráðshóps um húsnæðisstefnu (http://www. velferdarraduneyti.is/media/frettir2011/19042011_Skyrsla_samradshops_um_husnaedisst efnu.pdf).
    Minni hlutinn sér ekki hvernig heimild lifeyrissjóðanna til að eiga og reka íbúðarhúsnæði til útleigu eykur húsnæðisöryggi og valkosti almennings í húsnæðismálum. Heimildin mun heldur ekki leiða til lækkunar á húsnæðiskostnaði almennings. Við núverandi aðstæður á fasteignamarkaði er brýnt að stjórnvöld geri gangskör í að efla húsnæðismarkað sem ekki er hagnaðardrifinn. Í því sambandi vill minni hlutinn benda á fyrirheit í yfirlýsingu stjórnarflokkanna þar sem segir: „Innleidd verði ný skipan húsnæðismála til að búa almenningi sambærilegt öryggi og valkosti í húsnæðismálum og á hinum Norðurlöndunum. Markmiðið er að fólk í húsnæðisleit eigi valkosti með eignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum, hvort sem það þarfnast húsnæðis í fyrsta sinn eða síðar á lífsleiðinni.“

Alþingi, 3. júní 2011.Lilja Mósesdóttir.