Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1696  —  359. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um farþegagjald og gistináttagjald.

Frá efnahags- og skattanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ögmund Hrafn Magnússon, Guðrúnu Þorleifsdóttur og Maríönnu Jónasdóttir frá fjármálaráðuneyti, Ernu Hauksdóttur, Árna Gunnarsson og Ólaf Torfason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Skúla Eggert Þórðarson og Guðrúnu Jennýju Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Ólöfu Ýrr Atladóttur frá Ferðamálastofu, Björn Óla Hauksson, Elínu Árnadóttur og Ingunni Ólafsdóttur frá Isavia ohf., Björgólf Jóhannsson og Davíð Þorláksson frá Icelandair Group, Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði, Ágúst Ágústsson frá Cruise Iceland (Faxaflóahafnir) og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Cruise Iceland, International Air Transport Association, Ferðamálaráði, Ferðamálastofu, Gáru ehf., Hafnasambandi Íslands, Icelandair Group, Isavia ohf., Markaðsstofu Austurlands, Neytendasamtökunum, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, embætti tollstjóra, Vegagerðinni og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpið er reist á vinnu nefndar sem falið var að meta kosti og galla gjaldtöku til uppbyggingar ferðaþjónustu. Lagði hún til að valin yrði leið gistináttagjalds og farþegaskatts. Taldi nefndin að gistináttagjaldið væri ákjósanlegri kostur út frá sjónarmiðum um að þeir greiði sem njóti en að farþegaskatturinn væri auðveldari í eftirliti og innheimtu. Reiknað er með að tekjur af gjaldinu geti skilað um 400 millj. kr. og að þeim verði ráðstafað á fjárlögum til samræmis við markmiðsákvæði laganna. Í almennum athugasemdum frumvarpsins er lagt til að 3/ 5 hlutum verði varið til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og 2/ 5 hlutum til þjóðgarða og friðlýstra svæða.
    Nefndin telur með hliðsjón af fram komnum umsögnum um málið þörf á ítarlegri skoðun af hálfu ráðuneytisins á því hvort ákvæði frumvarpsins er varða upptöku farþegaskatts samrýmist skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum og eftir atvikum öðrum alþjóðaskuldbindingum á sviði flugmála. Hefur því m.a. verið haldið fram að skatturinn mismuni millilandaflugi með ólögmætum hætti í samanburði við innanlandsflug auk þess sem rekstraraðilum flugvalla sé almennt óheimilt að innheimta önnur gjöld en þau sem varið er til að standa undir kostnaði við veitingu sérgreindrar þjónustu. Er lagt til að ákvæðin um farþegaskatt falli brott.
    Þá leggur nefndin til breytingar á ákvæðum frumvarpsins um gistináttagjald en í umsögnum komu m.a. fram óskir um að fyrirkomulag gjaldtökunnar yrði einfaldað þannig að gjaldflokkurinn yrði einn, gjaldið legðist á alla gistingu og að gjaldið yrði miðað við einingu í stað fjölda einstaklinga. Þá var bent á að gjaldið væri skattur en ekki þjónustugjald.
    Nefndin leggur til að í stað gistináttagjalds verði tekinn upp gistináttaskattur á aðila sem stunda útleigu hótel- og gistiherbergja og útleigu tjaldstæða og annan rekstur sambærilegan þeim sem um er fjallað í 2. málsl. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Skatturinn skal vera 100 kr. af hverri gistináttaeiningu sem skilgreind er sem húsrými eða svæði sem leigð eru í allt að einn sólarhring og almennt skemur en til eins mánaðar. Undanþegnir skattinum verði þeir sem stunda atvinnurekstur sem undanþeginn er virðisaukaskatti og þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir eina milljón króna eða lægri fjárhæð á tólf mánaða tímabili.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. júní 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Birkir Jón Jónsson.



Pétur H. Blöndal.


Magnús Orri Schram.


Lilja Mósesdóttir.



Þuríður Backman.


Mörður Árnason.


Auður Lilja Erlingsdóttir.