Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 826. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1710  —  826. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (strandveiði, aflamark, samstarf, tekjur af veiðigjaldi, tímabundin ákvæði).

Frá 2. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Í ræðum á Alþingi hefur hvað eftir annað verið eftir því kallað að undirbúningur að lagasmíð sé sem vandaðastur. Ekki hefur mátt merkja bilbug á nokkrum þingmanni í þessum efnum. Með reglubundnum hætti heyrum við úr ræðustóli þingsins ákall um breytt og bætt vinnubrögð. Ekki síst varðandi undirbúning þingmála.
    Af þessum sökum hefði mátt ganga út frá því sem vísu að ráðherrar – sem vel að merkja sækja umboð sitt til Alþingis – gegndu þessu kalli. Framkvæmdarvaldið ber enda mikla ábyrgð. Þaðan eru vel flest þau frumvörp og þingmál ættuð sem á annað borð fá brautargengi á Alþingi. Þingmenn stjórnarliðsins sem vilja láta taka sig alvarlega hljóta líka að sjá til þess að þannig sé staðið að undirbúningi þingmála að einhver sómi sé að. Þingmál ríkisstjórnarinnar koma ekki til Alþingis sem stjórnarfrumvörp nema á ábyrgð ríkisstjórnarmeirihlutans á Alþingi. Það er því í höndum stjórnarliða hverju sinni að tryggja að þingmál ríkisstjórnarinnar séu þannig gerð úr garði að þau standist lágmarkskröfur.
    Menn greinir vitaskuld á um pólitíska stefnumótun þeirra. En það reyna menn að útkljá á hinum lýðræðislega vettvangi Alþingis, jafnt í þingsal sem í þingnefndum. En hinar almennu lágmarkskröfur um að þingmál séu vandlega undirbúin, rökstudd og séu í samræmi við stjórnarskrána verða ábyrgðarmenn þingmála að sjá um að séu virtar.
    Þetta er svo augljós og sjálfsögð krafa að ekki ætti að þurfa að færa hana í orð á þingskjölum en því miður er fullt tilefni til þess. Það er sérstaklega alvarlegt og alveg gróflega dapurlegt þegar um er að ræða mikilvæga löggjöf sem snertir grundvallarhagsmuni sjálfs sjávarútvegsins – okkar þýðingarmesta atvinnuvegar.
    Annar minni hluti gagnrýnir harðlega að fyrirliggjandi frumvarp eigi að fara hraðferð í gegnum þingið án þess að tóm gefist til raunverulegrar málefnalegrar umræðu og faglegrar vinnu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Vinnubrögð sem þessi voru fordæmd í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (þskj. 1501, 705. mál á 138. löggjafarþingi). Þar var jafnframt að finna þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti með 63 samhljóða atkvæðum hinn 28. september 2010. Þar ályktar Alþingi m.a. að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Í skýrslunni kemur fram að auka beri fagmennsku við undirbúning löggjafar og lagði nefndin til að ríkisstjórn verði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með góðum fyrirvara þannig að þingmönnum gefist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu. Þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við framlagningu frumvarpsins eru ekki í samræmi við þingsályktunina sem allur þingheimur var sammála um og verður að telja það ámælisvert. Upplýst málefnaleg umræða um þingmál er grundvöllur vandaðrar og faglegrar lagasetningar. Enginn tími gafst til slíkra umræðna um málið innan nefndarinnar þar sem það var afgreitt frá nefnd strax að loknum gestakomum. Þá var gestum einungis gefnir tveir dagar til að skila umsögnum um mál sem varðar mikilvæga hagsmuni eins af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.

Ótrúlega rýr rökstuðningur.
    Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar hefur átt sér langan og mikinn aðdraganda. Það er fyrsta afurð ríkisstjórnarinnar eftir að fjölskipuð nefnd þingflokka og allra hagsmunaaðila skilaði ítarlegri skýrslu með afdráttarlausum tillögum á þessu mikilvæga málasviði, í september sl. Eftirtekjan er í besta falli skothent klúður. Illa undirbúið mál að nær öllu leyti. Sjö efnisgreinar og bráðabirgðaákvæði í þremur liðum.
    Svo furðulegt sem það er, þá er ekki gerð hin minnsta tilraun til þess að undirbyggja málið með efnislegum hætti. Rökstuðningur málsins ótrúlega rýr. Hvorki má finna pút né plagg um hverjar afleiðingar frumvarpsins verða. Erfitt er síðan að átta sig á meginmarkmiðum þess, eins og ASÍ bendir á í umsögn sinni. Sá boðskapur fylgir að ekki standi til að kynna afleiðingar þess fyrr en það sé orðið að lögum. Hópur hæfra hagfræðinga var fenginn til þess að skoða afleiðingar frumvarpsins og leggja á það mat um sama leyti og ríkisstjórnarflokkarnir heimiluðu framlagningu þess. Það mat liggur ekki enn fyrir, nú þegar Alþingi býst til að ræða frumvarpið í aðalefnisumræðu þess, 2. umræðu.
    Þetta er tæplega í anda þess reglubundna ákalls sem kveður við úr ræðustóli Alþingis um bætt vinnubrögð. Það er hins vegar skýr vísbending um að lítil alvara fylgi alvöruþrungnum orðum og loforðum um bætt vinnubrögð.

Frumvarpið og stjórnarskráin.
    Í upphafi þingferils hvers alþingismanns, undirritar hann eið að stjórnarskránni. Í huga hvers þingmanns hlýtur það því að vera efst að tryggja að lög sem Alþingi setur, standist stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta er svo sjálfsagt að varla ætti að nefna það. Þess vegna er það aldeilis makalaust að í umsögn sjálfrar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, er farið um frumvarpið óvenju hörðum orðum í ítarlegri greinargerð, þar sem því er í veigamiklum atriðum fundið flest til foráttu. Þar er gengið svo langt að draga í efa að það standist stjórnarskrána.
    Þetta hefur öllum verið ljóst sem komu að málinu. Ríkisstjórninni jafnt sem þingflokkum hennar. Álit fjárlagaskrifstofunnar lá fyrir. Engu að síður er því skutlað inn til Alþingis með slíka óvissu yfir sér hangandi. Þetta eru amk. fádæmi en trúlega þó fremur einsdæmi. Ábyrgð á þessu verður að vísa á hendur þeim sem standa að frumvarpinu: ríkisstjórninni og þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna.
    Í 47. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr lög nr. 33/1944, er kveðið á um að sérhver nýr þingmaður skuli vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild. Í 2. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, er drengskaparheitið tilgreint svohljóðandi: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins. Þingmenn hafa því unnið því eið að hafa stjórnarskrána í hávegum og setja ekki vísvitandi lög sem brjóta gegn henni. Það hlýtur að teljast alvarlegt í ljósi þessa að ekki skyldi ríkari tími tekin til að rýna í ákvæði frumvarpsins, fjalla um það og gera á því nauðsynlegar breytingar til að tryggja að það gangi ekki í berhögg við stjórnarskrána.
    Skerðing stjórnarskrárvarinna réttinda verður aðeins gerð með ríkum rökstuðningi og vísan til annarra réttinda sem vega hærra, t.d. almannahags. Annar hluti minnir á að réttindi sem leiða af umráðum aflaheimilda njóta verndar ýmissa grundvallarreglna stjórnarskrárinnar svo sem um vernd eignaréttar og atvinnufrelsis, sbr. 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd kom hörð gagnrýni á fyrirliggjandi frumvarp sem m.a. beindist að því að með því væri hugsanlega brotið gegn stjórnarskránni. Þá kemur fram í umsögn Helga Áss Grétarssonar að verði frumvarpið að lögum kunni það að leiða til þess að ríkisvaldið hafi gengið of langt í að skerða réttindi einstakra aðila, ekki síst vegna þess að skerðingin kann í einstaka tilvikum að vera tilviljunarkennd og bitna of hart niður á hagsmunum einstakra aðila. Engin tilraun er gerð til þess í athugasemdum við frumvarpið að útskýra þau rök sem liggja að baki því að ganga á stjórnarskrárvarin réttindi og í reynd er ekki minnst á málefnið einu orði. Það er engu líkara en frumvarpshöfundur hafi ekki gert sér grein fyrir þeim grundvallarréttindum sem um ræðir.

Lagt fram löngu eftir lögbundinn frest.
    Þetta frumvarp sem um er fjallað er eins konar undanfari, í humátt á eftir því fylgdi annað og stærra mál, sem var frumvarp að nýjum heildarlögum um stjórn fiskveiða. Frumvarpið sem hér er um fjallað er þess eins konar prufukeyrsla. Viðtökurnar sem þessi prufukeyrsla hefur fengið, jafnt innan þings sem utan, ætti að verða ríkisstjórninni víti til varnaðar.
    Frumvarp þetta var lagt fram á Alþingi 19. maí. Nær tveimur mánuðum eftir að lögbundinn frestur til þess að leggja fram þingmál til afgreiðslu rann út. Mælt var fyrir málinu 30. maí, umræða stóð í þrjá daga og lauk síðasta dag maímánaðar, án mikillar þátttöku stjórnarliða. Málið var tekið út úr nefnd þann 8. júní.

Vinnubrögð sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.
    Vinnubrögðin í nefndinni voru með eindæmum. Nefndin fundaði stíft. Margir gestir kallaðir fyrir nefndina og leitað umsagnar. Umsagnaraðilar fengu jafnvel ekki nema sólarhring til þess að undirbúa umsagnir sínar. Og það virðingarleysi var þeim sýnt, sem flestir tengjast sjómennsku og sjávarútvegi, að beiðni þar að lútandi barst þeim á sjálfri sjómannadagshelginni.
    Sá fáheyrði atburður gerðist síðan að málið var fyrirvaralaust rifið út úr þingnefndinni. Engin efnisleg umræða fór fram um málið í nefndinni. Á borð nefndarmanna var einvörðungu lagt nefndarálit með breytingartillögum sem fyrir lá að yrði ekki breytt. Þetta eru ekki góð vinnubrögð og síst til þess fallin að skapa frið eða sátt í erfiðu máli.

Gagnrýni allra umsagnaraðila.
    Ljóst er af þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn hefur kynnt að hann hefur neyðst til þess að bregðast við þeirri harkalegu gagnrýni sem fram hefur verið sett á frumvarpið. 15 aðilar sendu inn umsagnir um málið. Enginn – ekki einn einasti þeirra – mælir því bót. Gagnrýnin er að sönnu margvísleg og er í öllum tilvikum þannig að hún beinist gegn veigamiklum efnisþáttum. Öll samtök sjómanna, Samtök atvinnulífsins, útvegsmenn og samtök fiskvinnslunnar og ASÍ gera þá kröfu að málið verði einfaldlega lagt til hliðar, síðastnefndu samtökin með eftirfarandi lokaorðum:
     „Almennt má segja að þrátt fyrir að frumvarpið geri ráð fyrir margháttuðum breytingum á stjórn fiskveiða þá er erfitt að átta sig á meginmarkmiðum frumvarpsins. Við skoðun á frumvarpinu þá kemur í ljós að það mun:
     *      Veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Slíkt mun leiða til þess að gengi krónunnar verður veikara en ella og lífskjör lakari.
     *      Veikja stöðu þeirra sem hafa aðalstarf sitt af fiskveiðum og fiskvinnslu.
     *      Ýta undir leigubrask og skammtímahugsun í stað þess að setja því skorður.
     *      Auka á pólitískar valdheimildir ráðherra, án þess að færð séu sterk rök fyrir að það fyrirkomulag sé heppilegra en skýrar og gagnsæjar reglur.
     *      Leggja til fyrirkomulag á ráðstöfun á veiðigjaldi til sjávarbyggða sem orkar tvímælis og ýtir undir óréttlæti og mismunun.
    ASÍ telur mikilvægt að vandað sé til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. ASÍ getur ekki mælt með samþykkt frumvarpsins en leggur þess í stað til að sumarið verði nýtt til þess að vinna að nauðsynlegum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu í víðtæku samráði þar sem fulltrúar launafólks eigi fulla aðild og áhersla verði lögð á að skapa sem besta og breiðasta sátt um niðurstöðuna.“


Hætt við að brjóta stjórnarskrána?
    Sem dæmi um efnisbreytingar sem gerðar eru á frumvarpinu í meðförum nefndarinnar er ákvæði er lýtur að hugmyndum um að stofna sérstakan undirflokk strandveiða er næði til 3 tonna báta og minni. Þetta ákvæði varð hreint aðhlátursefni umsagnaraðila og hlaut því að mæta skapadægrum sínum í nefndinni. Þess utan var lagt til í a-lið 1. gr. frumvarpsins að ráðherra fái framselt löggjafarvald sem hugsanlega stangast á við atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Ráðherra eru þar ekki sett nein efnisleg viðmið og engar leiðbeiningar er að finna í athugasemdum við greinina.
    Vitaskuld blasti við að engin þingnefnd gat afgreitt frá sér frumvarpsgrein sem fullkominn vafi léki á að væri í samræmi við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Þannig var í 3. gr. frumvarpsins lagt til að sveitarstjórnir úthluti byggðakvóta. Sveitarstjórnir fá reyndar nokkur viðmið um þá úthlutun en þau eru mjög matskennd og kveðið á um að úthlutun byggist á gagnsæi, málefnalegum og staðbundnum ástæðum og sé í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlags. Bendir Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands, á að þetta fyrirkomulag vekji upp spurningar um vanhæfi sveitarstjórnarmanna og fleiri lagaleg álitaefni. Það er því ekki að undra að meiri hlutinn hafi séð sitt óvænna og fallið frá þeirri hugmynd frumvarpsins að ráðstafa veiðigjaldinu í fullkominni óvissu um hvort það væri í samræmi við stjórnarskrá.

Strandveiðar og altækt vald ráðherra.
    Varðandi strandveiðarnar almennt var ekki gerð tilraun til þess að takast á við þær miklu deilur sem ríkja um skiptingu veiðisvæða og úthlutun aflamarks inn á þau. Í þeim efnum hefur ráðherrann altækt vald sem Alþingi lét af hendi með lagabreytingu fyrir skemmstu. Nú er gráu bætt ofan á svart með því að ráðherra á að fá óskilgreint vald til þess að skipta veiðinni á tímabil, að eigin vild.
    Við fyrstu umræðu málsins voru þó uppi fyrirheit af hálfu stjórnarliða um að slíkt altækt ráðherravald yrði takmarkað. Það er hvergi gert í breytingartillögum meiri hlutana. Stappar nærri að ráðherra fái að jafnaði fimmfaldar heimildir til þess að skipa málum að sínum hætti í hverri þeirri lagagrein sem frumvarpið hafði að geyma þegar það var lagt fram. Þá var við umræðuna sagt af hálfu stjórnarliða að ástæða væri til þess að skoða hverjir hafi nýtt sér heimildir til útgerða strandveiðibáta. Hafa nú komið fram upplýsingar frá Fiskistofu um að 40% þeirra sem hafi farið til strandveiða hafi selt frá sér kvóta.

Hækkun veiðigjalds.
    Einn meginþáttur frumvarpsins lýtur að hækkun veiðigjaldsins um 70%. Forsenda þessarar miklu hækkunar er að framlegð í sjávarútvegi sé með ágætum. Rétt er það og þar ræður ekki síst að hagræðingin í sjávarútvegi hefur skilað sér með betri rekstrarárangri. Það er því þeim mun sérkennilegra að með þessu frumvarpi er dregið úr hagræðingu og skilvirkni sjávarútvegsins og þar með grafið undan möguleikum hans til þess að skila eiganda auðlindarinnar þeim arði sem ella væri hægt. Önnur ástæða góðrar rekstrarafkomu er lágt gengi íslensku krónunnar. Við blasir þess vegna að höfundar frumvarpsins reiða sig á að gengi krónunnar verði lágt um lengri framtíð, sem er athyglisverð framtíðarsýn.
    Það er ljóst að svo mikil hækkun veiðigjalds mun taka í reksturinn hjá skuldugustu útgerðunum, sem oftast eru þær nýrri í atvinnugreininni. Með sterkara gengi verður framlegðin minni og geta til þess að standa undir skuldum þar með verri. Því má ætla að þetta ákvæði muni leiða til samþjöppunar í sjávarútvegi, fækkun einyrkja og verri aðgangi nýliða að atvinnugreininni. Er það í hróplegu ósamræmi við yfirlýstan tilgang frumvarpsins.
    Í b-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra geti við ákvörðun álagningarstigs veiðigjaldsins tekið tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka. Um þetta segir í mjög svo rýrum athugasemdum við ákvæðið að ljóst sé að afkoma útgerðarflokka sé afar misjöfn og telja verði sanngjarnt að hægt sé að taka tillit til þess við ákvörðun veiðigjalds. Enginn vafi leikur á því að veiðigjaldið er skattur og ekki verður séð að þessi heimild ráðherra standist ákvæði 40. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að engan skatt megi leggja á né breyta, né af taka nema með lögum. Heimildin gengur jafnframt í berhögg við 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að skattamálum skuli skipað með lögum. Þar stendur enn fremur að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
    Engin skýr efnisleg viðmið eru sett um það í hvaða tilvikum ráðherra geti afnumið eða ákvarðað skattinn heldur vísað til mismunandi framlegðar útgerðarflokka. Útgerðarflokkar byggjast m.a. á mismunandi stærð fiskiskipa sem veiða sömu fisktegundir og er það því óeðlileg viðmiðun við álagningu skatts. Í umsögn Landssambands íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ) kemur fram að eðlilegra hefði verið að tiltaka skiptingu gjalds eftir fisktegundum eða flokkum þeirra þannig að framlegð yrði reiknuð sérstaklega fyrir hverja tegund eða flokk. 2. minni hluti áréttar andstöðu sína við ákvæðið í heild en bendir á að hefði verið farin sú leið sem LÍÚ tiltekur hefði a.m.k. verið málefnalegur grundvöllur fyrir ákvörðun skattsins. Ekki verður þó horft fram hjá því að þrátt fyrir slíkan grundvöll er ákvæðið ekki í samræmi við stjórnarskrá sem er skýr hvað þetta varðar.

Byggðaleg áhrif.
    Í endurskoðunarnefndinni, sem er oft nefnd sáttanefnd, sammæltust nær allir um að fallast á að gert yrði ráð fyrir að afmarkaður hluti veiðiréttarins, kvótans, yrði tekinn úr hefðbundnu aflahlutdeildar- og aflamarkskerfi. Yrði þeim hluta varið til byggðalegra, félagslegra og atvinnulegra úrræða. Öllum var ljóst að á þessu yrði að vera mikið hóf. Fiskveiðiauðlindin er takmörkuð og afkastageta fiskiskipastólsins og fiskvinnslunnar umfram áætlaða afrakstursgetu fiskistofnanna. Um það bil 90% kvótans, veiðiréttarins, er í höndum útgerða sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Tilfærslur af þessu tagi verða því í meginatriðum á milli útgerðarstaða á landsbyggðinni. Þá koma einnig til skerðingar á aflamarki, minni og stærri skipa, sem oft á tíðum eru burðarásar í hráefnisöflun fyrir fiskvinnslur á landsbyggðinni. Og því er það svo að þó réttlæta megi að nýta hluta fiskveiðiréttarins til sértækra aðgerða í tilteknum byggðarlögum mun umtalsverð aukning á þessu sviði koma illa við ýmsar útgerðir. Ekki síst þær smærri og kvótaminni.
    Skynsamlegt er hins vegar að leita annarra leiða til þess að byggja upp nýtt atvinnulíf á landsbyggðinni. Ekki með því að seilast eftir stöðugt meiri aflaheimildum í byggðalegum tilgangi, sem að lokum veikir sjávarútveginn og rýrir kjör starfsfólk hans í heild. Heldur með því að nýta þann ávinning sem þjóðarbúið í heild hefur haft af hagræðingunni í sjávarútveginum og ríkissjóður hefur vitaskuld sérstaklega notið, til þess að treysta innviði byggðanna og styðja fjölþætta atvinnuuppbyggingu um landið. Hagræðingu, tækniframförum og stórauknum afköstum hefur fylgt að sjávarútvegur hefur veikst í ýmsum byggðarlögum. Það er sannarlega mjög alvarlegt mál. Úr því verður þó ekki bætt með því að veikja sjávarútveginn í heild. Þvert á móti verður það miklu betur gert með því að nýta þau færi sem aukinn heildarávinningur af skynsamlegri og hagkvæmri fiskveiðistjórn fylgir til þess að bregðast við þeirri vá sem blasir við byggðarlögum.

Engin heildarsýn.
    Í þessu frumvarpi er hvergi að finna neina heildarsýn. Það einkennist þess í stað af skammtímahugsun og fullkomnu skilningsleysi á sjávarútveginum sem framsækinni hátækniatvinnugrein sem keppir á harðsóttum alþjóðlegum mörkuðum og hér innan lands við aðrar atvinnugreinar um gott starfsfólk og nauðsynlega fjárhagslega fyrirgreiðslu. Frumvarpið er því til óþurftar fyrir íslenskan sjávarútveg, sett fram í fullkomnu ósætti við alla þá sem við eiga að búa, jafnt launþega sem atvinnurekendur, sjómenn sem landverkafólk. Það er því hvorki líklegt til þess að stuðla að þeirri sátt í mikilvægu máli sem kallað hefur verið eftir, né leiða til þess að hagur greinarinnar batni, né heldur stuðla að betri lífskjörum í landinu.
    Annar minni hluti áréttar að fyrirliggjandi frumvarp er óvandað, tillögur þess eru ófullburða, kunna að brjóta gegn stjórnarskrá, athugasemdum og skýringum við það er mjög ábótavant og ákvæði þess ófullburða. Með vísan til alls þessa og framangreindra athugasemda leggur 2. minni hluti til að málið nái ekki fram að ganga.

Alþingi, 9. júní 2011.Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Jón Gunnarsson.
Fylgiskjöl með álitinu:

     1.      Umsögn frá Alþýðusambandi Íslands (6. júní 2011).
     2.      Umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands (6. júní 2011).
     3.      Umsögn frá VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna (5. júní 2011).
     4.      Umsögn frá Fiskistofu (6. júní 2011).
     5.      Umsögn frá Hafrannsóknastofnuninni (6. júní 2011).
     6.      Umsögn frá Kristni H. Gunnarssyni, Ólafi Halldórssyni, Elínu Björgu Ragnarsdóttur, Gísla Halldórssyni, Lýð Árnasyni, Sigurði J. Hreinssyni og Magnúsi Reyni Guðmundssyni.
     7.      Umsögn frá Landhelgisgæslu Íslands (6. júní 2011).
     8.      Umsögn frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva og Samtökum atvinnulífsins (6. júní 2011).
     9.      Umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda (6. júní 2011).
     10.      Umsögn frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda (6. júní 2011).
     11.      Umsögn frá Samtökum íslenskra fiskimanna (6. júní 2011).
     12.      Umsögn frá Sjómannasambandi Íslands (3. júní 2011).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.