Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 798. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1715  —  798. mál.
Svarefnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um Maastricht- skilyrði.

     1.      Uppfyllir Ísland verðbólguþátt Maastricht-skilyrðanna? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
    Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skal verðbólga ekki vera meiri en 1,5 prósentustigum yfir meðaltali verðbólgu árið áður í þeim þremur aðildarríkjum Evrópusambandsins þar sem hún mældist minnst. Árshækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs (HCPI) á Íslandi var í apríl 3,1%, en meðaltalsverðbólga, eða öllu heldur verðhjöðnun, árið 2010 var -2,1% í þeim þremur ESB-ríkjum þar sem verðbólga var minnst. Ísland var því töluvert frá því að uppfylla skilyrðið árið 2010.
    Markmið Seðlabanka Íslands um stöðugt verðlag miðar við 2,5% verðbólgu á tólf mánuðum. Framkvæmdastjórn ESB spáir 3% verðbólgu á Íslandi árið 2011. Á sama tíma er því spáð að verðbólga verði 1,63% í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún er minnst. Gangi þetta eftir næst skilyrðið með tilliti til ársins 2011.

     2.      Uppfyllir Ísland langtímastýrivaxtaþátt Maastricht-skilyrðanna? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
    Ekkert Maastricht-skilyrðanna varðar stýrivexti. Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skulu langtímavextir ekki vera hærri en 2 prósentustigum umfram vexti í þeim þremur aðildarríkjum ESB þar sem vextir eru lægstir. Langtímavextir skuldabréfa ríkissjóðs (10 ára) voru að meðaltali 6,5% árið 2010. Í þeim þremur ríkjum ESB þar sem verðbólga var lægst 2010 voru vextir að meðtali 7,35%. Vextir á Íslandi hefðu því mátt vera 9,35% árið 2010 en voru nærri 3 prósentustigum lægri en svo.
    Ef staðan væri tekin nú væri miðað við vexti í Tékklandi, Írlandi og Svíþjóð. Meðallangtímavextir í þeim þremur ríkjum eru 5,8%. Vaxtaviðmið Maastricht-skilyrða væri því 7,8%. Langtímavextir ríkissjóðs eru hins vegar nú um 7,3%.

     3.      Hver hefur afkoma af rekstri ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verið árin 2000–2010?

Tekjuafgangur / -halli % af vergri landsframleiðslu.

Ár 2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010
% 1,7 -0,7 -2,6 -2,8 0 4,9 6,3 5,4 -13,5 -10 -7,8
Heimild: Hagstofa Íslands

     4.      Uppfyllir Ísland þátt Maastricht-skilyrðanna um afkomu af rekstri ríkissjóðs? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
    Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skal halli af rekstri ríkissjóðs ekki vera meiri en 3% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan. Ef svo er ekki þarf hlutfallið að hafa lækkað jafnt og þétt í átt að 3%. Stjórnvöld stefna að jákvæðum frumjöfnuði ríkissjóðs árið 2011 og að árið 2013 verði heildarafkoma ríkissjóðs jákvæð. Halli af rekstri ríkissjóðs er talinn hafa verið 5,4% árið 2010, samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 6. júní sl., en í þeirri tölu er stuðst við skilgreiningu AGS á skuldum hins opinbera. Í skýrslunni er því spáð að hallinn verði 3,3% í lok árs 2011 og 0,5% í lok árs 2012, en að afkoma ríkissjóðs verði orðin jákvæð um 2,2% árið 2013. Gangi spáin eftir verður skilyrðinu náð í lok árs 2012, eða fyrr sé tekið tillit til lækkunar hlutfallsins úr 13,5% í 3,3% frá lokum árs 2008 til loka árs 2011.

     5.      Hverjar hafa skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verið árin 2000–2010?

Skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ár 2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010
% 73 75 72 71 64,5 52,6 57,4 53,3 102 120 120,2
Heimild: Hagstofa Íslands

    Í Maastricht-skilyrðunum er hins vegar gert ráð fyrir heildarskuldum hins opinbera án viðskiptaskulda og lífeyrisskuldbindinga. Í eftirfarandi töflu hafa þessir tveir þættir verið fjarlægðir:

Skuldir hins opinbera án viðskiptaskulda og lífeyrisskuldbindinga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ár 2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010
% 38,5 43,9 40,8 39,6 34,2 25,3 30 28,5 70,2 88,1 89,4
Heimild: Hagstofa Íslands

     6.      Uppfyllir Ísland þátt Maastricht-skilyrðanna um opinberar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
    Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skulu skuldir hins opinbera, þ.e. ríkissjóðs og sveitarfélaga, ekki vera hærri en sem nemur 60% af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan. Ef svo er ekki þarf hlutfallið að hafa minnkað og stefna í 60% á ásættanlegum hraða.
    Skuldir hins opinbera námu um 92,6% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2010 samkvæmt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem notar annan mælikvarða en Hagstofan. Í spá sjóðsins frá 6. júní sl. er gert ráð fyrir að hlutfallið hækki í 100,1% árið 2011, en taki svo að lækka í 94,6% í lok árs 2012, 90,3% í lok árs 2013, 83,8% 2014, 78,9% 2015 og loks 71,3% í lok árs 2016. AGS notar ekki sama mælikvarða á opinberar skuldir og gert er samkvæmt Maastricht-skilyrðunum.
    Ef spá AGS um 23% lækkun skuldahlutfalls hins opinbera frá lokum árs 2010 til loka árs 2016 er notuð sem viðmið má áætla gróflega að skuldir samkvæmt Maastricht-skilyrðunum lækki úr 89,4% af vergri landsframleiðslu í 68,8% frá 2010 til 2016. Samkvæmt því næst markmið um skuldir ríkissjóðs ekki á spátímanum, en sé tekið tillit til lækkunar hlutfallsins úr 89,4% í 68,8% frá lokum árs 2010 til loka árs 2016 má telja hraða lækkunar skulda viðunandi.

     7.      Uppfyllir Ísland þær kröfur sem gerðar eru til að öðlast aðild að gengissamstarfi Evrópu (ERM II)? Ef ekki, er þá stefnt að því og með hvaða hætti?
    Engar kröfur eru gerðar um aðild að ERM II aðrar en aðild að Evrópusambandinu. Ísland er ekki aðili að ESB, en sótti um aðild 16. júlí 2009 og hófust aðildarviðræður formlega 27. júlí 2010. Við aðild að sambandinu gæti Ísland sótt um aðild að ERM II. Aðildarríki þurfa að vera í tvö ár í ERM II gengissamstarfinu með viðunandi árangri áður en upptaka evru er möguleg.