Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 889. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1750  —  889. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



I. KAFLI

Breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst 2011“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 30. september 2011.

II. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

2. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst 2011“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 30. september 2011.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu er lagt til að heimild bráðabirgðaákvæða laga um gjaldeyrismál verði framlengd til 30. september 2011. Þar er Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að setja reglur, með samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra, til að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra. Að óbreyttu rennur heimildin út 31. ágúst nk. en sú dagsetning tekur mið af lengd efnahagsáætlunar Íslands í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Frumvarpið er lagt fram að undangenginni umfjöllun efnahags- og skattanefndar um frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra (þskj. 1612, 788. mál) þar sem lagt er til að reglur sem settar hafa verið á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða I í lögum um gjaldeyrismál verði lögfestar með hliðsjón af áætlun um losun gjaldeyrishafta fyrir 31. desember 2015. Umfjöllun um málið hefur verið frestað að sinni í ljósi samkomulags þingflokka um þingfrestun og er stefnt á afgreiðslu þess í september nk. Ekki er búist við að höftin falli brott 30. september 2011.
    Efnahags- og skattanefnd mun áður en nefndafundir og þingfundir hefjast í september óska eftir lagalegri og hagfræðilegri úttekt á frumvarpi ráðherra og einstökum greinum þess. Meta þarf hvort lögfesting þess veiti Seðlabanka Íslands nægilegan sveigjanleika til að bregðast skjótt við leka í gjaldeyrishöftum samhliða losun þeirra samkvæmt áætluninni. Þá þarf að meta nauðsyn slíkrar lagasetningar með tilliti til væntinga markaðarins um afnám hafta og trúverðugleika áætlunarinnar.