Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 201. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1778  —  201. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um skeldýrarækt.

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Nefndin fjallaði áfram um málið eftir að 2. umræða fór fram 9. og 10. júní sl.
    Hinn 31. maí barst nefndinni erindi frá Skelrækt, samtökum skelræktenda. Í erindinu benda samtökin á að þau telji að frumvarpi til laga um skeldýrarækt hafi verið ætlað að einfalda lagaumhverfi skeldýraræktar og að aðgreina skelrækt frá mengandi starfsemi eins og fiskeldi. Þá benda samtökin á að þeim finnst ekki eðlilegt að ræktun skeldýra skuli vera starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Benda samtökin einnig á að samkvæmt nýlegu starfsleyfi sem Umhverfisstofnun hafi gefið út til handa rekstraraðila skeldýraræktar þurfi kræklingaræktendur að taka tryggingu vegna bráðamengunar skv. 16. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda þar sem kræklingarækt falli í 11. flokk I. viðauka við lögin og teljist þar með til eldis sjávar- og ferskvatnslífvera með fráveitu til sjávar. Að lokum minna samtökin á fyrri athugasemdir sínar og óska þess að vera talin meðal umsagnaraðila í ýmsum greinum frumvarpsins.
    Í tilefni af framangreindu erindi samtakanna óskaði nefndin eftir viðbrögðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við þeim athugasemdum sem þar komu fram. Nefndinni barst svo bréf frá ráðuneytinu 1. júní sl. Þar bendir ráðuneytið m.a. á að í frumvarpi til laga um skeldýrarækt eins og það var lagt fyrir Alþingi (þskj. 218) hafi ekki verið gert ráð fyrir að starfsemi skeldýraræktar væri starfsleyfisskyld. Svo hafi verið þar sem Umhverfisstofnun hafi svarað tiltekinni beiðni ræktenda um starfsleyfi vegna kræklingaræktar á þann veg að stofnunin teldi að ekki ætti að gefa út starfsleyfi fyrir viðkomandi starfsemi samkvæmt lögum um hollustuvernd og mengunarvarnir þar sem hún hefði ekki í för með sér mengun. Þá bendir ráðuneytið á að hingað til hafi ræktun skeldýra verið felld undir fiskeldislög og að í 7. gr. þeirra sé gert ráð fyrir að allt fiskeldi sé starfsleyfisskylt, þ.e. að annaðhvort sé skylt að leita eftir starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd viðkomandi sveitarfélags eða Umhverfisstofnun eftir umfangi og stærð starfseminnar. Þá kemur fram að 1. minni hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hafi lagt til að Umhverfisstofnun ákveði í hverju tilviki hvort viðkomandi starfsemi sé starfsleyfisskyld eða ekki. Þá kemur fram það mat ráðuneytisins að framangreind breytingartillaga sé til bóta að teknu tilliti til röksemda sem koma fram í nefndaráliti. Þá vekur ráðuneytið athygli á að ef tiltekin starfsemi verður ekki talin starfsleyfisskyld samkvæmt ákvörðun Umhverfisstofnunar falli ekki kostnaður á viðkomandi rekstraraðila vegna starfsleyfis.
    Að auki rekur ráðuneytið ástæður þess að ekki var gert ráð fyrir því í ákvæðum frumvarpsins að Skelrækt, samtök skelræktenda, yrði umsagnaraðili þegar teknar verða tilteknar stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum sem sett kunna að verða á grundvelli frumvarpsins. Bendir ráðuneytið á að sjaldgæft eða óþekkt sé að félög sem starfa á vegum einstaklinga eða annarra einkaaðila og ekki hafa verið sett sérstök lög um séu umsagnaraðilar um stjórnvaldsákvarðanir ríkis og sveitarfélaga. Þá vekur ráðuneytið athygli á að gert er ráð fyrir umsagnaraðilum á vegum slíkra hagsmunaaðila, t.d. í lögum um fiskeldi. Umsagnaraðilar samkvæmt þeim lögum, þ.e. Landssamband fiskeldisstöðva og Landssamband veiðifélaga, séu hins vegar félög sem eru stofnuð með lögum. Einnig vekur ráðuneytið athygli á að þegar teknar verða stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frumvarpsins sé Matvælastofnun heimilt að leita álits eða umsagnar hjá Skelrækt samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar um svonefnda frjálsa álitsumleitan.
    Skilningur meiri hlutans er sá að skeldýrarækt sé í eðli sínu ekki mengandi starfsemi. Í slíkri ræktun felist að meginstefnu til einungis tilfærsla og samansöfnun skeldýra á heppilegan ræktunarstað án notkunar víðbótarefna. Því telur meiri hlutinn að líkur séu á því að samþykkt laga um skeldýrarækt muni hafa þau áhrif að almennt muni ræktun skeldýra verða ndanþegin starfsleyfisskyldu samkvæmt lögum um hollustuvernd og mengunarvarnir. Byggist framangreindur skilningur nefndarinnar á því að Umhverfisstofnun virðist í ákveðnum tilvikum ekki hafa talið ræktun skeldýra starfsleyfisskylda auk þess sem samþykkt frumvarpsins sem lög muni hafa í för með sér að skeldýrarækt heyri ekki lengur undir fiskeldislög og skeldýrarækt teljist því ekki lengur til eldis.
    Við umfjöllun nefndarinnar var rætt um hvort mögulegt væri að undanskilja skeldýrarækt starfsleyfisskyldu og skyldu til töku bráðamengunartryggingar á grundvelli mengunarvarnarlöggjafar. Var m.a. nefnt að eðli skeldýraræktar væri þannig að slík skylduálagning gæti ekki talist í samræmi við það markmið sem mengunarvarnarlöggjöf stefnir að. Að áliti meiri hlutans eru slíkar leiðir vart raunhæfar þar sem með þeim kynnu að vakna áleitnar spurningar um hvort farið væri gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði umhverfisréttar.
    Meiri hlutinn hefur fullan skilning á því að skeldýraræktendur vilji á grundvelli samtaka sinna hafa eitthvað um það að segja til hvaða þátta er litið við töku ákvarðana sem varðað geta skeldýrarækt. Engu að síður telur meiri hlutinn að þegar kemur að töku ákvarðana sem byggjast þurfa á hlutlægum sérfræðiupplýsingum sé ekki eðlilegt að hagsmunasamtök hafi rétt til að koma sjónarmiðum sínum að. Telur meiri hlutinn að væri slík leið farin kynni að skapast hætta á hagsmunaárekstrum. Þó bendir meiri hlutinn á að stjórnvöldum er ávallt heimilt að nálgast álit hagsmunaðila á grundvelli viðurkennds frelsis stjórnvalda til slíkra gjörða.
    Meiri hlutinn telur þó ekki hjá því litið að hagsmunaaðilar í skeldýrarækt hljóta að teljast meðal þeirra aðila sem hafa ættu möguleika á að veita umsögn við undirbúning reglugerða um starfsemi skeldýraræktar. Af þeim sökum leggur meiri hlutinn til þá breytingu á 17. gr. frumvarpsins að samtök hagsmunaaðila á sviði skeldýraræktar verði tilgreind meðal lögbundinna umsagnaraðila. Með því móti telur meiri hlutinn komið til móts við athugasemdir Skelræktar, samtaka skelræktenda, ásamt því sem jafnræðis sé gætt.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Á eftir orðinu „Orkustofnunar“ í 5. málsl. 17. gr. komi: samtaka hagsmunaaðila í skeldýrarækt.

    Atli Gíslason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 10. júní 2011.Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Helgi Hjörvar.Björn Valur Gíslason.


Róbert Marshall.