Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 18. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1826  —  18. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétu Gunnarsdóttur og Pétur G. Thorsteinsson frá utanríkisráðuneyti, Dagmar Sigurðardóttur og Ásgrím L. Ásgeirsson frá Landhelgisgæslunni, Stefán Pálsson og Einar Ólafsson frá Samtökum hernaðarandstæðinga, Jóhönnu Eyjólfsdóttur frá Amnesty International og Guðríði Sigurbjörnsdóttur frá Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna. Umsagnir bárust nefndinni frá Amnesty International á Íslandi, Landhelgisgæslunni, Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, Nexus – Rannsóknarvettvangi, Samtökum hernaðarandstæðinga og utanríkisráðuneytinu.
    Markmið frumvarpsins er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorkuóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.
    Nokkrar umræður urðu um málið innan nefndarinnar og voru skiptar skoðanir á afgreiðslu þess. Í umsögn utanríkisráðuneytisins kemur fram að markmið frumvarpsins sé að meginstefnu til í samræmi við yfirlýsta stefnu íslenskra stjórnvalda eins og hún hefur birst í yfirlýsingum stjórnvalda en einnig í samþykkt Alþingis um stefnu Íslands í afvopnunarmálum. Á hinn bóginn geti ýmis ákvæði frumvarpsins farið í bága við skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi og því þurfi að huga betur að því hvort og þá hvernig meginstefnan yrði bundin í lög. Meiri hlutinn telur liggja fyrir að gera megi nokkrar breytingar á frumvarpinu ef það eigi að verða að lögum enda um margflókið mál að ræða sem hefur snertifleti við mikilvæga og viðkvæma hagsmuni. Hafa þegar verið unnar breytingartillögur sem varða meðal annars afmörkun svæðisins, nánari skilgreiningu á undanþáguheimildum, tilvísun í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna o.fl.
    Á undanförnum árum hefur utanríkisráðuneytið unnið að greiningu á öryggi og vörnum Íslands. Má þar nefna skýrslu áhættumatsnefndar frá árinu 2009. Það er mat meiri hlutans að þar sem nú stendur fyrir dyrum mótun þjóðaröryggisstefnu sé eðlilegt að nefnd sú um mótun þjóðaröryggisstefnu sem fyrirhugað er að taki til starfa taki efnisatriði frumvarpsins til meðferðar. Í því efni ber einnig að benda á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því lýst yfir að Ísland skuli friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og nefnd um þjóðaröryggisstefnu hlýtur þar af leiðandi einnig að fjalla um hvernig hrinda megi því markmiði í framkvæmd.
    Við mat á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands komi m.a. til skoðunar ályktun Alþingis um stefnu í afvopnunarmálum frá árinu 1985, 30 ára samfelld stefna og yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda um bann við staðsetningu kjarnavopna hér á landi og lög og alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að, svo sem um allsherjarbann við notkun og tilraunum með kjarnorkuvopn, bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn í gufuhvolfinu, himingeimnum og neðansjávar, bann við staðsetningu kjarnorkuvopna og annarra gjöreyðingarvopna á hafsbotni og í honum, o.s.frv. Telur meiri hlutinn ljóst að ekki verði komist hjá því að taka framangreind mál til skoðunar með heildstæðum hætti við mat á þjóðaröryggisstefnu Íslands.
    Í ljósi alls framangreinds og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem hér eru reifuð leggur meiri hlutinn til að frumvarpið fái frekari vinnslu í fyrirhugaðri nefnd um þjóðaröryggisstefnu og í því augnamiði verði málinu vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. ágúst 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.



Björgvin G. Sigurðsson.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Valgerður Bjarnadóttir.