Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 896. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1832  —  896. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um staðfesta samvist, nr. 87/1996.

Frá allsherjarnefnd.



I. KAFLI

Breyting á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna
til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðanna „staðfestri samvist“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: hjónabandi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010.
2. gr.

    Orðin „aðilar í staðfestri samvist“ í a-lið 28. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

3.     gr.

    Orðin „eða staðfestri samvist“ í a-lið 2. tölul. 22. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
4. gr.

    Orðin „aðila í staðfestri samvist“ og „staðfestri samvist“ í 1. og 3. tölul. 4. mgr. 95. gr. a laganna falla brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
5. gr.

    Orðin „aðila í staðfestri samvist“ og „staðfestri samvist“ í 1. og 3. tölul. 4. mgr. 70. gr. a laganna falla brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.
6. gr.

    Orðin „aðilar í staðfestri samvist“ og „staðfestri samvist eða“ í a-lið 5. tölul. 1. gr. a laganna falla brott.

VI. KAFLI
7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að hugtakið staðfest samvist verði fellt brott úr gildandi lögum en enn finnst hugtakið í nokkrum lögum og við það eru bundin ákveðin réttindi eða skyldur. Með setninga laga nr. 65/2010, um breytingar á hjúskaparlögum o.fl., var ætlunin að fella hugtakið brott úr lögum og jafna stöðu mismunandi hjúskaparforma. Misbrestur virðist hins vegar hafa orðið á að allar tilvísanir til staðfestrar samvistar væru felldar brott og þá einnig í þeim frumvörpum sem hugtakið staðfest samvist kom fyrir í og voru til meðferðar á Alþingi á sama tíma.
    Frumvarpið samanstendur af sex köflum og fela fimm fyrstu kaflarnir í sér tillögur um breytingu á tiltekinni löggjöf. Í fyrsta kafla eru lagðar til breytingar á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna. Um er að ræða breytingu á orðunum staðfestri samvist í hjónaband í ákvæði þar sem fjallað er um samþykki til geymslu fósturvísa.
    Í öðrum kafla eru lagðar til breytingar sem gera þarf á nýlegri löggjöf um vátryggingastarfsemi, en á tveimur stöðum í lögunum er vitnað til hugtaksins staðfest samvist. Er hér lagt til að í báðum tilvikum verði orðin felld brott.
    Í þriðja og fjórða kafla eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, annars vegar og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, hins vegar. Eru þær sambærilegar og fela í sér brottfall orðanna „aðila í staðfestri samvist“ þar sem fjallað er um skilgreiningu á nákomnum aðilum.
    Fimmti kafli tekur á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem fella þarf brott orðin „aðilar í staðfestri samvist“ og „staðfestri samvist eða“ í orðskýringaákvæði þar sem hugtakið samstarf er skilgreint.
    Í sjötta kafla er kveðið á um gildistöku laganna og skulu þau öðlast þegar gildi.