Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 748. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1837  —  748. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (EES-reglur o.fl.).

Frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá velferðarráðuneyti, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ingibjörgu Úlfarsdóttur og Björgu Bjarnadóttur frá Kennarasambandi Íslands og Guðjón Axel Guðjónsson frá Samtökum atvinnulífsins. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Barnaheillum, Jafnréttisstofu, Kennarasambandi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Persónuvernd, ríkisskattstjóra, Tryggingastofnun ríkisins og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Breytingarnar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar sem eru til komnar vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Auk lengingar á foreldraorlofi til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins 2010/18/EB, um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings um foreldraorlof, er lögð til breyting á 13. gr. vegna álits Eftirlitsstofnunar EFTA þess efnis að ákvæði laganna er varða ávinnslutímabil brjóti gegn ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í öðru lagi er um að ræða breytingar sem eru til komnar vegna álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5862/2009. Þar taldi umboðsmaður að reiknireglan sem viðhöfð hefur verið varðandi viðmiðunartekjur við útreikning greiðslna úr sjóðnum væri ekki í samræmi við lög um fæðingar- og foreldraorlof. Breytingarnar miða að því að skýra frekar þá reiknireglu sem Fæðingarorlofssjóður hefur viðhaft við framkvæmd laganna. Í þriðja lagi eru svo lagðar til ýmsar breytingar á lögunum meðal annars í því skyni að skýra betur tiltekin ákvæði sem þótt hafa óskýr við framkvæmd laganna og tryggja betur rétt fólks.
    Nefndin hefur fjallað um málið. Þau atriði sem hlutu mesta umfjöllun voru breytingar sem rekja má til framangreindra ábendinga Eftirlitsstofnunar EFTA, breytingar á ákvæðum er varða viðmiðunartekjur við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, framsal réttar til töku fæðingarorlofs við andlát annars foreldris og lenging foreldraorlofs.
    Meiri hlutinn fagnar lengingu á foreldraorlofi. Orlofið hefur verið lítið notað hér á landi og þó svo að margvíslegar ástæður kunni að liggja baki því telur nefndin mikilvægt að kynna foreldrum þann rétt sem þeir hafa til töku slíks orlofs. Þá telur meiri hlutinn margar af þeim breytingum sem lagðar eru til jákvæðar og til frekari skýringar á ákvæðum laganna. Meiri hlutinn telur m.a. jákvætt að nú sé gert ráð fyrir því að heimilt verði að miða töku fæðingarorlofs hjá foreldrum sem ættleiða barn eða taka í varanlegt fóstur við komu barns inn á heimilið þegar um er að ræða reynslutíma áður en til ættleiðingar eða varanlegs fósturs kemur. Þegar foreldrar ættleiða barn frá öðrum löndum eða taka við barni í varanlegt fóstur er algengt að kveðið sé á um reynslutíma í samningum um ættleiðingu. Samkvæmt gildandi lögum hafa foreldrar þurft að taka sér launalaust leyfi meðan á reynslutíma stendur en hér er ráðin bót á því.
    Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemdir við ákvæði 11. mgr. 13. gr. laganna og taldi það brjóta gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og reglugerð nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra. Ákvæði 11. mgr. setur það skilyrði að foreldri þurfi að hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði, a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili, áður en til samlagningar starfstímabila foreldris í öðrum aðildarríkjum geti komið. Meiri hlutinn ræddi þetta mál ítarlega en samkvæmt frumvarpinu er lagt til að hafi foreldri starfað skemur á innlendum vinnumarkaði skuli Vinnumálastofnun meta hvort það teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði þannig að taka skuli tillit til starfstíma í öðru aðildarríki. Meiri hlutinn áréttar að breytingin felst í því að Vinnumálastofnun meti hvert tilvik fyrir sig í samræmi við lögin. Auk þess leggur meiri hlutinn áherslu á að mikilvægt er að koma í veg fyrir misnotkun á fæðingarorlofskerfinu og því eðlilegt að ekki skapist sjálfkrafa réttur til greiðslna eftir styttri tíma á innlendum vinnumarkaði en einn mánuð.
    Í a-lið 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 5. mgr. 13. gr. laganna sem varðar útreikning á ávinnslutímabili vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í athugasemdum við ákvæðið eru breytingunni gerð greinargóð skil og tekin dæmi til skýringar. Meiri hlutinn ræddi þann möguleika að miða ávallt við laun fyrir fullt starf þegar foreldri hefði tekið 50% fæðingarorlof samhliða 50% launalausu leyfi á viðmiðunartíma. Slík regla mundi þó skapa ójafnræði við þá foreldra sem eru t.d. í 50% starfi og launalausu námsleyfi eða hafa minnkað við sig starfshlutfall niður í 50% af einhverjum ástæðum. Nefndin bendir á að aðstæður foreldra eru margvíslegar og mikilvægt að sama reglan gildi um útreikning tekna á viðmiðunartímabili. Það er meginregla við útreikning hjá Fæðingarorlofssjóði að launalaust leyfi á viðmiðunartímabili reiknast sem slíkt. Nefndin telur þá breytingu sem um ræðir tryggja jafnræði með foreldrum og lögfesta þá meginreglu.
    Í c-lið 1. gr. er lögð til breyting á 8. mgr. 8. gr. Breytingunni er ætlað að samræma tímamark vegna framsals réttinda við andlát annars foreldris yfir til hins. Í ákvæðinu er kveðið á um að ef foreldri andast áður en barn nær 18 mánaða aldri færist sá réttur sem hinn látni hafði ekki nýtt sér yfir til hins foreldrisins. Þegar um ættleiðingu eða varanlegt fóstur er að ræða er aftur á móti miðað við 36 mánuði frá því að barn kom inn á heimili. Þar er vísað til réttar til fæðingarorlofs en hann fellur niður 36 mánuðum eftir fæðingu barns eða eftir að barn kom inn á heimili ef um ættleiðingu eða varanlegt fóstur er að ræða. Meiri hlutinn telur mikilvægt að sama regla gildi um framsal réttinda hvort sem um er að ræða fæðingu, ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Meiri hlutinn telur þó eðlilegra að miða við 36 mánuði en ekki 18 mánuði. Hafi foreldri ætlað sér að fresta töku fæðingarorlofs en andast þegar barn er tveggja ára, eða tveimur árum eftir að það var ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, fær hitt foreldrið samkvæmt frumvarpinu ekki ónýttan rétt til fæðingarorlofs framseldan. Meiri hlutinn telur mikilvægt að samræmi sé á milli ákvæðanna um rétt til fæðingarorlofs og framsal við andlát foreldris og leggur því til breytingu á þessu. Þessu til samræmis leggur meiri hlutinn til breytingu á sambærilegu ákvæði er varðar framsal á ónýttum rétti til fæðingarorlofs sé foreldri ófært um að annast barn sitt vegna sjúkdóms, afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar.
    Í 4. gr. frumvarpsins er ranglega vísað til viðmiðunarfjárhæðar fjármálaráðherra á reiknuðu endurgjaldi. Hið rétta er að það er ríkisskattstjóri sem ákveður þessa fjárhæð, skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, og leggur meiri hlutinn til breytingu þessu til leiðréttingar.
    Auk þeirra breytinga sem nefndar hafa verið leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins og leggur til að lögin öðlist þegar gildi fyrir utan sérreglu sem gildir um gildistöku breytinga á foreldraorlofi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGUM:


     1.      Í stað c-liðar 1. gr. komi þrír nýir stafliðir er orðist svo:
                  c.      Í stað orðanna „18 mánaða aldri“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: 36 mánaða aldri.
                  d.      Í stað orðanna „tímamark 5. mgr. um brottfall réttinda“ í 2. málsl. 8. mgr. kemur: 36 mánuði eftir að barn kom inn á heimilið.
                  e.      Í stað orðanna „18 mánuðunum“ í 1. og 2. málsl. 9. mgr. kemur: 36 mánuðunum.
     2.      Í stað orðsins „fjármálaráðherra“ í a-lið 4. gr. komi: ríkisskattstjóra.
     3.      1. mgr. 16. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur eftir gildistöku laga þessara.

    Jónína Rós Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. sept. 2011.


Guðrfíður Lilja Grétarsdóttir,

form., frsm.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

Guðmundur Steingrímsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.