Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 898. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1838  —  898. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Við 6. tölul. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sama gildir um sölu á rafrænni útgáfu slíkra bóka. Sama gildir um sölu á geisladiskum og öðrum sambærilegum miðlum með bókartexta.
     b.      Við 10. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um stafræna dreifingu slíkrar tónlistar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó skal aðili með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis sem selur rafrænt afhenta þjónustu skv. d-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. til aðila sem er ekki skráður skv. 5. gr. og er heimilisfastur eða með fasta starfsstöð hér á landi innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri þjónustu hér á landi. Þjónusta þessi telst ávallt nýtt þar sem kaupandi þjónustunnar hefur búsetu eða starfsstöð. Seljandi skal ótilkvaddur tilkynna starfsemi sína rafrænt á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Aðilar sem selja rafrænt afhenta þjónustu fyrir 1.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili skulu undanþegnir skattskyldu.
     b.      Í stað orðsins ,,Kaupandi" í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Aðili.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald.

3. gr.

    Eftirfarandi tollskrárnúmer falla brott úr E-lið viðauka I við lögin: 8519.8100, 8521.9029, 8543.7001.

III. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.
4. gr.

    A-tollur tollskrárnúmeranna 8519.8100, 8521.9029 og 8543.7001 í viðauka I við lögin verður 0%.


5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2011.

Greinargerð.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á virðisaukaskattslögum, lögum um vörugjald og tollalögum. Í fyrsta lagi er lagt til að útgáfa rafrænna bóka og stafræn dreifing tónlistar sem og sala á geisladiskum og öðrum sambærilegum miðlum með bókartexta verði skattlögð í neðra þrepi virðisaukaskattsins. Í annan stað er lagt til að erlendum þjónustuaðilum sem veita rafræna þjónustu hér á landi beri að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölunni enda sé kaupandinn ekki á virðisaukaskattsskrá hérlendis. Loks er lagt til að almennir tollar og vörugjöld falli brott af ýmiss konar raftækjum, þ.m.t. afspilunartækjum.
    Við undirbúning málsins voru undanþáguheimildir 2. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt einnig ræddar og kom þá m.a. til tals að fjölga þeim tegundum listaverka sem undir ákvæðið falla og færa þar undir fleiri listgripi sem framleiddir eru í takmörkuðu upplagi. Kom fram að dönsk lög væru að þessu leyti hagstæðari en hin íslensku og að fjármálaráðuneytið væri reiðubúið að skoða breytingar í þá átt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að sala rafrænna bóka beri sama virðisaukaskatt og bækur sem nú uppfylla skilyrði 6. tölul. 14. gr. virðisaukaskattslaga. Þar segir að sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptaka af lestri slíkra bóka sé skattlögð með 7% virðisaukaskatti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að rafrænar bækur séu að efni til sambærilegar og bækur í skilningi nefnds lagaákvæðis, þ.e. innihaldi bókartexta, en að munurinn felist í miðlunaraðferðinni. Með rafrænni útgáfu er átt við að afhending bókar fer fram í formi rafrænnar þjónustu hvort sem um er að ræða niðurhal af vefnum, vefáskrift eða annað.
    Í framkvæmd ríkisskattstjóra hafa mótast ákveðnar viðmiðanir um flokkun prentaðs efnis sem getur verið vandasöm. Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneyti tekur 7% skatthlutfallið í dag almennt ekki til bóka án texta í meginmáli. Undir lægra skatthlutfallið falla þó myndabækur með íslenskum texta, t.d. barnabækur og listaverkabækur og aðrar slíkar bækur þó að texti sé ekki stórvægilegur. Það sama gildir um nótnabækur enda sé texti með nótunum. Undir 7% skatthlutfallið falla enn fremur landabréfabækur, atlasar og kort sem hafa að geyma þematískar upplýsingar, t.d. upplýsingar um veðurfar, jarðfræði, hafstrauma, sólkerfi eða sambærilegar bækur.
    Rafræn þjónusta er í eðli sínu alþjóðleg og telja sumir að tillaga frumvarpsins um að skattleggja tilgreinda rafræna þjónustu í neðra þrepinu en aðra ekki samræmist illa tilhneigingu ríkja til að samræma reglur sínar á alþjóðavettvangi um milliríkjaviðskipti. Þess vegna, meðal annars, hefur gætt tregðu við að færa skattprósentu virðisaukaskatts á rafrænar bækur (óáþreifanlegar) til jafns við ritaðar bækur (áþreifanlegar). Auk þess hefur verið bent á að torvelt geti verið að aðgreina sölu rafrænna bóka frá annarri rafrænni þjónustu. Á móti vega sjónarmið af menningarlegum og samkeppnislegum toga sem aðrir telja vega þyngra eins og nánar er gerð grein fyrir í frumvarpi Marðar Árnasonar o.fl. um svipað efni og efnahags- og skattanefnd hefur haft til umfjöllunar (þskj. 741, 451. mál.).
    Í annan stað er í frumvarpinu lagt til að sala geisladiska og annarra áþreifanlegra miðla með bókartexta verði færðir úr almennu skattþrepi í virðisaukaskatti í lægra þrep. Skatthlutfall virðisaukaskatts á þessum vörutegundum færi þannig úr 25,5% í 7%. Undanþágan tekur einungis til áþreifanlegra vara, svo sem geisladiska, minnislykla og annarra sambærilegra miðla. Þá er einnig áskilið að efni miðilsins sé bókartexti í þeim skilningi sem hefur verið lagður í það hugtak í virðisaukaskattsframkvæmd.
    Í þriðja lagi er lögð til samsvarandi breyting og að framan greinir varðandi sölu tónlistar, sbr. 10. tölul. 2. mgr. 14. gr. Er lagt til að stafræn dreifing tónlistar verði færð í neðra virðisaukaskattsþrepið. Breytingin er lögð til að fengnum athugasemdum frá Bandalagi íslenskra listamanna og fleiri aðilum.
    Í dag eru helstu aðferðir til stafrænnar miðlunar á tónlist fólgnar í niðurhali annars vegar og streymi hins vegar. Á heimasíðu STEF (Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar) er niðurhal tónlistar talið vera það þegar vefsíða býður upp á að hlaða niður og vista á tölvum notenda eintök tónverka á netinu. Streymi á tónlist á sér stað þegar hlustað er á tónlist í gegnum internetið án þess að henni sé hlaðið niður á tölvu notanda eða annað móttökutæki og þá án þess að búið sé til nýtt eintak af tónlistinni nema þá tímabundið á meðan á streyminu stendur.
    

Um 2. gr.

    Lögð er til breyting samhljóða þeirri sem lögð var til í 10. gr. frumvarps fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrr á þessu þingi (þskj.1465, 824. mál.), sbr. nú lög nr. 73/2011. Við þinglega meðferð frumvarpsins lagði meiri hluti efnahags- og skattanefndar til að greinin yrði felld brott þar sem ekki hefði gefist nægur tími til að fjalla um ákvæðið en um leið lýsti meiri hlutinn sig reiðubúinn til að fjalla um málið á komandi hausti. Ákvæðið gerir ráð fyrir að erlendir söluaðilar rafrænnar þjónustu innheimti og skili virðisaukaskatti af sölu til óskattskyldra aðila hér á landi, þ.e. kaupandi er í því tilviki ekki skráður á virðisaukaskattsskrá. Tilgangur ákvæðisins er að jafna samkeppnisstöðu íslenskra og erlendra aðila sem selja rafræna þjónustu hér á landi og í annan stað að auka tekjur ríkissjóðs. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að almennar reglur virðisaukaskattslaga gildi um framkvæmdina. Um nánari skýringar vísast til frumvarps fjármálaráðherra.

Um 3. og 4. gr.

    Lagt er til að almennir tollar og vörugjöld af þremur tollflokkum falli niður. Breytingunni er fyrst og fremst ætlað að leiðrétta tiltekið misræmi í skattlagningu á afspilunartækjum sem sum hver eru gædd eiginleikum tölvu sem hvorki ber tolla né vörugjöld. Athygli skal þó vakin á að fleiri vörutegundir en afspilunartæki falla undir þau tollskrárnúmer sem hér um ræðir og má um það vísa til tollskrárinnar.
    Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra hafa tekjur ríkissjóðs af þeim númerum sem um ræðir verið u.þ.b. 100 millj. kr. að meðtöldum virðisaukaskatti sem leggst ofan á vörugjöld og tolla. Aftur á móti gæti breytingin haft í för með sér jákvæð áhrif á innlenda sölu þess búnaðar sem um ræðir.
    Fram hefur komið við umfjöllun um þessa tillögu að innan fjármálaráðuneytisins hafi að undanförnu og í samvinnu við tollstjóra og Samtök verslunar og þjónustu verið unnið að heildargreiningu á vörugjaldskerfinu í því skyni að gera kerfið einfaldara, gagnsærra og sanngjarnara.

Um 5. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku. Lagt er til að ákvæði taki gildi 1. nóvember 2011 eða í upphafi þess uppgjörstímabils á virðisaukaskatti sem er á gjalddaga 5. febrúar 2012.