Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 711. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
3. uppprentun.

Þskj. 1841  —  711. mál.
Leiðréttingar.




Breytingartillögur



við frv. til l. um ökutækjatryggingar.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar (ÁI, MSch, VBj, ALE, SkH).



     1.      Orðin „Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA)“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. falli brott.
     2.      Við 3. gr. bætist þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Aðildarríki er ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
                  Umráðamaður er sá aðili sem hefur varanleg umráð ökutækis.
                  Almenn umferð samkvæmt lögum þessum er öll meðferð ökutækja og önnur umferð á vegum sem eru opnir almenningi.
     3.      Á eftir 3. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði umferðarlaga um skráningarskyldu ökutækja skulu ökutæki skv. 1. mgr. 3. gr. skráningarskyld samkvæmt lögum þessum. Umferðarstofa annast skráningu og ákveður skilyrði hennar. Ökutæki sem eru jafnframt skilgreind sem vinnuvél í skilningi laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, skulu einnig skráð hjá Vinnueftirliti ríkisins, sbr. 49. gr. þeirra laga.
     4.      Í stað orðanna „ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum“ í b-lið 1. mgr. 7. gr. komi: aðildarríki.
     5.      1. mgr. 8. gr. orðist svo:
                  Auk ábyrgðartryggingar skv. 8. gr. skal hver ökumaður sem stjórnar ökutæki í almennri umferð tryggður sérstakri slysatryggingu enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 1. mgr. 7. gr.
     6.      10. gr. orðist svo:
                  Vátryggingariðgjald ökutækis hvílir sem lögveð á ökutækinu, einnig þótt vátryggt sé fyrir hærri fjárhæð en lögboðið er, og gengur í eitt ár fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á því hvílir nema sköttum til ríkissjóðs. Á grundvelli slíks lögveðs má krefjast nauðungarsölu á ökutæki án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Lögveðið fellur ekki niður við eigendaskipti.
     7.      Við 11. gr.
              a.      Við fyrri málslið 2. mgr. bætist: þar á meðal vantryggingagjald skv. 13. gr.
              b.      3. mgr. falli brott.
     8.      12. gr. orðist svo:
                  Nú berst Umferðarstofu tilkynning um að vátrygging ökutækis sé úr gildi fallin, sbr. 1. mgr. 12. gr., og skal þá lagt á mánaðarlegt gjald, vantryggingagjald, frá þeim degi er tilkynning barst, sem eigandi eða umráðamaður ökutækis skal greiða.
                  Fjárhæð vantryggingagjalds má vera allt að 25.000 kr. á mánuði. Fjárhæð gjaldsins skal ákvarða eftir gerð og búnaði ökutækja. Þá má ákveða að lækka gjaldið um 50% ef tilkynning vátryggingafélags skv. 1. mgr. er afturkölluð innan tiltekins tíma eða ökutæki er skráð ótímabundið úr umferð innan sama tíma. Gjaldið skal ekki leggjast á oftar en 10 sinnum vegna sömu tilkynningar og getur það að hámarki orðið 250.000 kr.
                  Vantryggingagjald ásamt innheimtukostnaði skal njóta lögveðs í ökutækinu í samræmi við ákvæði 11. gr. og fjárnámsréttar hjá eiganda eða umráðamanni ökutækis án undangengins dóms eða sáttar.
                  Falli vátrygging úr gildi, sbr. 1. mgr., má leggja bann við notkun ökutækis. Til að framfylgja því banni má fjarlægja skráningarmerki ökutækis, festa á það tilkynningu um bann við notkun þess eða nota til þess gerðan tækjabúnað til að hindra notkun. Heimilt er að leita aðstoðar lögreglu við aðgerðir samkvæmt þessari grein.
                  Eiganda eða umráðamanni ökutækis skal án tafar send tilkynning með sannanlegum hætti um álagningu vantryggingagjalds og réttaráhrif hennar og eftir atvikum um bann við notkun ökutækis. Skal honum veittur 14 daga frestur frá birtingu til annaðhvort að greiða iðgjald vátryggingar sem er í vanskilum og áfallið vantryggingagjald auk kostnaðar eða til að skrá ökutæki ótímabundið úr umferð. Sé ökutæki skráð úr umferð má fresta frekari innheimtuaðgerðum í allt að þrjá mánuði. Að öðrum kosti er heimilt án frekari tilkynninga að óska nauðungarsölu á ökutækinu, hefja aðrar aðgerðir til innheimtu gjaldsins eða hefja aðgerðir til að aftra notkun ökutækisins.
                  Ekki er heimilt svo gilt sé að greiða álagt vantryggingagjald nema tilkynning til Umferðarstofu skv. 1. mgr. hafi verið afturkölluð eða ökutæki skráð ótímabundið úr umferð.
                  Takist ekki birting skv. 5. mgr. eða sé erfiðleikum háð má að liðnum einum mánuði frá álagningu vantryggingagjalds birta opinberlega tilkynningu þar sem fram kemur skráningarnúmer ökutækis, nafn skráðs eiganda eða umráðamanns þess og eftir atvikum lýsing ökutækis þess sem sætt hefur álagningu gjaldsins. Telst slík birting jafngilda birtingu greiðsluáskorunar samkvæmt ákvæðum laga, nr. 90/1991, um nauðungarsölu.
                  Heimilt er að halda úti vefsíðu þar sem birt eru skráningarnúmer þeirra ökutækja sem á hvílir vantryggingagjald hverju sinni.
                  Ráðherra er heimilt að fela öðru stjórnvaldi álagningu og innheimtu vantryggingagjalds.
     9.      Við 16. gr.
              a.      Í stað orðanna „EES- eða EFTA-ríki eða Færeyjum“ í b-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. komi: aðildarríki.
              b.      Í stað orðanna „EES- eða EFTA-ríki, í Færeyjum“ í c-lið 1. mgr. komi: aðildarríki.
              c.      Í stað orðanna „EES- eða EFTA-ríki“ í b- og c-lið 2. mgr. komi: aðildarríki.
     10.      Við 17. gr.
                  a.      Í stað orðanna „EES- eða EFTA-ríki eða Færeyjum“ í a-og b-lið komi: aðildarríki.
                  b.      Í stað orðanna „EES- eða EFTA-ríki“ í c-lið komi: aðildarríki.
     11.      Við 2. mgr. 18. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Enn fremur á vátryggingafélag endurkröfu á tjónvald hafi tjón verið greitt eftir að vátrygging er fallin niður skv. 14. gr.
     12.      23. gr. falli brott.
     13.      Við 24. gr.
              a.      A-liður 1. mgr. falli brott.
              b.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: málsmeðferð við álagningu og innheimtu vantryggingagjalds skv. 13. gr., skilyrði lækkunar þess, fjárhæð gjalds eftir gerð og búnaði ökutækja, hver skuli annast álagningu þess og innheimtu, þóknun vegna innheimtu og skil þess í ríkissjóð.
              c.      B-liður 2. mgr. orðist svo: undanþágu frá skráningar- og vátryggingarskyldu samkvæmt lögum þessum vegna tiltekinna ökutækja.
              d.      D-liður 2. mgr. falli brott.
              e.      Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: slysatryggingu ökumanns og eiganda annarra ökutækja en þeirra sem eru tilgreind í 1. mgr. 9. gr. Þó skal vátryggingin aldrei taka til notkunar þeirra við leik, æfingar, keppni eða aðra sambærilega áhættu.
     14.      25. gr. orðist svo:
                  Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim að því leyti sem ekki er á annan veg mælt í lögum.
     15.      27. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. desember 2011. Þó skal álagning vantryggingagjalds hefjast 1. febrúar 2012.
                  XIII. kafli umferðarlaga, nr. 50/1987, fellur úr gildi 1. desember 2011.
                  Reglugerðir og öll önnur fyrirmæli sem sett hafa verið skv. XIII. kafla umferðarlaga halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við ákvæði laga þessara, uns nýjar reglugerðir eða önnur fyrirmæli hafa verið gefin út.