Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 901. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1847  —  901. mál.
Flutningsmenn     Breyttur texti.




Frumvarp til fjáraukalaga



fyrir árið 2011.


Flm.: Eygló Harðardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Birkir Jón Jónsson,


Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Birgitta Jónsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Lilja Mósesdóttir.


1. gr.

    Liðir 5.2. og 5.3. í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2011 falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Með frumvarpi þessu til fjáraukalaga er lagt til að heimildir fjármálaráðherra til að selja og ráðstafa hlutum ríkisins í sparisjóðum verði felldar niður. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á svonefndum neyðarlögum, nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
    Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu minni sparisjóða hófst á vormánuðum 2009 og byggðist í upphafi á þeim grunni sem lagður var í 2. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Heimild ríkissjóðs til að leggja sparisjóðum til eiginfjárframlag var nánar útfærð í reglum útgefnum af settum fjármálaráðherra 18. desember 2008. Á grundvelli reglnanna sóttu nokkrir sparisjóðir um stofnfjárframlag úr ríkissjóði á fyrri hluta árs 2009. Þegar á leið kom í ljós að staða sparisjóðanna var verri en áður var talið og að framlag skv. 2. gr. neyðarlaganna dygði ekki til að endurreisa þá fjárhagslega. Sparisjóðirnir þurftu á aðkomu kröfuhafa að halda til að fjárhagsleg endurskipulagning væri möguleg en Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna.
    Sparisjóðunum var boðið að gera upp skuldir sínar við Seðlabanka Íslands með því að breyta hluta þeirra í stofnfé. Í framhaldinu yfirtók ríkissjóður stofnfjárbréfin og Bankasýslu ríkisins var falið að fara með eignarhald þeirra. Sparisjóðirnir sem ríkið á eignarhlut í eru: Sparisjóður Norðfjarðar (49,5% af stofnfé sjóðsins), Sparisjóður Bolungarvíkur (90,9% af stofnfé sjóðsins), Sparisjóður Svarfdæla (90% af stofnfé sjóðsins), Sparisjóður Vestmannaeyja (55,3% af stofnfé sjóðsins) og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis (75,9% af stofnfé sjóðsins). Fjármálaráðherra hefur einnig nýtt sér þessar valdheimildir til þess að stofna SpKef sparisjóð og sameina hann Landsbankanum og til að stofna Byr hf. sem var seldur Íslandsbanka.
    Þær ákvarðanir sem hafa verið teknar og verða teknar um ráðstöfun á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum munu hafa mikil og varanleg áhrif á íslenskt efnahagslíf. Því skiptir miklu máli að staldra við og huga að því hvert skal stefna. Með lögum nr. 75/2010, um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, frá 23. júní 2010 var kveðið á um að skipuð yrði nefnd sem hefði það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins, m.a. með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og tillögum þingmannanefndar Alþingis. Slík vinna hófst í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu vorið 2011. Fram hefur komið af hálfu ráðuneytisins að vinnan muni taka til hlutverks og framtíðar fjármálamarkaða, hlutverks ríkisins á fjármálamarkaði, leikreglna markaðarins og lagaramma, mismunandi leiða sem farnar eru erlendis og alþjóðareglna. Þá verður sérstaklega fjallað um sérstöðu Íslands sem smáríkis sem býr við miklar hagsveiflur og er ekki hluti af stærri efnahagsheild. Leitast verður við að leiða fram hvernig fjármálamarkaður henti Íslandi best. Fjallað verður um fjármálastöðugleika og opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum, þjóðhagsvarúð og samspil og heildaryfirsýn. Þá verður fjallað um hvers lags stofnanakerfi komi til álita og hvaða ákvarðanir kortlagningin kalli á.
    Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir skýr stefnumörkun frá hendi stjórnvalda um skipulag og uppbyggingu fjármálakerfisins hefur fjármálaráðherra og Bankasýsla ríkisins þegar selt eða hafið söluferli á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nú síðast stofnfé í Sparisjóði Svarfdæla og Sparisjóði Norðfjarðar. Byggjast þær ákvarðanir fyrst og fremst á neyðarlögunum og liðum 5.2 og 5.3 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2011.
    Í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu ríkisbankanna var gagnrýnt sérstaklega hvað Alþingi gaf framkvæmdarvaldinu opna heimild til að selja ríkisbankana. Allt mat og öll stefnumörkun var í höndum framkvæmdarvaldsins þrátt fyrir að Alþingi hafi haft brýnar ástæður til að kveða á um helstu atriði sem máli skiptu við sölu ríkisbankanna í lögum. Bent var á að alltof skammur tími hefði verið ætlaður í ferlið og að pólitísk markmið hafi verið látin ráða frekar en fagleg. Nefndin lagði áherslu á að stjórnvöld yrðu að leggja sjálfstætt mat á kaupendur sem og sýna festu og eftirfylgni gagnvart fjármálamörkuðum. Þingmannanefndin sem sett var á stofn til að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar lagði til að lögfest yrði rammalöggjöf um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja og til þess meðal annars að tryggja eftirlitshlutverk Alþingis. Ríkisstjórnir hvers tíma ættu einnig að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti selja ætti og/eða einkavæða ríkisfyrirtæki. Ekkert af þessu liggur fyrir.
    Þá fyrst þegar skýr stefnumörkun um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja, uppbyggingu fjármálamarkaðarins og rammalöggjöf um einkavæðingu ríkisfyrirtækja liggur fyrir getur Alþingi veitt heimild til sölu. Sú heimild verður þó að tryggja að Alþingi taki afstöðu til aðalatriða við söluna í lögum og tryggi eftirlitshlutverk sitt með söluferlinu. Núverandi heimildir uppfylla ekki þessi skilyrði, tryggja ekki fagleg og vönduð vinnubrögð og veita ráðherra óhófleg völd. Því er lagt til að þessar víðtæku valdheimildir fjármálaráðherra verði felldar niður.