Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1859  —  12. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Nefndinni hefur borist álit frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Á 138. löggjafarþingi var tillaga sama efnis til meðferðar í nefndinni og bárust þá umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Matís ohf., Matvælastofnun, Neytendasamtökunum, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands.
    Í tillögunni er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra móti reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum til að tryggja eðlilegt og sanngjarnt samkeppnisumhverfi innlendrar matvælaframleiðslu.
    Í skilaskyldu felst að kaupmenn geti sér að kostnaðarlausu krafist þess að framleiðandi taki til baka framleiðsluvöru sem er að nálgast síðasta söludag. Þetta geta kaupmenn gert hvað varðar íslenskar matvörur en ekki erlendar. Margir íslenskir matvælaframleiðendur telja þetta fyrirkomulag skapa mikla skekkju í samkeppnisumhverfi, sökum þess að innlendir framleiðendur þurfi að bera kostnað af þeirri rýrnun sem hlýst af því þegar vöru er skilað en sá sem flytur inn matvöru geti komið ábyrgðinni og kostnaðinum af sér yfir á herðar kaupmannsins. Fyrirkomulagið leiði síðan til þess að hvatning skapist fyrir seljanda vöru til að hafa meira áberandi þá vöru sem er ekki með skilaskyldu, þ.e. innfluttu vöruna, til að tryggja að kostnaður af rýrnun falli ekki á hann.
    Í áliti sínu frá 24. nóvember 2010 leggur sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. sept. 2011.



Magnús Orri Schram,


varaform., frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Auður Lilja Erlingsdóttir.



Valgerður Bjarnadóttir,


með fyrirvara.


Eygló Harðardóttir.


Björn Valur Gíslason.



Sigurður Kári Kristjánsson.


Skúli Helgason.


Margrét Tryggvadóttir.



Fylgiskjal.


Álit


um till. til þál. um reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.


    Nefndin hefur að beiðni viðskiptanefndar tekið til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum (12. mál).
    Tillagan var áður flutt á 136. löggjafarþingi (363. mál) og aftur á 138. löggjafarþingi (22. mál). Mælt var fyrir málinu á 138. löggjafarþingi og því vísað til viðskiptanefndar til umfjöllunar. Viðskiptanefnd óskaði umsagna sautján aðila en sex umsagnir bárust. Meiri hluti umsagnaraðila mæltist til þess að nefndin legði til að tillagan yrði samþykkt. Byggðust umsagnir þeirra m.a. á þeim rökum að skilaréttur á innlendum landbúnaðarvörum stríddi gegn eðlilegu viðskiptasiðferði og heilbrigðiskröfum um meðferð matvæla, vafi léki á því hvort slíkur réttur stæðist samkeppnislög, að slíkar reglur væru mikilvægt skref í átt að því að tryggja eðlilegt og sanngjarnt samkeppnisumhverfi innlendrar framleiðslu, að slíkar reglur væru mikilvægar með tilliti til heilbrigðis- og umhverfissjónarmiða, að sá möguleiki að skila vöru þegar líftími hennar er að renna út dragi úr hvatningu verslunarinnar til að grípa til söluhvetjandi aðgerða og að hægt væri að spara stórar fjárhæðir á þjóðhagslegan mælikvarða með því að draga úr kostnaði vegna vöruskila. Þá kom það sjónarmið einnig fram hjá umsagnaraðilum að nauðsynlegt væri að kanna hvort þörf væri á reglusetningu í ljósi þeirra markmiða sem þingsályktunartillagan stefndi að enda mætti slíkum markmiðum oft og tíðum ná með gerð samninga við hagsmunaaðila. Í því skyni væri eðlilegt að leitað yrði sjónarmiða samkeppnisyfirvalda og hagsmunaaðila. Einnig kom fram það sjónarmið að forsendur tillögunnar væru umdeilanlegar. Þannig væri hætta á að afleiðingar reglusetningar yrðu neikvæðar fyrir matvælaöryggi þar sem ábyrgð á gæðum matvöru væri færð úr höndum framleiðenda og fagmanna. Þá gætu slíkar reglur haft í för með sér minnkandi neytendavernd þar sem öryggi matvæla kynni að minnka og verslanir gætu þurft að taka á sig ábyrgð sem nú hvílir á framleiðanda vöru sem fagaðila. Einnig væri hætta á að verðmæti gætu tapast vegna meiri förgunar á matvöru en nú væri.
    Nefndin fór yfir framangreindar umsagnir en fól einnig nefndarritara að leita afstöðu leiðandi aðila á smásölumarkaði, samkeppnisyfirvalda og afurðasala til málefnisins. Virðist það sameiginlegur þráður í afstöðu framangreindra aðila að ekkert sé því beinlínis til fyrirstöðu að ráðherra verði falið að setja reglur ur skilaskyldu en nauðsynlegt sé að slík reglusetning verði vel ígrunduð og að við gerð slíkra reglna verði haft samráð við samkeppnisyfirvöld og hagsmunaaðila. Er niðurstaða nefndarinnar að leggja til að viðskiptanefnd Alþingis samþykki tillöguna óbreytta.

Alþingi 24. nóv. 2010.

Ólína Þorvarðardóttir, form.,
Ásmundur Einar Daðason,
Einar K. Guðfinnsson,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara,
Jón Gunnarsson,
Róbert Marshall,
Sigurður Ingi Jóhannsson.