Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 709. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1863  —  709. mál.
Frumvarp til lagaum úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

(Eftir 2. umr., 6. sept.)1. gr.


Hlutverk.


    Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Úrskurðarnefndin er sjálfstæð í störfum sínum.

2. gr.
Nefndarskipan.

    Umhverfisráðherra skipar sjö menn í nefndina og jafnmarga til vara. Einn nefndarmanna, sem skal vera formaður hennar og forstöðumaður og hafa starfið að aðalstarfi, er skipaður til fimm ára að undangenginni auglýsingu í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Staðgengill forstöðumanns er varamaður formanns og skal uppfylla sömu hæfisskilyrði og formaður . Ráðherra skipar hann að tilnefningu formanns til sama tíma og formann, eða til starfsloka hans beri þau að höndum áður en skipunartíma varaformanns lýkur. Aðrir nefndarmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn og skulu þeir tilnefndir af Hæstarétti. Þeir skulu allir hafa háskólapróf. Einn skal hafa sérþekkingu á sviði skipulagsmála, einn á sviði byggingarmála, einn á sviði umhverfismála, einn á sviði jarðvísinda, orkumála og jarðrænna auðlinda og einn á sviði vistfræði og lífríkis þurrlendis, ferskvatns og sjávar . Einn skal hafa embættispróf í lögfræði eða annað háskólapróf sem verður metið jafngilt. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.

3. gr.
Starfshættir.

    Forstöðumaður úrskurðarnefndarinnar hefur yfirstjórn hennar með höndum og ber ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Hann fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk nefndarinnar.
    Að jafnaði skulu þrír nefndarmenn eiga sæti í úrskurðarnefndinni um hvert mál sem nefndinni berst. Ef mál er viðamikið eða fordæmisgefandi skulu fimm menn sitja í nefndinni. Formaður ákvarðar hvernig nefndin er skipuð í hverju máli og hvort hún er skipuð þremur eða fimm mönnum. Skal hann gæta þess að í nefndinni eigi sæti þeir sem besta þekkingu hafa til úrlausnar málsins. Formaður eða varaformaður eiga sæti í nefndinni í öllum málum.
    Nefndin getur falið formanni að úrskurða í málum sem eru einföld úrlausnar og varða ekki verulega hagsmuni. Nefndin setur fullskipuð nánari reglur um hvenær heimildinni verður beitt.
    Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn við úrskurð einstakra mála. Starfa þeir með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns.

4. gr.
Málsmeðferð og kæruaðild.

    Kæra til nefndarinnar skal vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Úrskurðarnefndin getur ákveðið að kæra skuli borin fram á sérstöku eyðublaði sem hún skal þá hafa aðgengilegt fyrir alla.
    Kærufrestur er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Það á þó ekki við ef mælt er fyrir um annan kærufrest í þeim lögum sem kæranleg ákvörðun byggist á. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.
     Kærurétt samkvæmt þessari grein eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök sem eiga varnarþing á Íslandi, enda séu félagsmenn þeirra 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Umhverfisverndarsamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 2. og 3. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.
    Þegar kæra berst nefndinni tilkynnir hún stjórnvaldi því sem tók hina kærðu ákvörðun um kæruna og veitir því allt að 30 daga frest til að skila gögnum og umsögn um málið. Stjórnvaldinu er skylt að láta nefndinni í té öll þau gögn og upplýsingar sem tengjast málinu og nefndin telur þörf á að afla. Í viðamiklum málum getur nefndin veitt allt að 15 daga viðbótarfrest. Nefndin aflar viðbótargagna og umsagna og kynnir sér aðstæður á vettvangi þegar þörf er á til að mál teljist nægjanlega upplýst. Nefndinni er heimilt að sameina mál þegar kærur eru samkynja. Stjórnvöldum ber að veita nefndinni aðgang að gögnum og upplýsingum sem hún kann að óska í tengslum við úrlausn máls.
    Nefndin kveður upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, sbr. 4. mgr., en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið.
    Formaður, eftir atvikum varaformaður, stýrir störfum nefndarinnar við umfjöllun máls. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
    Um málsmeðferð nefndarinnar fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

5. gr.

Stöðvun framkvæmda.


    Kæra til úrskurðarnefndarinnar frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Komi fram krafa um slíkt skal úrskurðarnefndin svo fljótt sem verða má kveða upp úrskurð um það atriði. Úrskurði um stöðvun framkvæmda ber viðkomandi stjórnvaldi að framfylgja þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef með þarf.
    Þau mál þar sem fallist er á stöðvun framkvæmda skulu sæta flýtimeðferð sé þess krafist af framkvæmdaraðila.
     Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda.

6. gr.
Úrskurðir nefndarinnar og birting.

    Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi. Úrskurðir nefndarinnar skulu birtir með aðgengilegum og skipulegum hætti.

7. gr.
Kostnaður.

    Kostnaður vegna úrskurðarnefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

8. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um úrskurðarnefndina, þ.m.t. um verkefni hennar, valdsvið og starfsskilyrði.
    Ráðherra er enn fremur heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar, þ.m.t. heimildir til að sameina mál og úrskurða um mál með einföldum og skilvirkum hætti með vísan til fyrri fordæma og frestun réttaráhrifa.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012. Ákvæði til bráðabirgða I tekur þó þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Starfsmönnum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem lögð er niður með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins, skal boðið starf hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði. Forstöðumanni úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál skal boðið að taka við starfi forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum þessum með starfskjörum samkvæmt úrskurði kjararáðs .

II.

    Máli sem við gildistöku laga þessara hefur verið tekið til efnismeðferðar til endanlegrar ákvörðunar á stjórnsýslustigi skal lokið hjá því stjórnvaldi sem hefur það til meðferðar. Skipunartíma nefndarmanna úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem starfar samkvæmt lögum nr. 123/2010, og úrskurðarnefndar hollustuhátta og mengunarvarna, sem starfar samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, lýkur þegar öllum málum hefur verið lokið hjá nefndunum.