Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 895. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1893  —  895. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.



    Á fund nefndarinnar komu Jón Vilberg Guðjónsson og Sesselja Snævarr frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Björg Bjarnadóttir og Ólafur Loftsson frá Kennarasambandi Íslands og Anna Kristín Sigurðardóttir, Guðrún Eysteinsdóttir og Guðbjörg Hrafnsdóttir frá menntavísindasviði Háskóla Íslands.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu var við samþykkt laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, nr. 87/2008, ákveðið að þeim sem byrjað hefðu kennaranám fyrir gildistöku laganna yrði veittur frestur til 1. júlí 2011 til að fá leyfisbréf til kennslu að loknu bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum. Þar sem mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfðu borist fyrirspurnir frá aðilum sem höfðu ekki getað lokið námi sínu til kennsluréttinda innan þessara tímamarka var lagt til að þau yrðu færð til 1. janúar 2012. Við meðferð málsins skoðaði nefndin sérstaklega hvort þessi frestur væri nægjanlega langur. Bent var á að umsagnarfrestur um grunnnám á háskólaárinu 2011–2012 var til 5. júní 2011 og þar af leiðandi gætu þeir nemendur sem frumvarpið lýtur að ekki nýtt sér þennan frest. Nefndin telur einnig að líta verði til sjónarmiða um réttmætar væntingar þeirra nemenda sem innrituðust fyrir 1. júlí 2008. Reglan um réttmætar væntingar er óskráð meginregla í stjórnsýslurétti en í reglunni felst m.a. að menn eiga að geta vænst þess að visst ástand eða framkvæmd muni haldast. Nefndin telur því rétt að framlengja frestinn til að sækja um útgáfu leyfisbréfs til 1. júlí 2012.
    Nefndin telur hins vegar mikilvægt að um leið og veittur er lengri frestur sé nauðsynlegt að afmarka eins og unnt er þann hóp sem þarf að nýta sér þann möguleika sem fresturinn gefur til að ljúka sínu námi svo að það sé engum vafa undirorpið hverjir eigi í hlut. Leggur nefndin því til að miðað verði við þá sem áttu við lok vormissiris 2011 þrjátíu eða færri einingum ólokið til prófs sem svarar til þess að vera fullt nám á einu missiri.
    Samkvæmt eldri lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998, kemur fram í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. að leyfisbréf til kennslu í framhaldsskóla megi veita þeim sem lokið hefur 120 námseiningum (240 ECTS einingum) í faggrein sinni, eigi færri en 60–90 einingum (120–180 ECTS) í aðalgrein og 30–60 einingum (60–120 ECTS) í aukagrein hafi viðkomandi lokið 15 einingum (30 ECTS) í kennslufræði til kennsluréttinda til viðbótar.
    Í nýjum lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, er hins vegar undantekningarlaust krafist 60 ECTS eininga í kennslufræði enda er það í anda markmiðs laganna um að styrkja kennaramenntun í landinu. Nefndin telur því rétt að taka fram að fresturinn til að sækja um útgáfu leyfisbréfs gildi einnig um þá sem innrituðust í 60 eininga diplómanám til kennslu í grunn- og framhaldsskólum fyrir lok 1. júlí 2010.
    Nefndin vill árétta að ekki verður um frekari framlengingu á fresti til að sækja um útgáfu leyfisbréfs.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    3. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Þeim sem innrituðust í 180 eininga bakkalárnám til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum fyrir 1. júlí 2008 og áttu við lok vormissiris 2011 þrjátíu eða færri einingum ólokið til prófs veitist frestur til að sækja um útgáfu leyfisbréfs til kennslu í leik-, grunn- og/eða framhaldsskóla til 1. júlí 2012. Sama gildir um þá sem innrituðust í 60 eininga diplómanám til kennslu í grunn- og framhaldsskólum fyrir lok 1. júlí 2010.

Alþingi, 8. sept. 2011.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.


Oddný G. Harðardóttir.



Eygló Harðardóttir.


Auður Lilja Erlingsdóttir,


með fyrirvara.


Unnur Brá Konráðsdóttir.