Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 381. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1902  —  381. mál.
Flutningsmenn.




Nefndarálit



um frv. til upplýsingalaga.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Setning upplýsingalaga, nr. 50/1996, sem tóku gildi hinn 1. janúar 1997, fólu í sér mikla réttarbót fyrir almenning á Íslandi. Með þeim lögum var almenningi tryggður aðgangur að gögnum úr stjórnsýslunni og stjórnkerfinu og þar með gagnsæi í stjórnsýslunni og við meðferð opinberra hagsmuna sem skiptu almenning máli.
    Nú liggur fyrir frumvarp til nýrra upplýsingalaga. Í markmiðsákvæði 1. gr. frumvarpsins segir að markmið frumvarpsins sé að tryggja gegnsæi í stjórnsýslunni og við meðferð opinberra hagsmuna m.a. í þeim tilgangi að styrkja: 1. upplýsingarétt og tjáningarfrelsi; 2. möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi; 3. aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum; 4. möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni; 5. traust almennings á stjórnsýslunni.
    Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar og í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það byggist í megindráttum á gildandi upplýsingalögum, nr. 50/1996, en að það markmið sem búi að baki endurskoðun gildandi laga sé að auka þurfi upplýsingarétt almennings frá því sem nú er, tryggja gagnsæi í stjórnsýslunni og við meðferð opinberra hagsmuna í þeim tilgangi m.a. að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi ásamt þátttöku almennings í lýðræðisþjóðfélagi. Þá segir í nefndaráliti meiri hlutans að með frumvarpinu séu lagðar fram ýmsar breytingar sem meðal annars miða að því að tryggja gagnsæi í stjórnsýslunni og við meðferð opinberra mála, auka upplýsingarétt með því að auðvelda borgurunum að leggja fram beiðnir um upplýsingar, víkka gildissvið laganna þannig að upplýsingalög taki einnig til lögaðila sem eru að 75% hluta eða meira í eigu hins opinbera og skerpa ákvæði um rétt til upplýsinga um málefni starfsmanna og vinnubrögð stjórnvalda.

Skjaldborg um ríkisstjórn.
    Minni hluti allsherjarnefndar telur að þrátt fyrir fögur fyrirheit frumvarpshöfunda og meiri hluta allsherjarnefndar verði framangreindu markmiði endurskoðunar núgildandi upplýsingalaga ekki náð með frumvarpinu. Þvert á móti telur minni hlutinn að verði frumvarpið að lögum muni upplýsingaréttur almennings skerðast frá því sem verið hefur frá gildistöku núgildandi upplýsingalaga hinn 1. janúar 1997. Telur minni hlutinn að verði frumvarpið að lögum sé viðbúið að réttur almennings, hagsmunasamtaka og fjölmiðla til að afla sér upplýsinga úr stjórnsýslunni verði ekki eins traustur og hann er samkvæmt núgildandi lögum.
    Sú skoðun minni hlutans byggist í fyrsta lagi á efni ákvæða frumvarpsins. En í öðru lagi byggist hún á yfirlýsingum aðalhöfundar frumvarpsins fyrir nefndinni á megintilgangi frumvarpsins, sem styður framangreinda skoðun minni hlutans.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu skipaði forsætisráðherra starfshóp í lok júlí 2009 sem var falið það hlutverk að endurskoða gildandi upplýsingalög. Formaður starfshópsins, Trausti Fannar Valsson, lektor við Háskóla Íslands, lýsti því yfir á fundi nefndarinnar að með frumvarpinu væri í raun verið að slá skjaldborg um opinbera starfsmenn og ríkisstjórn auk þess sem því væri ætlað að skapa vinnufrið í stjórnsýslunni.
    Minni hluti allsherjarnefndar telur að svo afdráttarlaus yfirlýsing formanns þess starfshóps sem samdi frumvarpið staðfesti þá skoðun minni hlutans að með frumvarpinu sé verið að skerða upplýsingarétt borgara þessa lands en ekki auka hann. Að mati minni hlutans brýtur slík stefnumörkun gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem búa að baki núgildandi upplýsingalögum um rétt almennings til að veita stjórnsýslunni aðhald og til þess að fá upplýsingar um mikilvæg mál sem hann varða. Þegar af þeirri ástæðu leggst minni hlutinn eindregið gegn því að frumvarpið verði samþykkt.
    Almennt telur minni hlutinn að frumvarpið í heild sé í flestum megindráttum haldið verulegum ágöllum. Þannig bendir minni hlutinn á að undantekningarákvæði frá meginreglunni um upplýsingarétt almennings séu óskýrar, víðtækar og tvíræðar og í allt of mörgum tilvikum háðar túlkunum stjórnvalda hverju sinni. Að sama skapi telur minni hlutinn að frumvarpið gangi allt of langt í að framselja framkvæmdarvaldinu vald til þess að ákvarða gildissvið laganna og þar með aðgang almennings að upplýsingum úr stjórnsýslunni. Og í þriðja lagi bendir minni hlutinn á að kaflar laganna um meðferð skjala og skráningu þeirra o.fl. séu að mörgu leyti ófullbúnir og ófullkomnir.
    Þá bendir minni hlutinn á að núgildandi upplýsingalög hafa þjónað hlutverki sínu vel. Setning laganna var sannarlega mikil réttarbót á sínum tíma og þau treystu mjög upplýsingarétt almennings í landinu gagnvart stjórnvöldum. Að mati minni hlutans hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því, hvorki í greinargerð með frumvarpinu né í nefndaráliti meiri hlutans, að nein rökbundin nauðsyn knýi á um það að ráðist sé í heildarendurskoðun laganna.
    Við meðferð málsins bárust allsherjarnefnd fjölmargar umsagnir frá ýmsum hagsmuna- og fagaðilum. Í flestum tilvikum voru umsagnir um frumvarpið neikvæðar og gerðu umsagnaraðilar fjölmargar og alvarlegar athugasemdir við efni frumvarpsins. Fæstar þeirra voru teknar til greina við meðferð málsins í nefndinni.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla frumvarpsins.
    Eins og áður segir telur minni hluti allsherjarnefndar að þrátt fyrir að markmiðum frumvarpsins sé þannig lýst í 1. gr. frumvarpsins að því sé ætlað að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, m.a. með því að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni, telur minni hlutinn frumvarpið að öðru leyti þannig úr garði gert að þessum markmiðum verði ekki náð verði frumvarpið að lögum.

Gildissvið og undantekningar.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gildissvið upplýsingalaga verið víkkað út þannig að ákvæði þeirra nái til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 75% hluta eða meira í eigu hins opinbera, þó ekki þeirra sem sótt hafa um eða fengið opinbera skráningu hlutabréfa samkvæmt lögum um kauphallir, og dótturfélög þeirra. Í breytingartillögum meiri hlutans er lögð til breyting á ákvæðinu þar sem lagt er til að gildissviðið verði miðað við lögaðila sem eru að 51% hluta í eigu hins opinbera í stað 75%.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni bárust fjölmargar athugasemdir við þetta ákvæði frumvarpsins, einkum frá lögaðilum sem falla munu undir ákvæði laganna svo breytt, án þess að þeir fari með stjórnsýsluhlutverk og séu í samkeppnisrekstri að öllu leyti eða að hluta. Bárust slíkar athugasemdir m.a. frá fjármálafyrirtækjum, fyrirtækjum sem stunda orkuframleiðslu og sölu o.fl., en þær lutu að því að með frumvarpinu væri verið að leggja íþyngjandi skyldur á fyrirtæki í opinberri eigu á grundvelli eignaraðildar, sem m.a. skerði samkeppnisstöðu þeirra á markaði gagnvart þeim fyrirtækjum sem ákvæðið nær ekki til og sé til þess fallið að draga úr áhuga fjárfesta á að kaupa hluti í félögunum.
    Minni hlutinn getur fallist á að færa megi rök fyrir því að ákvarðanir um rekstur og ráðstöfun eigna fyrirtækja sem eru að meiri hluta í opinberri eigu geti falið í sér ákvarðanir um ráðstöfun opinberra hagsmuna og að upplýsingar um starfsemi slíkra fyrirtækja eigi að vera aðgengilegar fyrir almenning. Hins vegar telur minni hlutinn að nauðsynlegt hefði verið við núverandi aðstæður að leggja með mun vandaðri hætti mat á raunveruleg áhrif slíkrar lagabreytingar á rekstur slíkra fyrirtækja áður en frumvarpið yrði samþykkt. Slíkt er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirra aðstæðna sem eru í íslensku atvinnulífi, þar sem ríkið og fyrirtæki í eigu þess, svo sem fjármálafyrirtæki, eru meirihlutaeigendur í gríðarlegum fjölda atvinnufyrirtækja á öllum sviðum atvinnulífsins. Þar sem slíkt mat liggur ekki fyrir og óljóst er hverjar afleiðingar lögfestingar ákvæðisins verða geldur minni hlutinn varhug við því að ákvæðið verði samþykkt með þeim hætti sem lagt er til.
    Minni hlutinn leggst hins vegar alfarið gegn og varar við ákvæðum 3. mgr. 2. gr. Þar er að finna undantekningarreglu frá meginreglunni í 2. mgr. 2. gr. Þar segir að ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. 2. gr., og getið er um hér að framan, er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur forsætisráðherra, að fenginni tillögu viðkomandi ráðherra eða sveitarstjórnar, ákveðið að hann skuli ekki falla undir ákvæði upplýsingalaga. Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að forsætisráðuneytið skuli afla sér umsagnar úrskurðarnefndar um upplýsingamál áður en undanþága frá ákvæðum laganna skuli veitt og að halda skuli opinbera skrá yfir þá lögaðila sem hana hafa fengið, skv. 3. mgr. 2. gr., en undanþágur einstakra lögaðila skuli endurskoðaðar árlega.
    Þó að minni hlutinn telji að breytingartillaga meiri hlutans við ákvæðið kunni að vera til bóta leggst hann engu síður gegn þessu ákvæði. Standi vilji meiri hlutans til þess að fella starfsemi fyrirtækja sem eru að meiri hluta til í eigu hins opinbera undir gildissvið laganna hefði verið rökréttara að láta þá reglu vera algilda og án undantekninga, í stað þess að fela forsætisráðherra vald til þess að meta hvaða fyrirtæki skuli sæta ákvæðum upplýsingalaga og hver ekki. Þar fyrir utan telur minni hlutinn ótækt að framselja forsætisráðherra það vald að ákveða hvaða fyrirtæki í opinberri eigu skuli sæta ákvæðum upplýsingalaga og hvaða fyrirtæki skuli ekki gera það, jafnvel þó svo að tillaga um slíka undanþágu komi frá öðrum ráðherra eða sveitarstjórn. Telur minni hlutinn að ef fallast eigi á annað borð á að slíkar undanþágur frá ákvæðum laganna skuli vera fyrir hendi sé lágmark að ákvörðun um veitingu þeirra ætti að vera á hendi hlutlauss úrskurðaraðila. Það fyrirkomulag sem ákvæði frumvarpsins mælir fyrir um bjóði þeirri hættu heim að forsætisráðherra fái í hendur tillögu frá samráðherra sínum í ríkisstjórn, sem jafnframt fer með hlutabréf í fyrirtæki í opinberri eigu, um að það njóti undanþágu frá ákvæðum upplýsingalaga og hafi þar með beina hagsmuni sem slíkur af því að forsætisráðherra veiti undanþáguna. Slíkt fyrirkomulag er óeðlilegt og óskynsamlegt og gegn því leggst minni hlutinn.

Gögn sem eru undanþegin upplýsingarétti – vinnugögn.
    Í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um þau gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti. Þar segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til: 1. fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi; 2. gagna sem útbúin eru af sveitarfélögum, samtökum þeirra eða stofnunum og varða sameiginlegan undirbúning, tillögugerð eða viðræður þessara aðila við ríkið um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga; 3. bréfaskipta við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað; 4. gagna sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa; 5. gagna sem tengjast málefnum starfsmanna, sbr. 7. gr.; 6. vinnugagna, sbr. 8. gr.
    Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er hugtakið „vinnugögn“, sem undanþegin eru upplýsingarétti, skv. 6. gr., síðan skilgreint. Þar segir að til vinnugagna teljist þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls og ekki hafa verið afhent öðrum, eða einvörðungu hafa verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Í 2. mgr. 8. gr. er síðan talið upp í fjórum töluliðum hvaða gögn teljist til vinnugagna í skilningi ákvæðisins, fullnægi þau skilyrðum 1. gr.
    Minni hlutinn telur þessi ákvæði sem undanþiggja rétt almennings til aðgangs að gögnum allt of víðtæk, tvíræð og óljós. Þau leiða að mati minni hlutans til þeirrar niðurstöðu sem getið er um hér að framan að frumvarpið nái ekki því markmiði sem lýst er í 1. gr. þess, þ.e. að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna. Þvert á móti telur minni hlutinn að þau skerði rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni stjórnsýslunnar og skerði því upplýsingarétt frá því sem nú er.
    Í umsögn Blaðamannafélags Íslands sem nefndinni barst er tekið undir þetta sjónarmið. Þar segir að 8. gr. veiti allt of víðtæka heimild til handa stjórnvöldum til þess að takmarka aðgengi að upplýsingum úr stjórnsýslunni. Þannig segir í umsögninni: „Með því að skilgreina gögn sem vinnugögn getur stjórnsýslan takmarkað mjög upplýsingastreymi. Í því sambandi má vitna til nýlegs blaðamáls (Árbótarmálsins) þar sem mikilvægar upplýsingar um afgreiðslu og málsmeðferð komu fram í tölvupóstssamskiptum. Ekki verður annað séð en að þarna sé verið að loka á afhendingu slíkra gagna.“ Þá má geta þess að í umsögn borgarskjalavarðar að í frumvarpið skorti almennar grundvallarreglur um upplýsingarétt almennings til að tryggja gegnsæi og aðhald með stjórnvöldum og að tilgangur frumvarpsins virtist fremur vera sá að halda upplýsingum frá almenningi en að tryggja aðgengi hans að þeim. Undir þessi sjónarmið tekur minni hlutinn heilshugar.
    Í þessu sambandi bendir minni hlutinn á þann alvarlega galla frumvarpsins að standi vilji stjórnvalda hverju sinni til þess að hefta aðgengi almennings að upplýsingum er honum í lófa lagið að gera það nái frumvarpið fram að ganga. Við blasir að vilji stjórnvöld koma í veg fyrir að upplýsingar berist til almennings geta þau á grundvelli ákvæða frumvarpsins skilgreint þau gögn sem þau vilja ekki að komi fyrir almenningssjónir sem vinnugögn í skilningi 6. og 8. gr. og þar með komist hjá upplýsingarétti. Slíkt fyrirkomulag er vissulega til þess fallið að slá skjaldborg um ríkisstjórn og skapar óneitanlega vinnufrið í stjórnsýslunni, en stríðir hins vegar alvarlega gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem búa að baki núgildandi upplýsingalögum um rétt almennings til þess að veita stjórnsýslunni og stjórnvöldum aðhald og til að fá upplýsingar um mikilvæg mál sem hann varðar. Lögfesting þessara ákvæða væri því mikil afturför að mati minni hlutans.
    Minni hlutinn gerir athugasemdir við efni 6. gr. frumvarpsins í heild sinni og þar með alla töluliði hennar. Áður hér að framan hefur verið gerð grein fyrir þeim annmörkum sem felast í þeirri tilhögun að undanþiggja vinnugögn skv. 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingarétti. Í 2. tölul. 1. mgr. 6. gr., sem er nýmæli, segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til gagna sem undirbúin eru af sveitarfélögum, samtökum þeirra eða stofnunum og varða sameiginlegan undirbúning, tillögugerð eða viðræður þessara aðila við ríkið um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga. Minni hlutinn fær ekki séð að fram til þessa hafi það skapað nein vandamál að réttur almennings taki til þeirra upplýsinga sem kveðið er á um í ákvæðinu og í raun er óútskýrt í greinargerð og nefndaráliti meiri hlutans hvers vegna ákvæðið rataði inn í frumvarpið.
    Í annan stað gerir minni hlutinn alvarlega athugasemd við 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. en þar er kveðið á um að gögn sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa skuli undanþegin upplýsingarétti. Minni hlutinn gerir mjög alvarlegar athugasemdir við þennan tölulið ákvæðisins og telur það ótækt að stjórnvald geti komist hjá því að upplýsa um gögn sem það aflar sér frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa. Í dæmaskyni má nefna að þær aðstæður kunna að koma upp að ráðherra hafi aflað sér sérfræðiálits við undirbúning lagafrumvarps þar sem höfð eru uppi alvarleg varnaðarorð gegn stefnumörkun ráðherra. Gengi ráðherra engu síður gegn þeim varnaðarorðum sem fram kæmu í sérfræðiálitinu gerir frumvarpið almenningi ómögulegt að fá upplýsingar um viðkomandi sérfræðiálit og þau varnaðarorð sem ráðherrann hafði að vettugi. Slíkt ráðslag telur minni hlutinn afar varasamt og varar við ákvæðinu.
    Þess skal getið að meiri hluti allsherjarnefndar leggur til breytingartillögur sem lúta að þeim ákvæðum sem að framan er getið. Í breytingartillögu við 12. gr. leggur meiri hlutinn til að veita skuli aðgang að gögnum sem 2.–4. og 6. tölul. 6. gr. taka til að liðnum fjórum árum frá því að gögn urðu til eða jafnskjótt og ráðstöfun er að fullu lokið, nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við. Að mati minni hlutans er þessi breytingartillaga sannarlega til bóta. Engu síður bendir minni hlutinn á að skv. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, getur málshöfðun samkvæmt lögunum á hendur ráðherrum ekki átt sér stað ef þrjú ár líða frá því er brot var framið án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Þá segir að sök fyrnist þó aldrei fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá því að næstu reglulegu alþingiskosningar eftir að brot var framið fóru fram. Minni hlutinn bendir á að með því að takmarka aðgang almennings að gögnum sem varðað geta athafnir stjórnvalda í fjögur ár kann málshöfðun gagnvart ráðherrum samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum í framtíðinni að reynast erfiðari en nú er þar sem möguleg refsiábyrgð samkvæmt þeim lögum kann að vera fyrnd áður en þau gögn sem breytingartillaga meiri hlutans nær til og málshöfðun kann að byggjast á verða gerð almenningi aðgengileg. Telur minni hlutinn að þetta samhengi breytingartillögu meiri hlutans og 14. gr. laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, hefði þurft að rannsaka nánar áður en tillagan var lögð fram.

Upplýsingar um málefni starfsmanna.
    Í 7. gr. frumvarpsins er með ítarlegum hætti fjallað um rétt almennings til upplýsinga um málefni opinberra starfsmanna. Í 2. tölul. 4. mgr. 7. gr segir að veita beri almenningi upplýsingar um föst launakjör æðstu stjórnenda í stjórnsýslunni og fyrirtækjum sem eru að meiri hluta til í opinberri eigu. Þess skal getið að ákvæðið nær ekki til launakjara æðstu embættismanna ríkisins sem ákveðin eru af kjararáði og birt samkvæmt lögum sem um það gilda.
    Við meðferð málsins í nefndinni komu fram athugasemdir um að í ákvæðinu væri kveðið á um föst launakjör starfsmanna hins opinbera og fyrirtækja í þess eigu en ekki launakjör. Minni hlutinn vill geta þess að við meðferð málsins lýsti forstjóri Fjársýslu ríkisins sig algjörlega andsnúinn ákvæðinu og taldi að með því væri verið að gefa út veiðileyfi á opinbera starfsmenn með því að lögbinda skyldu til þess að veita upplýsingar um launakjör þeirra. Fjárhagsleg málefni einstaklinga nytu friðhelgi samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár og með þau skyldi fara sem slík. Taldi forstjóri Fjársýslu ríkisins að ákvæðið kynni að skapa stórkostleg vandamál í stjórnsýslunni sem kynti undir öfund og sundurlyndi hjá stofnunum.
    Minni hlutinn telur að varnaðarorð forstjóra Fjársýslu ríkisins beri að taka alvarlega. Óeðlilegt sé að opinberir starfsmenn þurfi að sæta því að upplýst sé um fjárhagsleg málefni þeirra í ríkara mæli en gengur og gerist um starfsmenn á almennum markaði. Í því sambandi bendir minni hlutinn á að almenningur hefur nú þegar aðgang að launakjörum allra skattgreiðenda, jafnt opinberra starfsmanna sem starfsmanna á almennum vinnumarkaði, í gegnum álagningar- og skattskrár sem birtar eru samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Telur minni hlutinn að sú birting nái þeim markmiðum sem að er stefnt með ákvæðum 7. gr. frumvarpsins og það því óþarft að þessu leyti.

Aðrar athugasemdir.
    Þegar umsagnir um frumvarp til upplýsingalaga eru skoðaðar leynist engum að flestir eða allir umsagnaraðilar sem sendu allsherjarnefnd erindi gera alvarlegar athugasemdir við efni þess. Minni hlutinn telur ástæðu til þess að geta þess sérstaklega að fagaðilar sem hafa sérhæft sig í skráningu, varðveislu og meðferð upplýsinga eins og þeirra sem frumvarpið tekur til vöruðu eindregið við samþykkt þess. Nægir þar að nefna umsagnir Sagnfræðingafélags Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Héraðsskjalasafns Kópavogs og borgarskjalavarðar. Allir eiga þessir aðilar það sameiginlegt að hafa sent nefndinni vandaðar umsagnir þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við efni frumvarpsins, bæði efnislegar og tæknilegar. Athugasemdir þessara fagaðila voru ekki teknar til greina af hálfu meiri hlutans við vinnslu frumvarpsins í nefndinni.
    Að öllu framansögðu telur minni hlutinn að frumvarpið feli í sér mikla afturför og sé jafnframt haldið alvarlegum ágöllum. Það skerðir rétt almennings til aðgangs að upplýsingum og fer gegn grundvallarsjónarmiðum sem búa að baki núgildandi upplýsingalögum um rétt almennings til að veita stjórnsýslunni aðhald og til þess að fá upplýsingar um mikilvæg mál sem hann varðar. Af þeim ástæðum leggst minni hluti allsherjarnefndar alfarið gegn því frumvarp þetta verði samþykkt.

Alþingi, 13. sept. 2011.



Sigurður Kári Kristjánsson,


frsm.


Birgir Ármannsson.


Vigdís Hauksdóttir.