Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 843. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1922  —  843. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um meðferð vegna ofnotkunar áfengis og lyfja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir leituðu sér ásjár (meðferðar) vegna ofnotkunar áfengis og lyfja, þar með talið fíkniefna, árin 2007, 2008, 2009 og 2010?

    Við vinnslu svarsins var leitað upplýsinga hjá landlækni en einnig hjá helstu stofnunum sem veita meðferðir vegna ofnotkunar áfengis, lyfja og annarra vímuefna, þ.e. Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ), Samhjálp og Krýsuvíkursamtökunum. Auk þess leita einstaklingar einnig til heilsugæslunnar og sérfræðinga víða um land vegna vandans. Þá eru ótaldar stofnanir og meðferðarheimili sem bjóða upp á eftirmeðferð, eins og Dyngjan, Takmarkið og Krossgötur.
    Heildarfjöldi einstaklinga sem fór í meðferð vegna ofnotkunar áfengis eða lyfja liggur ekki fyrir þar sem ekki er hægt að tengja saman gagnagrunna mismunandi stofnana. Auk þess getur sami einstaklingur farið í innlagnarmeðferð og í meðferð á dag- eða göngudeild á sömu stofnun innan hvers árs og geta því einstaklingar verið taldir oftar en einu sinni.
    Á eftirfarandi töflu er tölulegt yfirlit yfir þá sem fóru í meðferð hjá tilteknum stofnunum vegna ofnotkunar áfengis og lyfja árin 2007–2010 en ekki eru taldir þeir einstaklingar sem leita sér aðstoðar hjá sérfræðingi eða á heilsugæslustöð, né heldur í einhverjum tilfellum þeir sem fara í eftirmeðferð eða á áfangaheimili. Þá liggur fyrir að sumar af þeim stofnunum sem veita meðferð geta ekki tekið við öllum þeim sem sækja um að komast í meðferð vegna takmarkaðs fjölda rúma.
    Yfirlitið nær til fjölda einstaklinga í innlagnarmeðferð og í meðferð á dag- eða göngudeild vegna áfengis- og/eða lyfjanotkunar árin 2007–2010. Annars vegar er yfirlit yfir fjölda þeirra einstaklinga sem lögðust inn og hins vegar upplýsingar um fjölda sem fór í meðferð á göngudeild eða dagdeild á stofnununum.

Fjöldi einstaklinga í innlagnarmeðferð og í meðferð á dag- eða göngudeild vegna áfengis- og/eða lyfjanotkunar árin 2007–2010, eftir stofnunum og meðferðarformi.


Fjöldi einstaklinga

    
2007 2008 2009 2010
SÁÁ
Sjúkrahúsið Vogur




        Innlagnarmeðferð 1.800 1.765 1.714 1.676
        Meðferð á dag- eða göngudeild* 4.000 4.000 4.000 4.000
Landspítali
Hringbraut



        Innlagnarmeðferð 373 356 357 381
        Meðferð á dag- eða göngudeild 1.100 1.213 1.302 1.157
Sjúkrahúsið á Akureyri
        Innlagnarmeðferð 34 52 55 50
        Meðferð á dag- eða göngudeild 80 86 72 65
Samhjálp
Hlaðgerðarkot
        Innlagnarmeðferð 369 311 362 385
        Meðferð á dag- eða göngudeild 2.162 2.733 3.014 3.442
Krýsuvíkursamtökin
        Innlagnarmeðferð 54 62 56 51
                   * Áætlaður fjöldi.