Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 711. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1928  —  711. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ökutækjatryggingar.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.



    Minni hlutinn bendir á að innanríkisráðherra lagði á þessu þingi fram frumvarp til nýrra umferðarlaga (495. mál) og stóð minni hlutinn í þeirri meiningu að fjalla ætti samhliða um það frumvarp og það sem hér er til umfjöllunar. Nú liggur fyrir að frumvarp til nýrra umferðarlaga verður ekki að lögum á þessu þingi. Minni hlutinn telur því afar óheppilegt að þetta frumvarp nái fram að ganga nú enda eru ýmsir snertifletir milli málanna og grundvallaratriði að samræmi sé á milli lagabálkanna.
    Meiri hlutinn hefur lagt fram breytingartillögu þess efnis að ákvæði um slysatryggingu ökumanns og eiganda takmarkist við það að ökutæki sé í akstri í almennri umferð. Sú skilgreining sem meiri hlutinn styðst við um almenna umferð á rætur að rekja til frumvarps til umferðarlaga. Þar sem það frumvarp verður ekki að lögum á þessu þingi telur minni hlutinn ótækt að styðjast við þá skilgreiningu.
    Þá telur minni hlutinn óljóst hvað felst í hugtökunum „eigandi“ og „umráðamaður“ samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans við 3. gr. frumvarpsins. Minni hlutinn telur að eigandi ökutækis eigi að bera vátryggingarskylduna og axla þá ábyrgð á ökutæki sem lög kveða á um. Í tilskipun um skráningu ökutækja er skýrlega kveðið á um að handhafi skráningarskírteinis ökutækis teljist eigandi þess. Minni hlutinn bendir á að hugtakið umráðamaður kemur víða fyrir í lögum og það þarf að kanna gaumgæfilega hvort það gangi upp að skilgreina hugtakið í lögum og jafnframt hvort gera þurfi róttæka breytingu á núverandi fyrirkomulagi samkvæmt lögum.
    Í breytingartillögu meiri hlutans er í nýrri grein lagt til að ökutæki samkvæmt frumvarpinu skuli skráningarskyld og að auk þess skuli skrá hjá Vinnueftirlitinu ökutæki sem eru einnig skilgreind sem vinnuvél. Minni hlutinn telur hættu á tvíverknaði með tilheyrandi kostnaði fyrir alla aðila og telur að þetta atriði verða að hljóta nánari skoðun.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að lögfest verði nýtt úrræði í þeim tilvikum að látið er hjá líða að vátryggja ökutæki. Minni hlutinn tekur undir það markmið sem býr að baki, að koma í veg fyrir að ökutæki séu óvátryggð. Hins vegar telur minni hlutinn að í úrræðinu felist róttæk breyting frá því sem var í upphaflegu frumvarpi og telur að gefa hefði átt öllum umsagnaraðilum tækifæri til að tjá sig um hana.
    Minni hlutinn bendir á það markmið sem felst í 1. gr. frumvarpsins að auka umferðaröryggi og tryggja að ábyrgðartrygging vegna ökutækja sé í gildi. Í ljósi þessa mikilvæga markmiðs telur minni hlutinn að ekki megi kasta til höndunum við meðferð málsins hér á Alþingi og að frumvarpið verði að hljóta umfjöllun samhliða frumvarpi til nýrra umferðarlaga til að tryggja samræmi þarna á milli.
         Minni hlutinn leggst gegn því að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi.

Alþingi, 16. sept. 2011.



Eygló Harðardóttir.