Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 870. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1930  —  870. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um endurupptöku mála.

     1.      Hvaða efnisleg rök lágu því til grundvallar að í einu tilviki af 32 á árabilinu 2000–2010 var vikið frá þeirri meginreglu að þrír dómarar við Hæstarétt taki afstöðu til endurupptöku máls og allir níu dómarar fjölluðu um beiðnina, sbr. svar á þskj. 1361?
    
Samkvæmt lögum um meðferð einkamála er Hæstarétti falið að meta hvort endurupptaka eigi mál. Ráðuneytið býr því ekki yfir þeim upplýsingum sem óskað er eftir og leitaði upplýsinga til að svara fyrirspurninni hjá Hæstarétti Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti getur rétturinn, í samræmi við 5. mgr. 7. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, falið þremur eða fimm dómurum að taka afstöðu til umsókna um endurupptöku mála en skv. 4. mgr. sömu lagagreinar skulu allir reglulegir dómarar taka þátt í ákvörðunum um annað en meðferð máls fyrir dómi nema annað sé tekið fram í lögum. Ákvarðanir Hæstaréttar um úthlutanir einstakra mála eru almennt teknar með hliðsjón af eðli þeirra og starfsemi réttarins hverju sinni. Þær eru venjulega ekki skráðar. Með vísan til ákvæða laga um sjálfstæði dómstóla telur Hæstiréttur ekki rétt að gera grein fyrir einstökum ákvörðunum varðandi innri málefni réttarins.

     2.      Hvað leið langur tími frá því að Hæstarétti barst beiðni um endurupptöku, í hverju tilviki í nefndum 32 tilvikum, þar til viðkomandi beiðni hafði verið afgreidd?
    Samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti Íslands var árið 2000 þremur beiðnum um endurupptöku hafnað og höfðu þá 50, 84 og 97 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2001 var einni slíkri beiðni hafnað og höfðu þá 54 dagar liðið frá því að hún barst. Árið 2002 var fjórum slíkum beiðnum hafnað og höfðu þá 40, 40, 61 og 159 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2003 var tveimur slíkum beiðnum hafnað og höfðu þá 8 og 28 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2004 var fjórum slíkum beiðnum hafnað og höfðu þá 70, 120, 156 og 188 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2005 var þremur slíkum beiðnum hafnað og höfðu þá 27, 114 og 161 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2006 var fimm slíkum beiðnum hafnað og höfðu þá 109, 113 og 427 dagar liðið frá því að þær bárust en upplýsingar eru ekki aðgengilegar vegna tveggja beiðna. Árið 2007 var engri beiðni hafnað. Árið 2008 var þremur slíkum beiðnum hafnað og höfðu þá 26, 120 og 350 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2009 var tveimur slíkum beiðnum hafnað og höfðu þá 88 og 92 dagar liðið frá því að þær bárust. Árið 2010 var fimm slíkum beiðnum hafnað og höfðu þá 75, 138, 141, 258 og 284 dagar liðið frá því að þær bárust.