Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 704. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1969  —  704. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, fjárfestingarheimildir).

Frá Helga Hjörvar.



     1.      4. gr. orðist svo:
             Ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum orðast svo:
             Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt á tímabilinu 1. október 2011 fram til 1. júlí 2012 að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem myndast hefur af viðbótariðgjaldi skv. II. kafla, til vörsluaðila skv. 3.–5. mgr. 8. gr. og skal greiðslum háttað eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði þessu.
             Heimilt er á því tímabili sem tilgreint er í 1. mgr. að hefja útborgun innstæðu séreignarsparnaðar rétthafa, ásamt vöxtum, að fjárhæð sem hinn 1. október 2011 nemur samanlagt allt að 6.250.000 kr. óháð því hvort sú heildarfjárhæð séreignarsparnaðar er í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila. Skal sú fjárhæð greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, á 15 mánaða tímabili frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 6.250.000 kr. er að ræða.
             Við ákvörðun fjárhæðar rétthafa til útborgunar skal draga frá hámarksfjárhæð, þ.e. allt að 6.250.000 kr., samanlagða fjárhæð þess séreignarsparnaðar sem þegar hefur verið greiddur út á grundvelli ákvæðisins eins og það hljóðaði fyrir 1. október 2011. Sé óskað eftir útgreiðslum samkvæmt ákvæði þessu fellur fyrra greiðslufyrirkomulag niður, en samanlögð heimil heildarfjárhæð útborgunar, allt að 6.250.000 kr., greiðist út í samræmi við ákvæði 2. mgr., sbr. fyrri málslið þessarar málsgreinar.
             Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar skv. 2. mgr. skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila. Ef rétthafi á séreignarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila skal hann gera grein fyrir því í umsókn sinni.
             Vörsluaðilar séreignarsparnaðar taka ákvörðun um umsókn rétthafa skv. 2. mgr. og hafa umsjón með útgreiðslu á séreignarsparnaði hans.
             Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 2. mgr. 8. gr.
             Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með útgreiðslum séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu.
             Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um fyrirkomulag eftirlits og útgreiðslu séreignarsparnaðar.
             Útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsaleigubóta skv. 9. gr. laga um húsaleigubætur, greiðslu barnabóta eða vaxtabóta skv. 68. gr. laga um tekjuskatt, atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.
             Um afgreiðslu umsókna, sem borist hafa í gildistíð eldra ákvæðis og óafgreiddar kunna að vera, skal fara eftir ákvæði þessu, svo breyttu, frá og með gildistöku þess.
     2.      Við bætist ný grein, svohljóðandi:
             Í stað dagsetningarinnar „1. apríl 2011“ í ákvæði til bráðabirgða IX í lögunum kemur: 1. júlí 2012.
     3.      2. málsl. 5. gr. orðist svo: Þó skulu ákvæði 1. gr. öðlast gildi 1. september 2013 og 4. og 5. gr. öðlast gildi 1. október 2011.

Greinargerð.


    Lagt er til að heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar sem fram kemur í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, verði virk á tímabilinu 1. október 2011 fram til 1. júlí 2012. Heimildin var fyrst sett með lögum nr. 13/2009 og síðan breytt með lögum nr. 130/2009 og lögum nr. 164/2010.
    Með umræddum lögum hafa rétthafar getað fengið greiddar út allt að 5 millj. kr. Með breytingum þeim sem hér eru lagðar til er gert ráð fyrir að hverjum rétthafa verði heimilt að taka út 1.250.000 kr. til viðbótar, samtals allt að 6.250.000 kr. Samanlagður útgreiðslutími fjárhæðar sem nemur allt að 6.250.000 kr. er 15 mánuðir og styttist útgreiðslutími hlutfallslega ef um lægri fjárhæð er að ræða. Ákvæðið kemur þó ekki í veg fyrir að rétthafar ákveði aðra greiðslutilhögun í því augnamiði að mánaðarleg útgreiðsla verði lægri. Hugsanlegt er að rétthafi sæki um útgreiðslu á hluta séreignar sinnar og óski síðan aftur eftir útgreiðslu á umsóknartímabilinu, frá og með 1. október 2011 til og með 30. júní 2012, á grundvelli nýrrar umsóknar. Mikilvægt er að vörsluaðilar upplýsi rétthafa um þennan rétt.
    Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneyti hafa fram til 1. ágúst 2011 rúmlega 56 þúsund rétthafar sótt um úttekt á samtals 60,2 milljörðum kr. Meðalúttekt fyrir skatt er samkvæmt því rúmlega 1 millj. kr. á rétthafa.
    Einnig er lagt til í 2. tölul. að heimild vörsluaðila til að fresta útgreiðslum að greindum skilyrðum verði framlengd.