Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 674. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1974  —  674. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um Stjórnarráð Íslands.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar (RM, ÁI, VBj, ÞrB, MÁ, ÞSa).



     1.      1. mgr. 2. gr. orðist svo:
                      Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði. Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Tillagan skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu áður en forsetaúrskurður er gefinn út.
     2.      Á eftir 1. mgr. 4. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta skv. 1. mgr. skal þess jafnan gætt, að teknu tilliti til skiptingar Stjórnarráðsins í ráðuneyti skv. 2. gr., að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti.
     3.      Á eftir 1. mgr. 6. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Á ríkisstjórnarfundum skal skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess til umræðna um mikilvæg málefni og þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt mikilsverð málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar.
     4.      Í stað orðanna „vegna almannahagsmuna, sbr. 9. og 10. gr. upplýsingalaga“ í 2. mgr. 7. gr. komi: vegna einkahagsmuna og almannahagsmuna.
     5.      11. gr. orðist svo:
                      Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.
                      Forsætisráðherra setur reglur um skráninguna.
     6.      Síðari málsliður 2. mgr. 13. gr. orðist svo: Eftirlit með sjálfstæðum stjórnvöldum tekur ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum.
     7.      Við 28. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. mgr. skal ákvæði 4. mgr. 7. gr. ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2012.
     8.      Við bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (I.)
                      Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skal ákveða fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, við gildistöku laga þessara án undanfarandi þingsályktunartillögu og fjöldi þeirra og heiti skulu vera óbreytt frá því sem er við gildistökuna.
                  b.      (II.)
                      Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 28. gr. skal 5. gr. laga nr. 73/1969 halda gildi sínu til 1. maí 2012.