Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 726. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1993  —  726. mál.
Breytingartillögurvið frv. til sveitarstjórnarlaga.

Frá samgöngunefnd.     1.      2. mgr. 2. gr. orðist svo:
                      Ráðherra sveitarstjórnarmála skal gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaganna, verkefni þeirra og fjárhag.
     2.      Í stað orðsins „átta“ í 2. mgr. 11. gr. komi: fjögur.
     3.      2. mgr. 58. gr. orðist svo:
                      Í samþykkt um stjórn sveitarfélags er heimilt að fela byggðarráði að taka fullnaðarákvarðanir í þeim málefnum sem tilgreind eru í 5. og 6. tölul. 1. mgr., enda sé ekki um verulega fjárhagslega hagsmuni að ræða og ákvörðun rúmist innan fjárhagsáætlunar til eins árs og áætlunar til fjögurra ára, eigi hún við.
     4.      Í stað orðsins „sjö“ í 2. málsl. 3. mgr. 95. gr. komi: fimm.
     5.      Í stað 1. og 2. mgr. 108. gr. komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skv. 105. gr. skal sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Um framkvæmd borgarafundar fer eftir ákvæði 105. gr.
                      Ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. skal sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hærra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags en þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi. Sveitarstjórnin á ákvörðunarvald um framkvæmd viðkomandi viðburðar og þá spurningu sem borin verður upp sé um að ræða almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins. Um framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélags fer eftir ákvæði 107. gr.
                      Almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. verður ekki krafist um efni fjárhagsáætlunar skv. 62. gr. og viðauka skv. 63. gr., um tekjustofna sveitarfélaga eða álagningu annarra lögheimilla gjalda, um ráðningu í störf hjá sveitarfélagi, um laun og önnur starfskjör sveitarstjórnarmanna eða starfsmanna sveitarfélags eða tillögu sem gengur gegn lögum eða mundi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins.
     6.      Í stað orðanna „ekki fullnægir“ í 2. mgr. 115. gr. komi: í veigamiklum atriðum fullnægir ekki.
     7.      128. gr. orðist svo:
                      Ríkisstjórnin skal tryggja formlegt og reglubundið samstarf við sveitarfélögin um mikilvæg stjórnarmálefni sem tengjast stöðu og verkefnum sveitarfélaga. Formlegt samstarf skal m.a. fara fram um framlagningu lagafrumvarpa sem varða sveitarfélögin og um stjórn fjármála hins opinbera, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur mikilvæg mál sem varða hagsmuni sveitarfélaganna eða fjármál.
                      Samstarfsráð ríkis og sveitarfélaga skal funda að lágmarki einu sinni á ári. Fast sæti á fundum samstarfsráðsins eiga ráðherra sveitarstjórnarmála og fjármálaráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aðrir ráðherrar sitja fundi samstarfsráðsins eftir því sem tilefni er til hverju sinni. Um skipan samstarfsráðsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum samstarfssáttmála, sbr. 4. mgr.
                      Yfirumsjón með samstarfi samkvæmt þessari grein hefur samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga. Í henni eiga sæti ráðuneytisstjórar ráðuneytis sveitarstjórnarmála og fjármálaráðuneytis og þrír fulltrúar tilnefndir af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ef þörf er á getur samstarfsnefndin ákveðið að kalla til fulltrúa fleiri ráðuneyta. Samstarfsnefndin starfar í umboði samstarfsráðsins og er vettvangur fyrir reglulega umfjöllun um samskiptamál ríkis og sveitarfélaga.
                      Samstarf samkvæmt þessari grein skal nánar útfært í samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga sem unninn skal af samstarfsnefnd eða í sérlögum eftir því sem við á. Þar skal einnig fjallað um gerð árlegrar þjóðhags- og landshlutaspár sem leggja ber til grundvallar í samstarfi samkvæmt þessari grein og sveitarfélögum er skylt, eftir því sem við á, að byggja á við gerð fjárhagsáætlana.
     8.      Í stað orðanna „fjögur ár“ í 5. tölul. ákvæðis til bráðabirgða komi: sex ár.
     9.      8. tölul. ákvæðis til bráðabirgða orðist svo: Endurskoða skal ákvæði laga þessara um fjármál sveitarfélaga innan fimm ára frá gildistöku með hliðsjón af framkvæmd þeirra.
     10.      Við bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (I.)
                      Sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem uppfylla ekki viðmið 2. mgr. 64. gr. við gildistöku laga þessara skulu fyrir 1. september 2012 samþykkja raunhæfa áætlun um hvernig þau hyggjast ná viðmiðunum. Sé slíkt nauðsynlegt í því skyni að áætlunin verði raunhæf má gera ráð fyrir að viðmiðunum verði náð á allt að tíu árum.
                  b.      (II.)
                      Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála er við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga skv. 64. gr. skylt að undanskilja útgjöld, skuldir og skuldbindingar þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir umtalsvert meiri útgjöldum og eða bera umtalsvert meiri skuldir en annars væri vegna eignarhluta þeirra í veitu- og orkufyrirtækjum í allt að tíu ár frá gildistöku laga þessara.
                  c.      (III.)
                      Samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga sem eru í gildi við samþykkt laga þessara halda gildi sínu til 1. janúar 2013, að því leyti sem þær fara ekki í bága við ákvæði laga þessara.