Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 5. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 5  —  5. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stöðugleika í efnahagsmálum.



Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir,


Gunnar Bragi Sveinsson, Siv Friðleifsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Ásmundur Einar Daðason, Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða sem hafi að markmiði að efla stöðugleika í efnahagsmálum, endurskipuleggja skuldir heimila og fyrirtækja og breyta áherslum í skattamálum:

I. Endurskipulagning skulda.
     1.      Verðtrygging verði afnumin í skrefum. Óverðtryggðum lánakostum verði fjölgað og stutt við fjölgun búsetuforma, m.a. með eflingu leigumarkaðar.
     2.      Óvissu um skuldir heimila og fyrirtækja verði eytt eins fljótt og kostur er. Breyta þarf vaxtalögum þannig að bráðabirgðaákvæði nái einnig til fyrirtækjalána auk lána heimila.
     3.      Svigrúm fjármálastofnana verði nýtt til almennrar leiðréttingar skulda heimilanna eftir því sem kostur er eins og Framsóknarflokkurinn hefur áður lagt til, eða með öðrum almennum aðgerðum sem stefna að sama marki.
     4.      Eignarhald banka á fyrirtækjum verði takmarkað og sölu þeirra fyrirtækja sem þegar eru í eigu banka verði flýtt.

II. Gjaldmiðlamál og peningastefna.
     1.      Gjaldeyrishöft verði afnumin eins hratt og mögulegt er þannig að markaðsskráning íslensku krónunnar verði innleidd um mitt ár 2012.
     2.      Komið verði í veg fyrir að skammtímalækkun krónunnar í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta leiði til sjálfvirkrar hækkunar verðtryggðra lána í landinu.
     3.      Óháðir sérfræðingar verði fengnir til að gera úttekt á peningastefnunni sem rekin hefur verið undanfarin ár. Í kjölfarið verði gerð trúverðug áætlun um sterkari peningastefnu til framtíðar.
     4.      Strax verði hafin þverpólitísk vinna við að kanna framtíðarkosti í gjaldmiðlamálum. Í þeirri vinnu verði allir kostir skoðaðir gaumgæfilega en ekki einblínt á fáa möguleika.

III. Framkvæmdir og atvinna.
     1.      Sett verði af stað sérstakt átak í opinberum framkvæmdum án tafar. Við val verkefna verði horft til vinnuaflsfrekra verkefna og arðsemi þeirra.
     2.      Einnig verði gert átak í framkvæmdum sem opinberir aðilar hafa forustu um eða greiða fyrir þótt einkaaðilar framkvæmi.
     3.      Liðkað verði tafarlaust fyrir framkvæmdum með innleiðingu skattastefnu sem ýtir undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu fremur en að draga úr þeim.

IV. Ríkisfjármál.
     1.      Gerðar verði langtímaáætlanir í ríkisfjármálum, bæði til fimm ára og til tíu ára.
     2.      Óheimilt verði að reka ríkissjóð og sveitarfélög með halla nema í sérstökum undantekningartilvikum.
     3.      Sett verði af stað sérstakt átak í opinberum framkvæmdum án tafar. Horft verði til vinnuaflsfrekra verkefna og arðsemi þeirra.
     4.      Lagafrumvarpi sem felur í sér útgjöld skal ávallt fylgja lagafrumvarp um tekjuöflun á móti.
     5.      Ríkiskerfið verði endurskipulagt með það að markmiði að lækka raunkostnað í rekstri. Í þeim aðgerðum verði forgangsraðað þannig að staðinn sé vörður um mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi.

V. Skattastefna og skattkerfisbreytingar.
     1.      Innleidd verði skattastefna sem ýtir undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu og liðkar til fyrir mannaflsfrekum framkvæmdum.
     2.      Launaskattar verði lækkaðir, m.a. tryggingagjald, til þess að hvetja fyrirtæki til þess að ráða starfsfólk.
     3.      Skattkerfið verði einfaldað m.a. með því að leggja af þrepaskiptan tekjuskatt og afnema ýmsar sérreglur sem komið hefur verið á síðastliðið ár.
     4.      Fjármagnstekjuskattur miðist við raunverulega ávöxtun og þar með verði tekið tillit til verðbólgu.
     5.      Persónuafsláttur verði hækkaður til fyrra horfs að raungildi.

Greinargerð.


    Framsóknarflokkurinn telur að blandað hagkerfi einkareksturs, samvinnureksturs og opinbers reksturs sé skynsamlegasta leiðin til að tryggja hagsæld fólksins í landinu. Íslenska hagkerfið þarf að vera stöðugt, gagnsætt og traust, og fyrirtækjum og einstaklingum búið starfsumhverfi þar sem frumkvæði, dugnaður og samfélagslegt réttlæti eru í hávegum höfð.
    Ríkisvaldið verður að vera vinsamlegt atvinnulífi, framkvæmdum og uppbyggingu í samræmi við langtímahagsmuni Íslendinga og verndun náttúrugæða. Framtíð Íslands er björt. Landið á auðlindir sem verða enn verðmætari í framtíðinni. Innviðir ríkisins eru sterkir og landið byggir vinnusöm þjóð. Íslendingum mun takast að rétta við efnahag landsins og byggja upp velferðarsamfélagið á ný. Til þess þarf aðeins þor til að taka ákvarðanir í efnahagsmálum og samtakamátt þjóðarinnar. Þetta gerðu Íslendingar á 20. öld með sameiginlegu átaki og það getum við aftur nú.
    Forsenda þess að efnahagur þjóðarbúsins taki við sér er að allir þekki sína stöðu. Það er því brýnt að ljúka endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja sem allra fyrst. Atvinna er forsenda hagvaxtar við núverandi aðstæður. Tækifærin eru til staðar og þau þarf að nýta bæði hvað varðar opinberar framkvæmdir sem reynast hagkvæmar sem og frumkvæði einstaklinga.
    Þingflokkur framsóknarmanna mun á komandi þingi leggja fram bæði þingsályktunartillögur og frumvörp til laga sem byggjast á þeim markmiðum sem sett eru fram í tillögu þessari.

I. Endurskipulagning skulda.
    Það er ávallt brýnt að heimili og fyrirtæki þekki efnahagsstöðu sína. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hefur skapast um þessa stöðu mikil óvissa sem ríkjandi stjórnvöld hafa enn ekki eytt. Þessi óvissa tefur fyrir efnahagsbata. Hún dregur úr einkaneyslu og enn frekar fjárfestingu sem verður fyrir vikið í lágmarki.
    Ekki sér fyrir endann á fjárhagslegu uppgjöri og endurskipulagningu fyrirtækja. Á þessu þarf að vinna bót þannig að fyrirtæki verði rekstrarhæf, geti horft til framtíðar og ráðið til sín starfsfólk. Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað lagt fram tillögur til úrbóta í þessa átt en talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda.
    Flýta verður endurskipulagningu skulda eins og kostur er og þurfa stjórnvöld að hafa forustu um það. Einnig þarf að takmarka eignarhald banka á atvinnufyrirtækjum og flýta sölu þeirra svo að þau komist í viðunandi rekstur og eðlilegt samkeppnisumhverfi ríki á markaði.
    Eitt af því sem hefur vegið þungt í fjárhag heimilanna eru verðtryggð húsnæðislán. Brýnt er að ákvarðanir verði teknar til að afnema verðtrygginguna í skrefum þannig að skuldir heimilanna verði ekki lengur háðar verð- og skattahækkunum á neysluvörum svo að dæmi sé tekið. Framsóknarflokkurinn hefur þegar bent á leiðir að þessu marki og mun fylgja þeim eftir.
    Stefna ber að fjölgun óverðtryggðra lántökukosta vegna húsnæðiskaupa og fjölgun búsetuforma, m.a. með eflingu leigumarkaðar. Með auknu framboði á lánaformum og fjölgun búsetuforma geta heimilin valið þá kosti sem henta hverju og einu þeirra.

II.     Gjaldmiðlamál og peningastefna.
    Afnema þarf gjaldeyrishöft hið fyrsta. Stefna ber að því að um mitt ár 2012 verði hægt að innleiða markaðsskráningu íslensku krónunnar. Við þær aðgerðir þarf m.a. að horfa til mögulegrar skattlagningar á skammtímafjármagnsflæði til landsins og viðskipta Seðlabankans með gjaldeyri þannig að í framtíðinni verði komið í veg fyrir óeðlilega skammtímastyrkingu gjaldmiðilsins sem leitt getur af sér eignabólur, grafið undan rekstrargrundvelli útflutningsatvinnugreina og leitt af sér óeðlilegar sveiflur í gengi íslensku krónunnar.
    Þá er mikilvægt að koma í veg fyrir að hugsanleg skammtímaveiking íslensku krónunnar í kjölfar haftaafnáms leiði til sjálfvirkrar hækkunar verðtryggðra lána í landinu og þar með skuldaaukningar heimila og fyrirtækja.
    Margt bendir til þess að hrunið og bágt efnahagsástand nú megi að hluta rekja til rangrar peningastefnu. Nú þegar þarf að fá óháða sérfræðinga til að gera úttekt á peningastefnunni sem rekin hefur verið undanfarin ár. Í kjölfarið þarf að leggja drög að skynsamlegri og trúverðugri peningastefnu fyrir þjóðina til langs tíma, enda er slíkt forsenda þess að gjaldeyrishöft verði afnumin. Jafnframt verði sett í gang þverpólitísk skoðun á því hvort og þá hvaða kostir aðrir í gjaldmiðlamálum kunni að vera til sem betur tryggi langtímahagsæld þjóðarinnar.

III. Framkvæmdir og atvinna.
    Til þess að skapa störf verður hagkerfið að vaxa. Vinnuafl er til staðar og tækifærin eru til staðar. Þau þarf að nýta. Til viðbótar við ábyrg ríkisfjármál mun það leiða til nauðsynlegs vaxtar hagkerfisins. Framsóknarflokkurinn telur að nú þegar þurfi að hefja sérstakt átak í opinberum framkvæmdum og framkvæmdum þar sem opinberir aðilar hafa forustu eða greiða fyrir þótt einkaaðilar framkvæmi. Mikilvægt er að við val á slíkum framkvæmdum sé horft til vinnuaflsfrekra verkefna og arðsemi þeirra. Slíkt skapar atvinnu og eykur hagvöxt. Um leið er mikilvægt að nýta þetta tækifæri sem nú er til nauðsynlegra og arðsamra framkvæmda til framtíðar, meðan raunverulegur þjóðhagslegur framkvæmdakostnaður er í algeru lágmarki.
Stjórnvöld þurfa að tryggja öryggi atvinnuveganna og rekstrarskilyrði. Mikilvægt er að ríkisvaldið liðki tafarlaust fyrir framkvæmdum og innleiði skattastefnu sem ýtir undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu fremur en að draga úr þeim.

IV. Ríkisfjármál.
    Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á langtímaáætlun í ríkis- og opinberum fjármálum yfirleitt og að tryggja sjálfbærni í rekstri. Mikilvægt er að áætlanir í ríkisfjármálum séu gerðar lengra fram í tímann en nú tíðkast og er lagt til að gerðar verði áætlanir um fjármál ríkisins til annars vegar fimm ára og hins vegar tíu ára.
    Halli í opinberum rekstri er ætíð varasamur og oft beinlínis hættulegur. Aðeins í undantekningartilfellum þar sem tilteknum skilyrðum er fullnægt á að vera heimilt að reka ríkissjóð og sveitarfélög með halla. Frumvarpi með útgjöldum skal ávallt fylgja frumvarp um tekjuöflun á móti.
    Mikilvægt er að hefja vinnu við endurskipulagningu á ríkiskerfinu með það að markmiði að auka skilvirkni og spara kostnað. Í þessu felst m.a. að fara yfir alla helstu útgjaldaliði með það í huga að kanna hvort þeir skili samfélaginu nægilegum ávinningi, lækka raunkostnað við skynsamlegan opinberan rekstur m.a. með aðhaldi og betra hvatningarkerfi fyrir starfsfólk og stjórnendur. Við sparnað og endurbætur í ríkisrekstri er lykilatriði að forgangsraða. Staðinn verði vörður um grunnþætti heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfis, enda er þar um fjárfestingu til framtíðar að ræða.

V.     Skattastefna og skattkerfisbreytingar.
    Markmið skattlagningar er tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Því miður hafa önnur sjónarmið ríkt síðustu árin. Mikilvægt er að ríkisvaldið liðki tafarlaust fyrir mannaflsfrekum verkefnum með innleiðingu skattastefnu sem ýtir undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu fremur en að draga úr þeim.
    Framsóknarflokkurinn telur að nú þegar hafi allt of langt verið gengið í hækkun skatta á launafólk og heimili. Flest bendir til að þær skattahækkanir sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir hafi leitt til vaxandi undanskota frá skatti og dregið úr hvata fólks til öflunar tekna og aukinnar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu. Því leggur Framsóknarflokkurinn til að skattkerfið verði einfaldað, dregið verði úr neikvæðum jaðaráhrifum og persónuafsláttur hækkaður til fyrra horfs að raungildi.