Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 9  —  9. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.



Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Árni Johnsen, Jón Gunnarsson,
Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Einar K. Guðfinnsson.


1. gr.

    2. og 3. málsl. 5. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: Við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar skal draga frá upphaflegum höfuðstól þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir. Fjárhæðin sem eftir stendur skal vaxtareiknuð samkvæmt ákvæðum 1. mgr. og án þess að heimilt sé að leggja vexti við höfuðstólinn, sbr. 12. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi taka til lánssamninga sem falla undir gildissvið ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 139. löggjafarþingi (829. mál).
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu sem jafnframt er ætlað að ná til uppgjörs gengistryggðra lána, sbr. ákvæði til bráðabirgða X. Umrætt ákvæði var sett með lögum nr. 151/2010 en yfirlýstur tilgangur þeirra laga var að hraða og samræma uppgjör á tilgreindum lánasamningum í kjölfar hæstaréttardóma sem lýstu gengistryggingu ólögmæta. Eftir uppkvaðningu dómanna reis upp réttaróvissa að því er varðar hvaða lán bæru með sér ólögmætið og hvernig haga ætti uppgjöri þeirra þegar svo háttaði. Gildissvið laganna var einskorðað við fasteignalán og bílalán einstaklinga og var á því byggt að upphaflegur höfuðstóll skyldi vaxtareiknaður í samræmi við almennt vaxtaviðmið laga um vexti og verðtryggingu en síðan kæmu til frádráttar höfuðstól og áföllnum vöxtum þær fjárhæðir sem inntar hefðu verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag.
    Í frumvarpinu er lagt til að þessari aðferð við endurútreikning verði breytt til hagsbóta fyrir skuldara þannig að allar greiðslur sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi komi þegar til frádráttar upphaflegum höfuðstól en að sú fjárhæð sem þá stendur eftir verði vaxtareiknuð í samræmi við almennt vaxtaviðmið laga um vexti og verðtryggingu frá upphafi samningstímans. Einnig er lagt til að ekki skuli leggja vexti við þá fjárhæð sem eftir stendur á hverju tólf mánaða tímabili eins og heimilað er í 12. gr. laganna.
    Meginröksemdin að baki frumvarpinu er sú að lánveitendur beri fremur en skuldarar ábyrgð á ólögmæti gengistryggðra lána og þess vegna eigi við endurútreikning að velja þá reikniaðferð sem er þeim síðarnefndu hagfelldust án þess þó að þeir verði taldir auðgast með óréttmætum hætti á kostnað hinna fyrrnefndu.