Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 10  —  10. mál.
Tillaga til þingsályktunarum sókn í atvinnumálum.Flm.: Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson,
Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir,
Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða í atvinnumálum sem hafi að markmiði að greiða fyrir fjölgun starfa, styðja við hagvöxt og auka velferð:

I.
Efnahags- og skattamál.

     1.      Skuldameðferð lítilla og meðalstórra atvinnufyrirtækja sem talin eru rekstrarhæf fari fram með gagnsæjum hætti og ljúki hið fyrsta.
     2.      Skipaður verði starfshópur stjórnvalda og hagsmunaðila sem endurskoði skattumhverfi atvinnulífsins með það að markmiði að tryggja samkeppnishæfni Íslands. Tillögur verði kynntar opinberlega með góðum fyrirvara áður en þær koma til framkvæmda.
     3.      Losað verði um gjaldeyrishöftin svo fljótt sem verða má. Á meðan höftin vara verði leitast við að tryggja aðgengi innlendra aðila að alþjóðlegum fjármálamörkuðum auk þess sem leitað verði samninga við eigendur aflandskróna um að beina fjármunum sínum í verkefni innan lands.
     4.      Íslenskur hlutabréfamarkaður verði endurreistur og almennur skattaafsláttur verði innleiddur vegna hlutabréfa- og stofnfjárkaupa.
     5.      Samskipti stjórnvalda og atvinnulífsins verði endurskoðuð eftir atvikum með gerð sérstaks gæðasáttmála þar sem leitast verði við að laga stjórnsýsluna betur að þörfum atvinnulífsins um leið og stuðlað verði að bættu viðskiptasiðferði.
     6.      Lög um einkahlutafélög og samvinnufélög verði einfölduð.

II.
Vinnumarkaðsaðgerðir.

     1.      Gerð verði úttekt á þörfum atvinnulífsins og atvinnulausra gagnvart námi og námsframboði.
     2.      Komið verði til móts við þarfir einstaklinga sem ekki hafa fundið sig í framhalds- og háskólum.
     3.      Fólki án atvinnu verði boðið upp á fjölbreytt úrræði við upphaf næsta skólaárs.
     4.      Fólki án atvinnu verði í samstarfi við atvinnulífið boðið upp á starfsnám.
     5.      Horft verði sérstaklega til hinna „skapandi greina“, svo sem hönnunar- og tæknigreina.

III.
Stoðkerfi atvinnulífsins.

     1.      Mótuð verði heildarstefna á sviði atvinnuþróunar, þ.m.t. um ráðgjöf til fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.
     2.      Stofnanaumgjörð opinberra aðila á sviði atvinnuþróunar verði einfölduð.
     3.      Komið verði á fót atvinnuþróunarráði í hverjum landshluta.
     4.      Starfsemi Íslandsstofu verði efld til að laða að beina erlenda fjárfestingu.

IV.
Nýsköpun.

     1.      Lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði breytt þannig að stuðningur við þau verði í formi afsláttar á staðgreiðslu og rannsóknar- og þróunarkostnaði.
     2.      Einstaklingar njóti skattaafsláttar vegna fjárfestinga í nýsköpunarverkefnum og í sjóðum sem fjárfesta eingöngu í nýsköpunarfyrirtækjum.

V.
Hugverkaiðnaður.

     1.      Fjármagn til kennslu í raun- og verkfræðigreinum í háskólum landsins verði aukið.
     2.      Skattalegar ívilnanir verði boðnar til að laða erlenda sérfræðinga í vinnu hér á landi.
     3.      Framlög til Tækniþróunarsjóðs verði aukin.

VI.
Kvikmyndagerð og tónlist.

     1.      Endurgreiðsluhlutfall vegna kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu verði hækkað úr 20% í 25%, sbr. lög nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
     2.      Framlög til kvikmyndasjóðs verði aukin úr um 450 millj. kr. í 700 millj. kr. á ári.
     3.      25% hlutfall af kostnaði við tónlistarupptökur verði endurgreiddur.

VII.
Ferðaþjónusta.

     1.      Tekjur ríkisins sem renna eiga til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða renni til uppbyggingar innan greinarinnar á grundvelli heildstæðrar stefnu.
     2.      Hafið verði kynningarátak til að efla ferðaþjónustu allt árið. Ríkissjóður verji 350 millj. kr. til átaksins og aðilar í ferðaþjónustu leggi fram samsvarandi upphæð.
     3.      Markaðsmálum verði komið í farveg til lengri tíma með markvissu samstarfi ríkis, sveitarfélaga, markaðsstofa og fyrirtækja.
     4.      Grunnrannsóknir í ferðaþjónustu verði efldar og þær nýttar við kynningarátak, ímyndarsköpun og vöruþróun.

VIII.
Landbúnaður.

     1.      Stjórnvöld lýsi því yfir að rekstrarumhverfi landbúnaðarins verði ekki raskað frekar en orðið er til loka gildistíma núverandi búvörusamninga.
     2.      Með liðsinni Íslandsstofu verði vakin athygli erlendis á þeim miklu tækifærum sem fólgin eru í loðdýrarækt hér á landi og þeim kostum sem mæla með fjárfestingum hér. Greininni verði tryggt samkeppnishæft umhverfi og tryggðir möguleikar á að nýta þau hráefni sem til falla.
     3.      Unnið verði með matvælaframleiðendum að stefnumörkun um hvernig hægt sé að auka hlut innlendra matvæla í neyslu hérlendis og hvaða markmið skuli sett varðandi útflutning, sérstaklega á lambakjöti og grænmeti.
     4.      Gerð verði áætlun um landnýtingu þar sem matvælaframleiðsla fái ríkan sess.
     5.      Fjölgað verði tækifærum matvælaframleiðenda til að vinna úr og þróa eigin afurðir.
     6.      Leitað verði allra leiða til þess að lækka kostnað við flutning á raforku, m.a. til að bæta rekstrarskilyrði garðyrkjunnar.
     7.      Sett verði raunhæf og mælanleg markmið um innlenda metan- og lífdísilframleiðslu.

IX.
Orkumál og orkuskipti.

     1.      Í framhaldi af samþykkt laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða verði staðið faglega að veitingu virkjunarleyfa og stjórnvöld virði þau tímamörk sem þeim eru sett í þeim efnum.
     2.      Skattumhverfi vegna olíuleitar innan íslenskrar landhelgi verði bætt og settur aukinn kraftur í það verkefni.
     3.      Mótuð verði stefna um hvernig unnt sé með sem skilvirkum hætti að ýta undir notkun á nýrri tækni og endurnýjanlegum orkugjöfum í samgöngum. Fjárframlög til málaflokksins verði nýtt í þessu skyni.
     4.      Opinberir styrkir verði veittir til þeirra 10% heimila sem ekki eiga kost á heitu vatni til húshitunar sem nýst geta til kaupa á varmadælum, gluggaskiptum, bættri einangrun húsa eða öðrum orkusparnaði gegn lækkuðum niðurgreiðslum hins opinbera á orku til húshitunar.
     5.      Stofnaður verði „Jöfnunarsjóður raforku“ sem hafi það hlutverk að jafna orkuverð í landinu.

X.
Uppbygging í mannaflsfrekum iðnaði.

     1.      Stjórnvöld geri beina erlenda nýfjárfestingu að forgangsatriði og móti sér stefnu um hvernig uppbyggingu stefna eigi að.
     2.      Lagaumhverfi, ívilnanir vegna beinna erlendra fjárfestinga og leyfisveitingaferli verði endurskoðað með það að markmiði að skilvirkni og gagnsæi íslenskrar stjórnsýslu verði aukið til muna.
     3.      Að stutt verði dyggilega við þau verkefni sem nú þegar eru til athugunar í uppbyggingu í mannaflsfrekum iðnaði.

XI.
Sjálfbært fjármálakerfi.

     1.      Mótuð verði stefna um fjármálakerfið sem byggist á fjölbreytni, neytendavernd og sjálfbærni.
     2.      Sparisjóðir verði endurskipulagðir að nýju með svæðaskiptu skipulagi.
     3.      Sett verði ný lög um lánasamvinnufélög.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi (823. mál). Þá fylgdi henni svohljóðandi greinargerð:
    „Efnahagslífið er um þessar mundir þjakað af erfiðum skuldavanda fólks og fyrirtækja og allt of háu atvinnuleysi. Talið er að u.þ.b. 15 þúsund manns hafi verið atvinnulausir í lok febrúar sl. Stjórnvöld þurfa við þær aðstæður að sjá til þess að úrlausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja gangi greiðlega fyrir sig og hvetja til fjárfestingar í atvinnuskapandi verkefnum. Með aukinni verðmætasköpun og eftirspurn munu tekjur ríkissjóðs vaxa sem gerir því kleift að standa undir aukinni velferð þeirra sem minnst lífskjör hafa. Hagvaxtarhorfur næstu ára benda til þess að þörf sé á markvissum aðgerðum til að útrýma atvinnuleysi.
    Tillaga þessi er samin með hliðsjón af skýrslu atvinnumálanefndar Framsóknarflokksins frá apríl 2011 og ber heitið Ísland í vonanna birtu. Þar eru lagðar til úrbætur á ýmsum sviðum atvinnulífsins sem ætlað er að styðja við vöxt hagkerfisins og greiða fyrir fjölgun starfa. Aðgerðir sem lagðar eru til í skýrslunni eru greindar eftir málefnasviðum sem varða efnahags- og skattamál, vinnumarkaðsaðgerðir, stoðkerfi atvinnulífsins; nýsköpun, hugverkaiðnað, kvikmyndagerð og tónlist, ferðaþjónustu, landbúnað, orkumál og orkuskipti, uppbyggingu í mannaflsfrekum iðnaði og sjálfbært fjármálakerfi. Telja skýrsluhöfundar að með aðgerðunum megi skapa um 11.800 störf á næstu árum, bæði í formi varanlegra starfa og tímabundinna. Skýrslan er unnin á grundvelli víðtæks samráðs við aðila sem tengjast atvinnulífinu á einn eða annan hátt og varpar ljósi á fjölmörg tækifæri til atvinnusköpunar.
    Skýrslu atvinnumálanefndar má finna hér en hún er jafnframt fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari: framsokn.is/files/skyrsla_atvinnumalanefndar_2011.pdf.

I.     Efnahags- og skattamál.
    Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu mælist nú 12% en ætti almennt að vera um og yfir 20%. Við þessar aðstæður þurfa stjórnvöld að breyta um stefnu og endurskoða reglur á sviði efnahags- og skattamála í samráði við atvinnulífið í þeim tilgangi að hvetja til fjárfestingar. Skattbreytingar undanfarinna ára sem lagðar hafa verið fram á grunni efnahagsáætlunar AGS og Íslands hafa haft það að markmiði að auka tekjur ríkissjóðs og draga úr fjárlagahallanum en um leið hafa þær verið notaðar í þágu pólitískra stefnumiða sem skýrir öðrum þræði hversu lítið samráð hefur verið haft við samningu þeirra. Breytingarlög nr. 70/2009, frá 29. júní 2009, og lög nr. 128/2009, frá 23. desember 2009, bera þess glögglega merki en þar var mælt fyrir ýmsum breytingum sem haft hafa neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi atvinnulífsins, þar af má nefna skattlagningu arðs sem launatekjur og skattlagningu vaxtagreiðslna úr landi. Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafa enn fremur aukið á vanda hagkerfisins með því að draga úr eftirspurn. Með hliðsjón af skuldsetningu heimila og fyrirtækja væri nær að lækka skatta og greiða fyrir möguleikum á erlendri fjárfestingu. Sýnt þykir að lög um hlutafélög og einkahlutafélög séu of lík og flækjustig í samvinnulöggjöfinni er of hátt. Því er lagt til endurskoðunar á þessum lögum.

II.     Vinnumarkaðsaðgerðir.
    Það er sérstakt áhyggjuefni að af þeim 15 þúsund manns sem eru atvinnulausir hefur 1/ 3 verið atvinnulaus í meira en 12 mánuði auk þess sem atvinnuleysi mælist hvað mest hjá ungu fólki. Reynsla annarra þjóða bendir til þess að við þær aðstæður sé rétt að auka tækifæri til náms og starfsmenntunar, ekki síst á sviði skapandi greina, vegna þeirra samfélagslegu vandamála og kostnaðar sem óbreytt ástand mun óhjákvæmilega hafa í för með sér. Stjórnvöld þurfa að auka framlög til menntakerfisins og leita eftir samstarfi við atvinnulífið um að koma fólki út á vinnumarkaðinn sem fyrst.
    Atvinnuleysi mælist hvað mest hjá ungu fólki en það er 9,5%. Um 70% þessara einstaklinga eiga það sammerkt að hafa ekki fundið sig í grunn- og framhaldsskólanámi heldur einungis lokið grunnskólanámi. Íslenskt menntakerfi hefur ekki náð að þjóna þörfum þessa fólks og mikilvægt er að finna þeim úrræði. Helst er þá horft til ýmiss konar tæknigreina og annarra skapandi greina.
    Raunhæft er að setja sem markmið að á árinu 2012 muni 2.000 einstaklingar, til viðbótar þeim 1.500 vinnumarkaðsúrræðum sem eru til staðar í dag, vera komnir í nám á framhalds- og háskólastigi eða í starfstengt nám í tæknigreinum og skapandi greinum. Þróa þarf þessa
námsleið í góðri samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins. Afar brýnt er að fjölga þjálfunartækifærum fyrir atvinnulausa inni í fyrirtækjunum.
    Mikilvægt er að atvinnuleysisbætur fylgi einstaklingum sem fara í starfsþjálfun til fyrirtækja og að atvinnurekandi bæti við fjármagni þannig að launin verði yfir lágmarkslaunum. Þetta verði þá hvatning fyrir atvinnurekendur til að taka þátt í átakinu og fyrir einstaklinginn til að sækjast eftir því að komast í slík starfsúrræði.

III.     Stoðkerfi atvinnulífsins.
    Lagt er til að verksvið stofnana ríkis og sveitarfélaga sem starfa á sviði atvinnuþróunar sæti endurskoðun sem ætlað er að stuðla að bættu verklagi og betri nýtingu opinberra fjármuna. Meðal þess sem skoðað verði er að sameina einstakar stofnanir og koma á fót staðbundnum starfsstöðvum sem geri aðilum kleift að nálgast upplýsingar um alla þá aðstoð sem í boði er. Skýra þarf verksvið Byggðastofnunar og auka möguleika stofnunarinnar til að vera öflugur ráðgjafi og stuðningsaðili við atvinnulíf á landsbyggðinni. Tryggja þarf við þá vinnu þátttöku sveitarstjórnarfólks, aðkomu íbúa, atvinnulífsins og menntastofnana.

IV.     Nýsköpun.
    Fjárfesting í nýsköpun er áhættusöm en um leið þjóðfélagslega brýn. Nýsköpunarfyrirtækin Össur, Marel og CCP eru dæmi um þau verðmæti sem orðið geta til í þekkingarsamfélaginu. Fyrirtækin þurfa jafnan á miklu fjármagni að halda til að sinna rannsóknum og markaðsvinnu sem óvíst er að skili sér á endanum. Opinberir aðilar ættu þess vegna að leita leiða til þess að styðja við starfsemina og huga að því um leið að auka framboð á fjárfestingartækifærum. Samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki er fyrirtækjunum heimilt að draga frá skatti fjárhæðir vegna útlags kostnaðar sem þau hafa haft af tilgreindum rannsóknum og þróun frá fyrra ári. Lagt er til að einnig væri hægt að veita þeim stuðning í formi afsláttar á staðgreiðslu launa til að forðast að fyrirtækin þurfi að fjármagna sig í langan tíma áður en þau fá endurgreiðslu. Einnig er lagt til að einstaklingar sem fjárfesta í nýsköpunarverkefnum njóti skattafsláttar hvort sem þeir fjárfesta beint eða kjósa að beina fjárfestingu sinni í gegnum sérstakan fjárfestingarsjóð sem sérhæfir sig í nýsköpunarfyrirtækjum.

V.     Hugverkaiðnaður.
    Stefnuleysi stjórnvalda í málefnum hugverkaiðnaðarins og lítill stuðningur hafa haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja á þeim markaði. Tilvist þessara fyrirtækja hér á landi stendur enn fremur ógn af gjaldeyrishöftum þar sem stór hluti afurðanna er seldur erlendis. Fyrirtækin geta starfað á ýmsum sviðum atvinnulífsins og mætti þar af nefna heilbrigðistækni, hönnun, fata- og listiðnað, líftækni, orku- og umhverfistækni, afþreyingariðnað, vél- og rafeindatækni fyrir matvælavinnslu og mannvirkjagerð og málmtækni. Hið opinbera þarf að hlúa vel að rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja eins og fjallað er um í kaflanum um nýsköpun. Tryggja þarf að inn á vinnumarkaðinn komi vel menntað fólk á sviði raungreina og verkfræði sem annað geta eftirspurn fyrirtækjanna eftir vinnuafli til að auka á samkeppnishæfni þeirra. Er lagt til að framlög til háskólanna og Tækniþróunarsjóðs verði aukin í þessu skyni auk þess sem hugað verði að breytingum til að laða erlenda sérfræðinga að íslenskum vinnumarkaði. Einnig þarf að skoða möguleikana á að koma á vinnumarkaðsúrræðum fyrir atvinnulausa á sviði hugverkaiðnaðar.

VI.     Kvikmyndagerð og tónlist.
    Dregið hefur úr opinberum framlögum og styrkveitingum til kvikmyndagerðar á undanförnum árum þrátt fyrir að íslenskir aðilar hafi fengið mikið lof fyrir listsköpun sína á erlendri grund. Þannig voru framlög til kvikmyndasjóðs á árinu 2010 aðeins um 450 millj. kr. á sama tíma og langtímaáætlun frá árinu 2006 gerði ráð fyrir að til hans yrði varið um 700 millj. kr. Niðurskurðurinn hefur þær afleiðingar að verkefnum fækkar og fleiri missa vinnuna innan greinarinnar sem er háð stuðningi bæði hér og í flestum nágrannalöndum okkar. Leiða má líkur að því að fjármunum sem varið er til stuðnings listum og menningu auki áhuga manna á landi og þjóð. Opinber stuðningur skilar því ríkinu meiri tekjum en ef hans nyti ekki við. Lagt er til að stuðningi við tónlist hér á landi verði með sama hætti og gagnvart kvikmyndagerð.

VII. Ferðaþjónusta.
    Ferðamönnum til landsins hefur þrátt fyrir krepputíð fjölgað mikið á síðustu árum með jákvæðum áhrifum á fjárhag ríkissjóðs. Á þessu ári stefnir í að ferðamannastraumur vaxi enn. Ísland hefur upp á fjölmargt að bjóða eins og fallega náttúru, einstaka sögu og menningu. Möguleikarnir virðast óþrjótandi enda er hvert landsvæði með sín sérkenni sem íbúar leggja rækt við, t.d. á sviði landbúnaðar eða sjávarútvegs. Þá má nefna heilsutengda ferðaþjónustu þar sem áherslan liggur á vel menntað starfsfólk og hreint umhverfi.
    Rétt þykir að stuðla áfram að fjölgun ferðamanna með samhentu markaðsátaki ríkis, sveitarfélaga og aðila í ferðaþjónustu. Með fjölgun ferðamanna má gera ráð fyrir að störfum fjölgi en um leið verður að standa vörð um náttúru landsins. Þess vegna er þörf á aðgerðum til uppbyggingar ferðamannastaða vítt og breitt um landið og til að lengja ferðamannatímabilið eins og kostur er þannig að ágangur og tekjustreymi vegna ferðamanna verði sem jafnast. Framkvæmdasjóði ferðamannastaða verði ætlað það hlutverk að bæta aðstæður og verja íslenskar náttúruperlur en ekki til rekstrar. Opinberir aðilar þurfa enn fremur að greiða fyrir samgöngum og aðgangi ferðamanna að stöðunum þannig að öryggi þeirra verði sem best tryggt.

VIII. Landbúnaður.
    Bændur og aðrir aðilar sem starfa innan landbúnaðarins hafa mætt miklum skuldavanda í kjölfar efnahagshrunsins sem gengið hefur hægt að leysa úr. Staða einstakra undirgreina er misjöfn en á tímum hækkandi hrávöruverðs og matvælaverðs í heiminum leynast tækifæri. Hækkanirnar hafa ásamt skertum ráðstöfunartekjum heimila og lækkun gengis aukið veg innlendrar framleiðslu á kostnað innflutnings. Hlutfall innlendra matvæla í heildarneyslu landsmanna hefur farið hækkandi og mun sú þróun halda áfram ef heimsmarkaðsverð hækkar. Tilraunir á sviði kornræktar, skógræktar og framleiðslu metans og lífdísils benda einnig til þess að hægt sé að draga úr innflutningi á vörum eins og korni, timbri, áburði og eldsneyti. Lækkun gengisins hefur gert það að verkum að tækifæri íslensks landbúnaðar á erlendum mörkuðum eru meiri en áður og hafa í því sambandi verið nefndir möguleikar í loðdýrarækt, hrossarækt, fiskeldi, framleiðslu á lambakjöti og jafnvel grænmeti ef orkuverð er sanngjarnt. Tengsl landbúnaðar við ferðaþjónustuna eru enn fremur veruleg eins og áður er getið og sífellt færist í vöxt að neytendur kjósi að fá afurðirnar sendar beint frá býli.

IX.     Orkumál og orkuskipti.
    Íslenska þjóðin hefur nokkra sérstöðu í alþjóðlegu tilliti þar sem um og yfir sjötíu prósent frumorkunotkunar hennar koma frá umhverfisvænum orkugjöfum, þ.e. vatnsafli og jarðvarma. Það sem eftir stendur má að mestu leyti rekja til innflutts jarðefnaeldsneytis sem nýtt er til samgangna og til að knýja fiskiskipaflotann. Hækkandi eldsneytisverðs og markmið í loftslagsmálum gerir að verkum að nýjar aðferðir þróast til að beisla umhverfisvæna orku. Orkukreppa áttunda áratugarins leiddi til þess að stórátak var gert hér á landi í húshitun með heitu vatni og með sama hætti má nú segja að til staðar séu forsendur til að þróa vistvænar samgöngur hér á landi með áherslu á innlenda orkugjafa. Einnig þarf að gera átak í þágu orkusparnaðar á þeim svæðum sem ekki eiga kost á heitu vatni til húshitunar og víðar.
    Alþjóðleg markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aukin áhersla á verndun umhverfisins hefur gert landið að álitlegum fjárfestingarkosti fyrir ýmsan orkufrekan iðnað. Eftirspurn eftir hreinni orku fer vaxandi og þess vegna er þörf á að stjórnvöld hagi regluverkinu þannig að orkufyrirtækin ásamt sveitarfélögum vandi val sitt á virkjunarkostum og kaupendum orkunnar með það fyrir augum að það leiði til sem minnstrar röskunar á umhverfinu og að fjölbreyttni atvinnulífsins verði sem mest.
    Áform um olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu eru ekki gallalaus frá sjónarmiðum um vernd umhverfisins eins og ráða má af framangreindu. Ef af olíuvinnslu yrði mundi það aftur á móti hafa mikla atvinnu- og verðmætasköpun í för með sér sem ásamt öðru drægi úr þeim hættum sem eru samfara einni verstu meinsemd hvers samfélags, langtímaatvinnuleysi.

X. Uppbygging í mannaflsfrekum iðnaði.
    Margt annað mælir með uppbyggingu í mannaflsfrekum iðnaði hér á landi en umhverfisvæn orka og má þar nefna menntað fólk, sveigjanlegan vinnumarkað og hagstæð rekstrarskilyrði. Veiking krónunnar hefur aukið samkeppnishæfni helstu útflutningsgreina til muna og skilað sér í áhuga erlendra fjárfesta á margvíslegri starfsemi sem gæti skapað þúsundir starfa. Álfyrirtækin þrjú hafa áformað að auka framleiðslu sína, t.d. með álveri á Bakka við Húsavík, auk þess sem rætt hefur verið um sólarkísilframleiðslu, gagnaver, koltrefjaframleiðslu, aflþynnuverksmiðju, gróðurhúsaiðnað og basalttrefjaframleiðslu, efnagarða og endurvinnsluiðnað. Af fæstum þessara verkefna getur þó orðið nema stjórnvöld marki stefnuna og láti af fordómum í garð erlendra fjárfesta.

XI. Sjálfbært fjármálakerfi.
    Lagt er til að sparisjóðskerfið verði endurreist með svæðaskiptu skipulagi og að neytendum verði gert kleift að eiga með sér lánasamvinnufélög. Tilgangurinn er að styðja við samkeppni á fjármálamarkaði og auka samfélagslega vitund félaga á þeim markaði.
    Endurreisn hins vestræna heims eftir áföll síðustu ára verður að byggjast á jafnvægi, raunverulegu blönduðu hagkerfi þar sem einkafyrirtæki, ríki og sameignarfélög ná að blómstra á sjálfbæran máta. Mikilvægur þáttur í því er fjölbreytni á fjármálamarkaði í stað þeirrar fábreytni sem nú blasir við þar sem þrír stórir bankar fara með um 90% hlutdeild á markaði.
    Sanngjarnt, heilbrigt og réttlátt samfélag er líklegra til að vaxa og dafna á sjálfbæran máta
hvort sem litið er til félagslegra, pólitískra eða umhverfislegra þátta. Fjármálastofnanir sem
þjónusta félagsmenn á sanngjörnum kjörum og styðja við sitt nærsamfélag á lýðræðislegan
máta skipta máli þegar byggja skal slíkt samfélag.
    Þess vegna þarf að byggja upp nýtt sparisjóðakerfi, m.a. á grunni eignarhalds ríkisins á
fjölmörgum sparisjóðum. Jafnframt þarf að setja ný lög um lánasamvinnufélög þannig að
íslenskir neytendur hafi sömu möguleika og neytendur í nágrannalöndum okkar á að stofna
og reka lánasamvinnufélög, sem og raunverulegt val um hvert þeir beina viðskiptum sínum.“Fylgiskjal.


ÍSLAND Í VONANNA BIRTU
Skýrsla atvinnumálanefndar framsóknarflokksins.

(Apríl 2011.)


1 Inngangur.
    Það þarf ekki að tíunda nauðsyn þess að hefja sókn í atvinnumálum þjóðarinnar. Fimmtán þúsund Íslendingar eru nú án atvinnu og þúsundir hafa flutt af landi brott á sl. 2 árum. Ef ekki verður ráðist í róttækar aðgerðir í atvinnumálum með tilheyrandi fjölgun starfa verður samdráttur efnahagskerfisins enn meiri – sem aftur kallar á enn frekari niðurskurð í velferðarkerfinu.
    Á fundi landsstjórnar Framsóknarflokksins þann 20. janúar 2011 var skipuð sérstök nefnd til að koma með tillögur í atvinnumálum fyrir flokksþing Framsóknarmanna sem haldið verður þann 8.–10. apríl 2011. Var skipun nefndarinnar byggð á tillögu sem samþykkt var af miðstjórn Framsóknarflokksins 19.–21. nóvember sl. á Húsavík. Í nefndinni voru:
     *      Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins og formaður nefndarinnar.
     *      Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi.
     *      Bryndís Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur og bæjarfulltrúi.
     *      Sigfús Ingi Sigfússon, verkefnastjóri.
     *      Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri.
    Nefndin starfaði frá lokum janúar allt fram til 4. apríl og hér má sjá afrakstur þeirrar vinnu. Ágæt samvinna var höfð með málefnanefnd Framsóknarflokksins og jafnframt var leitað til félagsmanna um tillögur að úrbótum í atvinnumálum.
    Nefndarmenn sóttu heimildir víða og var meðal annars leitað til fjölda fólks sem tengist atvinnulífinu á einn eða annan hátt. Viðmælendur voru meðal annars:
     *      Birkir Hólm Guðnason og Guðjón Arngrímsson, Icelandair.
     *      Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
     *      Björn B. Björnsson, reykjavikfilms.is.
     *      Einar E. Einarsson, loðdýraræktarráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands.
     *      Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
     *      Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna.
     *      Gissur Pétursson, framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar.
     *      Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri Prima Care.
     *      Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP.
     *      Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Eiríkur Bjarnason hjá Vegagerðinni.
     *      Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
     *      Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar.
     *      Laufey Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Kvikmyndamiðstöðvar.
     *      Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
     *      Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samáls – Samtaka álframleiðenda.
     *      Þórður Hilmarsson og Einar Tómasson, Íslandsstofu.
    Í öðrum kafla má finna stutta samantekt á tillögum nefndarinnar, áhrifum þeirra á útgjöld
ríkissjóðs, aukningu tekna og fjölgun starfa svo eitthvað sé nefnt. Þar á eftir kemur greining á núverandi stöðu ásamt ítarlegri umfjöllun um tillögur nefndarinnar.
    Nefnd, undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, hefur fjallað sérstaklega um málefni sjávarútvegsins í samræmi við samþykkt síðasta flokksþings. Því eru sjávarútvegsmál undanskilin í úttekt og tillögum atvinnumála í skýrslunni.
    Nefndarmenn vilja þakka öllum viðmælendum og öðrum sem komu að starfi nefndarinnar kærlega fyrir aðstoðina. Það er von okkar að tillögurnar hljóti málefnalega og góða umræðu á komandi flokksþingi enda er mjög mikilvægt að fjölgun starfa hefjist sem fyrst því eins og flestir framsóknarmenn vita þá tengjast vinna – vöxtur – velferð órjúfanlegum böndum.

2 Samantekt og tillögur.
2.1 Samantekt og núverandi staða.

    Eftir að hafa greint stöðu íslensks atvinnulífs og þeirra tækifæra sem nú bjóðast til atvinnusköpunar er ekki hægt annað en að horfa björtum augum fram á veginn. Vissulega þarf að greiða úr erfiðleikum er tengjast skuldavandanum en á hinn bóginn eru sóknarfærin mýmörg. Stoðirnar þrjár; sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta búa við hagstæð rekstrarskilyrði. Hugverkaiðnaðurinn hefur blómstrað á síðustu árum og ef fram heldur sem horfir verður hlutur þeirra atvinnugreina hagkerfinu enn mikilvægari. Tækifæri landbúnaðarins eru fjölmörg eins og farið er yfir í skýrslunni. Heilt yfir má því segja að framtíðin sé björt, ef við nýtum okkur tækifærin.
    Á árinu 2010 voru að jafnaði 13.700 atvinnulausir ef miðað er við allt árið, skv. vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar, eða um 7,6% þeirra sem eru á vinnumarkaði. Í lok febrúar 2011 var hlutfallið 8,6% eða um 15.000 einstaklingar. Mikið áhyggjuefni er að fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir í ár eða meira hefur fimmfaldast, þ.e. farið úr 900 í 5.000.
    ASÍ spáir því að hægur hagvöxtur verði á næstu árum, en þó ekki nægur til að vinna á atvinnuleysinu. Seðlabankinn spáir hins vegar örlítið meiri hagvexti, en spá Hagstofunnar er lægri en þeirra beggja. Svo virðist sem hægt hafi á samdrætti landsframleiðslu á árinu 2010, eftir mikla lækkun 2009. Verulegt vandamál er þó að fjárfesting er enn afar lítil og skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir 2010 hefur hún ekki verið lægri í 15 ár – á föstu verðlagi.
    Það er alvarleg sóun á verðmætum og mannauði að tæplega 15.000 manns gangi atvinnulausir. Að vinna bug á því verður að vera forgangsverkefni stjórnvalda og atvinnulífsins á næstu misserum. Markvissar aðgerðir geta hjálpað okkur að skapa frekari verðmæti í landinu. Stjórnvöld sem vilja tryggja byggð í landinu, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, verða að skilja að verðmæti verða ekki til ekki fyrirhafnarlaust og skattstofna verður að rækta svo að þeir skili tekjum. Engin planta vex ef byrjað er á að éta af henni ræturnar. Halli ríkissjóðs verður ekki greiddur niður nema með því að skapa aukin verðmæti í landinu. Af þeim sökum vinnst lítið á atvinnuleysinu í landinu og tekjusamdrætti er yfirleitt mætt með enn frekari skattahækkunum, sem eru oftast ávísun á enn frekari samdrátt. Þannig skapast vítahringur sem þarf að brjótast út úr til að snúa þróuninni við.
    Mikið liggur á að ljúka vinnu við endurskipulagningu fjármálakerfisins og fyrirtækja sem eru í ferli þar inni. Endalaus óvissa dregur verulegan kraft úr atvinnulífinu og óljósar forsendur bankanna við sölu og afskriftir lána fyrirtækja hafa valdið verulegri tortryggni. Ákvörðunum um uppbyggingu er endurtekið frestað og nýfjárfestingar eru í lágmarki. Það er mjög hættulegt ef fólk í atvinnurekstri telur sig ekki geta treyst því að fá sanngjarna meðferð og slíkar aðstæður hvetja atvinnurekendur ekki til að ráðast í ný verkefni. Yfirlýsingar um þjóðnýtingu einstakra atvinnuvega hafa beinlínis hamlað beinni erlendri fjárfestingu og fjölgun starfa. Pólitískur óstöðugleiki, eins og nú ríkir, kemur einfaldlega í veg fyrir atvinnuuppbyggingu.
    Stefnubreyting er nauðsynleg. Það þarf að greiða fyrir nýsköpun og fjárfestingum í landinu, setja ákveðin markmið um atvinnuuppbyggingu sem byggja á styrkleikum landsins í heild og einstakra landshluta. Margar slíkar greiningar eru til sem þarf að nýta betur. Mikilvægast er að aðgerðir stjórnvalda greiði fyrir fjölgun starfa en hamli henni ekki að óþörfu. Svigrúm til að auka opinber útgjöld er ekki mikið um þessar mundir en margt er hægt að gera án beinna opinberra fjárfestinga. Tillögurnar sem finna má hér á eftir snúast ekki síst um að benda á verkefni af þeim toga. Nefndin telur að með þessum tillögum sé bent á leiðir til að vinna bug á atvinnuleysinu, bæði með því að skapa störf til lengri og skemmri tíma. Erfitt er að fullyrða um heildaráhrif tillagnanna hvað fjölda nýrra starfa varðar, enda hafa þær áhrif hver á aðra, en meginatriðið er að við megum ekki láta það óátalið lengur að 15 þúsund manns gangi atvinnulaus.
    Til viðbótar þeim tillögum sem lagðar eru fram í skýrslunni eru fram undan miklar framkvæmdir í samgöngumálum. Hugmyndir eru uppi um fjárfestingu upp á 50–60 milljarða sem mun skapa 2.000–3.000 tímabundin störf. Fjárfestingin mun hafa jákvæð áhrif á verktakaiðnaðinn hér á landi en sú atvinnugrein hefur farið hvað verst út úr efnahagshruninu. Mikilvægt er að þessar framkvæmdir dreifist með skynsamlegum hætti um landið og að einnig verði horft til smærri verkefna, s.s. að fækka einbreiðum brúm og byggja upp tengivegi en slík verk eru mannaflsfrekari en þau stærri.

2.2 Tillögur.
    Hér má sjá helstu tillögur sem fram koma í þessari skýrslu sem og áhrif þeirra til fjölgunar
starfa. Nánari rökstuðningur og umfjöllum um þessar tillögur má sjá í síðari köflum skýrslunnar.

Efnahags- og skattamál:
     *      Klára endurskipulagningu skuldugra fyrirtækja.
     *      Skipa starfshóp stjórnvalda og hagsmunaðila sem yfirfari skattlagningu atvinnulífsins með það að markmiði að tryggja samkeppnishæfni Íslands.
     *      Grípa til sértækra aðgerða til að beina aflandskrónum í arðbær fjárfestingarverkefni innanlands.
     *      Koma á hvata til fjárfestinga á hlutabréfamarkaði með almennum skattaafslætti vegna hlutabréfakaupa.
>> Telja má að þessar aðgerðir muni leiða til þess að störfum fjölgi á íslenskum vinnumarkaði sem muni vega upp á móti lækkuðum álögum á fólk og fyrirtæki.

Vinnumarkaðsaðgerðir:
     *      Gera úttekt á þörfum atvinnulífsins og atvinnulausra gagnvart námi og námsframboði.
     *      Koma til móts við þarfir einstaklinga sem ekki hafa fundið sig í framhalds- og háskólum.
     *      Ný úrræði fyrir fólk án atvinnu verði fyrir hendi við upphaf skólaársins 2011–2012.
     *      Ná samkomulagi við íslenskt atvinnulíf um að nú í haust taki það fólk sem er án atvinnu í starfsnám.
     *      Horft verði sérstaklega til hinna „skapandi greina“, s.s. hönnunar- og tæknigreina.
>> Tvö þúsund atvinnulausum einstaklingum gefist kostur á námi eða starfsþjálfun. Leggja þarf aukna fjármuni til menntakerfisins en til framtíðar muni þeir fjármunir skila sér margfalt til baka.

Stoðkerfi atvinnulífsins:
     *      Samþætta aðila sem starfa innan stoðkerfis atvinnulífsins.
     *      Auka fjármagn til Íslandsstofu.
     Þessar aðgerðir munu leiða til þess að fjármagnið nýtist betur til atvinnuuppbyggingar.

Nýsköpun:
     *      Breyta lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki þannig að stuðningur við þau verði í formi afsláttar á staðgreiðslu launa í stað rannsóknar- og þróunarstyrks.
     *      Breyta lögum um tekjuskatt þannig að veittur verði skattaafsláttur vegna fjárfestinga í sjóðum sem fjárfesta eingöngu í nýsköpunarverkefnum.
>> Kostnaður ríkissjóðs ætti ekki að aukast við þessar aðgerðir þar sem aðeins er verið að breyta því hvernig stuðningur og skattaafsláttur er veittur. Þó gæti orðið meira um skattaafslátt vegna fjárfestinga í nýsköpun. Ætla má að aðgerðirnar skili um 1.000 störfum.

Hugverkaiðnaður:
     *      Veita auknu fjármagni til kennslu í raun- og verkfræðigreinum í háskólum landsins.
     *      Að erlendir sérfræðingar sem starfa í tölvuleikjaframleiðslu hjá íslenskum fyrirtækjum fái tveggja ára skattfrelsi.
     *      Að auka framlög til Tækniþróunarsjóðs. 1
>> Efling hugverkaiðnaðarins mun auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Tillögur um aukið námsframboð til að mæta þörfum þessara atvinnugreina, skattaafslættir og almennar breytingar á rekstrarumhverfi munu skapa þúsundir nýrra starfa í framtíðinni.

Kvikmyndagerð og tónlist:
     *      Að endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndaframleiðslu verði hækkað úr 20% í 25%.
     *      Að framlög til kvikmyndasjóðs verði aukin úr 450 m.kr. í 700 m.kr. á ári.
     *      Að endurgreiðsluhlutfall við tónlistarupptökur hér á landi verði 25%.
>> Með þessum aðgerðum má gera ráð fyrir að um 800 ný störf verði til við kvikmyndagerð, í tónlistariðnaði og tengdum greinum á næstu fjórum árum.


Ferðaþjónusta:
     *      Mikilvægt er að framkvæmdasjóður ferðaþjónustunnar renni til uppbyggingar innan greinarinnar og markaðssetningar.
     *      Hefja kynningarátak og ímyndarsköpun til að efla ferðaþjónustu allt árið. Ríkissjóður verji 350 m.kr. til átaksins og aðilar í ferðaþjónustu leggi fram samsvarandi upphæð.
     *      Tryggja þarf markaðsmálum farveg til lengri tíma með markvissu samstarfi ríkis, sveitarfélaga, markaðsstofa og fyrirtækja.
     *      Efla grunnrannsóknir í greininni en kynningarátak, ímyndunarsköpun og vöruþróun byggir á góðum rannsóknum.
>> Gert er ráð fyrir að sérstakt átak skili 1.000 störfum í ferðaþjónustu. Aukinn kostnaður ríkissjóðs er 350 m.kr. en auknar gjaldeyristekjur eru áætlaðar um 10–15 milljarðar króna.

Landbúnaður:
     *      Stjórnvöld lýsi því yfir að rekstrarumhverfi landbúnaðarins verði ekki raskað frekar til loka gildistíma núverandi búvörusamninga.
     *      Með liðsinni Íslandsstofu verði vakin athygli erlendis á þeim miklu tækifærum sem fólgin eru í loðdýrarækt hér á landi og þeim kostum sem mæla með fjárfestingum hér. Greininni verði tryggt samkeppnishæft umhverfi og tryggðir möguleikar á að nýta þau hráefni sem til falla.
     *      Unnið verði með matvælaframleiðendum að stefnumörkun um hvernig hægt sé að auka hlut innlendra matvæla í neyslu hérlendis og hvaða markmið skuli sett varðandi útflutning, sérstaklega á lambakjöti og grænmeti.
     *      Fjölga þarf tækifærum matvælaframleiðenda til að vinna úr og þróa eigin afurðir.
     *      Leitað verði allra leiða til þess að lækka kostnað við flutning á raforku, m.a. til að bæta rekstrarskilyrði garðyrkjunnar.
     *      Sett verði raunhæf og mælanleg markmið um innlenda metan- og lífdíselframleiðslu.
>> Ekki er gert ráð fyrir að hugmyndir þessar hafi í för með sér aukningu á opinberum framlögum, nema vegna vinnu sem felst í þeim markmiðum sem sett eru fram. Störf sem verða til við þessar aðgerðir má áætla að verði um 500 bein störf og allt að 500 afleidd störf. Samtals eru það 1.000 störf á næstu 10 árum.

Orkumál og orkuskipti:
     *      Stjórnvöld afgreiði á vorþingi 2011 frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða og vinni í framhaldinu faglega að veitingu virkjanaleyfa í samræmi við ný lög og innan tilskilinna tímafresta stjórnsýslunnar.
     *      Mótuð verði stefna um hvernig unnt sé með sem skilvirkustum hætti að ýta undir notkun á nýrri tækni og endurnýjanlegum orkugjöfum í samgöngum og fjárframlög nýtt til að ýta undir þá þróun.
     *      Stefnt verði að því að þau 10% heimila sem ekki eiga kost á heitu vatni til húshitunar fái styrki til fjárfestinga í t.d. varmadælum, gluggaskiptum, bættri einangrun húsa o.s.frv. gegn lækkuðum niðurgreiðslum hins opinbera á orku til húshitunar.
>> Áætla má að um 100–150 ársverk séu í tengslum við orkuviðhald, orkusparnað og orkuskipti. Sé farið í virkjanaframkvæmdir verður einnig til eftirfarandi fjöldi ársverka á byggingartíma:
     *      Búðarhálsvirkjun – 700–800 ársverk.
     *      Hvammsvirkjun – 790 ársverk Holtavirkjun – allt að 460 ársverk.
     *      Urriðafossvirkjun – 850 ársverk.
     *      Hverahlíðarvirkjun – 1100 ársverk.
     *      Stækkun Reykjanesvirkjunar – 600–650 ársverk.
     *      Stækkun Hellisheiðarvirkjunar – 290–300 ársverk út árið 2011.
     *      Norðausturland – ein 50 mW virkjun – getur skapað allt að 400 ársverk (nokkrir kostir eru til skoðunar á svæðinu).


Uppbygging í mannaflsfrekum iðnaði:
     *      Stjórnvöld geri beina erlenda nýfjárfestingu að forgangsatriði og móti sér stefnu um hvernig uppbyggingu stefna eigi að.
     *      Lagaumhverfi, ívilnanir fyrir beina erlenda fjárfestingu og leyfisveitingaferli verði endurskoðað með það að markmiði að skilvirkni og gagnsæi íslenskrar stjórnsýslu verði aukið til muna.
>> Fjöldi starfa í iðnaði fer eftir því hvaða verkefni fara af stað á næstunni og er mjög misjafnt milli verkefna hversu mörg störf skapast á byggingartíma og bein störf þegar nýbyggingu er lokið. Sem dæmi um fjölda starfa má nefna:
     *      Endurbygging í Straumsvík (er þegar komin í gang) – 300 ársverk á byggingartíma – um 20 varanleg bein störf.
     *      Kísilverksmiðja í Helguvík – 300–400 ársverk á byggingartíma – 90 varanleg bein störf.
     *      Álver í Helguvík – 3200 ársverk á byggingartíma – 200 varanleg bein störf að loknum fyrsta áfanga.
     *      Gagnaver – 250–350 ársverk á byggingartíma – 60–100 varanleg bein störf í gagnaveri Verne Holding einu og sér.
     *      Hreinkísilverksmiðja – 600 ársverk á byggingartíma – 150 varanleg bein störf að loknum fyrsta áfanga.
     *      Álver á Bakka við Húsavík – allt að 5000–5500 ársverk á byggingartíma – allt að 450 varanleg bein störf að uppbyggingu lokinni.
     *      Þeistareykjavirkjun, Bjarnaflagsvirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar – samtals 400–500 MW – mörg hundruð ársverk á byggingartíma.

Sjálfbært fjármálakerfi:
     *      Mótuð verði stefna um fjármálakerfið sem byggi á fjölbreytni, neytendavernd og sjálfbærni.
     *      Sparisjóðir verði endurskipulagðir að nýju með svæðaskiptu skipulagi.
>> Verði þessar aðgerðir að veruleika mun þetta styðja við uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja á landsbyggðinni ásamt því að auka samkeppni á fjármálamarkaði.

Samtals eru því áætluð störf ofangreindra tillagna eftirfarandi:
     *      2.000 einstaklingar í nám eða starfsþjálfun
     *      1.000 störf í nýsköpun
     *      1.000 störf í ferðaþjónustu
     *      800 störf í kvikmyndum og tónlist
     *      1.000 störf í landbúnaði
     *      2.000 störf í vegagerð
     *      4.000 störf í iðnaði og orkumálum.
Störf, tímabundin og varanleg sem skapa má á næstu árum, ásamt vinnumarkaðsaðgerðum, eru því áætluð um 11.800.

3 Nauðsynlegar aðgerðir og tækifæri einstakra greina.
3.1 Efnahags- og skattamál.
Staðan í dag:
    Rannsóknir sýna að of hár tekjuskattur einstaklinga dregur úr atvinnuþátttöku og eykur svarta atvinnustarfsemi. Háir skattar á fyrirtæki hafa svipuð áhrif en þá dregur mjög úr atvinnuvegafjárfestingu sem er lykilatriði í hagvexti til langs tíma. Árið 2009 nam hlutfall fjárfestingar í atvinnulífinu um 12% af landsframleiðslu en almennt ætti fjárfestingin að vera um eða yfir 20% til að tryggja aukinn hagvöxt. Mikilvægt er því að huga að efnahags- og skattaumhverfi því nauðsynlegt er að tryggja að umhverfið hvetji til fjárfestingar. Gjaldeyrishöftin, ásamt vanhugsuðum skattalagabreytingum í lok árs 2009, eru meðal atriða sem nauðsynlegt er að breyta til þess að auka erlenda fjárfestingu.
    Hrun íslenska fjármálakerfisins hefur skilið eftir sig mörg og djúp sár sem standa vexti og viðgangi íslensks atvinnulífs fyrir þrifum. Meðal þeirra eru gjaldeyrishöft sem hefta aðgang að erlendum mörkuðum, auka fjármögnunarkostnað, takmarka öll viðskipti og standa fjármagnsmarkaði alveg fyrir þrifum. Auk þess hindra höftin erlenda fjárfestingu og vekja tortryggni og tregðu allra fjárfesta. Þá hrundi íslenski hlutabréfamarkaðurinn nánast í kjölfar fjármálakreppunnar en öflugur hlutabréfamarkaður er mikilvæg undirstaða aðgengis að fjármagni, auk þess að auðvelda endurskipulagningu í atvinnulífinu. Því er sérstaklega mikilvægt að skoða hvað sé hægt að gera til að hvetja fleiri fyrirtæki til að skrá sig á markaðinn og gera þeim auðveldara að fjármagna sig í gegnum hann.
    Undir lok árs 2010 var undirritað samkomulag um leiðir við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Fól það í sér að úrvinnslu yrði hraðað verulega og skoðun á fjárhagsstöðu þeirra lokið fyrir 1. júní 2011. Í kjölfarið yrði lífvænlegum fyrirtækjum í fjárhagsvanda gert tilboð um úrvinnslu skulda þeirra. Samkomulaginu ber að fagna en því miður hefur ferlið reynst tafsamt og betur má ef duga skal. Þar sem fjárhagsleg endurskipulagning lítilla og meðalstórra fyrirtækja gengur hægt sýnir efnahagsreikningur margra fyrirtækja ekki raunhæfa stöðu enda þótt rekstur sumra sé nokkuð góður. Þess má geta að ríflega 90% íslenskra fyrirtækja eru lítil og meðalstór og veita þ.a.l. fjölda fólks atvinnu og skapa veruleg verðmæti. Þetta ástand hefur letjandi áhrif á fjárfestingar fyrirtækja og torveldar ákvarðanir um framtíð þeirra. Af þessum sömu orsökum gefur efnahagsreikningur fjármálafyrirtækja ekki rétta mynd af raunverulegri stöðu þeirra. Þá veldur áhyggjum að fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja á sér ekki stað með nægjanlega gegnsæjum hætti svo upp koma í sífellu raddir um mismunun sem þau hugsanlega sæta af hálfu bankanna.
    Þann 26. nóvember 2009 var lagt fram frumvarp á Alþingi um tekjuöflun ríkisins þar sem fjallað var um hinar ýmsu skattalagabreytingar. Frumvarpið var sent til hagsmunaðila og sérfræðinga í skattamálum þann 7. desember 2009 og voru gefnir tveir dagar til að yfirfara frumvarpið og koma að athugasemdum. Þann 21. desember 2009 var frumvarpið samþykkt með óverulegum breytingum. Ljóst er að slík vinnubrögð eru á engan hátt ásættanleg og hafa þau verið gagnrýnd bæði innanlands sem og af AGS sem hefur bent á að slíkt sé ekki í samræmi við vinnubrögð annarra OECD-ríkja. Breytingar sem fólust í þessum nýju lögum snertu margar atvinnulífið og hafa slæm áhrif í því umhverfi sem við stöndum frammi fyrir í dag. Má þar nefna breytingu á skattlagningu í fámennum einkahlutafélögum, skattlagningu erlendra aðila með takmarkaða skattskyldu og afdráttarskatt á vaxtagreiðslur til erlendra aðila. Flýta þarf endurskoðun á skattlagningu atvinnulífsins og eðlilegast er að það sé unnið af breiðum hópi fólks bæði innan og utan stjórnsýslunnar.

Tækifæri:
    Í erfiðleikum felast tækifæri og nú er lag til að endurskoða skattlagningu frá grunni. Breytingar á skattalögum hafa átt sér skamman eða svo til engan fyrirvara sem hefur orðið til þess að ekki var ljóst hvaða áhrif breytingarnar myndu hafa á atvinnulífið. Mikill vilji er meðal atvinnulífsins og sérfræðinga í skattamálum til þess að endurskoða skattalöggjöfina auk þess sem mikil þörf er á að ríkissjóður hafi tryggari innkomu. Lækka þarf atvinnutryggingagjaldið sem er íþyngjandi skattur á atvinnulífið í landinu. Jafnframt þarf að skoða lækkun á tekjuskatti fyrirtækja og einstaklinga og fjármagnstekjuskatti sem gæti gefið fyrirtækjum meira svigrúm til að vaxa og bæta við sig starfsfólki. Afnám gjaldeyrishafta og skjótari fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja skiptir sköpum fyrir uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Til að efla traust í viðskiptalífinu er lagt til að skoðað verði hvort stjórnvöld og atvinnulífið geti gert með sér gæðasáttmála. Með því yrðu sett ákveðin viðmið bæði um háttsemi í viðskiptum og gæði stjórnsýslu.

Markmið:
     *      Ljúka vinnu við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja og tryggja að fagleg og gagnsæ vinnubrögð verði viðhöfð, auk þess sem samkeppnissjónarmiða verði gætt.
     *      Að haga skattalöggjöf landsins þannig að hún bæði laði að erlenda fjárfestingu og hvetji einnig fyrirtæki til þess að halda áfram starfsemi á Íslandi.
     *      Að losa um gjaldeyrishöftin svo fljótt sem verða má og ef ekki reynist unnt að hverfa með öllu frá gjaldeyrishöftum verða stjórnvöld að leitast við að losa um tilhögun þeirra eftir föngum og tryggja aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem búa yfir fjármagni á hagstæðum kjörum.
     *      Endurreisa íslenskan hlutabréfamarkað.

Fyrstu skref:
     *      Klára endurskipulagningu skuldugra fyrirtækja.
     *      Skipa starfshóp stjórnvalda og hagsmunaðila sem yfirfari skattlagningu atvinnulífsins með það að markmiði að tryggja samkeppnishæfni Íslands. Tillögur verði kynntar með góðum fyrirvara svo atvinnulíf, almenningur og þingmenn geti kynnt sér tillögurnar áður en lögum verður breytt.
     *      Grípa til sértækra aðgerða til að beina aflandskrónum í arðbær fjárfestingarverkefni innanlands. Sérstaklega skal horft til útflutningsgreina, en þá verður jafnframt (meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði) að gera um þessi verkefni sérstaka samninga til að tryggja eðlilegt jafnræði fjárfesta hvað varðar fjármagnskostnað, skatta og tækifæri til að ráðstafa hugsanlegum arði. Að öðrum kosti fást eigendur aflandskróna vart til þátttöku í fjárfestingum innanlands og þá vofir gengisáhættan áfram yfir þjóðarbúinu.
     *      Skoða þarf hvort stjórnvöld og atvinnulífið geti gert með sér gæðasáttmála. Í því myndu felast ákveðnar gæðakröfur til hvors um sig. Stjórnsýslan skuldbindi sig til að vinna að ákveðnum gæðaviðmiðum um afgreiðsluhraða. Atvinnulífið setji sér um leið gæðaviðmið (s.s. gegn kennitöluflakki og skattundanskotum). Sameiginlega vinni aðilar síðan að því að gera stjórnsýsluna einfaldari. Markmiðið er að stuðla að skýrum og gagnsæjum reglum sem gera atvinnulífinu auðveldara að skapa meiri tekjur og fleiri störf og greiða um leið sanngjarnan hlut til samfélagsins.
     *      Koma á hvata til fjárfestinga á hlutabréfamarkaði með almennum skattaafslætti vegna hlutabréfakaupa. Auk þess verði af hálfu stjórnvalda lagt í vinnu við að kanna með hvaða hætti er unnt að ýta undir skráningu fyrirtækja, m.a. í eigu bankanna, á innlendan hlutabréfamarkað.
>> Þessar aðgerðir munu leiða til fjölgunar starfa á íslenskum vinnumarkaði og skila ríkissjóði auknum tekjum sem munu vega upp á móti lækkuðum álögum á fólk og fyrirtæki.

3.2 Vinnumarkaðsaðgerðir.
Staðan í dag:
    Í lok febrúar 2011 voru tæplega 15.000 einstaklingar skráðir atvinnulausir á Íslandi. Atvinnuleysi meðal karla er 9,1% en meðal kvenna 7,7%. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu er 9% en 7,6% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum (14,3%) en minnst á Norðurlandi vestra (3,8%). Atvinnuleysi er breytilegt eftir árstíðum. Þannig er atvinnuástandið hvað verst yfir háveturinn fram á vor en tekur þá að lagast.
    Af 15.000 atvinnulausum einstaklingum hafa tæplega 5.000 þeirra verið án atvinnu í meira en 12 mánuði. Samkvæmt erlendum rannsóknum sem gerðar hafa verið þá skila einungis um
20% af þeim einstaklingum, sem verða fórnarlömb langtímaatvinnuleysis, sér aftur inn á vinnumarkaðinn og reynsla Finna af efnahagshruninu í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar
er víti til varnaðar í þessum efnum. Á Íslandi hefur atvinnuleysi verið með því lægsta sem þekkist, en á því hefur orðið mikil breyting og nú er atvinnuleysi mest á Íslandi af Norðurlöndunum. Það er því algjört forgangsverkefni stjórnvalda að koma í veg fyrir aukið
langtímaatvinnuleysi sem getur leitt til enn frekari samfélagslegra vandamála.
    Atvinnuleysi mælist hvað mest hjá ungu fólki en það er 9,5%. Um 70% þessara einstaklinga eiga það sammerkt að hafa ekki fundið sig í grunn- og framhaldsskólanámi heldur einungis lokið grunnskólanámi. Íslenskt menntakerfi hefur ekki náð að þjóna þörfum þessa fólks og mikilvægt er að finna þeim úrræði. Helst er þá horft til ýmiskonar tæknigreina og annarra skapandi greina. Einnig er mikilvægt að fólk eigi völ á starfstengdu námi með þjálfun og æfingu í tilteknum störfum. Reynslan sýnir að stór hluti þeirra sem hefur slíka þjálfun starfar til langframa í viðkomandi atvinnugrein.

Tækifæri:
    Mikil fjárfesting í menntakerfinu hér á landi síðustu árin á að geta veitt atvinnulausum tækifæri til náms við sitt hæfi ef rétt er að málum staðið. Eftir að hafa skoðað leiðir sem aðrar þjóðir hafa fetað í kjölfar efnahagserfiðleika þá er einkum horft til reynslu Finna. Í byrjun tíunda áratugar tuttugustu aldar jókst atvinnuleysi gífurlega í Finnlandi í kjölfar hruns Sovétríkjanna. Við því var brugðist á árunum 1995–99 af hendi stjórnvalda með því að leggja áherslu á aukna menntun og þjálfun atvinnulausra í tæknigreinum. Áætlunin gerði ráð fyrir að heildaratvinnuleysi í Finnlandi á þessum árum minnkaði um helming og að verulega myndi draga úr langtímaatvinnuleysi og atvinnuleysi ungs fólks. Framboð námsúrræða var aukið miðað við þarfir vinnumarkaðarins á þeim tíma. Þetta hefur leitt til mikillar sóknar Finna í tæknigreinum.

Markmið:
    Raunhæft er að setja sem markmið að á árinu 2012 muni 2.000 einstaklingar, til viðbótar þeim 1.500 vinnumarkaðsúrræðum sem eru til staðar í dag, vera komnir í nám á framhalds- og háskólastigi eða í starfstengt nám í tæknigreinum og skapandi greinum. Þróa þarf þessa
námsleið í góðri samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins. Afar brýnt er að fjölga þjálfunartækifærum fyrir atvinnulausa inni í fyrirtækjunum.
    Mikilvægt er að atvinnuleysisbætur fylgi einstaklingum er fara í starfsþjálfun til fyrirtækja og að atvinnurekandi bæti við fjármagni þannig að launin verði yfir lágmarkslaunum. Er þetta þá hvatning fyrir atvinnurekendur til að taka þátt í átakinu og fyrir einstaklinginn til að sækjast eftir því að komast í slík starfsúrræði.

Fyrstu skref:
     *      Gera úttekt á þörfum atvinnulífsins og atvinnulausra gagnvart námi og námsframboði.
     *      Koma til móts við þarfir einstaklinga sem ekki hafa fundið sig í framhalds- og háskólum og því þarf nýja hugsun gagnvart námsleiðum og meiri stuðning í námi.
     *      Horft verði sérstaklega til hinna „skapandi greina“, s.s. hönnunar- og tæknigreina.
     *      Ný úrræði fyrir fólk án atvinnu verði fyrir hendi við upphaf skólaársins 2011–2012.
     *      Ná samkomulagi við íslenskt atvinnulíf um að í haust taki það fólk sem er án atvinnu í starfsnám.
     *      Að atvinnuleysisbætur fylgi hverjum starfsmanni og að atvinnurekandi bæti fjármunum við þannig að launin verði yfir lágmarkslaunum á íslenskum vinnumarkaði.
>> Tvö þúsund atvinnulausum einstaklingum gefst kostur á námi eða starfsþjálfun. Leggja þarf aukna fjármuni til menntakerfisins en til framtíðar munu þeir fjármunir skila sér margfalt til baka.

3.3 Stoðkerfi atvinnulífsins.
Staðan í dag:
    Stoðkerfi atvinnulífsins er flókið og mikið fé og mikil fyrirhöfn fer í sjálft kerfið. Þetta staðfesta rannsóknir og kannanir, nú síðast hjá Ríkisendurskoðun í desember 2010. Í dag vinna að atvinnuþróun eða í tengslum við hana m.a. atvinnuþróunarfélög víða um landið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofa og Byggðastofnun. Auk þess eru settir fjármunir í staðbundna vaxtar- og menningarsamninga, markaðsstofur og fjölda annarra verkefna, sjóða og stofnana. Þegar skoðuð er starfsemi allra þessara stofnana og verkefna sést að það er oft
mikil skörun á verkefnum. Því fara miklir fjármunir í flókna yfirbyggingu, auk þess sem stoðkerfið nýtist atvinnulífinu ekki sem skyldi þar sem það er margbrotið og yfirgripsmikið. Mikill tími frumkvöðla fer í umsóknaskrif og þekkingaröflun á ólíkum reglum stofnana og verkefna til að finna stuðning eða styrk við hæfi. Í dag starfa um 100 starfsmenn hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og um 20 starfsmenn hjá Byggðastofnun auk þess sem Byggðastofnun styrkir starfsemi atvinnuþróunarfélaga víðs vegar um landið, en þar eru yfir 30 starfsmenn. Þetta er aðeins stutt upptalning á fáum verkefnum sem sýnir að fjöldinn allur af starfsfólki vinnur á þessu sviði sem án efa má nýta betur með betri skipulagningu. Einnig er vert að nefna að fjórir starfsmenn innan Íslandsstofu hafa það hlutverk að laða að beina erlenda fjárfestingu en hjá stofunni er mjög lítill hluti af þeim framlögum sem renna til stoðkerfis atvinnulífsins. Á næstu árum verður að fara í átak til að laða að beina erlenda fjárfestingu. Tryggja verður nægt fjármagn til þess verkefnis.

Tækifæri:
    Móta þarf heildarstefnu stjórnvalda á sviði atvinnuþróunar þar sem stofnanir verða sameinaðar og búið til einhvers konar „one stop“-kerfi þar sem aðilar sem eru með hugmynd og vilja aðstoð geta leitað á einn stað og fengið þar alla þá aðstoð sem boðið er upp á. Þó er eðlilegt að stjórnsýslulegur aðskilnaður sé milli ráðgjafa- og fjármálaþjónustu við frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki. Hafa þarf að leiðarljósi við slíka sameiningu að vinna hana í samvinnu við staðbundin landshlutasamtök og færa ákvörðunarvaldið til nærsamfélagsins, þ.e. frá ríkisvaldinu og í auknum mæli til sveitarfélaga eða samtaka þeirra. Með því að fá aðila sem nú þegar eru að vinna í kerfinu til að vinna saman að atvinnuþróun er hægt að tryggja mun betri skilvirkni og byggja upp sterkari starfsstöðvar. Það þarf einnig að vinna stefnumörkun fyrir hvert svæði fyrir sig að framtíðaratvinnuuppbyggingu og samtvinna hana menntastefnu á svæðinu. Mikilvægustu þættirnir ef farið verður í einföldun og sameiningu á þessu sviði er að tryggja samstarf og þátttöku sveitarstjórnafólks, aðkomu íbúa, atvinnulífsins og menntastofnana, þar sem þessir aðilar skipta miklu máli um atvinnuuppbyggingu til framtíðar á hverju svæði.

Markmið:
    Gera kerfið skilvirkara, sýnilegra og aðgengilegra svo það nýtist betur þeim sem þurfa á því að halda. Færa ákvörðunarvald og stefnumótun til landshlutasamtaka sem eru best til þess fallin að móta atvinnustefnu á sínu svæði. Þessi einföldun og breyting á kerfinu mun tryggja betri nýtingu fjármagns og starfsfólks auk þess sem minni tími notenda þjónustunnar fer í að vinna sig í gegnum kerfið. Með því að gera kerfið einfaldara og skilvirkara má nýta fjármagn betur en nú er gert.

Fyrstu skref:
     *      Samþætta aðila sem starfa innan stoðkerfis atvinnulífsins í eitt atvinnuþróunarráð í hverjum landshluta sem geta síðan verið með starfsstöðvar (þekkingarsetur) víðar í landshlutanum eftir því hvað á best við á hverju svæði.
     *      Tryggja nánara samstarf Íslandsstofu og atvinnuþróunarfélaga landshlutanna. Fjármagn til starfsemi Íslandsstofu verði jafnframt aukið. 2
>> Þessar aðgerðir munu leiða til þess að fjármagnið nýtist betur til atvinnuuppbyggingar.

3.4 Nýsköpun.
Staðan í dag:
    Á Íslandi er lítill stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki samanborið við önnur OECD-lönd. Ef horft er til Norðurlandanna er Ísland í næstneðsta sæti og aðeins Noregur veitir nýsköpunarfyrirtækjum minni stuðning. Þrátt fyrir það er mikill áhugi á nýsköpun á Íslandi um þessar mundir. Fjöldi fyrirtækja hefur orðið til þar sem fólk býr til verðmæti úr þekkingu sinni og mikilvægt er að styðja við þetta frumkvæði til að fjölga atvinnutækifærum. Sem dæmi um nýsköpunarfyrirtæki sem hafa náð miklum árangri á tiltölulega fáum árum má nefna Össur, Marel og CCP.

Tækifæri:
    Tækifærin eru mikil þar sem fjöldi einstaklinga og fyrirtækja eru að leita leiða til að fjármagna rannsóknir og markaðssetningu á nýjungum. Að sama skapi er mikið fjármagn til staðar og fjármagnseigendur virðast í leit að góðri fjárfestingu enda eru vextir lágir. Þar sem lítill stuðningur er við nýsköpun er ljóst að mikið svigrúm er til staðar til að auka hann án þess að brjóta gegn reglum EES um ríkisstyrki. Horfa ætti því til þeirra landa sem hafa komið upp einföldu en markvissu skattaafsláttarkerfi til stuðnings við nýsköpun, s.s. Hollands, Írlands og Belgíu.
    Beinn stuðningur skiptir nýsköpunarfyrirtæki miklu máli. Nýsköpunarfyrirtæki geta fengið skattaafslátt á þann hátt að hægt er fá frádrátt frá skatti vegna útlagðs kostnaðar verkefnis frá fyrra ári, þ.e. þegar álagning fyrra árs fer fram. Þetta þýðir að nýsköpunarfyrirtæki þurfa að fjármagna sig í langan tíma áður en kemur til raunverulegs skattaafsláttar og/eða endurgreiðslu í formi styrks ef félagið þarf ekki að greiða tekjuskatt. Í flestum tilfellum ná nýsköpunarfyrirtæki ekki að mynda hagnað fyrstu árin í starfsemi sinni og því getur skipt sköpum að stuðningur verði virkur sem fyrst. Í öðrum löndum, t.d. Hollandi, er miðað við reiknað hlutfall af launakostnaði þar sem afslátturinn myndast strax við greiðslu staðgreiðslu launa starfsmanna félagsins. Þetta myndi auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum starfsemina, sérstaklega fyrstu mánuðina, auk þess sem þetta er hvati til þess að ráða starfsfólk í vinnu. Hlutfall stuðnings gæti þá verið á bilinu 20–24% af launakostnaði. Með þessu fyrirkomulagi er verið að veita nýsköpunarfyrirtækjum skattaafslátt strax í staðinn fyrir endurgreiðslu löngu eftir að kostnaður fellur til.
    Mjög mikilvægt er að hvetja til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Í dag er skattaafsláttur vegna fjárfestingar í nýsköpun háður miklum takmörkunum. Miðað er við að einstaklingur fjárfesti lágri upphæð í einu fyrirtæki. Raunveruleikinn er hins vegar sá að einstaklingur sem vill fjárfesta í nýsköpunarverkefni getur átt erfitt með að finna hentugt verkefni. Á það sérstaklega við þar sem nýsköpunarfyrirtæki eru oft að leita að hárri fjárhæð þar sem þægilegra er að fá einn fjárfesti í stað fjölda lítilla. Það liggur því beinast við að opna á þann möguleika að heimila fjárfestingu í fjárfestingasjóðum sem síðan fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Fjárfesting í nýsköpun getur verið nokkuð áhættusöm og því er eðlilegt að fjárfestar geti dreift áhættunni með því að setja fjármagn í fjárfestingasjóð en ekki í eitt fyrirtæki. Með þessu móti eru meiri líkur á að fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum aukist. Skattaafsláttur og dreifð áhætta mun auka líkurnar á því að fjárfestar taki þátt í nýsköpunarverkefnum.

Markmið:
     *      Að gera skattaafslætti og stuðning við nýsköpunarfyrirtæki einfaldari og hraðvirkari þannig að fleiri njóti góðs af og hvetja þannig fyrirtæki til að auka nýsköpun og einstaklinga með góðar hugmyndir til að koma þeim á framfæri.
     *      Að hvetja til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum.

Fyrstu skref:
     *      Breyta lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki þannig að stuðningur við þau verði í formi afsláttar á staðgreiðslu launa í stað rannsóknar- og þróunarstyrks.
     *      Breyta lögum um tekjuskatt þannig að veittur verði skattaafsláttur vegna fjárfestinga í sjóðum sem fjárfesta eingöngu í nýsköpun.
>> Kostnaður ríkissjóðs ætti ekki að aukast við þessar aðgerðir þar sem aðeins er verið að breyta því hvernig stuðningur og skattaafsláttur er veittur. Þó gæti orðið meira um skattaafslætti vegna fjárfestinga í nýsköpun. Áætla má að þetta skili um 1.000 störfum.

3.5 Hugverkaiðnaður.
Staðan í dag:
    Fyrirtæki í hugverkaiðnaði hafa vaxið mjög hratt á undanförnum árum þrátt fyrir stefnuleysi stjórnvalda gagnvart málaflokknum. Fyrirtæki í þessum iðnaði eru t.d.: CCP, Marel, Össur, Actavis, Latibær og Bláa Lónið-heilsuvörur svo nokkur dæmi séu nefnd. Þessi fyrirtæki byggja afurðir sínar fyrst og fremst á hugviti og því er mannauður mikilvægasta auðlind greinarinnar. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um greinar sem flokkast undir hugverkaiðnað:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP.


    Mörg lönd hafa leitast við að efla þennan iðnað með hagstæðu rekstrarumhverfi, t.d. með
styrkjum, endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar og skattaafslætti. Stuðningur stjórnvalda gagnvart þessum hluta atvinnulífsins hefur verið mjög takmarkaður og stefna til framtíðar handahófskennd. Gjaldeyrishöftin hafa haft mjög hamlandi og neikvæð áhrif á þennan hluta atvinnulífsins. Fram hefur komið að verði þeim ekki aflétt innan fárra ára geti það leitt til þess að starfsemi þessara fyrirtækja byggist upp í öðrum löndum.
    Menntakerfið hefur ekki skilað af sér nægjanlega mörgum einstaklingum útskrifuðum úr raungreina- og verkfræðinámi til þess að anna eftirspurn eftir vinnuafli í þessum iðnaði. Hlutfall þessara greina innan háskólanna er einungis um 11%. Mikilvægt er að það sé samspil á milli þarfa atvinnulífsins og menntakerfisins og markvisst verður að auka menntun í þeim greinum sem vantar sárlega vel menntað vinnuafl.
    Mikilvægt er að stjórnvöld greini stöðu tölvuleikjaframleiðenda hér á landi. Mikil samkeppni ríkir milli landa um að laða að slík fyrirtæki. Ef borið er saman t.d. umhverfi fyrirtækja í Kanada og á Íslandi er ljóst að hætta er á að fyrirtæki í þessum iðnaði velji frekar að vera staðsett í Kanada þar sem umhverfið er mjög hagstætt. Hefja þarf tafarlaust vinnu við að greina samkeppnisumhverfi þessarar atvinnugreinar og tryggja að ekki verði landflótti fyrirtækja frá Íslandi.

Tækifærin:
    Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur vöxtur og þróun 18 fyrirtækja úr þessum geira atvinnulífsins verið ævintýralegur. Ef áætlanir ganga eftir þá munu þessi fyrirtækja þrefalda veltu sína á árunum 2010–2013 eða úr 15 milljörðum í 44–50 milljarða. Einkenni þessara fyrirtækja er að þar vinnur ungt og vel menntað fólk í vel launuðum störfum. Ef skapa á fjölbreytni í atvinnulífi landsins er mikilvægt að horfa til uppbyggingar þessara atvinnugreina.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Markmið:
     *      Að auka námsframboð í raungreinum og verkfræði í íslenska menntakerfinu.
     *      Að gefa fólki án atvinnu kost á tæknimenntun.
     *      Að gera rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja samkeppnishæfara en það er í dag.

Fyrstu skref:
     *      Veita auknu fjármagni til kennslu í raun- og verkfræðigreinum í háskólum landsins.
     *      Að koma á vinnumarkaðsúrræðum fyrir atvinnulausa á sviði hugverkaiðnaðar. 3
     *      Að stuðningi við nýsköpun verði breytt þannig að veittur verði skattafsláttur á greiðslu staðgreiðslu skatta. 4
     *      Að erlendir sérfræðingar sem starfa í tölvuleikjaframleiðslu hjá íslenskum fyrirtækjum fái tveggja ára skattfrelsi.
     *      Að gjaldeyrishöft verði afnumin hið fyrsta. 5
     *      Að tryggingagjald verði lækkað. 6
     *      Að auka framlög til Tækniþróunarsjóðs. 7
>> Efling hugverkaiðnaðarins mun auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Tillögur um aukið námsframboð til að mæta þörfum þessara atvinnugreina, skattaafslættir og almennar breytingar á rekstrarumhverfi munu skapa þúsundir nýrra starfa í framtíðinni.

3.6 Kvikmyndagerð og tónlist.
Staðan í dag:
    Íslensk kvikmyndagerð hefur staðið í miklum blóma á síðastliðnum árum. Íslenskar kvikmyndir hafa hlotið góða dóma, jafnt innanlands sem utan. Þessari ört vaxandi atvinnugrein þarf að skapa þannig umhverfi að Ísland verði betri valkostur fyrir erlenda aðila sem leita að tökustöðum fyrir kvikmyndir, þætti, tónlistarmyndbönd o.s.frv. í enn meira mæli en verið hefur. Slíkt umhverfi mun einnig stuðla að því að innlendir aðilar geti haldið áfram að framleiða þætti og kvikmyndir.
    Þessi atvinnugrein byggir að verulegu leyti á stuðningi stjórnvalda. Flest ríki Evrópu styrkja kvikmyndagerð með sambærilegum hætti og hefur þróunin verið í þá átt að Ísland hefur dregist aftur úr á síðustu árum. Á grunni styrkveitinga er hægt að sækja frekari fjármögnun erlendis frá. Slík bein erlend fjárfesting skilar sér síðan margfalt inn í hagkerfið. Árið 2010 áttu 700 m.kr. að renna til kvikmyndasjóðs samkvæmt langtímaáætlun sem gerð var árið 2006, en einungis 450 m.kr. runnu til sjóðsins það ár og fátt bendir til þess að opinber framlög aukist á næstunni.
    Verði ekkert að gert mun verkefnum í íslenskri kvikmyndagerð fækka, sem mun aftur bitna á fagþekkingu og starfsskilyrðum atvinnugreinar sem hefur verið í örum vexti á undanförnum árum. Ekki síst mun niðurskurðurinn hafa slæm efnahagsleg áhrif hér á landi. Samdráttur opinberra framlaga þýðir að kvikmyndaiðnaðurinn og tengdar greinar munu tapa a.m.k. 200 störfum frá því sem væri ef áætlað framlag hefði verið til staðar.
    Íslenskir tónlistarmenn hafa náð miklum árangri á síðustu árum. Ungt hæfileikafólk hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og mikilvægt er að umhverfið hvetji áfram til listsköpunar. Stjórnvöld eiga því að huga að aðgerðum til að styrkja íslenskan tónlistariðnað,
stuðla að fjölbreyttri menningu og gera mannlífið skemmtilegra, ásamt því að byggja upp fleiri störf.

Tækifæri:
    Mikil þekking hefur skapast í kvikmyndaiðnaði hér á landi á síðastliðnum árum. Kvikmyndir, leikstjórar og leikarar hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar sem hafa haft mikið gildi í landkynningu. Eftirvinnsla kvikmynda, sem er tímafrekasti þátturinn við gerð kvikmynda, hefur aukist. Það liggja því mörg tækifæri í íslenskri kvikmyndagerð.
    Fyrir hverjar 250 m.kr. sem lagðar eru í kvikmyndasjóð má áætla að fjárfesting í greininni til viðbótar framlagi ríkisins sé um 750 m.kr. Samtals er þetta því um 1 milljarður kr. og af honum má áætla að um 70% fari í launakostnað. Skattgreiðslur af launagreiðslum eru þá að lágmarki 300 m.kr. af hverjum milljarði. Ávinningurinn af því að skerða ekki framlag til kvikmyndasjóðs er augljós.
    Sama má segja um upptökur á tónlist og gerð tónlistarmyndbanda. Mikil fagþekking er til staðar á upptöku tónlistar og við gerð tónlistarmyndbanda og þar er augljós skörun við kvikmyndagerð. Er því gullið tækifæri til að veita tónlistarupptökum og myndbandagerð erlendra aðila sama endurgreiðsluhlutfall og veitt er til kvikmyndagerðar og víkka þannig út markaðinn og atvinnumöguleika á þessu sviði. Innviðir til þess að fara af stað með tónlistarátak eru til staðar og fjárfesting því lítil sem engin til að auka umsvifin.

Markmið:
    Að efla kvikmyndaiðnað hér á landi um leið og hafið er sambærilegt átak til að hvetja tónlistarmenn til að taka upp tónlist og gera tónlistarmyndbönd á Íslandi.

Fyrstu skref:
     *      Að endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndaframleiðslu verði hækkað úr 20% í 25% og að Íslandsstofu verði falið það hlutverk að markaðssetja Ísland sem land kvikmyndagerðar.
     *      Að framlög til kvikmyndasjóðs verði aukin úr 450 m.kr. í 700 m.kr. á ári.
     *      Að endurgreiðsluhlutfall við tónlistarupptökur hér á landi verði 25% og að sú tilhögun verði nýtt til að markaðssetja Ísland með kröftugum hætti.
>> Með þessum aðgerðum má gera ráð fyrir að um 800 ný störf verði til við kvikmyndagerð, í tónlistariðnaði og tengdum greinum á næstu 4 árum.

3.7 Ferðaþjónusta.
Staðan í dag:
    Ferðaþjónustan er ört vaxandi atvinnugrein og hefur mikil bein og óbein áhrif á íslenskt atvinnulíf. Afleidd áhrif hennar geta verið veruleg og ná til iðngreina og þjónustu vítt og breitt. Ferðaþjónustan er flókin og samsett úr mörgum greinum sem gerir alla útreikninga erfiða. Ferðaþjónustan er einn af burðarásum í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar og styrkur ferðaþjónustunnar fer vaxandi. Frá árinu 2001 til 2009 hafa gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum aukist um 233% og frá 2002 til 2009 hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um 78%. Heildarfjöldi erlendra gesta árið 2010 var tæplega 495 þúsund manns (0,2% aukning frá 2009) og níu af hverjum tíu Íslendingum ferðaðist innanlands. Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum voru 155 milljarðar króna árið 2009 og fjöldi starfa í ferðaþjónustu var 8.500 eða 5,1% af fjölda starfa í landinu.
    Horfur í ferðaþjónustu árið 2011 eru mjög góðar. Þrátt fyrir samdrátt víða um heim og fækkun ferðamanna hefur orðið um 15% aukning á komum erlendra fermanna til landsins það sem af er ári, sbr. sama tímabil á síðasta ári. Það er nokkuð samdóma álit aðila í ferðaþjónustu að kynningar- og markaðsaðgerðir í kjölfar náttúruhamfaranna á síðasta ári hafi borið árangur. Merkjanlegur munur er á áhuga erlendra aðila gagnvart Íslandi og er það sóknarfæri sem þarf að nýta vel.
    En þrátt fyrir jákvætt útlit þá steðja ýmis vandamál að ferðaþjónustunni og fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja á í skuldavanda líkt og mörg fyrirtæki á Íslandi í dag. Við þeim vanda er nauðsynlegt að bregðast. 8 Á síðasta aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) var fjallað um minnkandi eftirspurn vegna minni kaupmáttar og um hættur sem stafa af skattahækkunum, aukinni opinberri gjaldtöku og stöðnun í fjárfestingum í atvinnulífinu. Ferðaþjónustan er viðkvæm fyrir ýmsum utanaðkomandi þáttum eins og eldgosum síðasta árs. Þá setti hrossasóttin verulegt strik í reikninginn í ferðaþjónustu tengdri hestamennsku. Því þarf að semja viðbragðsáætlanir svo bregðast megi við óvæntum atburðum, s.s. eldgosum og öðrum hamförum.
    Háannatíminn er stuttur og því getur verið erfitt að byggja upp rekstrargrundvöll til heils árs sem skilar einhverri arðsemi. Reynt hefur verið að lengja ferðamannatímabilið og hefur það þokast í rétta átt en betur má ef duga skal. Tæplega helmingur ferðamanna hefur komið yfir sumarmánuðina þrjá síðastliðin þrjú ár, tæplega þriðjungur að vori eða hausti og um og yfir fimmtungur að vetri frá nóvember og fram í mars. Þessum hlutföllum þarf nauðsynlega að breyta.

Tækifæri:
    Styrkleikar í ferðaþjónustunni eru fyrst og fremst einstök náttúra og lifandi land, en áhugi á sögu og menningu hefur aukist að undanförnu. Í nýlegri könnun Ferðamálastofu kemur fram að náttúran hefur mest áhrif á ákvörðun ferðamanna um að koma til landsins en 32% nefna enn fremur íslenska menningu eða sögu. Huga þarf vel að sérstöðu hvers svæðis og nýta staðbundna menningu, mat og listir í ferðaþjónustu en það eflir einnig vitund heimamanna og hefur margfeldisáhrif. Ísland verður heiðursgestur á bókasýningunni í Frankfurt í október en þetta er stærsta og þekktasta bókasýning og -kaupstefna í heimi og þar gefst einstakt tækifæri til að kynna íslenska menningu og listir.
    Heilsutengd ferðaþjónusta er í hraðri sókn víða um heim og tryggja þarf hlutdeild á þeim markaði. Heilsuferðaþjónustu er gjarnan skipt í tvo flokka sem snúast annars vegar um lífsstíl og almenna vellíðan en hins vegar um lækningar og meðferðir innan heilbrigðiskerfisins. Líkt og með menningartengda ferðaþjónustu eigum við ónýtta möguleika á sviði heilsu- og lífstílstengdrar ferðaþjónustu.
    Mikil þörf er á vöruþróun og nýsköpun á þessum vettvangi og frekari rannsóknum. Í heilsutengdri ferðaþjónustu liggja styrkleikar Íslands í óspilltri náttúru, hreinu lofti, hollum mat, gnægð af heitu vatni og góðu köldu vatni ásamt vel menntuðu fólki í heilbrigðisstéttum og sterku heilbrigðiskerfi.
    Í vetrarferðaþjónustu felast sóknarfæri og brýn þörf er fyrir sameiginlegar aðgerðir og samvinnu margra. Þar má byggja á menningartengdri og jafnvel heilsutengdri ferðaþjónustu. Þetta fellur vel að markaðssetningu og ímyndarsköpun Íslands sem hreins lands með áhugaverða menningu og sögu.
    Ef hugmyndir um framkvæmdasjóð ferðaþjónustunnar verða að veruleika þarf að tryggja að það fjármagn skili sér alla leið inn í greinina til uppbyggingar. Ferðaþjónustan skilar miklu í þjóðarbúið en of lítið kemur til baka inn í greinina til uppbyggingar og þróunar. Slíkan sjóð þarf að nýta í framkvæmdir og úrbætur á ferðamannastöðum og sameiginlega markaðssetningu. Einnig mætti hluti þessa fjár fara í styrki til nýsköpunarverkefna. Gera þarf langtímaáætlanir um nýtingu fjármagnsins, framkvæmdir og markaðsaðgerðir.

Markmið:
    Fara í markaðsátak sem mun fjölga ferðamönnum um 10% og hækka hlutfall þeirra sem koma utan háannatíma. Mögulegur ávinningur væri um 50.000 fleiri ferðamenn, 1.000 störf og 10–15 milljarðar í auknar gjaldeyristekjur. Að auki þarf að efla nýsköpun og vöruþróun.

Fyrstu skref:
     *      Hefja kynningarátak og ímyndarsköpun til að efla ferðaþjónustu allt árið. Ríkissjóður verji 350 m.kr. til átaksins og aðilar í ferðaþjónustu leggi fram samsvarandi upphæðir til markaðssetningar Íslands utan háannatíma ferðaþjónustunnar.
     *      Efla þarf vetrarferðamennsku með áherslu á menningu-, sögu- og heilsutengda ferðaþjónustu.
     *      Samhliða kynningarátaki er mikilvægt að ráðast í vöruþróun í víðtæku samstarfi við hlutaðeigandi aðila.
     *      Tryggja þarf markaðsmálum farveg til lengri tíma með markvissu samstarfi ríkis, sveitarfélaga, markaðsstofa og fyrirtækja.
     *      Efla grunnrannsóknir í greininni en kynningarátak, ímyndarsköpun og vöruþróun byggir á góðum rannsóknum.
     *      Tryggja góðar samgöngur um allt land svo ferðamönnum sé tryggt gott aðgengi að eftirsóknarverðum ferðamannastöðum og afþreyingu víðs vegar um landið.
     *      Mikilvægt er að framkvæmdasjóður ferðaþjónustunnar renni til uppbyggingar innan greinarinnar og markaðssetningar.
>> Gert er ráð fyrir að sérstakt átak skili 1.000 störfum í ferðaþjónustu. Aukinn kostnaður ríkissjóðs er 350 m.kr. en auknar gjaldeyristekjur eru áætlaðar um 10–15 milljarðar króna.

3.8 Landbúnaður.
Staðan í dag:
    Um 4.800 störf eru nú í landbúnaði skv. vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar 2010. Samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar HÍ frá 2009 er fjöldi afleiddra starfa svipaður þannig að alls eru störf tengd greininni um 10.000. Staða einstakra undirgreina er misjöfn. Sumar hafa aldrei staðið jafn vel, eins og minkaræktin, og aðrar hafa náð góðum árangri á erlendum mörkuðum eins og sauðfjárræktin. Enn aðrar eru að ná sér eftir kollsteypur eins og svínaræktin.
    Stærsti áhrifaþátturinn er skuldastaða hvers og eins framleiðanda. Það sama gildir um landbúnaðinn eins og aðrar atvinnugreinar að gengið hefur hægt að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu eftir bankahrunið. 9 Í flestum tilvikum er heimilis- og atvinnurekstur á sömu kennitölu sem hefur flækt málin og tafið fyrir lausnum. Gríðarlegar verðhækkanir á landi gerðu í sumum tilvikum óhóflega skuldsetningu mögulega sem landbúnaðarrekstur átti ekki möguleika á að standa undir. Úr þeim málum hefur enn ekki verið leyst.

Tækifæri:
    Aukin eftirspurn er eftir upprunamerktum matvælum frá neytendum hérlendis. Það getur skapað fleiri störf við úrvinnslu í sveitum landsins og aukið fjölbreytni á matvörumarkaði verulega. Nú þegar selja á annað hundrað framleiðendur vörur beint frá býli og vörutegundirnar eru mun fleiri. Þetta er mikilvægur vaxtarsproti í greininni sem skynsamlegt er að hlúa að. Tækifæri eru líka á ýmsum tengingum við ferðaþjónustuna, s.s. með þróun matvælaminjagripa. Jafnframt geta falist tækifæri í meira fræðslustarfi, t.d. auknu námskeiðaframboði og fleiri starfsmenntabrautum tengdum matvælaframleiðslu.
    Verulegur ávinningur felst í því að auka kornrækt til að minnka innflutning á kornvörum, sérstaklega til dýrafóðurs, en einnig til matvælaframleiðslu. Auk fleiri innlendra starfa myndi það spara talsverðan gjaldeyri. Í skýrslu Intellecta ehf. fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið frá árinu 2009 er talið raunhæft að þrefalda kornrækt hérlendis á 6–7 árum, þ.e. úr 15.000 tonnum í 45.000 tonn. Síðan þá hafa korn og önnur matvæli hækkað verulega á heimsmarkaði og hefur matvælaverð raunar aldrei verið hærra en nú skv. mælingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO). Þessi kostur er því enn hagkvæmari nú en fyrir tveimur árum.
    Á sama hátt eru möguleikar á að vinna mun meira metan sem eldsneyti fyrir innanlandsmarkað bæði úr sláturúrgangi, öðrum lífrænum úrgangi sem fellur til við matvælavinnslu og lífrænu sorpi. Við þá vinnslu getur einnig fallið til áburður sem nýtist til frekari ræktunar og/eða landgræðslu. Metan getur ekki komið í stað jarðefnaeldsneytis en skv. útreikningum Sorpu væri raunhæft að framleiða metan til að knýja 15–20% einkabílaflotans innan 10 ára. Líklegt er að vinnsla sem þessi verði enn hagkvæmari á næstu árum vegna síhækkandi olíuverðs. Tækifæri eru einnig á að auka repjuræktun til framleiðslu á lífdísilolíu. Við þá ræktun fellur jafnframt til efni sem nýta má til fóður-, áburðar- eða metanframleiðslu. Tilraunaræktun hefur gefið góða raun þó að ljóst sé að ekki er raunhæft að standa að slíkri ræktun nema jarðvegur og veðurlag henti. 10
    Lambakjöt á, eins og stendur, bestu útflutningsmöguleika í langan tíma. Eftirspurn er verulega meiri á heimsmarkaði en áður og matvælaverð fer hækkandi. Svigrúm er til framleiðsluaukningar til að mæta eftirspurn þar sem víða er vannýtt framleiðslugeta vegna samdráttar síðustu áratuga. Hugmyndir eru um að auka framleiðslu um 20% á næstu árum sem myndi þýða um 11 þúsund tonna ársframleiðslu. Það myndi skapa fleiri störf, ekki síst á strjálbýlustu svæðum landsins. Auk þess er vöxtur í útflutningi annarra landbúnaðarafurða þar sem gengi krónunnar gerir þær mun samkeppnishæfari í verði.
    Með minnkandi kaupmætti hefur hlutfall matvæla í útgjöldum heimilanna hækkað. Það er nú 13,9% skv. nýjustu neyslukönnun Hagstofunnar. Um helmingur matvælaneyslu landsmanna er innlendur en hinn helminginn flytjum við inn. Undanfarin misseri hefur innlendi hlutinn hækkað mun minna en sá innflutti samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Líklegt er að sú þróun haldi áfram sbr. hækkandi matvælaverð á heimsmarkaði eins og áður er getið. Tækifæri gefast nú til að auka innlenda framleiðslu verulega og skapa ný störf í tengslum við það. Í Ísland 20/20, sóknaráætlun stjórnvalda, eru hugmyndir um að auka hlutfall innlendra matvæla af heildarneyslu innanlands upp í 60% árið 2020. Því ber að fagna þó að þær hugmyndir séu óútfærðar
    Sérstaklega ber að skoða hugmyndir um aukningu á grænmetisframleiðslu. Meirihluti grænmetisneyslu landsmanna er innfluttur og þar eru tækifæri til að auka hlut innlendrar neyslu með því að auka framleiðslu og fjölga tegundum sem hér eru ræktaðar. Einnig gætu skapast útflutningsmöguleikar með stærri framleiðslueiningum og samkeppnishæfu orkuverði. Það yrði hagkvæmast í nálægð við orkuver.
    Hestamennska og ræktun íslenska hestsins er vaxandi grein. Árið 2009 voru flutt út hross fyrir tæpan milljarð króna. Það hefði örugglega orðið meira 2010 ef ekki hefðu komið upp veikindi í stofninum, en útflutningur er nú vaxandi á ný. Um tveir þriðju hlutar stofnsins eru nú utan Íslands og í því felast mikil tækifæri, ekki síst tengd ferðaþjónustu. Íslenski hesturinn fellur vel að þeirri náttúruvænu ímynd sem við viljum leggja áherslu á í ferðamálum og hvetja þarf til þess að allir þeir sem kynnast hestinum heimsæki upprunaland hans, auk þess sem að við eigum að vera leiðandi í öllum málum sem honum tengjast.
    Fiskeldi er jafnframt vaxandi grein og tækifæri eru til frekari stækkunar. Því er spáð að hægt sé að tvöfalda framleiðsluverðmæti greinarinnar á næstu 5–7 árum. Góðar aðstæður eru hér til að auka framleiðslu, einkanlega í landstöðvum, í ljósi þess að hér er aðgangur að nógu hágæðavatni en vatnsþörf greinarinnar er afar mikil. Aðstæður til sjókvíaeldis eru erfiðari vegna landfræðilegra aðstæðna og óstöðugra veðurfars en t.d. í Noregi.
    Enn fremur eru tækifæri í skógrækt, bæði til timbur- og kurlframleiðslu sem og til að auka hlut innlendrar ræktunar á jólatrjáamarkaði. Þá kunna að skapast tekjumöguleikar í greininni vegna þess kolefnis sem hún bindur og getur bundið. Af náttúrulegum orsökum tekur uppbygging langan tíma en þarna liggja samt sem áður möguleikar til fjölgunar starfa.
    Möguleikar til aukinnar framleiðslu minkaskinna á Íslandi eru miklir og vannýttir. Margt mælir því með enn frekari eflingu loðdýraræktar á Íslandi í dag en orðið er. Má þar nefna:
     *      Mikið er til af góðu hráefni til fóðurgerðar. Fóðurstöðvar búa yfir meiri framleiðslugetu en nýtt er í dag.
     *      Nægt landrými er til bygginga og/eða losunar á úrgangi frá búunum. Lítið landrými og erfiðleikar því tengdir, s.s. hvað varðar úrgangslosun, hamla uppbyggingu og endurnýjun í löndum þar sem minkarækt hefur staðið styrkum fótum líkt og í Danmörku og Hollandi. Því hafa minkabændur þaðan verið að horfa til Íslands með fjárfestingu í huga en það getur hjálpað til við uppbygginguna hér á landi, bæði fjárhagslega og faglega.
     *      Mikið er af ódýru vatni, bæði köldu og heitu sem er gott til þrifa og upphitunar á aðstöðu.
     *      Framleiðslukostnaður er fyllilega samkeppnisfær við það sem annars staðar þekkist.
     *      Verð á skinnum hefur farið hækkandi – bæði vegna hagstæðs gengis en einnig vegna sífellt aukinna gæða. Í dag er svo komið að aðeins Danir standa Íslendingum framar í gæðum skinna sem skýrist af mjög markvissu gæða- og ræktunarstarfi á Íslandi undanfarin ár.
     *      Spáð hefur verið að umsetning á skinnavörum eigi eftir að tífaldast fram til ársins 2050.

Markmið:
    Með því að greiða fyrir þeim hugmyndum sem hér eru nefndar ættu að vera raunhæfir möguleikar á að fjölga störfum í landbúnaði um allt að 500 á næstu 10 árum (um 10%). Afleidd störf gætu þá orðið annað eins eða alls um 1.000 í landbúnaði og tengdum greinum.

Fyrstu skref:
     *      Stjórnvöld lýsi yfir að rekstrarumhverfi landbúnaðarins verði ekki raskað frekar til loka gildistíma núverandi búvörusamninga.
     *      Sett verði raunhæf og mælanleg markmið um innlenda metan- og lífdíselframleiðslu.
     *      Fjölga þarf tækifærum matvælaframleiðenda til að vinna úr og þróa eigin afurðir. Hægt verði að leita á einn stað eftir öllum nauðsynlegum leyfum og gjaldtöku haldið í lágmarki. Mikilvægt er að leita fyrirmynda um útfærslu matvælalöggjafar í öðrum EES- ríkjum.
     *      Unnið verði með matvælaframleiðendum að stefnumörkun um hvernig hægt sé að auka hlut innlendra matvæla í neyslu hérlendis og hvaða markmið skuli sett varðandi útflutning, sérstaklega á lambakjöti og grænmeti.
     *      Leitað verði allra leiða til þess að lækka kostnað við flutning á raforku, m.a. til að bæta rekstrarskilyrði garðyrkjunnar.
     *      Styrkja þarf enn frekar framboð á afþreyingu tengdri hestamennsku og efla áfram útflutningsmarkaði.
     *      Með liðsinni Íslandsstofu verði vakin athygli erlendis á þeim miklu tækifærum sem fólgin eru í loðdýrarækt hér á landi og þeim kostum sem mæla með fjárfestingum hér. Greininni verði tryggt samkeppnishæft umhverfi og möguleikar á að nýta þau hráefni sem til falla.
>> Ekki er gert ráð fyrir að hugmyndir þessar hafi í för með sér aukningu á opinberum framlögum, nema vegna vinnu sem felst í þeim markmiðum sem sett eru fram. Störf sem verða til við þessar aðgerðir má áætla að verði um 500 bein störf og allt að 500 afleidd störf. Samtals gerir það 1.000 störf á næstu 10 árum.

3.9 Orkumál og orkuskipti.
Staðan í dag:
    Yfir sjötíu prósent af frumorkunotkun Íslendinga kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Það sem eftir stendur er innflutt eldsneyti sem að mestu er notað við fiskveiðar og í samgöngum. Að auki eru kol og gas notuð í litlu mæli við iðnað, þjónustu og til heimilisnotkunar. Er það bylting frá því sem áður var en á 20. öldinni og einkum í kjölfar olíukreppunnar á 8. áratug aldarinnar var gert stórátak í húshitun með heitu vatni sem skilar því að í dag eru um 90% húsa hituð upp með jarðvarma.
    Árið 2009 nam raforkunotkun á Íslandi tæpum 17 GWH. Þar af notaði stóriðjan tæp 77% en almenn notkun var tæp 18%. Ríflega 75% raforkuvinnslunnar koma frá vatnsaflsvirkjunum en tæpur fjórðungur frá jarðvarmavirkjunum. Sé raforkunotkuninni deilt niður á hvern einstakling á Íslandi er hún með því hæsta sem gerist í heiminum. Sífellt stækkandi raforkukerfi sem orðið hefur hagkvæmara með aukinni orkusölu til stóriðju hefur leitt til þess að raforkuverð til heimila hefur lækkað að raunvirði á síðustu árum og er það í dag hið lægsta í Evrópu. Raforka til húshitunar hefur hins vegar hækkað talsvert vegna þess að framlag ríkisins til niðurgreiðslu hefur ekki haldið í við verðhækkanir raforkufyrirtækja.
    Langstærsti hluti útstreymis gróðurhúsalofttegunda hér á landi, eða tæplega 70%, er tilkominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti. Vegna hækkandi olíuverðs og umhverfissjónarmiða beinast sjónir manna nú sífellt meir að næstu orkuskiptum hér á landi, þ.e. í samgöngum – enda eru forsendur fyrir þróun vistvænna samgangna einkar góðar hér á landi.

Tækifæri:
    Virkjanaframkvæmdir eru mjög atvinnuskapandi en nauðsynlegt er að um þær ríki sem víðtækust sátt. Því er lagt til að aðferðafræði rammaáætlunar verði beitt til að flokka virkjanakosti og forgangsraða þeim með tilliti til verndunar og nýtingar. Þar sem eftirspurn eftir endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku eykst stöðugt á slík forgangsröðun og áhersla á fjölbreyttan kaupendahóp smám saman að styðja við og auka verðmæti seldrar orku, þ.e. hámarka afrakstur orkuauðlindanna á eðlilegum nýtingartíma (gæta t.a.m. að jafnstöðuvinnslu í jarðvarma). Jafnframt eru mikil tækifæri í orkusparnaði hér á landi, m.a. með bættri einangrun húsa og notkun varmadæla á þeim svæðum sem ekki eiga kost á heitu vatni til húshitunar og til nýtingar jarðhita þar sem hás hitastigs er krafist, í matvælaiðnaði og víðar.
    Í samgöngum og siglingum felast mikil tækifæri til frekari nýtingar endurnýjanlegrar íslenskrar orku. Hvaða orkuberi eða tækni verður fyrir valinu á endanum liggur ekki fyrir en mikil gróska er í þróun ýmissa aðferða. Metanólframleiðsla á iðnaðarskala hefst í sumar í Svartsengi sem gæti komið í stað u.þ.b. 3% innlendrar bensínnotkunar. Þá hefur viljayfirlýsing verið undirrituð um undirbúning metanólframleiðslu í Kröflu, sem svarar til um fjórðungs innlendrar bensínnotkunar. Helst er aðgengi að kolsýru, koltvísýringi eða öðru kolefni hindrun fyrir enn frekari framleiðslu. Miklir möguleikar gætu skapast við innleiðingu DME (DyMethylEther) sem er fljótandi gas sem hægt er að brenna á díselvélum og því hægt að nota á flutningabíla og skipavélar. Hægt er að framleiða DME úr metanóli, hugsanlega um borð í skipum, þannig að mögulega þyrfti ekki að breyta skipum frá grunni til að keyra á umhverfisvænum, innlendum orkugjöfum.
    Olíuvinnsla hefur mikla atvinnu- og verðmætasköpun í för með sér, bæði í formi beinna og afleiddra starfa. Mikil tækifæri felast í því að rannsaka Drekasvæðið í þeim tilgangi að nýta þar hugsanlega olíu. Því miður olli óhagstætt skattaumhverfi því að síðasta útboð rannsóknaleyfa á svæðinu brást. Mikilvægt er að stjórnvöld endurbæti skattumhverfið í ljósi reynslunnar og hraði næsta útboði rannsóknaleyfa á svæðinu. Ef olía finnst á Drekasvæðinu,
í vinnanlegu magni, er um mikla hagsmuni að ræða fyrir þjóðarbúið. Ísland og Noregur hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta um nýtingu svæðisins en Ísland á 25% af mögulegum tekjum Noregsmegin á Drekasvæðinu og Norðmenn 25% Íslandsmegin. Því kemur samstarf við Noreg vel til greina hvað rannsóknir á svæðinu varðar. Finnist olía í vinnanlegu mæli mun hún strax teljast til verðmæta fyrir þjóðarbúið.

Markmið:
    Leitast verði við að þær tafir sem orðið hafa á frumvarpi til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða seinki ekki mikilvægum virkjanaframkvæmdum og rannsóknum á svæðum sem ljóst þykir að hafi hvað minnsta umhverfisröskun í för með sér af þekktum virkjanahugmyndum. Með því er unnt að skapa allverulegan fjölda starfa við framkvæmdir og rannsóknir á erfiðum tímum atvinnuleysis.
    Stjórnvöld setji sér jafnframt markmið um að árið 2020 komi a.m.k. 10% orku sem notuð er í samgöngum innanlands frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Dregið verði enn frekar úr notkun rafmagns til húshitunar á köldum svæðum með auknum styrkjum til fjárfestinga á varmadælum, einangrun húsa o.s.frv. til að auka lífsgæði íbúa á þessum svæðum og til að losa um orku í raforkukerfinu sem nýta má til atvinnuskapandi verkefna.
    
Fyrstu skref:
     *      Stjórnvöld afgreiði á vorþingi 2011 frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða og vinni í framhaldinu faglega að veitingu virkjanaleyfa í samræmi við ný lög og innan tilskilinna tímafresta stjórnsýslunnar.
     *      Ekki verði beðið með veitingu virkjanaleyfa fram að gildistöku laganna fyrir þá virkjanakosti sem augljóst þykir að falli innan nýtingarflokks og séu þannig bæði hagkvæmir og hafi tiltölulega litla umhverfisröskun í för með sér. Með því verði skapaðar forsendur fyrir atvinnuuppbyggingu við bæði virkjanaframkvæmdirnar sjálfar og eins við framkvæmdir á vegum orkukaupenda þegar slíkar hugmyndir hafa farið í gegnum viðeigandi leyfisveitingaferla innan stjórnsýslunnar.
     *      Heimilaðar verði rannsóknir á mögulegum virkjanakostum sem falla undir umhverfisflokk A í fyrsta áfanga rammaáætlunar.
     *      Mótuð verði stefna um hvernig unnt sé með sem skilvirkustum hætti að ýta undir notkun á nýrri tækni og endurnýjanlegum orkugjöfum í samgöngum. Slíkt ýtir undir aukna færni og þekkingu í málaflokknum og hefur nokkra atvinnusköpun í för með sér, auk langtíma ávinnings í formi gjaldeyrissparnaðar o.fl. Þessari stefnumótun verði lokið fyrir vorið 2011.
     *      Stefnt verði að því að þau 10% heimila sem ekki eigi kost á heitu vatni til húshitunar fái styrki til fjárfestinga í t.d. varmadælum, gluggaskiptum, bættri einangrun húsa o.s.frv. gegn lækkuðum niðurgreiðslum hins opinbera á orku til húshitunar. Verði þar miðað við 10 ára niðurgreiðslur á raforku til húshitunar í stað 8 ára í dag. Með því verði ýtt undir atvinnusköpun iðnaðarmanna, auk þess sem umfram orka skapast í raforkukerfinu (um 20–25 MW að hámarki) sem hægt er að nýta til annarra atvinnuskapandi verkefna eða iðnaðar.
     *      Að gera skattaumhverfi vegna olíuleitar hagstæðara og hefja samstarf við Noreg um olíuleit á Drekasvæðinu.
>> Áætla má að um 100–150 ársverk séu í tengslum við orkuviðhald, orkusparnað og orkuskipti. Sé farið í virkjanaframkvæmdir verður einnig til eftirfarandi fjöldi ársverka á byggingartíma. Sem dæmi um störf sem geta skapast við einstakar virkjanaframkvæmdir má nefna eftirfarandi:
     *      Búðarhálsvirkjun – 700–800 ársverk
     *      Hvammsvirkjun – 790 ársverk
     *      Holtavirkjun – allt að 460 ársverk
     *      Urriðafossvirkjun – 850 ársverk
     *      Hverahlíðarvirkjun – 1100 ársverk
     *      Stækkun Reykjanesvirkjunar – 600–650 ársverk
     *      Stækkun Hellisheiðarvirkjunar – 290–300 ársverk út árið 2011
     *      Þeistareykjavirkjun, Bjarnaflagsvirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar – samtals 400–500 MW – mörg hundruð ársverk á byggingartíma.

3.10 Uppbygging í mannaflsfrekum iðnaði.
Staðan í dag:
    Uppbygging í mannaflsfrekum iðnaði á Íslandi á undanförnum árum og áratugum hefur skotið fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf og haft sveiflujafnandi áhrif sem munað hefur um í kjölfar fjármálakreppunnar. Þar hefur áliðnaður mesta vægið en árið 2010 námu útflutningstekjur af álframleiðslu 220 milljörðum króna sem jafngilda 25% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Framleiðslugeta álveranna þriggja í Straumsvík, á Grundartanga og í Reyðarfirði nemur um þessar mundir ríflega 800 þúsund tonnum á ári en hjá fyrirtækjunum starfa um 1.800 manns. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerir ráð fyrir að 1,4 afleidd störf séu á bak við hvert starf í áliðnaði og þannig hafi ríflega 4.300 manns lifibrauð sitt af álframleiðslu og afleiddum störfum. Þá eru hér á landi jafnframt starfræktar járnblendiverksmiðja, aflþynnuverksmiðja og steinullarverksmiðja sem til samans hafa vel á fjórða hundrað starfsmenn og fram undan eru framkvæmdir tengdar uppbyggingu kísilverksmiðju í Helguvík, stækkun álvers í Straumsvík og við Búðarhálsvirkjun. Þá má geta þess að orkufrekur iðnaður skapar í dag um 200–300 ársverk í viðhaldi og stöðugri þjónustu á rekstrartímanum.

Tækifæri:

    Margt mælir með uppbyggingu í mannaflsfrekum iðnaði á Íslandi umfram önnur lönd og á það jafnt við um orkufrekan iðnað sem og iðnað sem krefst ekki fjölda megavatta (MW). Ber þar fyrst að nefna umhverfisvæna og endurnýjanlega orku, en það skiptir fjárfesta sífellt meira máli að starfsemi fyrirtækja sé með eins umhverfisvænum hætti og unnt er. Þá er vinnuafl hér á landi nokkuð vel menntað og vinnumarkaður sveigjanlegur, greiður aðgangur er að miklu magni hreins vatns, viðskiptaumhverfið hefur að mörgu leyti verið hagstætt, nálægð er við stóra markaði beggja vegna Atlantshafsins og jafnvel Asíu í nálægri framtíð.
    Miklu skiptir að halda áfram að breikka útflutningsgrundvöll þjóðarinnar, auka útflutning, efla gjaldeyrissköpun og auka framleiðslu og framleiðni. Við gengishrun íslensku krónunnar hafa rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja stórlega batnað. Þetta hefur skilað sér í auknum áhuga erlendra fjárfesta á uppbyggingu margvíslegs iðnaðar hér á landi og má þar m.a. nefna
sólarkísilframleiðslu, gagnaver, koltrefjaframleiðslu, aflþynnuverksmiðju, gróðurhúsaiðnað,
basalttrefjaframleiðslu, efnagarða og endurvinnsluiðnað. Til samans myndu fyrrgreind uppbyggingaráform skapa þúsundir starfa á bæði byggingartíma og eins í formi varanlegra starfa að uppbyggingu lokinni. Sem dæmi má nefna að kísilver í Helguvík getur skapað um 90 bein störf, gagnaver Verne Holding og annarra gagnavera allt að 100–200 bein störf og gróðurhúsaiðnaður í stórum skala allt að 70–100 bein störf. Óraunhæft er að gera ráð fyrir að nema hluti þeirra nái fram að ganga en þeim mun mikilvægara er að stuðla að framgangi þessara verkefna þannig að endanleg ákvörðun byggi á faglegum undirbúningi og forsendum í stað fordóma eða geðþótta fárra einstaklinga.
    Álfyrirtækin þrjú sem starfa hér á landi eru jafnframt öll með áform um aukna framleiðslu á næstu árum. Alcan í Straumsvík hefur þegar hafið stækkunarframkvæmdir, Norðurál stefnir að uppbyggingu nýs álvers í Helguvík og Alcoa vinnur að uppbyggingu nýs álvers á Bakka við Húsavík. Óvíst er hvort öll þessi áform verði að veruleika, m.a. vegna orkuöflunar og mengunarkvóta sem fyrirtækin þyrftu að einhverju leyti að kaupa og flytja með sér hingað, en verði svo má gera ráð fyrir að þau skapi 16–18 þúsund ársverk á byggingartíma (virkjanir
+ álver), 1700–2000 bein störf og 2400–2800 afleidd störf.

Markmið:
    Tryggja þarf að pólitískur óstöðugleiki og hringlandaháttur með ýmis atriði sem hafa áhrif á starfsskilyrði iðnaðar á Íslandi fæli ekki erlenda fjárfesta frá. Stöðugleiki og hagstæð almenn starfsskilyrði eru grundvallaratriði sem þurfa að vera í lagi eigi að takast að laða hingað til lands fjölbreyttan og atvinnuskapandi iðnað. Eðlilegt er jafnframt að horft verði til þess við erlenda nýfjárfestingu hér á landi að hún skapi sem mestan fjölda verðmætra starfa, hafi sem mestan innlendan virðisauka í för með sér, skili verulegum skatttekjum og að nýjustu og umhverfisvænstu tækni sé ætíð beitt. Þá verði leitast við að auka breidd í atvinnuuppbyggingu og hafa þannig áframhaldandi sveiflujafnandi áhrif á íslenskt atvinnulíf.

Fyrstu skref:
     *      Stjórnvöld geri beina erlenda nýfjárfestingu að forgangsatriði og móti sér stefnu um áherslur fjárfestingarkosta.
     *      Fjármagn til fjárfestingarsviðs Íslandsstofu verði aukið og þess gætt að vægi starfseminnar verði ekki minni hér á landi í framtíðinni en meðal nágrannaþjóðanna. Formlegt og öflugt samstarf verði jafnframt viðhaft við nýtt stoðkerfi atvinnulífsins innanlands. 11
     *      Lagaumhverfi, ívilnanir fyrir beina erlenda fjárfestingu og leyfisveitingaferli verði endurskoðað með það að markmiði að skilvirkni og gagnsæi íslenskrar stjórnsýslu verði aukið til muna.
>> Fjöldi starfa í iðnaði fer eftir því hvaða verkefni fara af stað á næstunni og er mjög misjafnt milli verkefna hversu mörg störf eru á byggingartíma og hversu mörg bein störf verða til þegar nýbyggingu er lokið. Sem dæmi um fjölda starfa má nefna:
     *      Endurbygging í Straumsvík (er þegar komin í gang) – 300 ársverk á byggingartíma – um 20 varanleg bein störf.
     *      Kísilverksmiðja í Helguvík – 300–400 ársverk á byggingartíma – 90 varanleg bein störf.
     *      Álver í Helguvík – 3200 ársverk á byggingartíma – 200 varanleg bein störf að loknum fyrsta áfanga.
     *      Gagnaver – 250–350 ársverk á byggingartíma – 60–100 varanleg bein störf í gagnaveri Verne Holding einu og sér.
     *      Hreinkísilverksmiðja – 600 ársverk á byggingartíma – 150 varanleg bein störf að loknum fyrsta áfanga.
     *      Álver á Bakka við Húsavík – allt að 5000–5500 ársverk á byggingartíma – allt að 450 varanleg bein störf að uppbyggingu lokinni.

3.11 Sjálfbært fjármálakerfi.
Staðan í dag:
    Íslenskir sparisjóðir hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum. Sparisjóður Mýrarsýslu, SPRON, Byr – sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík ásamt Sparisjóðabankanum fóru í þrot. Íslenska ríkið endurfjármagnaði fimm sparisjóði; Sparisjóð Bolungarvíkur, Sparisjóð Svarfdælinga, Sparisjóð Vestmannaeyja og Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis. Að auki tók Arionbanki yfir rekstur Afls sparisjóðs og Sparisjóðs Ólafsfjarðar.
    Orsakir erfiðleika sparisjóðanna á Íslandi eru fjölmargar og á eftir að skrá þá sögu ítarlega. Þó má telja að sú breyting sem varð á laga- og starfsumhverfi sparisjóðanna og breytt viðhorf gagnvart hugmyndafræði og rekstrarformi sparisjóðanna hafi átt sinn þátt í hruni þeirra.
    Sparisjóðir eru náskyldir sameignarfélögum á borð við samvinnufélög (e. cooperatives), lánasamvinnufélög (e. credit unions), gagnkvæm tryggingafélög (e. mutual insurance), og sjálfseignarstofnanir, þar sem hagsmunir félagsmanna eru hafðir að leiðarljósi fremur en að hámarka hagnað. Félög af þessu tagi vilja ná rekstrarlegum árangri en á grunni siðferðislegra gilda og sterkrar samfélagslegrar vitundar. Þeir sem nota þjónustuna taka út hagnaðinn í formi lægri þjónustugjalda, lægri vaxta eða verkefna sem endurspegla samfélagslega ábyrgð félaganna í stað arðgreiðslna.

Tækifæri:
    Endurreisn hins vestræna heims eftir áföll síðustu ára verður að byggja á jafnvægi, raunverulegu blönduðu hagkerfi þar sem einkafyrirtæki, ríki og sameignarfélög ná að blómstra á sjálfbæran máta. Mikilvægur þáttur í því er fjölbreytni á fjármálamarkaði í stað þeirrar fábreytni sem nú blasir við þar sem þrír stórir bankar fara með um 90% hlutdeild á markaði.
    Sanngjarnt, heilbrigt og réttlátt samfélag er líklegra til að vaxa og dafna á sjálfbæran máta
hvort sem litið er til félagslegra, pólitískra eða umhverfislegra þátta. Fjármálastofnanir sem
þjónusta félagsmenn á sanngjörnum kjörum og styðja við sitt nærsamfélag á lýðræðislegan
máta skipta máli þegar byggja skal slíkt samfélag.
    Þess vegna þarf að byggja upp nýtt sparisjóðakerfi, m.a. á grunni eignarhalds ríkisins á fjölmörgum sparisjóðum. Jafnframt þarf að setja ný lög um lánasamvinnufélög þannig að íslenskir neytendur hafi sama möguleika og neytendur í nágrannalöndum okkar á að stofna og reka lánasamvinnufélög, sem og raunverulegt val um hvert þeir beina viðskiptum sínum.

Markmið:
    Byggja upp nýtt sparisjóðakerfi, m.a. á grunni eignarhalds ríkisins á fjölmörgum sparisjóðum og tryggja þannig fjölbreytni á fjármálamarkaði.

Fyrstu skref:
     *      Mótuð verði stefna um fjármálakerfið sem byggi á fjölbreytni, neytendavernd og sjálfbærni.
     *      Sparisjóðir verði endurskipulagðir að nýju með svæðaskiptu skipulagi.
     *      Lög um sparisjóði verði endurskoðuð í samræmi við lagaumhverfi nágrannalanda okkar.
     *      Sett verði ný lög um lánasamvinnufélög.
     *      Skattaumhverfi sparisjóða og lánasamvinnufélaga verði gert hagstæðara.
     *      Íbúar og velunnarar sparisjóða verði hvattir til að leggja stofnfé í sparisjóð, s.s. með skattaívilnunum.
     *      Stjórnir sparisjóða endurspegli á nýjan leik samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna, með fulltrúum innstæðueigenda, sveitarfélaga á starfssvæðinu og starfsmanna.
     *      Sparisjóðum og lánasamvinnufélögum verði aðeins heimilt að reka hefðbundna viðskiptabankastarfsemi.
     *      Starfssvæði sparisjóða og lánasamvinnufélaga verði afmarkað.
     *      Starfsemi og lánveitingar sparisjóða og lánasamvinnufélaga leggi áherslu á sjálfbærni, verndun umhverfis og þróun atvinnu- og mannlífs á viðkomandi svæði.
>> Verði þessar aðgerðir að veruleika mun þetta styðja við uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja á landsbyggðinni ásamt því að auka samkeppni á fjármálamarkaði.

4 Heimildaskrá
     *      Alþýðusamband Íslands. Endurskoðuð hagspá ASÍ 2011–2013. www.asi.is/Portaldata/1/Resources/ a_lidandi_stundu/Endursko_u__hagsp___tg.__24._mars_2011b.pdf
     *      Brynjar Skúlason o.fl. Arðsemi skógræktar á Íslandi. Ráðunautafundur 2003.
         www.ias.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/5ed2a07393fec5fa002569b300397c5a/08b580b 4a95fa01900256cc900303819?OpenDocument
     *      Forsætisráðuneytið 2009. Aðgerðir í atvinnumálum.
         www.forsaetisraduneyti.is/media/frettamyndir/Adgerdir_atvinnumalum.pdf
     *      Forsætisráðuneytið 2010. Sóknaráætlun 2020.
         www.forsaetisraduneyti.is/2020/samfelagsmarkmid/
     *      Hagfræðistofnun HÍ 2009. Fjöldi starfa og afleidd störf í landbúnaði.
         www.ioes.hi.is/publications/cseries/2009/C09_01.pdf
     *      Hagstofa Íslands. Ferðaþjónustureikningar 2000–2006.
         www.hagstofa.is/lisalib/getfile.aspx?ItemID=8645
     *      Hagstofa Íslands. Neysla og verð ýmissa vörutegunda.
         www.hagstofa.is/Hagtolur/Verdlag-og-neysla/Neysla-og-verd-ymissa-vorutegund
     *      Hagstofa Íslands. Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2007–2009.
         hagstofa.is/lisalib/getfiletrack.aspx?ItemID=11976
     *      Hagstofa Íslands. Vinnumarkaður 2010. hagstofa.is/lisalib/getfiletrack.aspx?ItemID=12186
     *      Hagstofa Íslands, Vinnumarkaður 2010. hagstofa.is/lisalib/getfiletrack.aspx?ItemID=12186
     *      Hagstofa Íslands. Þjóðhagsreikningar.
         www.hagstofa.is/Hagtolur/Thjodhagsreikningar/Thjodhagsreikningar
     *      Hörður Arnarson. Erindi um þróun íslensks raforkumarkaðar og framtíðarsýn á ársfundi Landsvirkjunar 2010. www.landsvirkjun.is/media/samradsfundir/arsfundur_LV_2010_hordur_arnarson.pdf
     *      Intellecta ehf. Kornrækt á Íslandi – Tækifæri til framtíðar.
         www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/Skyrslur/Kornrakt_a_Islandi__takifari_til_framtidar.pdf
     *      Landbúnaðarháskóli Íslands. Rit Landbúnaðarháskólans nr. 24 – Ræktun repju og nepju til olíuframleiðslu og uppgræðslu. www.lbhi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3140
     *      Landssamband fiskeldisstöðva. Staða fiskeldis á Íslandi, framtíðaráform og stefnumótun rannsókna- og þróunarstarfs 2010–2013. lfh.is/documents/vefutgafaLoka.pdf
     *      Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Food Prices Index – Mars 2011.
         www.fao.org/worldfoodsituation/wfs-home/foodpricesindex/en/
     *      Metanblaðið, 24. júní 2010. vefblod.visir.is/index.php?s=4166&p=95248
     *      Ríkisendurskoðun. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stuðning við atvinnu- og byggðaþróun.
         www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/atv_og_byggdathroun.pdf
     *      Samkomulag um úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja frá 15. desember 2010.
         www.vi.is/files/2010.12.15-Samkomulag-Beina-brautin_2037526861.pdf
     *      Samtök atvinnulífsins. Atvinna fyrir alla. Aðgerðaráætlun 2010 um uppbyggingu atvinnulífsins. Febrúar 2010. www.sa.is/files/SA%20Adgerdaraetlun%20%282%29_1917971345.pdf
     *      Samtök atvinnulífsins. Skattkerfi atvinnulífsins. September 2010.
         www.sa.is/files/Skattkerfi%20atvinnulífsins_1814958571.pdf
     *      Samtök ferðaþjónustunnar. Hagtölubæklingur SAF.
         www.saf.is/saf/upload/files/pdf/hagtolur_2007/20886-2009_(2).pdf
     *      Seðlabanki Íslands 2011. Áætlun um losun gjaldeyrishafta.
         www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8564
     *      Seðlabanki Íslands. Peningamál 2011/1, uppfærð spá.
         www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8413
     *      Vilborg Júlíusdóttir. Erindi um ferðaþjónustureikninga á afmælisráðstefnu SAF (6.11 2008).
         hagstofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=11176
     *      Vinnumálastofnun. Staða á vinnumarkaði í febrúar 2011.
         www.vinnumalastofnun.is/files/feb.11_2079465944.pdf
     *      Heimasíða Beint frá býli www.beintfrabyli.is/is/page/about.
     *      Heimasíða Bændasamtaka Íslands www.bondi.is.
     *      Heimasíða Ferðamálastofu www.ferdamalastofa.is.
     *      Heimasíða Hagstofu Íslands www.hagstofa.is.
     *      Heimasíða Orkuseturs www.orkusetur.is.
     *      Heimasíða Orkustofnunar www.os.is.
     *      Heimasíða rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða www.rammaaaetlun.is.
     *      Heimasíða Samtaka ferðaþjónustunnar www.saf.is.
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá kafla 3.3. um stoðkerfi atvinnulífsins.
Neðanmálsgrein: 2
2     Sjá kafla 3.10 um uppbyggingu í mannaflsfrekum iðnaði.
Neðanmálsgrein: 3
3     Sjá kafla 3.2 um vinnumarkaðsúrræði
Neðanmálsgrein: 4
4     Sjá kafla 3.4 um nýsköpun.
Neðanmálsgrein: 5
5     Sjá kafla 3.1. um efnahags- og skattamál.
Neðanmálsgrein: 6
6     Sjá kafla 3.1. um efnahags og skattamál.
Neðanmálsgrein: 7
7     Sjá kafla 3.3 um stoðkerfi atvinnulífsins.
Neðanmálsgrein: 8
8     Sjá nánari umfjöllun í kafla 3.1 sem fjallar um efnahags- og skattamál og m.a. skuldavanda fyrirtækja.
Neðanmálsgrein: 9
9     Sjá nánar umfjöllun um skuldavanda fyrirtækja í kafla 3.1. um efnahags- og skattamál.
Neðanmálsgrein: 10
10     Sjá nánar umfjöllun um orkuskipti í kafla 3.9.
Neðanmálsgrein: 11
11     Sjá nánar kafla 3.3. um stoðkerfi atvinnulífsins.