Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 24. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 24  —  24. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um hitaeiningamerkingar á skyndibita.



Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir,
Ólína Þorvarðardóttir, Árni Þór Sigurðsson, Magnús Orri Schram,
Eygló Harðardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Björn Valur Gíslason, Þór Saari.


    Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að beita sér fyrir því að sölustaðir sem selja skyndibita upplýsi á áberandi stað um magn hitaeininga í skyndibitaréttum sem þar eru seldir.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga sama efnis var lögð fram á 139. löggjafarþingi.
    Í nútímasamfélagi hefur orðið æ vinsælla að fá sér skyndibita. Mataræðið í vestrænum ríkjum hefur þróast í þá átt að skyndibitinn hefur unnið á gagnvart hefðbundnum heimilismat. Þessi þróun á án efa átt þátt í því að mörg ríki hafa gert lýðheilsuáætlanir þar sem lögð er áhersla á aukna hreyfingu og bætt mataræði almennings. Norðurlandabúar standa frammi fyrir áskorunum hvað varðar lífsstíl og mataræði og stjórnvöld flestra norrænna ríkja telja brýnt að vinna gegn offitu og lífsstíls- og velmegunarsjúkdómum sem tengjast henni. Þau hafa lagt áherslu á að bæta mataræði, m.a. með því að auðvelda fólki að velja holla matvöru. Til að svo megi verða þarf að auðvelda fólki að taka upplýst val, t.d. þegar það velur sér skyndibita. Offita er að verða eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamálið hérlendis, en samkvæmt upplýsingum frá OECD þjáist fimmtungur landsmanna af alvarlegustu tegund ofþyngdar og Íslendingar eru orðnir fjórða feitasta þjóð Evrópu, á eftir Bretum, Írum og Möltubúum.
    Mikil umræða hefur átt sér stað í Bandaríkjunum, innan Evrópusambandsins (í Bretlandi og Þýskalandi) og víðar um skyndibitastaði og hafa nokkur ríki átt samvinnu við skyndibitastaðina um að auðvelda neytendum að átta sig á hitaeiningainnihaldi matarskammtanna sem þar eru seldir. Bent hefur verið á að í áratugi hefur þótt rétt og sjálfsagt að upplýsa um ýmiss konar innihald matvöru sem seld er í verslunum en litlar sem engar upplýsingar hafa fengist um mat sem er seldur á veitingastöðum.
    Í Bandaríkjunum (svo sem í New York, Kaliforníu og Oregon) er gert ráð fyrir því að neytendum verði unnt að átta sig á hitaeiningainnihaldi matarskammtanna. Þá gæti neytandi t.d. séð að í Big Mac hamborgara eru yfir 500 hitaeiningar eða allt að fjórðungur af daglegri hitaeiningaþörf karlmanns, sem er 2.500–2.700 hitaeiningar. Einnig að í einni pitsusneið á Pizza Hut geta verið 2.656 hitaeiningar, í stórum Burger King mjólkurhristingi 612 hitaeiningar og í gulrótarköku hjá Starbucks 560 hitaeiningar, þ.e. fjórðungur af daglegri hitaeiningaþörf konu, sem er 2.000–2.200 hitaeiningar.
     Í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að skyndibitakeðjur sem í eru meira en 20 útsölustaðir upplýsi um og merki hitaeiningainnihald skammtanna sem þar eru seldir. Talið er að lýðheilsuáhrifin af merkingunum verði jákvæð þar sem neytendur muni færa neyslu sína yfir í hitaeiningasnauðari skyndibita fái þeir réttar upplýsingar á aðgengilegan hátt. Gert er ráð fyrir að upplýsingum um hitaeiningainnihald matarskammtanna sé komið á framfæri á einfaldan hátt við hvern rétt á matseðli, á veggspjöldum yfir afgreiðsluborði eða á afgreiðsluborðinu.
    Skyndibitakeðjurnar í Bandaríkjunum hafa snúist frá því að vinna gegn slíkum merkingum yfir í að styðja þær, m.a. á þeim grundvelli að allar stærri keðjur verði með og komi réttum upplýsingum á framfæri við neytendur á samræmdan og einfaldan hátt. Reiknað er með að yfir 200.000 skyndibitastaðir í Bandaríkjunum verði með hitaeiningamerkingar á skömmtum sínum, jafnvel strax á þessu ári, en nákvæmari tímasetning fer eftir því hvort einhverjir höfða mál vegna merkinganna.
    Í New York er talið að neytendur hafi nú þegar dregið úr hitaeininganeyslu um 50–100 hitaeiningar í hverri veitingahúsaferð vegna nýju merkinganna.
    Í Bretlandi gerði Food Standards Agency (FSA) skoðanakönnun sem sýndi að 85% aðspurðra töldu að veitingastaðir, kaffihús og krár ættu að bera ábyrgð á að upplýsa um innihald matvöru sem þar væri seld og 80% töldu að slíkar upplýsingar mundu hafa áhrif á hvar viðkomandi veldi að borða. Hefur breska ríkisstjórnin gert samkomulag við stærstu veitingahúsakeðjurnar sem selja skyndibita í Bretlandi um að þær gefi upp næringarinnihald matarskammtanna, en þær eru Burger King, KFC, McDonald´s, Mando´s, Subway og Wimpy. Einnig hafa keðjur eins og Pizza Hut, Pret a Manger og Starbucks verið nefndar í þessu sambandi. Reiknað er með að a.m.k. 17 veitingahúsakeðjur veiti upplýsingar um hitaeiningainnihald matarskammtanna á yfir 350 sölustöðum um allt Bretland. Þótt margar skyndibitakeðjur hafi gert samkomulag við stjórnvöld hafa þær ekki allar uppfyllt samkomulagið. Hins vegar er ljóst að mati flutningsmanna þingsályktunartillögu þessarar að það er aðeins tímaspursmál hvenær neytendur muni krefjast þess að næringarinnihald á skyndibitum verði gefið upp svo að unnt sé að taka upplýst val þegar skyndibiti er keyptur. Flutningsmenn telja því tímabært að íslensk stjórnvöld taki af skarið og hefji samstarf við skyndibitakeðjurnar hér á landi um að merkja með hitaeiningainnihaldi skyndibitana sem þær selja. Náist ekki samstarf fram á tveimur árum verði hugað að því að skylda skyndibitastaðina til slíkra merkinga.