Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 26. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 26  —  26. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.


Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Róbert Marshall, Birgir Ármannsson,
Birkir Jón Jónsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson,
Kristján L. Möller, Sigurður Ingi Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi (forvirkar rannsóknarheimildir).

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga sama efnis var lögð fram á 139. löggjafarþingi (507. mál).
    Í nútímasamfélagi er eðli og umfang skipulagðrar glæpastarfsemi breytt frá því sem áður var. Starfsemi lögreglunnar þarf að taka mið af þessari þróun. Almennt ratar glæpastarfsemi sem á sér stað í nágrannaríkjum okkar einnig til Íslands og mörg dæmi eru þessu til staðfestingar. Nefna má mansal, en fjarstæðukennt virtist fyrir fáum árum að það mundi rata hingað til lands. Dæmi um alvarlega og skipulagða glæpastarfsemi sem borið hefur á í nágrannaríkjum okkar og að einhverju leyti hér á landi er mansal, fíkniefnainnflutningur, aukin umsvif skipulagðra glæpagengja og hryðjuverkaógn. Vegna aukinnar hörku og útsmoginna aðferða sem notaðar eru við skipulagða glæpastarfsemi hafa nágrannaríki okkar aukið heimildir lögreglu til að sporna við henni. Í þeim felst að lögreglan fær heimild til að safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot sem framið hefur verið. Rannsókn fer fram áður en brot er framið og markmiðið er að koma í veg fyrir brot. Rannsóknin beinist að atferli sem talið er ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæði þess. Lögreglan í Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Danmörku telur að þessar heimildir hafi verið ómetanlegar í baráttunni gegn m.a. skipulagðri glæpastarfsemi, jafnt innlendri sem erlendri, mansali, fíkniefnainnflutningi og hryðjuverkaógn, svo að hið helsta sé nefnt.
    Nýlega kom danska og sænska lögreglan í veg fyrir fyrirhuguð fjöldamorð á starfsfólki Jyllandsposten, að sögn vegna slíkrar rannsóknarvinnu. Hér á landi hafa þessar heimildir verið kallaðar forvirkar rannsóknarheimildir (e. proactive investigation). Rannsóknarheimildir þessar eru nýttar til að rannsaka og fyrirbyggja alvarlega og skipulagða glæpastarfsemi. Slík starfsemi er oft skipulögð af glæpamönnum þvert á landamæri. Í umræðu um auknar rannsóknarheimildir lögreglu hafa komið fram varúðarsjónarmið hvað varðar beitingu heimildanna. Til að gæta allrar varúðar er rétt að skýrt eftirlit fylgi beitingu þeirra. Það gæti verið í höndum eftirlitsnefndar sem Alþingi kysi eða sérstakrar deildar innan dómstóls nema hvort tveggja sé. Þannig væri komið á ströngu aðhaldskerfi gagnvart beitingu heimildanna. Engin rök eru til þess að lögreglan á Íslandi hafi minni og þrengri heimildir en lögregla annars staðar á Norðurlöndunum.
    Íslenska lögreglan hefur bent á að slíkar heimildir skorti hér á landi eins og fram hefur komið í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra í júní 2008, febrúar 2009 og mars 2010, sem bera heitið Mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum. Skýrslan frá 2010 er fylgiskjal með tillögu þessari. Einnig hefur Ríkisendurskoðun bent á að þessar heimildir vanti, sbr. skýrslu hennar í nóvember 2007 sem bar heitið Ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna – stjórnsýsluúttekt, en þar segir „Svigrúm yfirvalda til að stunda sértæka eftirgrennslan er takmarkað ef þau hafa ekki heimildir til að beita svokölluðum forvirkum rannsóknaraðferðum (e. proactive investigation). Hafi yfirvöld slíkar heimildir mega þau fylgjast með og safna upplýsingum um einstaklinga jafnvel þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um brot. Erlendis eru slíkar heimildir yfirleitt bundnar við tilteknar löggæslustofnanir sem háðar eru sérstöku eftirliti.“
    Tveir fyrrverandi dómsmálaráðherrar hafa fært rök fyrir því að rétt sé að gera lögreglunni kleift að beita forvirkum rannsóknaraðferðum. Á sínum tíma vann þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, talsverða undirbúningsvinnu við gerð lagafrumvarps um m.a. forvirkar rannsóknarheimildir. Á síðasta ári ráðgerði Ragna Árnadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, svo að fela réttarfarsnefnd að vinna tillögur að frumvarpi um forvirkar rannsóknarheimildir. Ástæða þessa voru upplýsingar sem hún fékk um stöðu mála, sbr. viðtal í Fréttablaðinu 16. ágúst 2010:
        „„Sjálf hef ég til þessa verið mikil efasemdamanneskja og talið að það ætti fremur að halda að sér höndum í þessum efnum heldur en hitt. En eftir að hafa fengið ákveðnar greiningar, upplýsingar og gögn, meðal annars um skipulagða glæpastarfsemi hér a landi, tel ég mér ekki stætt á öðru en að bregðast við.“ Ragna undirstrikar að forvirkum rannsóknarheimildum verði að fylgja skýrt eftirlit. Það geti verið í höndum þingnefndar eða sérstakrar deildar innan dómstóls, nema hvort tveggja sé.“
    Einnig segir í sama viðtali:
        „„Í aðgerðaáætlun gegn mansali sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor eru beinlínis áform um hvort lögregla eigi að fá þessar heimildir til að stemma stigu við mansali,“ segir ráðherra, en minnir á að skipulögð brotastarfsemi hafi fleiri hliðar, svo sem fíkniefnaviðskipti, vændi og fleira. […] „Mansal hefur verið fjarlægt okkar tilveru til þessa, en fyrr í sumar gengu tveir dómar í Hæstarétti þar sem einstaklingar voru dæmdir fyrir slík brot. Hverjum hefði dottið þetta í hug fyrir örfáum árum?“ spyr Ragna. „Því er það mjög slæmt, eins og lögreglan hefur bent á, að hún skuli hafa lakari heimildir en gerist og gengur í kringum okkur, því þá verðum við eftirbátur annarra. Í tilvikum skipulagðrar glæpastarfsemi, sem þekkir engin landamæri, er mjög slæmt að lögreglan skuli vera misjafnlega í stakk búin til að takast á við hana. Við viljum ekki hleypa hér að starfsemi sem getur ekki þrifist annars staðar.“
    Í aðgerðaráætlun gegn mansali frá árinu 2009 segir m.a. (sbr. þskj. 754 í 440. máli á 136. löggjafarþingi):
        „ Aðgerð 13: Heimildir lögreglu til forvirkra rannsókna verði metin og áhersla lögð á að nýta til fulls rannsóknarheimildir sakamálaréttarfars.
             Í tengslum við rannsókn og kortlagningu mansalsmála hér á landi og tengsl við erlenda og skipulagða brotastarfsemi verði þörf lögreglu fyrir heimildir til forvirkra rannsókna metin. Með slíkum heimildum væri unnt að kortleggja betur af hálfu lögreglu umfang starfseminnar og umsvif einstakra aðila og skapa um leið betri grundvöll undir að sækja þá aðila til saka sem skipuleggja og eru á bak við skipulagða glæpastarfsemi á borð við mansal. Þá er lögð áhersla á að lögregla nýti til fulls rannsóknarheimildir sem þegar eru fyrir hendi og er beitt meðal annars við rannsókn fíkniefnabrota.
             Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Áform Rögnu Árnadóttur, fyrrum dómsmálaráðherra, um að vinna framangreint frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir náðu ekki fram að ganga.
    Flutningsmenn telja að tímabært sé að veita lögreglunni á Íslandi sambærilegar heimildir og lögreglan annars staðar á Norðurlöndum býr við hvað varðar úrræði til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi. Ljóst er að með þessum heimildum yrði samstarf íslensku lögreglunnar við lögreglulið annarra landa mun markvissara og líkur ykjust á að unnt yrði að hemja skipulagða glæpastarfsemi. Til að ná árangri gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sem oft teygir anga sína þvert yfir landamæri, er nauðsynlegt að lögreglulið ríkjanna hafi sambærilegar heimildir. Afbrotamenn geta ferðast hindrunarlítið milli landa í Evrópu og mikil hætta er á að þeir leiti þangað sem viðbúnaður lögreglu er lakari og refsingar jafnvel vægari en í öðrum löndum álfunnar. Öryggi almennings og friður fyrir afbrotamönnum er mikilvægt velferðarmál sem vert er að undirstrika. Að mati flutningsmanna er ábyrgðarlaust að veita lögreglunni ekki heimildir til forvirkra rannsókna. Óásættanlegt er að fljóta sofandi að feigðarósi í þessum málum og grípa ekki til aðgerða fyrr en það er jafnvel orðið of seint með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir öryggi almennings.



Fylgiskjal.


Mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi
og hættu á hryðjuverkum.

(Mars 2010.)


Inngangur:
    Eitt af hlutverkum greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem tók til starfa 1. janúar 2007, er að vinna stefnumiðaða greiningu (e. „strategic analysis“) varðandi skipulagða glæpastarfsemi og ógn af hryðjuverkum til lengri tíma. Mat þetta ber að vinna á víðtækum grunni sem taki mið af þróun mála hérlendis og erlendis. Jafnframt er greiningardeild ætlað að segja til um líklega framtíðarþróun á þessum tilgreindu sviðum.
    Greiningardeild hefur lokið við gerð ítarlegrar skýrslu samkvæmt þessari forskrift fyrir árið 2010. Skýrslan er trúnaðarmál en hér fer á eftir stytt og opinber útgáfa hennar.
    Við gerð þessa mats er stuðst við upplýsingar sem greiningardeild hefur aflað og úr gagnabönkum lögreglu. Spurningalisti var sendur öllum lögregluliðum í landinu. Upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum greiningardeildar komu einnig að góðum notum. Sú samvinna sem deildin á við erlenda aðila verður sífellt mikilvægari.
    Við vinnslu skýrslunnar er einkum stuðst við skilgreiningar og aðferðafræði sem Evrópulögreglan, Europol, hefur þróað.
    Tilgangurinn með gerð matsins er að upplýsa stjórnvöld og almenning um stöðu mála. Lögregla mun hér eftir sem hingað til leggja ríka áherslu á að tryggja sem best öryggi borgaranna og vinna gegn starfsemi af þeim toga sem lýst er í skýrslunni.

Helstu niðurstöður:
    Hrun fjármálakerfisins haustið 2008 er tímamótaviðburður í sögu íslensku þjóðarinnar. Hruninu fylgja mestu efnahagsörðugleikar sem Íslendingar hafa glímt við á síðari tímum. Erfitt efnahagsástand og mikið atvinnuleysi mun á næstu árum setja mark sitt á þá skipulögðu glæpastarfsemi sem haldið er uppi á Íslandi. Umskiptum þessum fylgir að nýir möguleikar munu skapast fyrir afbrotamenn.
    Embætti sérstaks saksóknara vinnur nú að umfangsmiklum rannsóknum á því hvort einstaklingar eða lögaðilar hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar atburða er leiddu til hruns íslenska fjármálakerfisins.
    Í desembermánuði 2009 var einnig frá því greint að Seðlabankinn hefði til athugunar brot sem kynnu að vera stórtæk og alvarleg gegn gjaldeyrisreglum er innleiddar voru í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði í janúarmánuði 2010 húsleitir og yfirheyrði fjóra menn í tengslum við málið.
    Ekki liggur því fyrir hvort þau hugsanlegu afbrot sem vísað er til hér að ofan geti fallið undir hugtakið „skipulögð glæpastarfsemi“ eins og það er skilgreint af hálfu Evrópulögreglunnar (Europol). Samkvæmt þeirri skilgreiningu þurfa eftirfarandi fjórir liðir ávallt að eiga við:
                  *      Til þarf að koma samvinna fleiri en tveggja einstaklinga.
                  *      Starfsemin þarf að standa yfir í langan eða óskilgreindan tíma.
                  *      Grunur þarf að liggja fyrir um alvarlegt afbrot.
                  *      Markmið viðkomandi eru auðgun og/eða völd.
    Auk ofangreindra liða þurfa einhverjir tveir af eftirtöldum liðum að eiga við til að unnt sé að ræða um afbrot sem „skipulagða glæpastarfsemi“ samkvæmt skilgreiningu Europol:
              1.      Hver þátttakandi þarf að hafa fyrirfram ákveðið verkefni.
              2.      Starfsemin lúti einhvers konar skipulagi og stjórnun.
              3.      Starfsemin þarf að vera alþjóðleg.
              4.      Þátttakendur þurfa að beita ofbeldi eða öðrum aðferðum sem henta þykja til ógnunar.
              5.      Skipulag starfseminnar þarf að vera svipað því og þekkist í viðskiptum og rekstri.
              6.      Viðkomandi þurfa að stunda peningaþvætti.
              7.      Viðkomandi leitist við að hafa áhrif á stjórnmál, fjölmiðla, opinbera stjórnsýslu, réttarkerfið eða hagkerfið.

Mansal og vændi:
    Fyrir liggur að skipulagt vændi með aðkomu þriðja aðila sem hefur fjárhagslegan ábata af starfseminni færist í vöxt á Íslandi. Alvarleg mansalsmál sem tengdust vændisstarfsemi komu til kasta lögreglu á árinu 2009.
    Mál þessi eru mjög í takt við þá þróun sem greiningardeild hefur varað við í skýrslum sínum á undanliðnum árum. Gera ber ráð fyrir því að mansalsmál og skipulagt vændi með milligöngu þriðja aðila verði fyrirferðarmeiri á verkefnaskrá lögreglunnar.
    Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að mansal sé að festast í sessi sem og önnur skipulögð brotastarfsemi. Vísbendingar eru um að menn búsettir hér, Íslendingar eða erlendir ríkisborgarar, komi að þessum skipulagða vændisinnflutningi, ýmist sem „einyrkjar“ eða í samvinnu við erlenda glæpahópa.
    Mansal eða verslun með fólk er þekkt fyrirbæri um allan heim og er talin vera sú glæpastarfsemi, sem er í hvað örustum vexti. Grunur um mansal á Íslandi hefur löngum verið tengdur nektardansstöðum og vændi.
    Efnahagsörðugleikar eru líklegir til að ýta undir slíka starfsemi. Verslun með fólk, einkum konur, og smygl á fólki er ábatasöm starfsemi. Mat glæpahópa er almennt það, að slík starfsemi feli ekki í sér mikla áhættu og má ætla að þessi tegund glæpastarfsemi verði umfangsmeiri. Þessi starfsemi tengist oftar en ekki fíkniefnaverslun og skjalafalsi.
    Rannsóknir tengdar mansali og smygli á fólki munu fá aukið vægi innan íslensku lögreglunnar. Slíkt mun kalla á aukið alþjóðlegt samstarf.

Innflutningur og framleiðsla fíkniefna:
    Í fyrri skýrslum hefur greiningardeild vakið athygli á að hrun fjármálakerfisins og miklir efnahagsörðugleikar muni að líkindum leiða til þess að aukin áhersla verði lögð á ræktun kannabis og framleiðslu örvandi efna hér á landi.
    Lögregla hefur á síðustu mánuðum stöðvað kannabisræktun á fjölmörgum stöðum. Í mörgum tilfellum hefur verið um stórtæka og þaulskipulagða starfsemi að ræða. Beinar sannanir liggja ekki fyrir um útflutning fíkniefna frá Íslandi. Grunur er fyrir hendi að slíkt hafi staðið til. Umfang kannabisræktunar sem lögregla stöðvaði á árinu 2009 styður þá tilgátu að hluti framleiðslunnar hafi verið ætlaður til útflutnings.
    Vakin er athygli á því að efni hafa verið haldlögð sem teljast ólögleg fíkniefni víða í Evrópu en hafa ekki hlotið slíka flokkun á Íslandi. Um er að ræða efni skyld amfetamíni. Vera kann að efni þessi séu nýtt til framleiðslu á amfetamíni hér á landi.
    Óvissa á vettvangi gjaldeyrismála veldur því að erfitt er að segja fyrir um líklega framtíðarþróun. Þótt gjaldeyrishöft séu í gildi eru upplýsingar greiningardeildar á þann veg að innflytjendur fíkniefna eigi ekki í teljandi erfiðleikum með að komast yfir erlendan gjaldeyri.
    Um leið liggur fyrir að verð á fasteignum, fyrirtækjum og lausamunum ýmsum hefur fallið og á líklega eftir að falla enn frekar. Þetta hefur í för með sér þá hættu að hagnaði af fíkniefnaviðskiptum verður í auknum mæli varið til fjárfestinga. Slíkar fjárfestingar, einkum kaup á fyrirtækjum, geta þannig gert einstaklingum og glæpahópum fært að fela starfsemi sína á bakvið lögmætan atvinnurekstur sem aftur eykur möguleika þeirra t.a.m. á sviði fíkniefnainnflutnings og peningaþvættis.
    Fíkniefnasmygl getur oftar en ekki af sér annars konar skipulagða glæpastarfsemi. Má þar nefna peningaþvætti, skjalafals, vændi, fjárkúgun og ógnanir. Samstarf íslenskra og erlendra glæpamanna kann því að verða víðtækara.
    Sú hætta er fyrir hendi að til átaka komi með skipulögðum glæpahópum vegna samkeppni við erfiðari aðstæður á markaði. Minni fjármunir eru í umferð en áður, skuldir manna hafa hækkað og sú hætta er fyrir hendi að til átaka komi við innheimtu þeirra.

Skipulögð innbrot og þjófnaðir:
    Fyrir liggur að innlendir og erlendir hópar stunda skipulögð innbrot og þjófnaði hér á landi. Vitað er að erlendir afbrotamenn koma gagngert til Íslands í þeim tilgangi að skipuleggja og fremja þjófnaði.
    Á árinu 2009 bar mjög á skipulögðum þjófnuðum og innbrotum. Nokkuð dró úr þeirri starfsemi undir lok ársins. Innlendir þjófahópar, þ.e.a.s. hópar sem eiga uppruna sinn hér á landi og eru einkum skipaðir íslenskum ríkisborgurum, og erlendir hópar láta til sín taka á höfuðborgarsvæðinu og utan þess m.a. á Suðurnesjum, Akureyri, Akranesi og í umdæmum lögreglunnar á Selfossi, Hvolsvelli og í Borgarnesi. Hvað erlenda hópa varðar ber mest á litháískum og pólskum hópum. Í mörgum tilvikum er um þaulskipulagða starfsemi að ræða. Upplýst hefur verið í nokkrum tilvikum um áform um að flytja þýfið úr landi.
    Hvað varðar þjófnaði/hnupl í verslunum benda fyrirliggjandi upplýsingar frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til þess að þess háttar brotum íslenskra ríkisborgara fari fjölgandi. Hlutfall erlendra ríkisborgara fari að sama skapi minnkandi. Þróunin hefur verið öfug hvað innbrot varðar; þar fer hlutur erlendra ríkisborgara vaxandi. Ítrekað skal að þetta á við um höfuðborgarsvæðið.
    Greiningardeild telur að skipuleg innbrot og þjófnaðir verði áfram fyrirferðarmikil á verkefnalista lögregluliðanna í landinu. Slík starfsemi er engan veginn bundin við höfuðborgarsvæðið þótt hún sé að sönnu mest að umfangi þar. Erlendir glæpahópar eru öflugir og skera sig frá hinum íslensku að því marki að sérhæfing er meiri innan hópanna bæði hvað varðar starfsemi og verkaskiptingu.
    Tengsl þýfis- og fíkniefnamarkaðanna eru mjög mikil. Í mörgum tilfellum eru á ferð aðilar sem komast þurfa yfir verðmæti til að greiða fíkniefnaskuldir.

Vélhjólagengi:
    Íslenski vélhjólaklúbburinn MC Iceland hefur hlotið viðurkenningu sem „stuðningsklúbbur“ Hells Angels hér á landi. Þar með hefur hópur manna á Íslandi stofnað til formlegra tengsla við alþjóðleg glæpasamtök. Fyrir liggur að félagar í MC Iceland stefna að fullri aðild að Hells Angels-samtökunum. Hells Angels í Noregi stjórna inngönguferli íslenska klúbbsins.
    Alls staðar þar sem Hells Angels hafa náð að skjóta rótum hefur aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið. Skipulögð glæpastarfsemi beinist gegn almannahagsmunum enda hafa afbrot sem henni fylgja áhrif á samfélagið og öryggi almennings.
    Ríkislögreglustjórar Norðurlandanna mótuðu þá skýru stefnu fyrir allnokkrum árum að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi mótorhjólagengja. Embætti ríkislögreglustjóra á Norðurlöndum vinna í sameiningu að þessu markmiði sem mörgum öðrum. Ríkislögreglustjóri hefur frá árinu 2002 lagt fyrir lögreglustjóra á Íslandi að framfylgja þessari stefnu. Í samræmi við þetta hefur ítrekað komið til þess á undanliðnum árum að félögum í Hells Angels hafi verið meinuð landganga við komu sína til Íslands.
    Koma foringja Hells Angels í Noregi hingað til lands í febrúarmánuði 2010 er til marks um þá áherslu sem samtökin leggja á að festa sig hér í sessi. Lögregluyfirvöld á Norðurlöndum sem og stjórnmálamenn hafa hvatt Íslendinga til að bregðast af hörku við þessari ógn.

Innheimta skulda, hótanir, „handrukkanir“ og fjárkúgun:
    Í því erfiða efnahagsástandi sem nú ríkir er sú hætta fyrir hendi að svokölluðum „handrukkunum“, þ.e. innheimtu skulda með hótun um eða beitingu ofbeldis, muni fjölga. Fram til þessa hefur þess háttar „innheimtustarfsemi“ aðallega tengst fíkniefnaskuldum en nú eru vísbendingar um að slíkum aðferðum sé einnig beitt við innheimtu annarra og hefðbundnari skulda þegar viðtekin úrræði hafa ekki skilað árangri.
    Upplýsingar eru fyrir hendi um að útlendingar, einkum aðflutt verkafólk, sæti í einhverjum tilvikum fjárkúgunum, oft af hendi samlanda sinna. Ástæða er til að ætla að í einhverjum tilvikum sé viðkomandi gert að greiða gjald fyrir að hafa fengið vinnu. Um þetta skortir fyllri upplýsingar og erfitt er að afla þeirra sem kann að segja sitt um þá ógn sem þetta fólk telur sig standa frammi fyrir. Fregnir berast af líkamsárásum og hótunum sem ekki eru kærðar til lögreglu.

Skipulögð glæpastarfsemi utan höfuðborgarsvæðisins:
    Ljóst er að umfang skipulagðrar glæpastarfsemi er mest á höfuðborgarsvæðinu. Upplýsingar sem borist hafa greiningardeild frá öðrum umdæmum lögreglu sýna hins vegar að því fer fjarri að skipulögð starfsemi af þessum toga sé bundin við höfuðborgarsvæðið. Fullyrða má að þess háttar starfsemi fari vaxandi utan höfuðborgarinnar.

Fjársvik og peningaþvætti:
    Undanfarin ár hefur lögregla fengist við nokkur mál er varða fjársvik með greiðslukortum og þjófnaði á upplýsingum um greiðslukortanúmer. Í þeim málum sem upplýst hafa verið hafa erlendir ríkisborgarar nær eingöngu komið við sögu og vísbendingar um að í flestum tilvikum hafi þeir verið tengdir skipulagðri brotastarfsemi sem stýrt sé erlendis frá.
    Þótt fjármálakerfið hafi hrunið haustið 2008 ber að vara við þeirri ályktun að þar með heyri hætta á misnotkun þess sögunni til. Greiningardeild telur ríkjandi ástand um margt hagstætt stórtækum aðilum á vettvangi peningaþvættis.

Hryðjuverkaógn á Íslandi:
    Hættan á aðgerðum hryðjuverkamanna gegn ákveðnum skotmörkum eða viðburðum á Íslandi hefur verið metin frekar lítil á undanliðnum árum. Hættustig á Íslandi hefur talist sambærilegt við það sem er í gildi á öðrum Norðurlöndum. Hryðjuverkaógnin er hnattræn og viðvarandi. Um mögulega hryðjuverkaógn á Íslandi gildir almennt að jafn fráleitt er að gera mikið úr henni og að hafna með öllu.
    Niðurstaða ógnarmats er að hættustigið í byrjun árs 2010 er metið lágt. Mat þetta byggist á því að ekki eru fyrirliggjandi ákveðnar upplýsingar af neinu tagi um að verið sé að skipuleggja eða undirbúa hryðjuverkaaðgerðir gegn skotmörkum eða viðburðum hérlendis. Hafa ber í huga að ekki er unnt að útiloka að hér á landi fari fram undirbúningur hryðjuverka sem í ráði er að fremja erlendis. Nauðsynlegt er því að yfirvöld haldi vöku sinni.
    Við hættumat vegna hugsanlegra aðgerða hryðjuverkamanna á Íslandi ber að taka fram að lögreglan býr ekki yfir forvirkum rannsóknarheimildum innan þessa málaflokks og má því ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila liggi ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot. Möguleikar lögreglunnar á Íslandi til þess að fyrirbyggja hryðjuverk eru því ekki þeir sömu og á hinum Norðurlöndunum. Þessu fylgir einnig að íslenska lögreglan hefur mun takmarkaðri upplýsingar um mögulega ógn eða hættulega einstaklinga sem kunna að fremja hryðjuverk eða taka þátt í að fjármagna slíka starfsemi.